þriðjudagur, 30. desember 2003

Anno horrabillis?

Anno horrabillis ?
Nei en annasamt engu að síður. Skipulagsbreytingar reyndu á og vissulega margt í því ferli sem mun betur hefði mátt fara. Það sem hins vegar veldur undirrituðum nokkrum áhyggjum eru hin miklu, tíðu og kostnaðarsömu samskipti við lögfræðinga varðandi úrlausnir ágreiningsefna milli félagsins og bæjaryfirvalda.

Mál fyrrverandi félagsmálastjóra er búið að velkjast í kerfinu árum saman, ágreiningur um fæðingarorlofsgreiðslur er komið inn í dómskerfið, fyrirspurnum varðandi lífeyrismál og uppgjör réttinda við starfslok ekki svarað, svo dæmi séu nefnd. Allt eru þetta mál sem kosta mikla fjármuni og í raun umhugsunarefni hvers vegna þarf að fara með þessi mál svona langt.

Fyrir það fyrsta þá eru mál af þessu tagi dýr og í öðru lagi afar sérstætt ef bæjarfélag streitist á móti og sýnir mikla óbilgirni í málum sem fyrirfram verður að telja gjörtöpuð. Dæmi um slíkt er hinn afar skýri Hæstaréttardómur um á hvern veg fara á með greiðslur í fæðingarorlofi. Skilaboðin úr því máli eru óþægileg fyrir félagið. Til dæmis einfaldlega sú áleitna spurning ef félagið hefði setið með hendur í skauti, hefðu þá réttindi viðkomandi verið fótum troðin og er það þá stefna bæjarins að standa að slíku. Er það stefna bæjarins að greiða ekki fyrr en öll sund eru lokuð og þegar að búið er að eyða ómældu fé í lögfræðikostnað? Er ekki illa farið með takmarkað fé bæjarsjóðs og ekki síst, eru skilaboðin sem í þessu brölti felast samboðin virðulegu sveitarfélagi eins og Hafnarfjarðarbæ?

Launastefna
Hver er hin raunverulega launastefna bæjarins? Er hún að vísa öllu til launanefndar sveitarfélaga (LN). Væri ekki nær fyrir Hafnarfjarðarbæ að líta til bæjarfélaga eins og Reykjanesbæjar og Garðabæjar sem láta hina grjóthörðu láglaunastefnu LN sem vind um eyru þjóta og greiða sínu fólki að öllu jöfnu hærri laun en hin afar umdeilanlega stefna LN gerir ráð fyrir.
Væri það ekki nær heldur en að leggja sig í líma við og eyða ómældri orku í það að halda öllum launum í neðstu viðmiðum með tilheyrandi óánægju starfsmanna. Það er hægt að vinna þetta mun léttara eins og dæmin sanna.

Mín skoðun er einfaldlega sú að Hafnarfjarðarbær á að brjóta sig undan ofurvaldi LN og hreinlega hætta þátttöku í þessu bandalagi lægstu viðmiða. Ég tel reyndar lögfræðilegan vafa á því að bæjarstjórnir geti afsalað sér ákvörðunarrétti af þessu tagi til þriðja og óskylds aðila. Gæti Hafarfjarðabær með sama hætti afsalað forræði í skipulagsmálum?? Augljóslega ekki.. Mitt ráð er því - Út úr LN og því fyrr því betra. Vera bæjarins í LN og með forystuhlutverki þar á bæ, gerir það að verkum að Hafnfirsk launapólitík verður eins og skapalón fyrir grjótharða láglaunastefnu LN. Klókt ? - varla, og sennilega mjög óhollt pólitískt.

Rússneskt viðskiptasiðferði
Andsk... eru menn í vafasömum erindum í efnahagslífinu. Að formaður í Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis, Pétur Blöndal sé aðalforsprakkinn í yfirtöku á Sparisjóði Reykjavíkur er ekki bara óviðeigandi heldur einnig algerlega siðlaust. "Rússneskt viðskiptasiðferði" að verða hin almenna regla hér á landi ?

Gleðilegt ár með þökkum fyrir samskiptin á árinu sem nú er að líða og með bestu óskum um far- hagsæld á nýju ári

þriðjudagur, 23. desember 2003

Gleðileg jól
Alvöru skata á Hansen í hádeginu , fanta sterk og fínt fyrir bragðlaukanna í aðdraganda hátíðarhaldanna. Óska lesendum öllum gleðilegra jóla

mánudagur, 22. desember 2003

Leiðindar Matador

Leiðindar Matador
er þetta íslenska efnahagslíf orðið. Bankarnir nánast komnir á tvær klíkur og öll mestu verðmæti leiksins komnar á fárra hendur. Taparar sem fyrr íslensk alþýða. Veit ekki hvert stefnir og hve mikið meira er hægt að kreista út úr spilinu áður en illa fer.

Frelsi hverra - veit það ekki - alla vega ekki launafólks sem hefur þvert á móti fjármagnað ný frjálshyggjuna ótæpilega í formi okurvaxta, þjónustugjalda, ofurverðlags, verðsamráðs og einokunar af margvíslegu tagi, svo ekki sé minnst á þær eigur samfélagsins sem nánast hafa verið gefnar burt í nafni einkavæðingar.

fimmtudagur, 18. desember 2003

Ábyrgðarlaust drasl

Ábyrgðarlaust drasl
Fjárfesti í bleksprautuprentara hjá BT í byrjun desember á síðasta ári (2002). Taldi mig gera góð kaupi,12.000 kall og tveggja ára ábyrgð. Rétt fyrir ársafmæli prentarans kveða við mikil óhljóð í honum þar sem ég er að prenta og ljóst að ekki er allt með felldu.

Fer með ábyrgðaskírteinið í annarri hendinni og prentarann í hinni á BT "verkstæðið" og segi farir mínar ekki sléttar, en viti menn tjónið ekki bætt þar sem það var ekki talið galli! Drasl segi ég á móti og held því fram að prentari sem ekki þolir tæplega ársnotkun sé auðvitað meingallaður. Það er ekki mat BT en mín niðurstaða þessi: Dýrt drasl sem ekkert endist og léleg þjónusta.

mánudagur, 15. desember 2003

Starfskjaranefnd fundaði í dag

Starfskjaranefnd fundaði í dag
og að vanda mörg mál á dagskrá. m.a. eftirlaunamál , óskir um endurmat á störfum , lífeyrismál, mat á iðnréttindum, umræður um starfsmat, vinnufyrirkomulag og launagreiðslur, breytt störf vegna stjórnsýslubreytinga m.m.

Stjórn skiptir með sér verkum
Á aðalfundi STH er kosinn formaður hverju sinni en öðrum verkum skiptir stjórn með sér og verkefni fyrsta stjórnafundar nýrrar stjórnar fólst m.a. í því. Sigríður Bjarnadóttir var kjörinn varaformaður, Haraldur Eggertsson gjaldkeri, Hallgrímur Kúld ritari og Geirlaug Guðmundsdóttir meðstjórnandi. Jafnframt var ákveðið að varamenn kæmu meira inn á fundi en verið hefur.

sunnudagur, 14. desember 2003

Bæjarstarfsmenn gera sér glaðan dag
Blessuð jólaglöggin eru í hámarki þessa daganna bæjarstarfsmenn á Strandgötu áttu góða kvöldstund saman á föstudag og starfsfólk skólanna hefur verið að hittast undir svipuðum formerkjum undanfarið. Fór að velta því fyrir mér hve andsk.... mikið er til að skemmtilegu fólki meðal bæjarstarfsmanna. Hinn hefðbundni ( en afar mikilvægi ) launablús víkur um stund. Dagsins amstur lagt til hliðar og fólk skemmtir sér nokkuð ærlega.

S.l. ár skrifaði sá sem þetta ritar grein á heimasíðu STH undir heitinu Húsbændur og hjú. Greinin vakti afar sterk viðbrögð má segja að höfundur hafi aldrei fengið jafn mikið hrós og jafn miklar skammir fyrir einn pistil ( Og kallar maður ekki allt ömmu sína í þeim efnum.) Greinin fjallaði um einhverskonar stéttarskiptingu varðandi framkvæmd á jólahlaðborði í ónefndri stofnun hér í bæ.

Hafnfirskir bæjarstarfsmenn eru bæði fáir og illa launaðir en eru jafnframt afar dugmiklir ef marka má statiskik Verslunarráðsins sem hér var gerð skil um daginn. Það er því afar mikilvægt að bæjarstjórnir á hverju tíma sýni hug sinn verki til starfsfólks. Að bjóða starfsmönnum sínum til málsverðar 2 -3 á ári er ein leið til þess, önnur afar góð væri að borga hærri laun og sú þriðja að fara ekki út í einhverskonar skipulagsævintýri og stjórnsýslubreytingar nema að afar vel athuguð máli og í fullu samráð við þá sem það snertir.

En sem sagt gott framtak varðað þeim vegvísi að starfmenn óháð starfi , menntun, kynferði ,þjóðerni , háralit og öllu því sem kann að draga fólk í dilka nú til dags, er látið lönd og leið og markmiðið það eitt að eiga góða kvöldstund saman. Fannst það hafa tekist og vona að svo hafi verið almennt á starfsstöðum bæjarins fyrir þessi jól.

fimmtudagur, 11. desember 2003

Leggja 400.000 kallinn snarlega inn aftu

Leggja 400.000 kallinn snarlega inn aftur
hjá Kaupþingi er mín ráðlegging til forsætisráðherra. Hann er algerlega einn af genginu og á auðvitað að hafa peningana sína á vísum stað eins og hitt sjálftökuliðið. Það er auðvitað með eindæmum að ríkistjórn sem lagst hefur í kerfisbundin slagsmál við sárafátæka öryrkja, ríkistjórn sem státar af láglaunapólitík sem á sé vart hliðstæðu þó svo að víða væri leitað, skuli gera sérlega veglegan starfslokasamning við forsætisráðherra og fjármagna ýmsar pólitískar hrókeringar í leiðinni.

Undir 100 þús
Á sama tíma og þessi sjálftökubísness á sér stað í þinginu þá eru félagar okkar í ASÍ að hefja kjarasamningaviðræður. Í þeirra röðum er fólk sem hefur vel innan við 100 þús laun á mánuði. Samningaviðræðum við þessar aðstæður er að sjálfsögðu sjálfhætt og öllum kröfugerðum pakkað niður enda úr öllum takti við fyrirliggjandi frumvarp. Kjarasamningar eru því í uppnámi og vandséð á hvernig stöðugleika verður viðhaldið þegar að s.k. landsfeður ganga fram með slíku fordæmi sem höfum orðið vitni af.

Reykingar i sprengjugeymslu!
Sá sem þetta ritar er ekki í nokkrum vafa að þessi gjörð þingsins var svipaðs eðlis og þess sem kveikir sér í sígarettu í sprengigeymslu. Menn ná nokkrum smókum en síðan fer allt í háaloft. Almenningi er misboðið í hverju málinu á fætur öðru undanfarið og ástandið í íslensku þjóðfélagi er eldfimt og lítið má út af bera svo ekki fari allt í bál og brand.

Bara tveir möguleikar
Það er því bara tvennt í stöðunni og það er að landsfeður gangi fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og taki af einhverju viti á þeim brýnu málum er varða hag almennings í þessu landi.
Ef ekki þá er hinn flöturinn sá að staðan splundrast og það litla sem eftir er að þjóðarsáttinni verður lagt til hliðar og að vinnandi fólk í þessu landi takist á við þau öfl í þjóðfélaginu sem hafa sópað til sín auðæfum langt umfram það sem þeim ber. Kostir verkalýðshreyfingarinnar engir aðrir en átök, ekki af vilja heldur hreinni nauðsyn.

miðvikudagur, 10. desember 2003

Fanny og Alexander

Fanny og Alexander
Þessi stórmynd Bergmanns var sýnd í Bæjarbíói í gærkvöldi. Tær snilld og Kvikmyndasafninu enn og aftur þakkað frábært starf í vetur. Er búin að sjá hvert meistaraverkið af öðru.

Kærkomin hvílt frá þessum amerísku slagsmála- og ofbeldismyndum sem eru helst til fyrirséðar hvað varðar söguþráð og annað. Það er auk þess borðliggjandi að til þessa að ná sem mestum aurum í kassann þá má aðalsöguhetjan ekki verða fyrir teljandi hnjaski og hvað þá hverfa yfir móðuna miklu því þá er ekki hægt að gera "Lemjandann 2 ,3,4, og jafnvel 5"

Óðurinn til hins tilgangslausa ofbeldis í hávegum hafður eins og það sé akkurat það sem ungviðið hafi mest þörf fyrir á hinum síðustu og verstu...

mánudagur, 8. desember 2003

...og þá eru það lífeyrismálin

...og þá eru það lífeyrismálin
hjá Rafveitunni sálugu , fundur á Sólvangi um vinnustaðasamninga, starfslok á þjónustuborði, mál fyrrverandi félagsmálstjóra, lífeyrisgreiðslur til tveggja fyrrverandi starfsmanna, samtöl við ýmsa starfsmenn varðandi skipulagsbreytingar, væntanlegur stjórnarfundur með nýkjörinni stjórn, fundur á heilsugæslu, umræður um vaktafyrirkomulag, starfskjarnefndarfundur, símtöl vegna starfsmats, fundur um framhald dómsmáls STH vegna vangoldinna fæðingarorlofslauna til nokkurra STH félaga, samtöl við skrifstofu BSRB varðandi túlkun kjarasamnings, öryggisreglur skólaliða, fundur með tilteknum starfshóp, samtal við lögfræðing félagsins og ýmislegt fleira eru dæmi um það sem drífur á daga formanns.

Sýnlegt almennum félagsmönnum? Veit það ekki, kannski svipað eins og að vera sjónvarpsfréttamaður - mikil vinna á óhefðbundnum tímum og ekki allt unnið fyrir framan skjáinn og ekki síst oft vanþakklátt starf í meira lagi.

þriðjudagur, 2. desember 2003

Vinnustaðafundir

Vinnustaðafundir
Í janúar mun stjórn STH standa fyrir vinnustaðafundum. Þeir vinnustaðir sem óska eftir slíku eru beðnir að hafa sambandi við skrifstofu STH varðandi nánari framkvæmd. Síminn er 555 36 36 og rafpóstur sthafn@simnet.is

sunnudagur, 30. nóvember 2003

Það var ekki bara fyndið

Það var ekki bara fyndið
heldur bráðfyndið hér um árið þegar að blessaðar Jesúmyndirnar sem voru til sýnis í Kringlunni þurftu að víkja fyrir jólaauglýsingunum. Listaðmaðurinn greip til gamalkunnara ráða og fékk leyfi til þess að vista myndirnar í fjárhúsum Húsdýragarðsins. Ekki í fyrsta sinn sem að boðskapur jólanna er gerður hornreka vegna kaupahéðna sem eiga sér þau einu markmið að græða meira í ár en i fyrra.

Nú er úr vöndu að ráða
fyrir kirkjunnar menn og þann ágæta boðskap sem hún hefur fram að færa. Enda svo komið að Jesúbarnið víkur fyrir auglýsingu um fótanuddtæki á extra prís! Spurning hvort ekki þurfi að ráða auglýsingastofu til þess að koma hinum sanna boðskap jólanna á dagskrá í samfélagi þar sem tekist er á um að ná athygli fólks með þrotlausum hætti dag út og dag inn?

Veit það ekki en hitt veit ég að Framsóknarflokkurinn sem býr við mun veikari hugmynda- og hugsjónakerfi en hin kristna trú náði með dyggri aðstoð auglýsingarstofu að koma sér á dagskrá og þótti bara flottur.

miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Fjörugur aðalfundur

Fjörugur aðalfundur
Aðalfundur STH í gærkveldi var hinn fjörugasti. Nýja stjórn skipa þau Árni Guðmundsson félagsmálafræðingur ÍTH formaður. Sigríður Bjarnadóttir skólaliði Víðistaðaskóla, Haraldur Eggertsson starfsmannahaldi , Geirlaug Guðmundsdóttir skrifstofumaður Sólvangi og Hallgrímur Kúld laugavörður Suðurbæjarlaug. Í varastjórn voru kjörin Karl Rúnar Þórsson sagnfræðingur Byggðasafni Hafnarfjarðar og Ásdís Bragadóttir talmeinafræðingur Skólaskrifstofu. Einnig gaf kost á sér í varastjórn Helgi Sæmundsson laugarvörður í Suðurbæjarlaug en hann náði ekki kjöri.

Kjartan Jarlsson Hitaveitu Suðurnesja gekk úr stjórn og er honum þökkuð góð og farsæl störf í þágu félagsins á umliðnum árum

Miklar umræður urðu um starfsmatið eðli málsins samkvæmt og ljóst að félagsmönnum þykir framkvæmdin hafa dregist algerlega úr hömlu. Á næstunni er ráðgert að efna til kynningarfundar um starfsmatið fyrir hinn almenna félagsmann í STH. Einnig urðu miklar umræður um starfsfólk skóla og starfsaðstæður þeirra

mánudagur, 24. nóvember 2003

Ágætu STH -arar
Minni á aðalfund félagsins þ. 25/11 í Gaflinum kl 20:00

sunnudagur, 23. nóvember 2003

Ef Ingólfur Arnarson væri ódauðlegur og

Ef Ingólfur Arnarson væri ódauðlegur og
væri BSRB félagi og hefði strax árið 874 ráðið sig í þjónustu hins opinbera á hefðbundin BSRB taxta? Þá þyrfti hann að vinna þúsöldum saman til þess að öðlast þær tekjur sem við sjáum safnast á fárra hendur í íslensku samfélagi á örskotsstund.

Við kristintökuna árið 1000
Gefum okkur að Ingólfur hefði haft ca 120.000 krónur í mánaðarlaun á núvirði (2003). Árslaun hans væru 1.440.000 krónur. Eftir hundrað ára starf væri hann komin 144.000.000 og svo cirka við kristintökuna árið 1000 væri hann komin með tekjur sem næði "kaupauka" Kaupþingsmanna fyrir þetta árið þ.e. ca 150 -60 milljónum.

Á þúsund ára starfsafmælinu
Ingólfur heldur órauður áfram og á 1000 ára starfsafmælinu sínu á því merka ári 1874 eru tekjur hans orðnar 1,440.000.000 - einn milljarður og fjögurhundruð og fjörtíu milljónir sem er nokkurt fé.

Ingólfur verður þreyttur með árunum
Ingólfur sem nú er tekin að lýjast nokkuð á sér hins vegar þann draum að hætta störfum þegar að tekjur hans hafa numið því sem menn hafa tekið út úr sjávarútveginum á örfáum árum. Í þeim efnum horfir hann til "Samherja" er keypti ónafngreindan frænda út úr fyrirtækinu fyrir 3.500.000.000- kr .

Árið 3433
Draumur Ingólfs mun því rætast "fljótlega" upp úr áramótunum árið 3433 en þá fer hann að hyggja að starfslokum en því markmiði sínu nær kallinn loks í júní það sama ár.

Ekki nóg að æsa sig gegn tveimur bankastjórum
Það er ekki nóg að æsa sig bara yfir tveimur ofurlaunuðum bankastjórum. Það er því miður ekki bara bankasukkið í samfélaginu sem þarf að taka á. Það þarf að taka á öllum þessum einokunarpakka eins og hann leggur sig. Verðsamráði olíufélaganna, verðsamráði tryggingarfélaganna, fákeppni í verslun og háu vöruverði, okurvöxtum bankakerfisins, kvótabraskinu og þeim gríðarlegu eignartilfærslum til fárra útvaldra sem þar hafa átt sér stað.

Vonandi ekki bara eitt örstutt spor?
Það er því von mín að ferð forsætisráðherra í Búnaðarbankann hafi verið fyrsti liður í ferð hans um íslenskt efnahagslíf í þeim göfuga tilgangi að tryggja sanngjarna skiptingu þjóðartekna.

Ef ekki þá fær röltið ásjónu þess sem tekur að fullu þátt í valdabrölti tveggja valdablokka í íslensku efnahagslífi og þess sem beitir sér að fullu afli gegn einu fyrirtæki en lætur önnur sem eru í engu skárri óáreytt.

fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Húrra fyrir Hafnarborg

Húrra fyrir Hafnarborg
Brá mér á hádegistónleika í Hafnarborg í dag til að hlusta á tvo afbragðs góða listamenn, Öldu Ingibergsdóttir sópran og Antoníu Hevesi píanóleikara. Efnisskráin Mozart eins og hann gerist bestur, frábærir tónleikar og fullt hús. Húrra fyrir Hafnarborg og þessu ánægjulega framtaki.

miðvikudagur, 19. nóvember 2003

100.000 krónur á hvert mannsbarn
ekki 70.000 krónur eins og ég ýjaði að hér á Dagskinnunni um daginn. Það er sem sagt ofurgróði bankakerfisins sem er til umfjöllunar og það mat DV að hann nemi eigi minna en 100.000 krónum á hvern einstakling í landinu. Stal ekki einhver jólunum ? Fór þjóðarsáttin í jólaköttinn?

Ekki mjög félagslega sinnaðir
Það verður ekki sagt að sjálfstæðismenn séu sérlega félagslega sinnaðir og samfélög ýmiskonar greinlega til vansa að þeirra mati. Frumvarp ríkistjórnarinar um að reka fólk án viðvörunar er eitt dæmið , annað er boðað frumvarp Sigurðar Kára frjálshyggjupostula og þingmanns um að koma fólki út úr verkalýðsfélögum og svo hitt sem hve best lýsir stefnunni í verki sem er að fjölda fólks er meinuð innganga í “samfélag” Heimdellinga af stakri einurð.

Flokkur eða samfélag ? Veit ekki hvort það sé réttnefni, væri ekki nær að ræða um “hrúgu” af fólki sem myndar lausbeislað hagsmunabandalag um sína ýtrustu eiginhagsmuni og allt í nafni frelsi einstaklinginsins.

Verst er þegar að “hrúgan” fer að lifa samstæðu og sjálfstæði lífi og ógnar frelsi einhverra tiltekinna einstaklinga til valda. Í þeim tilfellum verður að bregðast afar skjótt við enda samfélag einstaklinga að myndast. Heimdallarhrúgan brást því hárétt við um daginn í baráttunni gegn utanaðkomandi frelsisskerðingu - ekki satt?

föstudagur, 14. nóvember 2003

Háu launin í Hafnarfirði ?
Í síðasta Fjarðarpósti segir ( samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar ) að meðaltalsárslaun hafnfirskra bæjarstarfsmanna ( 2.834 þús) séu hærri en í Kópavogi (2.396 þús) og á Akureyri ( 2.530 þús) vissulega rétt en..........

Afar villandi
samanburður verð ég að segja því ef við miðum við að þjónusta þessara þriggja bæjarfélaga sé nokkuð sambærileg þá eru við hafnfirðingar lang fámennastir með aðeins 928 starfsmenn. Í Kópvogi eru starfsmenn 26% fleiri eða 1173 talsins og á Akureyri eru starfsmenn 12 % fleiri en hér í firðinum eða 1040. Kópavogur er ekki 26% stærri en Hafnarfjörður og Akureyri er ekki 12% stærri en Hafnarfjörður.

Heildarlaunakostnaður lægstur í Hafnarfirði
Ef við berum saman heildarlaunakostnað á sambærilegum grunni þá er launakostnaður Hafnarfjarðarbæjar 2.629.952 þús, Kópavogs 2.810.508 þús, og Akureyrar 2.631.220 þús

Miðað við afköst og fjölda ættum við að vera 9.35% hærri í meðaltalslaunum
Starfsmenn Hafnarfjarðar eru fámennastir og ættu miða við núverandi fjölda að njóta enn betri kjara einfaldlega af þeirri ástæðu að framleiðin er mun meiri en annarra bæjarstarfsmanna í þessum samanburði. Ættu því að vera 3.028.564 ef miða er fjölda í Hafnarfirði og heildarlaunakostnað í Kópavogi.
Þegar að allt kemur til alls þá á hinn fámenni en dugmikli hópur hafnfirskra bæjarstarfsmanna inni allnokkuð og vantar 9,35% á laun okkar fólks miðið við framleiðni.

Svona er það nú
og ekki er alltaf allt sem sýnist og ekki segja meðaltölin allt. Hitt er deginum ljósara að Hafnafjarðarbær er rekinn með mun minni mannafla en önnur sambærileg sveitarfélög og fyrir minni launakostnað. Væri ekki sanngjarnt að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar nyti þess að fullu ?

mánudagur, 10. nóvember 2003

Trúnaðarmenn STH
hittust í hádeginu til skrafs og ráðgerða. Trúnaðarmannafundir eru að öllu jöfnu 2-3 sinnum á ári. Í dag voru rædd ýmis mál er við stöndum í um þessar mundir, ýmis málefni stofnanna, kerfisbreytingar , eftirlaunamál, mismunandi launasetning sambærilegra stofnanna, orlofsmál og ný afstaðið BSRB þing svo eitthvað sé nefnt.

Blessað starfsmatið og framvinda þeirra vinnu var ítarlega rædd. Sú mikla töf sem orðin er veldur fólki vonbrigðum og ljóst að þrátt fyrir að dagsetningin 1, des 2002 standi sem gildistími þá verður að bæta fyrir þessa miklu bið með einhverju hætti. Það hefur enginn bæjarstarfsmaður efni á því að eiga útistandandi leiðréttingar mánuðum ef ekki árum saman. Því verður fast sótt fram í þeim tilgangi að bæta fólki biðtímann. Í bankakerfinu kallast bætur fyrir slíkt dráttarvextir.

Fræðslubækling um starfsmatskerfið munu trúnaðarmenn dreifa á næstu dögum Nánar um framvindu starfsmats og upplýsingar má lesa um á heimasíðu STH www.sthaf.is

Ekki liggja fyrir tillögur um lagabreytingar á aðalfundinum þ. 25 nóv n.k aðrar en þær að breyta ákvæðum um tímasetningu aðalfundar. Í dag er gert ráð fyrir að fundir sé fyrri hluta árs en breytingar ganga út á það að færa fund fram á haust í ljósi þeirra breytinga sem vinnsla og umfang bókhalds á umliðnum árum hefur haft í för með sér varðandi ársuppgjör. Hugmyndin er því að gera ráð fyrir haustfundum í stað vorfunda.

fimmtudagur, 6. nóvember 2003

Fróðir menn segja

Fróðir menn segja
að gróði íslenska bankakerfisins s.l. ár hafi numið ca 20.000.000.000 krónum – 20 milljörðum? Það gerir að verkum að tekjur miðað við kúnna þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir við að hvert mannsbarn í landinu sé í viðskiptum við bankanna (með einum eða öðrum hætti) þá eru þetta litlar 70.000- krónur í gróða per viðskiptaaðila.

Í Bandríkjunum væri samsvarandi summa 5.000.000.000.000.000.000 krónur – veit ekki einu sinni hvað svona summur heita – trilljón billjónir ? fimm-milljón-þúsund-milljónir ?

Tvær þjóðir í einu landi – fámennur íslenskur aðall og við hin. “Stétt með stétt” er kjörorð ákveðins stjórnmálaflokks – væri ekki nær að breyta því í “stétt fyrir stétt”

þriðjudagur, 4. nóvember 2003

Aðalfundur STH
verður haldin 25 nóvember kl 20 í Gaflinum og á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Nokkrir hafa kvartað - Hvað er í gangi ?
Færð þú rafrænan launaseðil og hefur þú beðið sérstaklega um hann? STH furðar sig að launaseðlar séu sendir til viðkomandi banka án formlegs samþykkis launþega og sú spurning hlýtur að vakna hvort t.d. persónuvernd sé í hávegum höfð hvað þetta varðar.
Eru launaseðlar á glámbekk í bönkum landsins? Getur vinnuveitandi tekið einhliða ákvarðanir af þessu tagi - held ekki og þó svo væri þá þarf örugglega staðfesta samþykkt viðkomandi. Og að lokum hvað með þá sem ekki hafa aðgang að tölvubanka?

Af hverju er ekki ávallt greitt út þann 1. hvers mánaðar ?
Ef tölvutæknin er orðin svona öflug væri þá ekki nær að greiða laun ávallt þann 1. hvers mánaðar inn á reikning viðkomandi starfsmanna þó svo að sá dagur falli á helgardaga? Er einhver sanngirni í því að fá útborgað t.d. mánudaginn 3. xxx
Það þarf að kíkja betur á þessi mál - ekki satt?

miðvikudagur, 29. október 2003

Nei takk ómögulega
sagði ég aðspurður við afgreiðslukonu á bensínstöð um daginn og bætti við að ég keypti hvorki súkkulaði á extraprís né aðra smávöru af olíufélögunum. Ef mig myndi langa í súkkulaði þá færi ég í næstu sjoppu.

Ástæðan væri auðvitað sú að ég væri nokkuð þungur til hugans vegna verðsamráðs olíufélaganna og af þeim orsökum ætti ég eins lítil viðskipti við þau og mér væri frekast kostur. Með þessu væri ég að tjá óánægju mína í verki og hún mætti alveg koma þessum samskiptum okkar á framfæri við yfirmenn sína. Stúlkan varð nokkuð vandræðaleg en sagði við mig mér til furðu: "Gangi þér vel í baráttunni" og datt þar með úr rullu smávörusalans yfir hlutverk manneskjunnar sem, eins og okkur öllum hinum, misbýður það viðskiptasiðferði sem viðgengist hefur hjá olíufélögunum.

Veit ekki hvort henni tekst að pranga smávöru inn á fórnarlömb verðsamráðs í einhverju mæli. Vona alla vega að þú ágæti lesandi látir ekki plata þig - sýnum hug okkar í verki.

mánudagur, 27. október 2003

Starfsmenntasjóður
fundaði í kvöld og flestir hinna rúmlega 40 umsækjenda fengu úrlausn sinna mála. Það er ánægjulegt hve áhugasamir STH félagar eru í endurmenntunarmálum. Umsóknir er margvíslegar eins og gefur að skilja.

Hitt er annað mál að stundum þykir sjóðstjórn stofnanir beina fólki til sjóðsins með umsóknir sem ættu að öllu leyti að vera greiddar af viðkomandi stofnunum. Rétturinn er persónubundinn og því ljóst að t.d. námskeið um vinnuferla á tilteknum vinnustað eiga auðvitað að vera á kostnað vinnuveitanda og sama á við um námskeið fyrir skólaliða hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar.

Fólki í lægstu
launaflokkunum veitir ekkert af fullum styrk sem nýta má í námskeið sem bæði kemur vinnuveitenda og einstaklingi til góða. Námskeið sem hluta af símenntunaráætlun og námskeið í þágu vinnuveitenda eiga auðvitað að vera kostuðu af vinnuveitenda. Starfsfólk sundlauga eða starfsmenn ÍTH greiða t.d ekki námskeiðagjald vegna árlegra skyndihjálparnámskeiða.

sunnudagur, 26. október 2003

Loksins einn sem var skotinn

Loksins einn sem var skotinn
Fæ mikið magn af pósti frá fólki sem lent hefur í mikilli ógæfu. Yfirleitt hefjast bréfin á "My former husband general XXXXX sem var keyrður niður, fórst í flugslysi eða var handtekinn og lést í fangelsi, varð fyrir sprengjuárás, hvarf sporlaust og hefur ekki sést síðan.
Agaleg tíðindi sem því miður virðast engan endi ætla að hafa því nú nýverið fékk ég fregnir af einum til viðbótar sem yfirgefið hafði þessa jarðvist með byssukúlu í brjóstið.

Hinar afar sorgmæddu
fjölskyldur hafa þó alflestar náð að bera harm sinn í hljóði (ef frá er talin hin afar sorglega umfjöllun um jarðvistarskipti ástvinanna í upphafi bréfanna) og tekið til við að ná hinum stórfelldu eignum hins framliðna úr hinu virðulega Nígeriska eða Gahaniska bankakerfi sem ku sýna mikla óbilgirni nema ef vera vildi að einhver góðhjartaður vesturlandabúi vildi vera svo vænn að þiggja nokkra milljónir til að hjálpa örlítið við að koma nokkrum milljörðum úr landi .

Erindin
því ekki beint ósk um hluttekningu og aðstoð í sorgarferlinu - lífið verður að halda áfram þó að einn og annar generálinn fari yfir móðuna miklu - hins vegar óþarfi að láta aurana fara líka - ætlum við að bera ábyrgð á því að ekkjan og fjölskylda hins mikla XXXXX þurfi að borða hrísgrjónavelling það sem eftir er, eins og sauðsvartur almúginn?

Nú eru góð ráð dýr.
Var bent á eitt sem virkar þokkalega. Fékk mér sem sagt forritið I hate spam og viti menn sorgarsögum frá Nígeríu og Ghana hefur fækkað verulega - getur verið að þessi fjölmörgu og margþættu áföll séu bundin fáum fjölskyldum? Eða eru bara svona fáar email adressur í Afríku? Eða er einhver að plata mann? Veit það ekki?

föstudagur, 24. október 2003

150.000
króna lágmarkslaun er krafa BSRB þings. Sem sagt með öðrum orðum að miða lágmarkslaunin við það sem gengur og gerist í nágrannlöndunum. Fínt og kraftmikið þing sjá nánar ályktanir þingsins hér
Ræða formanns BSRB Ögmundar Jónassonar, sjá hér

mánudagur, 20. október 2003

ASÍ fólk

ASÍ fólk
hefur staðið sig vel í að benda á stórfelldar brotalamir í starfsmannamálum við Kárahnjúkavirkjun. Fáránlegustu mál koma upp eins og það að aðstaða til að þurrka og geyma útiföt sé ekki fyrir hendi hvorki í mötuneyti eða í svefnskálum. Erlendir verkamenn búa því við vosbúð og kulda dögum saman.

Íslensk stjórnvöld geta ekki setið aðgerðalaus með hausinn á kafi í sandinum eins og strúturinn. Íslenskum stjórnvöldum ber að sjá svo um að verkamenn búi ekki við aðbúnað sem vart þótt boðlegur fyrir 50 -60 árum og hvað þá í dag árið 2003.

Það þýðir ekki að benda á hið ítalska verktakafyrirtæki endalaust, það hefur margsannað "umhyggju" sína gagnvart verkamönnum á staðnum, ábyrgðin er auðvitað orðin íslenskra stjórnvalda úr því sem komið er og þeim ber skylda að koma málum í það horf sem tíðkast hjá siðmenntuðum þjóðum. Annað er ekki sæmandi og í raun hneisa að slíkt skuli gerast í skjóli íslenskra stjórnvalda.

ASÍ fólk hefur verið öflugur málsvari í þessu máli og staðið sig með prýði. Þetta mál sýnir okkur því hve gríðarlega mikilvægt er að eiga öfluga verkalýðshreyfingu, afl sem stendur vörð um réttindi launafólks.

sunnudagur, 19. október 2003

BSRB þing

BSRB þing
Hefst n.k. miðvikudag . Margt sem þar liggur fyrir. Komandi kjarasamningar munu efalaust setja svip sinn á þingið.
Heróp - veit það ekki, en ljóst er að kröftum verður safnað og sveitin öll samstillt sem kostur er. Við eigum inni og okkar verður að sækja það. Það verður gert með samstilltu átaki.

Den enfaldige mördaren
Kvikmyndaklassík í Bæjarbíó. Sá um helgina mynd Hasse Alferdssonar, Den enfaldige mördaren frá 1983. Frábæri mynd sem lætur engan ósnortin. Fín starfsemi hjá Kvikmyndasafninu, flottar myndir fjarri öllu Hollywood- prjáli.

mánudagur, 13. október 2003

Vextir og laun

Vextir og laun
Sveriges Riksbank segir okkur á heimasíðu sinni að meðaltalsvextir í Svíþjóð séu 2,0 % af innlánum en 3,5% á útlánum. ( september 2003) Verðtrygging ekki til. Há laun -lágir vextir ?

Seðlabankinn hinn íslenski segir um sama mánuð á Íslandi. Innlánsvextir, almennar sparisjóðsbækur 0,2% . Lægstu óverðtryggðu lán 8,4% hæstu 13,7%. Lægstu verðtryggðu lán 6,4% hæstu 11.6%. Lág laun- háir vextir ?

Finn ekki í fljótu bragði tölur um hagnað í sænska bankakerfinu. Íslenskir bankar hagnaður stórfeldur. Vaxtamunur milli Svíþjóðar og Íslands frá fjórföldum upp í tífaldan

Markmið íslenskrar launabaráttu augljós, hærri laun og burt með okurvexti og verðtryggingu lána.

laugardagur, 11. október 2003

Ísland og nánasta umhverfi ?

Tölurnar tala sínu máli - þarf ekki að hafa fleirri orð.

þriðjudagur, 7. október 2003

Samningar í nánd

Samningar í nánd
og upp með vasaklútana. Rakst á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins og sá að kjarasamningar nálgast óðum. Barlómurinn ríður ekki við einteyming á þeim bæ um þessar mundir. Samtökin hefja nú í aðdraganda kjarasamninga baráttu sína fyrir áframhaldandi láglaunapólitík í landinu, ef marka má leiðara framkvæmdastjórans. Bendi fólki á slóðina http://www.sa.is/frettir/frett_nanar.asp?id=891 ( gott ef ekkasogin fylgja ekki með).

Ef að líkum lætur þá munu svipaðar greinar um verðbólgu, óstöðugleika , gengisfellingar o.fl og aðra óáran fara að birtast með auknum þunga. Og viti menn hin almenna niðurstaða hinna fjölmörgu greina hinna fjölmörgu fulltrúa SA á næstu mánuðum verða samdóma um að ekkert ráðrúm sé til kjarabóta.

Og gott ef hin óháða spádeild Búnaðarbankans og jafnvel Fjármálráðuneytið munu ekki taka undir þessi viðhorf. ( Þjóðhagsstofnun þvælist alla vega ekki lengur fyrir) Aldrei er "góð" vísa of oft kveðin að mati SA.

Hvet fólk til að lesa komandi greinar um þessi efni t.d . í Morgunblaðinu á næstu misserum. Kíkja síðan í launaumslagið sitt og velta fyrir sér hvert góðærið hefur farið - Til almenns launafólks ? ha ha ha ha!

mánudagur, 6. október 2003

Brussel er borg fyrir ökufanta

Brussel
er borg fyrir ökufanta. Skil reyndar ekki reyndar ekki hvernig borg sem ekki hefur nokkra reglu á umferðarmálum getur þjónað tilgangi sínum sem höfuðborg Evrópusambandsins? "Reglugerðariddarar" allra Evrópulanda eru þarna saman komnir og hefðu sennilega ráð undir rifi hverju varðandi umferðarmálin í borginni væri eftir því leitað. Að taka leigubíl í borginni er sennilega svipað og að taka þátt í rallykeppni, fínt fyrir spennufíkla en slæmt fyrir virðulega verklýðforingja sem sitja í fulltrúaráði evrópskra bæjarstarfsmanna innan EPSU. Var sem sagt í á fundi í Brussel um helgina.
Einkavæðing opinnberar þjónustu var meðal dagskráliða. David Hall prófessor við Háskólann í Grenwich hafði framsögu um þau mál og mæltist vel að vanda, en meira um það síðar.

fimmtudagur, 2. október 2003

Heilsugæslan
Fundir vegna aðlögunarsamnings er fyrirhugaður í næstu viku á Heilsugæslunni. Þjónustusvæðið (tæplega 30 þús. manns) er það lang fjölmennasta á landinu. Þannig að álag á starfsfólk gríðarlegt. Það er mat félagsins að þetta mikla álag verið að meta til hærri launa.

Starfsmenntasjóður
kemur bráðlega saman. Margar umsóknir liggja fyrir. Gott mál, enda er endurmenntun bæði skemmtileg og mannbætandi í alla staði. Hægt er að sækja um rafrænt á heimasíðu STH.

Hvað má og hvað má ekki ?
Formaður hittir sjálfan sig fyrir er hann veltir fyrir sér hve langt mega stjórnmálamenn ganga í umfjöllunum um einstaka embættismenn úr ræðustóli bæjarstjórnar? Hvar liggja línur í meiðyrðalöggjöfinni? Þetta verður manni til umhugsunar eftir hlustun á upptökum á afar snörpum umræðum um æskulýðsmál í bæjarstjórn s.l. þriðjudag.

Alkunna er að stjórnmálmenn margir hverjir ata hvorn annan auri hvað af tekur án teljandi eftirmála. Hitt er auðvitað spes ef einstaka stjórnmálamenn grípur slík ólund að þeir spreða aurnum langt út fyrir hinn pólitíska vígvöll á lágt launaða embættismenn sem hafa það eitt til saka unnið að hafa reynt að sinna starfi sínu samkvæmt bestu samvisku. Hvar eru mörkin? Veit það ekki - Finnst þó í þessu tilfelli eins og það sé verið að skjóta á mýflugu með fallbyssu.

miðvikudagur, 1. október 2003

Kosningarloforðin og skattalækkanir !

Kosningarloforðin og skattalækkanir !
Öll er vitleysan eins ef marka má fjárlagafrumvarp ríkistjórnarinnar. Skattalækkun hvergi að sjá þrátt fyrir loforð þar um. Á kjörtímabilinu segja menn, en sannleikurinn sennilega sá að kosningaloforðið á að nýta sem skiptimynt í komandi kjarasamningum.

Ef kosningaloforðin eru sífellt í boði verkalýðshreyfingarinnar þá tel ég þann kost vænstan að ríkisstjórnin fari frá hið fyrsta og eftirláti væntanlegum efnendum kosningaloforðanna stjórnartaumanna.

Stöðugleikinn hefur haldist þrátt fyrir ríkisstjórnina en henni hefur algerlega mistekist í því að koma á réttlátri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Þess í stað hefur verið staðið vel og dyggilega við bakið á efstu lögum samfélagsins á meðan að þeir sem helst þyrftu aðstoðar við eru afskiptir með öllu. Láglaunastefna og afkoma þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu ber þessu glöggt vitni.

þriðjudagur, 30. september 2003

Bæjarbíó

Bæjarbíó
Feykilega vel heppnað framtak hjá Kvikmyndasafni Íslands að viðhafa sýningar á kvikmyndaklassík í Bæjarbíói. Billeder fra Island var á dagskrá í kvöld sem og frumsýning á stuttmynd Gunnars B Gunnarssonar og félaga . Ljómandi fínar ræmur báðar tvær, afar ólíkar enda 60 ára aldursmunur. Fassbinder var sýndur í síðustu viku og á næstunni er von á ýmsum perlum kvikmyndasögunnar. Húsfyllir var í kvöld og vonandi verður svo áfram. Kvikmyndasafnið er sem sagt sannkölluð lyftistög bæði fyrir íslenskt og ekki síður hafnfirskt menningarlíf. Ekki spillir hin virðulega umgjörð safnsins, Bæjarbíó, fyrir.

sunnudagur, 28. september 2003

Starfsmat

Starfsmat
Það er komnar fínar tengingar á heimasíðu STH varðandi starfsmatið, það eru tvær krækjur á heimasíðu LN. Ein um fréttir af framvindu vinnunnar en hin um ýmislegt er tengist starfsmatinu . Fínar síður og fróðlegar, sjón er sögu ríkari, sjá www.sthafn.is

Sami samningur en sitt hvor laun ?
Margir velta fyrir sér og einnig sá sem þetta skrifar hvernig standi á því að svipuð eða sambærileg starfsheiti/störf gefi mismunandi laun eftir bæjarfélögum, þrátt fyrir að samningar séu hinir sömu? Hef verið að fara yfir mál og sé ekki betur en að verulega halli á í einhverjum tilfellum og að í einhverjum tilfellum séum við yfir.

Aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð í Garðabæ er t.d. þremur launaflokkum hærri en forstöðumaður í félagsmiðstöð í Hafnarfirði? Afar sérkennilegt, óskiljanlegur munur sem þarfnast að sjálfsögðu gaumgæfilegrar skoðunar og leiðréttingar hið fyrsta.

miðvikudagur, 24. september 2003

Stjórnarfundur
Kl 17:30 var stjórnarfundur hjá STH. Ýmis mál á dagskrá eins og úthlutun á Siggubæ fram til áramóta, húsnæðismál félagsins, nýja þjónustuverið, fyrirhugaður trúnaðarmannfundur, aðlögunarsamningur á Sólvangi , fyrirhugaðar viðræður við Heilsugæsluna og ekki síst starfsmatið.

En af
starfsmati er það helst að frétta að verklag verður með þeim hætti að ekki verður rætt við hvern og einn starfsmann í fyrstu hrinu, heldur verða tekin út tiltekin fjöldi starfslýsinga hjá starfsmönnum sem geta verið einkennandi ( staðallýsing ) fyrir fjölda starfsmanna. Hugmyndin er síðan að tengja samkvæmt því. Ef viðkomandi starfsmaður telur starf sitt ekki eiga við neina lýsingu þá er hægt að kæra og er þá mál viðkomandi er tekið sérstaklega upp.
Þetta vinnulag er viðhaft til þess að hægt verði að ljúka vinnu við matið fyrir 1. desember n.k. Hér er því um millileik að ræða en vinnan mun halda áfram jafnt og þétt og matið klárað eins og upphaflega var ráðgert. Breytingar geta því verið að koma inn hægt og sígandi á næstu misserum þrátt fyrir þennan millileik.

þriðjudagur, 23. september 2003

Er í sumarleyfi

Er í sumarleyfi
að vísu bara dagspart og verð jafn hvítur og áður er ég kem til byggða. Er í Munaðarnesi við þá ágætu sumarleyfisiðju að kenna samningatækni á námskeiðum fyrir forystufólk BSRB. Það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hve fínn og kröftugur mannskapur er innan samtakanna. Námskeið þessi eru skipulögð af fræðsludeild BSRB og eru keyrð í þremur staðbundnum lotum auk þess sem fólk nýtir Webbann þess á milli. Fyrir utan samningatækni þá er fjallað um verkefnastjórnum, ræðumennsku, fundarsköp, sögu verkalýðshreyfingarinnar, samskipti við fjölmiðla, upplýsingatækni, lög og reglugerðir, hagfræði o.fl. Sem sagt félagsmálaskóli BSRB þar sem fjöldi leikinna og lærðra kemur að. Mennt er máttur.

Sólvangur
Haraldur Eggerts og Gurrý trúnaðarmaður áttu fund á Sólvangi s.l. föstudag um endurskoðun á s.k. aðlögunarsamningi. Fundurinn gekk vel og framvinda mála með ágætum. Fundir um sama efni verða á Heilsugæslunni innan tíðar.

föstudagur, 19. september 2003

Jósku heiðarnar

Jósku heiðarnar
áttu verða hlutskipti íslendinga forðum daga hvað búsetu varðaði . Þótti góður kostur að mati Konungs en afleiddur að mati flestra annarra og ekki síst forfeðra vorra sem sjálfviljugir kusu vosbúð og vesæld. “Bjartur í Sumarhúsum” einkennið snemma verði fyrir hendi hjá íslendingum og ýmislegt lagt á sig í nafni sjálfstæðis. Kóngur gafst ekki upp við svo búið, sótti nokkra þýska smábændur sem ollu hneykslan á sinni tíð með því er virtist vonlausum búskap, ræktuð kartöflur út um allar heiðar og voru lengi vel kallaðir “potatis bönderna” og nutu lítillar virðingar a.m.k. fyrst um sinn

Núna einhverjum 200 árum seinna sé ég ekki betur en að mannlíf á Jósku heiðunum sé með miklum blóma og heiðarnar allar hinar búasældarlegustu á að líta. Allt hefur þetta tekist þrátt fyrir íslendingaleysið.

Nú er svo komið sögu að n.k. sumar 2004 munu unglingar víða úr Skandnavíu heiðra svæðið með nærveru sinni á menningarhátíðinni Ung i Norden . Hlutskipti mitt er þátttaka í stjórnarnefnd verkefnisins. Hér er um að ræða 300 -400 unga listamenn sem koma saman í vikutíma. Heiðarnar Jósku munu því iða af norrænni menningu.. Íslenskur kúltur mun flæða um heiðarnar næsta sumar og þar sem ekki tókst að flytja landsmenn vora þangað á sinni tíð þá trúi ég ekki öðru en kóngur vor hefði verið ánægður með framtakið - a.m.k. íslenska menningu á heiðunum þó seint sé.

laugardagur, 13. september 2003

Háskólinn i Greenwich

Háskólinn i Greenwich
og Dr. David Hall prófessor eru aldrei nefndir á nafn eða í heyrandi hljóði hjá einkavæðingarliðinu hérlendis. Hvers vegna ekki? Sennilega vegna rannsókna þessa virta háskóla á einkavæðingu um víða veröld og afleiðingar hennar fyrir almenning. Nú nýverið var að koma út ný skýrsla um vatnsveitur. Sjá athyglisverða samanburðartöflu um kostnað,Table 2, á blaðsíðu 3. Öll skýrslan hér.

Háskólinn í Greenwich tók út Farum einkavæðinguna og komst að þeirri niðurstöðu að verið hefði um trúarlega nálgun gagnvart einkavæðingu opinberrar þjónustu að ræða frekar en almenna skynsemi. Hefðbundin gildi eins og rekstur, debet og kredit, því vikið fyrir ofsatrú ráðamanna á einkavæðingu sem heildarlausn í opinberum rekstri. Farum endað sem kunnugt er með algeru gjaldþroti bæjarfélagsins.

föstudagur, 12. september 2003

Fór til sálfræðings í hádeginu

Fór til sálfræðings í hádeginu
enda ekki vanþörf á. Var reyndar í hópi bæjarstarfsmanna sem sóttu fyrirlestur í hádeginu í bókasafninu.
Fræðingurinn taldi einhverja bæjarstarfsmenn á þá skoðun að Pollyanna og hennar geðlag væri heppilegt í lífsins ólgu sjó. Veit það ekki, í verkalýðsmálum myndi Pollyanna nýtast illa enda slöpp á mótbárunni sem oft er hlutskipti verkalýðsforingja. Hins vegar er örugglega þægilegt að brosa ávallt út í annað og sjá alltaf það góða í hinum misgreindarlegum ráðgerðum mannskepnunnar. Pollyönnur allra landa fella sig því við stjórnsýslubreytingar af öllum hugsanlegum toga og ávallt með bros á vör, Gott “attitjút” , veit það ekki ?

Hitt er
annað mál því hádegisfyrirlestrar á vegum fræðsludeildar bæjarins eru gott framtak þó svo að menn þurfi ekki endilega að taka allt gott og gilt sem þar kemur fram, gagnrýnin hugsun er auðvitað kostur. Já takk - fleiri fyrirlestra í hádeginu, fínt framtak.

fimmtudagur, 11. september 2003

Út við ysta sæ
örlar á blessuðu starfsmatinu. Þá átti reyndar að vera tilbúið fyrir margt löngu en aðlögun og yfirfærsla kerfisins hefur því miður dregist úr hömlu. Um þessar mundir er hins vegar vinna við viðtöl að hefjast og vonandi ekki langt í að einhverjar niðurstöður liggi fyrir.

Aðalfundur SSB
Þetta og margt annað er til umræðu á aðalfundi SSB sem haldin er þessa daganna á Brjánslæk í Skeiðahreppi. Komandi kjarasamningar, trúnaðarmannafræðsla, málefni fjölskyldu og styrktarsjóðs BSRB, starf samstarfsnefndar SSB og LN, starfsmennamál, vísindasjóður og orlofsmálefni eru allt málefni sem fjallað hefur verið um á aðalafundinum.

sunnudagur, 7. september 2003

Sem endranær
ritar Ögmundur vinur minn af skynsemi og nú í grein í Mogganum um daginn. Umfjöllunin, kjör opinberra starfsmanna versus kjör almenna vinnumarkaðarins sérstaklega m.m.t. lífeyrisréttinda. Sjón er sögu ríkari, greinin er hér
Ögmundur heldur úti mjög virkri og góðri heimasíðu, slóðin er ogmundur.is

Frelsi, frelsi, frelsi........ auðmagnsins
GATS umræðan komin á fullt og gott frumkvæði sem við BSRB-arar höfum haft í þeim efnum. Páll Hannesson sérfræðingur BSRB flutti stórfróðlegt erindi um þetta mál á kynningarfundi utanríkisráðuneytisins. Hvet fólk til þess að kynna sér málið. Sjá erindið hér .

fimmtudagur, 4. september 2003

5.000 gestir

5.000 gestir
Dagskinnan hefur reynst mér vel. Gestakomur langt umfram það sem ég gerði mér hugmyndir um. Ekki veit ég hvaðan allt þetta fólk kemur en ljóst að það eru ekki bara félagsmenn STH sem lesa dagskinnuna.

Dagskinnan er praktísk því formenn verklýðsfélaga búa oft við mikið ónæði, stundum eðli málsins samkvæmt en stundum út af smærri málum sem gjarnan mættu bíða næsta dags. Á hitt er að líta að fólk byggir alla sína afkomu á starfinu og þeim kjörum sem þar fást. Allt rask hversu lítið sem það er veldur ugg í brjósti fólks og af þeim sökum kjósa félagsmenn að bregðast við í skyndingu og hafa samband við forsvarsmenn félagsins, sem er auðvitað eðlilegt.

Dagskinnan sem kemur upplýsingum á framfæri frá sjónarhorni formanns STH, gerir það að verkum að fólk getur fengið fréttir nánast í beinni útsendingu og milliliðalaust. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að mikið af þeim upplýsingum sem félagsmenn sækjast eftir " hér og nú" eru til staðar og einfalt mál að nálgast þær og allt rask minnkar.

Dagskinnan er því afar hagnýt tæki, ekki bara sem upplýsingamiðill því hún er ekki síður öflugt baráttutæki og málgagn í verkalýðsbaráttunni. Það hef ég svo sannarlega reynt á umliðnum mánuðum varðandi mál eins og skipulagsbreytingar á bæjarskrifstofum. Í þeim efnum sem og öðrum hef ég tamið mér að vera hreinskiptin og hef ekki veigrað mér við að segja frá hlutum eins og þeir hafa komið mér fyrir sjónir sem formanni. Hvort einhverjum stjórnmálamanninum þyki lítið til koma , læt ég mig engu varða. Það er einfaldlega skylda formanns stéttarfélags að benda á það sem betur má fara og standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna.

Að láta móðan mása um málefni líðandi stundar þess á milli er ágætt og sennilega meinholt fyrir sálartetrið. Held því ótrauður áfram og þakka þeim sem stundum hafa sent mér línu um eitt og annað varðandi Dagskinnuna.

þriðjudagur, 2. september 2003

1. september um land allt í gær

1. september um land allt í gær
Ekki man ég nafnið á hinum hafnfirska verklýðsleiðtoga er hóf ræðu sína með orðunum : "Félagar í dag er 1. maí um land allt". Þessi merki baráttudagur sem sagt ekki einungis bundin við Hafnarfjörð einan eins og ræðumaður benti réttilega á .

Tímamótadagurinn 1. september 2003 verður sennilega hins vegar einungis bundin við fjörðinn og sennilega eingöngu táknrænn í þeirri merkingu að ný stjórnsýsla bæjarfélagsins gildir frá þeim degi. Opnum þjónustuvers á Strandgötu 6 er hin táknræna athöfn breytinganna en eins og í hinum íslenska (bygginga)stíl þá eru mörg handtökin óunnin og alllangt í að byggingin verði fullbúin.

En allt verður að eiga sinn dag eins Jónas frá Hriflu lagði áherslu á í sögubókunum . Gott ef Ingólfur Arnason mætti ekki á svæðið þann 1. júni kl. 13:00 árið 874.
1. september 2003 kl: 09:00 er því ágætur dagur fyrir hafnfirskar sögubækur og annála hvað varðar frásögu af stjórnsýslubreytingum, ekki satt.

sunnudagur, 31. ágúst 2003

Er íslenska loftið þykkara en annars staðar ?

Er íslenska loftið þykkara en annars staðar ?
Hef verið að velta fyrir mér flugeðlisfræðinni. En eins og fram hefur komið á dagskinnunni þá hafði ég uppi miklar efasemdir um verð í innanlandsflugi hér á landi. 20.000 krónur til Ísafjarðar (35 mín flug)? Held því fram að Íslendingar hafi ekki ráð á ferðast flugleiðis í sínu eigin landi og landsbyggðin búi við ofur dreifbýlisskatt a.m.k. yfir vetrarmánuðina þegar að flugið er eini kosturinn.

Meira af flugfargjöldum
Þarf starfa minna vegna að bregða mér á fund á norður Jótlandi í Danmörku um miðjan mánuðinn. Þetta er vart í frásögu færandi nema ef vera skyldi vegna flugkostnaðar.
Þannig háttar til að í gegnum Flugleiðir þá er hið hógværa fargjald alla leið aðeins tæpleg 140.000 kr. Ef maður bókar eingöngu til Köben þá er fargjaldi rúmlega 40.000 ( með helgareglu )? 100. þús fyrir 50 mín flug frá Köben til Karup sem ég get síðan fengið á ca 400- 500 kall danskar (báðar leiðir) með því að panta sjálfur beint og milliliðalaust hjá viðkomandi flugfélagi? (dálítið spes - munar 95.000 kr)
Niðurstaðan sennilegast Icelandic Express + Cimber Air fram og til baka ca 40. 000- Íslendingar hafa ekki efni á að eiga viðskipti við sitt heimafólk og hvað þá að henda 100.000 kall út í loftið - eins og fólk hafi ekkert þarfara við peninginn að gera.

Borgarnes
Það er sennilega hið þykka íslenska loft og hin mikla mótstaða þess sem veldur þessum háu flugfargjöldum. Hið þunna danska loft gerir það alla vega að verkum að verðið þeytir manni 4-5 sinnum lengri vegalengd?
Á dönskum prísum hérlendis myndi maður rétt slefa í Borganes með Flugfélagi Íslands - þvílík er þykktin á íslenska loftinu - eða er það kannski bara okrið sem veldur þessu ?

laugardagur, 30. ágúst 2003

Hver á þessar tær - hvar var ég í gær ?

Hver á þessar tær - hvar var ég í gær ?
kváðu Stuðmenn við raust hér um árið um mann sem greinilega hafði ekki einungis verið tygjum við Bakkus þá nóttina. Ekki held ég nú að það hafi orðið hlutskipti nokkurs þeirra bæjarastarfsmanna er í gærkvöld sóttu grillveislu í Skógræktinni, sem bæjarstjóri hélt og stóð fyrir. Frábært veður í frábæru umhverfi með frábæru fólki. Ákaflega vel til fundið af bæjarstjóra að efna til þessa fagnaðar og hárrétt tímasetning.

Hvaleyrarvatn
og umhverfi þess er gott útvistarsvæði og í raun stórkostlegur árangur hjá Skógræktinni að hafa tekist að umbreyta þessum fyrrum melum í fallegan skóg á um 50 ára tímabili. Þetta svæði er lýsandi dæmi um þann árangur sem hægt er að ná í skógrækt hér á landi.

fimmtudagur, 28. ágúst 2003

Stjórnarfundur í dag
Klukkan 17:00 var stjórnarfundur í STH. Ýmislegt á dagskrá, mál tengd höfninni , tenging við launaflokk varðandi eftirlaun, kjaramál umsjónarmanns á Hjallabraut 33, val á fulltrúum á BSRB þing, skipulagsbreytingar, bætur vegna vinnuslys, málefni húsvarðar, starfsmatið, orlofsmöguleikar á næsta sumri, nokkur stykki styrkbeiðnir frá velferðasamtökum, fúavörn á bústað í Skorradal, fundir í samráðsnefnd Sólvangs og Heilsugæslunnar,erindi frá starfsmanna heilsdagsskóla, forystufræðsla BSRB, svo fátt eitt sé nefnt.

Starfsmatið
Merkustu tíðindi fundarins eru að blessað starfsmatið er að komast á skrið. Haraldur gjaldkeri STH og "fulltrúi" á starfsmannahaldi var hreinlega lánaður frá Hafnarfjarðarbæ til þess að vinna að og staðfæra nýja starfsmatskerfið ásamt starfsmanni frá launanefnd sveitarfélaga. Haraldur hefur mikla og víðtæka reynslu af starfsmatsvinnu, reynsla sem nýst hefur vel í þessari vinnu. Hafnarfjarðarbæ er þakkað lánið en ljóst er að ekki hefði gengið að koma þessu heim og saman með góðu móti nema með því að Haraldur færi alfarið í verkið um nokkurra mánaða skeið. Kerfið verður nýtt meðal allra bæjarstarfsmanna og vonast er til að hægt verði að koma því í gagnið sem allra fyrst.

miðvikudagur, 27. ágúst 2003

Aðalfundur SSB
11. & 12. september verður aðalfundur Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga. Til fundarins er boðið öllum þeim bæjarstarfsmannafélögum sem vilja vinna saman að gerð næstu kjarasamninga . Von mín er sú að þau verði sem flest. Komandi kjarasamningavinna verðu á dagskrá sem og önnur hagsmunamál félaganna. En meira um það síðar.

Samráðsfarsinn
heldur áfram og nú vilja þeir sem ekki vildu rannasaka, rannsaka hvað af tekur og meintir samráðsmenn fagna ? því mjög ef marka má Moggann í dag.

Samkeppnisstofnun orðin ljóti karlinn - ætli hún verði lögð niður eins og Þjóðhagsstofnun? En sú fína stofnun vann sér aðallega það til "sakar" að spá ekki stöðugu blíðviðri í hinu íslenska efnahagskerfi sem ku hafa verið viðtekin persónuleg upplifun ráðamanna (sem ekki á neitt skylt við t.d. hagvísindi).

Núna spá menn bara sjálfir og fjármálafyrirtækin eru í stöðugu efnahagslegu blíðviðri. Fjármalaráðneytið spáir því t.d stöðugt að áætlanir fjármálaráðuneytisins gangi eftir. Menn reka bara fingurinn upp í loftið og finna hvaða pólitísku vindar blása og spá samkvæmt því.

Ef eitthvað er þá á að styrkja Samkeppnisstofnun eins vel í sessi og kostur er. Frekar þykir manni þáttur ríkislögreglustjóraembættisins snautlegur og ómaklega vegið að Samkeppnisstofnun af þess hálfu í öllu þessu máli. Hvað skyldi Spaugstofukarlinn (sá sem ræðir við eftirlitsmyndavélarnar) hafa um þetta að segja - eitt allsherjar plott????????

mánudagur, 25. ágúst 2003

Jú það er rétt lögfræðiþjónusta kostar sitt

Jú það er rétt
lögfræðiþjónusta kostar sitt og því miður hefur það reynst okkur hjá STH nauðsynlegt að eiga öllu meiri samskipti við lögfræðinga en við hefðum kosið síðustu árin. Málið er einfalt, að vernda hagsmuni félagsmanna kostar sitt og þá sérstaklega þegar að reynt hefur verið lengi og með öllum ráðum að ná sáttum án árangurs.

Á umliðnum árum
hefur lögfræðingur STH fyrir hönd viðkomandi félagsmanna og á kostnað félagsins gert fjölmarga starfslokasamninga. Ekki man ég lengur hve margir starfslokasamningar fóru í gegnum lögfræðing STH þegar að stjórnsýslubreytingar voru gerðar í tíð fyrrverandi meirihluta. S.l ár kom félagið að tveimur starfslokasamningum þegar að yfirmanni fræðslusviðs og yfirmanni fjármálasviðs var sagt upp störfum og í ár hefur einn slíkur samningur verið gerður. Í þeirri hrinu sem nú stendur yfir hefur undirritaður verið í nokkuð þéttum samskiptum við lögfræðing félagsins aðallega sem formaður STH vegna málefna einstakra starfsmanna en einnig sem prívatpersónan og embættismaðurinn Árni Guðmundsson. Nokkrir aðrir starfsmenn hafa einnig ráðfært sig milliliðalaust við lögfræðing félagsins.

Allt kostar þetta
og því miður þá hlýtur þessi aukni kostnaður að vera til marks um samskipti sem ekki geta talist með besta móti. Akureyrarbær sem tapað hefur hverju dómsmálinu á fætur öðrum varðandi réttindi og kjör starfsmanna situr uppi með þann stimpil að ekki sé allt með felldu í starfsmannamálum, viðhorf til starfsfólksins eru augljóslega afar neikvæð.

Þetta rann allt upp fyrir mér
í dag er tveimur háttsettum hafnfirskum embættismönnum þótti tilhlýðilegt að ræða við mig af fyrra bragði hið s.k. fæðingarorlofsmál. Í því máli hefur verið teygt og togað um fleiri missera skeið og bæjaryfirvöldum fyrir löngu fullljóst hvert stefndi í þessum efnum .
Starfsmannafélag er ekki bara sumarbústaðir og hótelmiðar. Starfsmannafélag er afl sem stendur vörð um réttindi sinna félagsmanna og ef það kostar peninga þá verður bara að hafa það. STH stefnir hins vegar ekki málum fyrir dómstóla af gamni sínu . Aðgerðir af slíku tagi er teknar að vel ígrunduðu máli af stjórn félagsins í samráði við "bestu manna yfirsýn" á hverjum tíma og þegar að allar aðrar leiðir hafa verið reyndar í þaula. Þetta er einfaldlega hlutverk félagsins.

laugardagur, 23. ágúst 2003

RSÍ

RSÍ
Hef verið að velta fyrir mér undanfarið hvaða taktík er í gangi hjá RSÍ (Rafiðnaðarsambandi Íslands). Í síðustu samningum voru ýmsir eins og t.d formaður Rafiðnaðarsambandsins ( og jafnvel einstakir forystumenn ASÍ) sífellt kyrjandi þann söng að þeir þyrftu að ná kjörum opinberra starfsmanna og enn væri langt í land, um væri að ræða óþolandi mismunun o.sv.fr.? Því miður er byrjað að örla á þessu að nýju, m.a. í grein er formaður RSÍ ritar í Morgunblaðið um daginn. Raunin er hins vegar sú og hægur leikur að vitna til kjararannsóknanefndar í þeim efnum að samningar og kjör þar á bæ er síst lakari ef tekið er mið af sambærilegum störfum hjá opinberum starfsmönnum og ef einhverjir hafa setið eftir þá eru það opinberir starfsmenn.

Grátkórinn í Garðastræti
Það virðist því miður svo að ýmsir innan RSÍ telji sig hafa einhvern hag í því að hnýta sífellt í opinbera starfsmenn og taka þar með undir með grátkórnum úr Garðastræti sem að öllu jöfnu heldur tárakirtlunum afar virkum með þráhyggjubundinni umfjöllun um "ofurkjör" opinberra starfsmanna.

Eigum öll inni
Ekki veit ég hvort þessi undarlega taktík er gerð í vissu þess að hlutdeild launþega í þjóðartekjum aukist ekki og menn freisti þess því að krækja sér í stærri bita af kökunni en ella með þessu brölti.
Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskt launafólk hvar sem það stendur í sveit eða fylkingum á fullan rétt á sanngjörnum hlut, ekki á kostnað hvers annars, heldur þess hlutar sem hreinlega hefur verið hirtur af almenningi í formi verðsamráðs, okurvaxta og hárra samræmdra tryggingagjalda. Hinn íslenski aðall hefur verið stikkfrí og leikið tveimur skjöldum og lítil heilindi á bak við þjóðarsáttina af þeirra hálfu.
Þarna liggja víglínur og þarna á að sækja fram. Formaður Rafiðnaðarsambandsins er því miður í herferð gegn eigin fólki og spjót hans ætluð þeim er síst skyldu.. Mitt ráð, 180° viðsnúningur, beina spjótum sínum í rétta átt og eyða ekki púðrinu í opinbera starfsmenn.

fimmtudagur, 21. ágúst 2003

Allt er gott sem endar vel

Allt er gott sem endar vel
Í ljósi samskipta minna við tollþjóna hins íslenska lýðveldis í fyrradag átti ég von á ýmsu þegar að ég gerði mér ferð til Keflavíkavíkur í hádeginu í gær. Er ég mæti á svæðið var og mér umsvifalaust vísað inn til yfirmanns sem sækir hljóðfærið góða tafarlaust og biður mig innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta mál hafi valdið mér og á þeim mistökum sem augljóslega hafi átt sér stað. Allt er gott sem endar vel hugsaði ég og sleppti fyrirhuguðum ræðuhöldum. Tollurinn sem sagt mannlegur störfum sínum rétt eins og við hin.

Starfsmat.
Loksins loksin loksins sér fyrir endann á kerfisvinnunni við starfsmatið. Kerfið sem sagt að verða ready og bara að bretta upp ermarnar. Næg verkefni framundan í þessum efnum og vonandi verður hægt að hraða vinnunni þannig að eitthvað fari að skila sér. Þetta hefur því miður dregist allt of lengi. Gildistími verður hins vegar aftur í tímann og samkvæmt samningum þar um.

þriðjudagur, 19. ágúst 2003

Hef víða farið

Hef víða farið
Hef víða farið og átt þess kost að sjá margt. Hef sem formaður samtaka norrænna félagsmiðstöðva sótt fundi víða um heim m.a. annars í austantjaldslöndum þar sem vegabréfsskoðun er afar nákvæm. Lendi þó aldrei í sambærilegum hremmingum eins og hjá hinu íslenska tolli. Þar er ég stoppaður í 9 tilfellum af hverjum 10 , læt mér það lynda og tek því með jafnaðargeði , hef jafnvel talið þetta til marks um góða gæslu. Hef stundum velt fyrir mér hvort þessi tíðu samskipti mín við hin íslensku tollayfirvöld hafi eitthvað með það að gera að vera 40 + og klæðast leðurjakka og gallabuxum?

Íslenski tollurinn
Veit það ekki, en hitt veit ég og reyndi í kvöld að tollurinn virðist á stundum geta verið einstaklega óliðlegur og viðskotaillur. Segi farir mínar því ekki sléttar og vík milli vina um þessar mundir. Hef áður gert að umfjöllunarefni á dagskinnunni hið einkar vænlega verðlag í Eistlandi. Þetta aðlaðandi verðlag olli því að ég verslaði mér hljóðfæri þar í landi.
Við hin hefðbundnu samskipti mín við tollinn, við komu mína til landsins framvísaði ég aðspurður að sjálfsögðu reikning varðandi hljóðfærakaupin ca 2.800 eistneskar krónur. Þar kom heldur betur babb í bátinn , hjá tollinum í Keflavík liggur ekki fyrir gengið á hinum margrómuðu eistnesku krónum. Meðan að yfirvöld rannsaka málið er hið ágæta hljóðfæri í vörslu hins opinbera í Keflavík og verður þar til gegni gjaldmiðilsins liggur fyrir.

Hvað er til ráða?
Fyrir alnokkru er búið að finna upp hið svokallað Internet þar sem urmull upplýsinga liggur á lausu m.a. gengi hinna ýmsu gjaldmiðla. Þó svo að Seðlabanki Íslands hafi ekki hina Eistnesku krónu í öndvegi í ritum sínum og á heimasíðu þá má benda á að danski Seðlabankinn er með afar vandaða heimasíðu þar sem gefur að líta gengi nánast allra gjaldmiðla. Ef tölvutæknin hefur hafið innreið sína hjá tollinum í Keflavík má hæglega slá inn nafni bankans á leitarvél og finna gengið bæði fljótt og vel. Með því má t.d. fyrirbyggja það að fólk þurfi að gera sér aukaferð til Keflavíkur algerlega af tilefnislausu. Óliðlegheit af þessu tagi hafa bara í för með sér ákaflega neikvætt viðhorf eins og þessi pistill ber glöggt vitni um? Það getur vel verið að tollurinn telji viðhorf til sín litlu máli skipta en óneitanlega hlýtur það vera metnaðamál hverra stofnunar að viðhorf til hennar sé jákvætt - Í þeim efnum á tollurinn ekki að vera undanskilin.

mánudagur, 18. ágúst 2003

Tallinn

Tallinn
Er einnig afar falleg borg en turisminn hefur sett sinn svip a verdlagid. Er staddur i theirri aegaetu borg. Var i nagrenni Tartu (Äksi)en er nu a heimleid eftir vel heppnadan fund og frodlega radstefnu.
Ymislegt getum vid kennt okkar agaetu vini i Baltnesku löndunum hvad vardar aeskulydsmal. Madur laerir ekki sidur ymislegt og undravert hve mikid verdur ur thvi sem litid er thvi ekki hafa thaer fau felagsmidstödvar sem her eru ur miklu ad spila.

fimmtudagur, 14. ágúst 2003

Tartu

Tartu
er falleg borg og Eistland vinsamlegt land. Er staddur thar um thessar mundir a radstefnu samtaka norraenna felagsmidstodva. En i theim agaetu samtokum gegni eg formennsku. I thessu fagra landi er af ymsu ad taka i verkalydsmalum. Mjog god laun her i landi eru um 35 - 40 thusund en a moti kemur ad verdlag er afar vinsamleg. Islensk laun og Eistneskt verdlag vaeri flott. Eistnesk laun og islenskt verdlag vaeri tragidia.

þriðjudagur, 12. ágúst 2003

Mér er það bæði ljúft og skylt

Mér er það bæði ljúft og skylt að koma eftirfarandi á framfæri:
Ágætu félagar
Fyrir tveimur árum var veitingahúsið í orlofsbyggðum okkar í Munaðarnesi flokkað í hópi þeirra 10 veitingahúsa í landinu þar sem vatnið mældist hreinast. Nú bregður hins vegar svo við að orlofsbyggðirnar geta ekki boðið upp á ósoðið vatn! Um miðjan júlí mældist mengun í drykkjarvatninu í orlofsbyggðum BSRB í Munaðarnesi og nú hefur fundist kampýlobaktería í vatninu. Þetta er í senn alvarlegt og dapurlegt þótt dvalargestum þurfi ekki að stafa hætta af menguninni ef þeir gæta þess að fara að leiðbeiningum og sjóða drykkjarvatnið.
Mengunin er rakin til hitanna að undanförnu en í þeim fer allt kvikt á hreyfingu. Strax og mengunar varð vart, voru settar viðvaranir í öll húsin og hafa þær verið ítrekaðar síðan. Jafnframt hefur verið leitað lausna til að ráða bót á vandanum bæði til skamms tíma og langs. Allt er gert til að finna úrbætur.
Talsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hafa greint frá áformum um að leggja kaldavatnsveitu á þessu svæði næsta haust. Ef af því verður mun okkar vandi úr sögunni. Fram til þess tíma munum við leita skammtímalausna en jafnframt treysta á að fólk sýni jafnaðargeð gagnvart þessu ástandi sem við ráðum ekki við að leysa á annan hátt en nú er reynt að gera.
Skrifstofa BSRB

mánudagur, 11. ágúst 2003

Stjórnarfundur 11. ágúst

Stjórnarfundur 11. ágúst
Á stjórnarfundi í dag var m.a. verið að ræða það ófremdarástand sem hefur skapast í vatnsmálum í Skorradal sem og í Munaðarnesi. Vatnið í Skorradal reynist ekki nægilega gott og þarf að sjóða allt neysluvatn sem er afar slæmt. Magnið er hins vegar ekki vandamál heldur gæðin. Vandræði hafa verið í nokkur ár með vatnsbólið og áhöld um að það sé einfaldlega ekki nægilega vel varið.

Uppi eru áform um að stofna vatnsveitu á svæðinu en hins vegar stingur það nokkuð í stúf því samkvæmt leigusamningi ber landeiganda að skaffa vatn að okkar mati. Annað kvöld verður fundur í félagi sumarhúsaeigenda á svæðinu þar sem þessi mál verða rædd. Landeiganda teljum við eiga nokkra skyldu í þessu máli enda vatnsmál algert lykilatriði í skiplagðri sumarhúsabyggð og ef eigendur þurfa að standa að stofnun vatnsveitu þá vakna spurningar hvort lóðarleiga sé ekki allt of há ef ekki er fyrir hendi lágmarksþjónusta.

Í Munaðarnesi er einnig algert ófremdarástand, en af öðrum toga, þar er vatnsskortur orðin verulegur og áleitin spurning hvernig stendur á því mengað yfirborðsvatn virðist vera það eina sem lekur í vatnsbólið um þessar mundir? Afar þurru sumri er kennt um að mestum hluta en hins vegar er ljóst að stórátak þarf að gera í vatnsmálum á svæðinu til að fyrirbyggja að atburðir af þessu tagi endurtaki sig.

Fundir á Heilsugæslu og á Sólvangi eru fyrirhugaðir á næstunni en í samningum gagnvart ríkinu sem eru s.k. aðlögunarsamningar er gert ráð fyrir að fara þurfi yfir stöðu mála á tímabilinu m.a. með endurskoðun launa í huga.

sunnudagur, 10. ágúst 2003

Robert Nolan

Robert Nolan
og félagar hans í samnefndu tríói eru vel liðtækir spilarar. Tveir akustiskir gítarar og kontrabassi, tær snilld . Þeir félagar hófu Django jazz 2003 festivalið á Akureyri s.l. fimmtudagskvöld með miklum glæsibrag og spilamennsku á heimsmælikvarða. Frábærir tónleikar í Ketilhúsinu í Listagilinu og ekki síður gaman að upplifa hve vel hefur tekist til með átakið "Listasumar á Akureyri" sem að Jazzhátíðin er einn liður í.

miðvikudagur, 6. ágúst 2003

Alltaf gaman að koma til "Akureyris"

Alltaf gaman að koma til "Akureyris"
sagði söngvari einn hér um árið og eru orð að sönnu, ef litið er fram hjá málfræðinni.
Hef verið í góðu yfirlæti í Furulundinum og sótt Héraðskjalasafnið nokkuð stíft. Verið er að byggja við safnið sem skapar tímabundin vandræði eins og t.d. lokun á lesstofu. Verður flott safn þegar að viðbyggingin opnar og allt kemst í samt horf

Skipulagsbreytingar & fæðingarorlofsgreiðslur
Hef lítð heyrt af lyktum varðandi skipulagsbreytingar, veit það eitt að einhverjir voru í vafa varðandi hin nýju störf og vildu gjarnan fá lengri umhugsunarfrest.

Krafa Lögmanns STH vegna greiðslu launa í fæðingarorlofi var lögð fyrir á síðasta fundi bæjarráðs. Sé ekki að bókuð hafi verið nein niðurstaða í það mál. Fyrir liggur hins vegar að bæjarráð gerði greinargerð starfsmannastjóra og bæjarlögmanns, um þetta mál, að sinni hér um daginn. Að öllu óbreyttu stefnir þessi krafa því óðfluga inn á borð Héraðsdóms í formi málaferla.

föstudagur, 1. ágúst 2003

Af breytingum

Af breytingum
Það er búið að vera í ýmsu að snúast og nokkrir starfsmenn haft samband varðandi hvernig eigi að túlka bréf um flutning í starfi. Meginreglan er sú að starfsmönnum ber að sæta flutningi svo fremi sem sé um sambærilegt starf að ræða , að starfið sé á sama level í stjórnsýslunni og að laun haldist óbreytt.

Í þeim breytingum sem nú eiga sér stað er ljóst að ekki er um tilfærslur af þessu tagi að ræða nema í tilfelli Æskulýðs- og tómstundafulltrúa og Íþróttafulltrúa. Á þeirri deild er engin yfirmaður svo að viðkomandi (sem frá 1. september n.k. heita "fulltrúar íþrótta- og tómstundamála") eru settir skör neðar en áður var sem skapar ótvíræðan biðlaunarétt, kjósi menn svo.

Uppi eru álitamál um launakjör á hinu nýja þjónustuborði. STH telur sjálfgefið að laun hækki ( þó svo að ekkert liggi fyrir í þeim efnum) við þessa færslu þar sem að störf á þjónustuborði krefjast mun meiri og sérhæfðrar þekkingar en hin fyrri störf. Hærri laun er einnig sú niðurstaða sem orðið hefur hjá þeim sveitarfélögum sem tekið hafa upp þetta fyrirkomulag.

miðvikudagur, 30. júlí 2003

Dýr yrði Hafliði allur

Dýr yrði Hafliði allur
Hef verið í heimildaröflun, undafarið vegna mastersritgerðar sem ég vinn að um þessar mundir. Ætlaði að skreppa til Ísafjarðar í þrjá daga í þeim tilgangi , taka viðtal við Björn Helgason kollega minn og skanna hið ágæta skjalasafn þeirra Ísfirðinga.
Bíltúr og svefnpokagisting í Önundarfirði var planið. En aldrei þessu vant kom babb í bátinn.

Minn ágæti bíll bilaði og varhlutur ekki til í landinu? Leitaði því á náðir Flugfélags Íslands og Hótels Ísfjarðar. Lítið mál tæpar 10.000 krónur flugið aðra leið og nóttin á hóteli 14.000. Þriggja daga ferð á krónur 48.000. Nei takk, ómögulega sagði ég og fór hvergi enda launakjör opinberra starfsmanna ekki með þeim hætti að þeir geti leyft sér "luxús" af þessu tagi. Hugsaði til landbyggðarinnar sem á engra kosta völ nema flugið yfir vetrarmánuðina - þvílíkur dreifbýlisskattur.

mánudagur, 28. júlí 2003

Bojkott

Bojkott
Var svo heppinn að fá tækifæri til að læra í Svíþjóð á sínum tíma. Lærði mikið af Svíum. Mér varð t.d. á að kaupa mér Coca cola er við samstúdentarnir fórum út að snæða hádegisverð saman á mínum fyrstu skóladögum. Fann fyrir fálæti en áttaði mig ekki á því hvað olli fyrr en einn félagi minn benti mér kurteisislega á að maður keypti ekki vörur frá þessu fyrirtæki þar sem að það væri bendlað við hvarf á verkalýðsleiðtoga í einum af verksmiðjum fyrirtækisins í suður Ameríku. Neysla á kók fór niður í 5% af venjulegri sölu í Svíþjóð, fólk sýndi hug sinn í verki. Á tímum aðskilnaðarstefnu í suður Afríku þótti ekki tilhlýðilegt að kaupa vörur þaðan og svona mætti lengi telja.

Við sem viðskiptavinir og neytendur eigum ekki að versla við fyrirtæki sem misbjóða okkur með viðskiptasiðferði á lægsta plani, eða á annan hátt . Þetta kann hins vegar að vera erfitt í samfélagi kerfisbundinnar einokunar eins og við sjáum dæmi hérlendis um þessar mundir.

Einhver hafði uppi þau skynsamlegu ráð að versla aðeins það nauðsynlegast t.d. með því að kaupa enga smávöru hjá olíufélögunum, eingöngu bensín og ekkert aukalega og snúa viðskiptum sínum til annarra fyrirtækja svo skjótt sem auðið verður. Að SNIÐGANGA er okkar sterkasta vopn - notum það þegar okkur þurfa þykir - látum ekki valta yfir okkur endalaust.

laugardagur, 26. júlí 2003

L. Norðfjörð, stórskáld m.m sendi mér þennan leikþátt
Löggan: Góðan daginn, ríkislögreglustjóraembættið.
Borgari : Góðan daginn. Það er verið að lemja mann hérna, ég er sem sagt að tilkynna hrottalega líkamsárás við Laugarveg 17
Löggan : Nú, við vitum ekkert um það ?
Borgari: Ætlið þið ekki að koma ?
Löggan: Koma? Við vitum ekkert um þetta, það er ekki nóg að hafa samband þú verður að skrifa okkur formlegt erindi, það er ekki nóg að segja okkur þetta, hef enga ástæðu til þess að ætla að um árás sé að ræða. Það er ekkert að marka svona samtal..
Borgari: En ......
Löggan: Hafðu góðan dag, blessaður.

fimmtudagur, 24. júlí 2003

Fyrst hrynur kommúnisminn og svo hrynur kapítalisminn ...

Fyrst hrynur kommúnisminn og svo hrynur kapítalisminn ...
og svo kemur Allah segja múhameðstrúarmennirnir? Ekki veit ég hvað er satt í því en óneitanlega sýnist mér hinar rómuð markaðlausnir á Íslandi hafa mislukkast og styrkja þar með í nokkru mæli fullyrðingarnar hér að ofan. Hinn frjálsi markaður Íslandi er sem sagt brandari. Sérstakur talsmaður og umboðsmaður frelsisins hér á landi HH Gissurarson er fjarri góðu gamni og hefur ekki séð ástæðu til að tjá sig um málið. Ekki veit hvort hann og hans samsinnungar sækja áfallahjálp eða íhuga stórslysaviðbrögð þ.e. eins og Kaninn myndi segja "Communicating Bad News"

Verðlagsráð hið nýja
Hið aflagða og umdeilda verðlagsráð lifir nú sem aldrei fyrr góðu lífi m.a. sem einkavætt verðsamráð olíufélaganna. Íslenskt efnahagslíf - lítið hagkerfi eins og hvert annað Matador þar sem bestu göturnar hafa safnast til afar fárra sem skara eld að sinni köku.

Viðskiptasiðferði, hvað er nú það?
Innherjasvik, verðsamráð og einkarekin einokun, okurvaxtastefna bera því miður hinu íslenska efnahagskerfi ekki vott um ríkt viðskiptasiðferði. Íslenskt efnahagslíf er eins og knattleikur án dómara með hrúgu af fúlmennum inni á vellinum.
Taparar sem fyrr, íslensk alþýða.

þriðjudagur, 22. júlí 2003

Stjórnarfundur í dag

Stjórnarfundur í dag
Í dag klukka 18:00 var stjórnarfundur í STH. Þar var farið yfir skipulagsmálin og stjórnin harmaði að félaginu hafi ekki borist afrit af gögnum eins venja hefur verið og sjálfsagt hefur þótt í málum af þessu tagi áður.

Einnig var farið yfir stöðu í fæðingaorlofsmálinu. Orlofsmál eru alltaf á dagskrá á þessum árstíma. Flugafsláttarmiðar er það eitthvað sem koma skal eða erlendir hótelmiðar ?
Hvað finnst þér segðu okkur þína skoðun á málinu adressan er sthafn@simnet.is

mánudagur, 21. júlí 2003

Skipulagsbreytingar

Skipulagbreytingar
Hitti Gest Jónsson lögfræðing í morgun. Tvö mál á dagskrá. Þar var farið yfir réttindamál allnokkurra starfsmanna vegna skipulagsbreytinga m.a. með tilliti til biðlauna o.fl.

Fæðingarorlofsgreiðslur - Hafnarfjarðarbæ stefnt
Hitt málið var að fela Gesti formlega að stefna Hafnarfjarðarbæ til greiðslu á vangoldnum fæðingarorlofslaunum til nokkurra starfsmanna Hafnarfjaðarbæjar. Krafa þessi er ekki ný af nálinni og í samræmi við nýgengin dóm Hæstaréttar um greiðslur til ríkisstarfsmanna í sambærilegum málum. Þetta Hafnfirska mál á sér langa forsögu og búið að velkjast um kerfið s.l. 3-4 ár. Þrátt fyrir þetta dómafordæmi þá hefur Hafnarfjarðarbær hafnað því að greiða með sambærilegum hætti. Því er ekkert í stöðunni annað en að stefna Hafnarfjarðarbæ til greiðslu þess sem upp á vantar.

Kaffi Cultura - Frábær Jazz

Kaffi Cultura - Frábær Jazz
Brá mér á Jazztónleika í Alþjóðahúsinu á föstudagskvöldið. Fínir tónleikar en þar komu fram Ragnheiður Gröndal söngkona, Jón Páll Bjarnason gítarleikari. Haukur Gröndal saxafónleikari og Morten Lundby Kontrabassaleikari. Ragnheiður er af góðu einu kunn í tónlistinni en fyrst er að nefna að hún sigrað á söngvakeppni Samfés ( Samtaka félagsmiðstöðva) fyrir nokkrum árum en er sennileg þekktust fyrir að syngja í undakeppni Evrópu söngvakeppninnar í ár. Skemmst er hins vegar frá því að segja að hér er á ferð afburðar Jazzari sem svo sannarlega á framtíðina fyrir sér, sem og allt það fólk sem með henni spilaði. Jón Páll, sá snjalli gítarleikari, spilar því miður allt of sjaldan hérlendis. Sem sagt frábærir tónleikar í Cafe Kultura í Alþjóðahúsinu. Bíð spenntur eftir hljómdisk frá þessum frábæru listamönnum sem ku vera væntanlegur.

föstudagur, 18. júlí 2003

Ekki hefur farið fé betra

Ekki hefur farið fé betra
Þykir mér við þá ráðagerð að færa menningarmálin yfir á þjónustu og þróunarsvið af fjölskyldusviðinu . Hélt að plottið væri það að hafa málaflokka sem "snúa inn á við" saman og þá sem "snúa út á" við saman. Dæmi um "inn á við" er t.d. launadeild og bókhaldið. Deildir sem þjónusta t.d. skólanna og eru ekki formlegar rekstarstofnannir og hafa ekki formlegan snertiflöt við almenning. Sinna innri strúktur fyrst og fremst.

Menningarmál er tvímælalaust málaflokkur sem snýr "út á við " ( eins og allt sem tilheyrir fjölskyldusviði gerir) Það sýnir t.d. hin frábærlega vel heppnaða menningarhátíð "Bjartir dagar" Árshátíð bæjarstarfsmanna er hins vegar eitthvað sem snýr "inn á við" og flokkast undir menningu. Hvort það verði verk málaflokksins á hinu nýja sviði skal ósagt látið en hitt er víst að mér þykir nokkur missir af menningarmálum af fjölskyldusviðinu. Hafnarfjörður á margt ungt og efnilegt listafólk og í gegnum félagsmiðstöðvarnar og starf ÆTH eru margir snertifletir við menningarmálin og því ótvírætt í mínum huga að þessir málaflokkar eiga heima á sama sviði. Hin afar eftirsóttu og margrómuð samlegðaráhrif gera sig vel í núverandi fyrirkomulagi, hefði maður nú haldið.

miðvikudagur, 16. júlí 2003

Af foringjum

Af foringjum
Jæja þá eru línur að skýrast í skipulagsmálunum . Það eru nokkur mál sem Gestur Jónsson mun fara yfir í næstu viku og athuga réttarstöðu viðkomandi félagsmanna. Meðal þeirra eru mál undirritaðs en þannig háttar til að verkalýðsforingjar eru líka venjulegt fólk sem hafa m.a. lifibrauð sitt af embættismennsku. Hitt er annað mál að formaður á engra kosta völ þegar út í átök eru komið aðra en þá að standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna. Það þýðir ekkert að fela sig bak við hurð , maður tekur slaginn og veður í ölduna ef því er að skipta. Hins vegar verða verkalýðsforingjar að geta treyst á það að greinarmunur sé gerður á verkum þeirra sem verkalýðsforingja og þeirra verka sem viðkomandi inna af hendi sem embættismenn. Það hefur ekki komið oft fyrir að svo sé, en því miður átt sér stað.
Að greina á milli hlutverka og meta fólk af verðleikum óháð hinum ólíku hlutverkum er lykilatriði í öllum samskiptum milli aðila.

Í einhverri hrinu fyrir nokkrum árum þá var komin einhver sú tóntegund í samskipti aðila sem varð til þess að formaður, varaformaður og gjaldkeri voru ráðnir með formlegri gerð í lítil starfshlutföll hjá félaginu í þeim eina tilgangi að tryggja þeim félagsaðild að félaginu óháð sínum eignlegu störfum hjá bæjarfélaginu. Með þessu er tryggt að þó svo að viðkomandi sé sagt upp sínu eiginlega starfi þá er málið ekki þess eðlis að þar með sé forystumanni verkalýðsfélags einnig sagt upp.

Með Eddumiða í annari og Visakortið í hinni

Með Eddumiða í annari og Visakortið í hinni
Ágætt þetta Eddumiðakerfi. Átti fína helgi á Laugarvatni í góðra vina hópi. Dvaldi í Menntaskólanum í ágætu herbergi. Fínt að öllu leyti nema baðherbergi fylgir ekki og ef maður kýs að taka herbergi af því tagi þá er kostnaður 4.000 kall aukalega per nótt!

Sem leiðir hugann að því hve rosalega dýrt er að ferðast innanlands. Á raunvirði er herbergi með baði því á um 12.000 krónur. Þar við bætist 2 x 850 krónur í morgunverð. Út i hinum stóra heimi fær maður afar gott herbergi fyrir þann prís og með mun fleiri stjörnum en heimavist Menntaskólans á Laugarvatni státar af. Hið íslenska verðlag er ekki beint vinsamlegt og með aukinni samkeppni í flugi til og frá landinu verður ódýrasti kosturinn fyrir íslendinga að fara erlendis í frí. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef sú verður raunin. Verklýðshreyfingin hefur með orlofshúsum sínum og hótelmiðum gert fjölda manns kleyft að ferðast innanlands sem annars ætti þess ekki kost. Verkalýðhreyfingin hefur því lagt sitt á vogarskálarnar, en hvað með aðra?

Betur má ef duga skal í þeim efnum því annars verður það eini raunhæfi kosturinn til að upplifa landið sitt fyrir vísitölu fjölskylduna að kaupa tollfrjálsan DVD disk um "Undur Vestfjarða" í Leifsstöð á leið til Kaupmannahafnar í fríið.

mánudagur, 14. júlí 2003

Sveit vaskra sveina og meyja

Sveit vaskra sveina og meyja
Gerðust matvinnungar fyrir tveimur árum þegar að hópur félagsmanna fór í Skorradal og bar á bústaðinn okkar, "Bessastaði". Þessi röska sveit bæjarstarfsmanna var ekki nema um tvo tíma að klára allt verkið. Nú er svo komið að ekki veitir af að bera á bústaðinn aftur og verður því síðsumars efnt til ferðar í Skorradalinn þar sem að fyrir utan fúavörnina og tilheyrandi verður auk þess meðferðis eitthvað gott á grillið sem og eitthvað er slekkur sárasta þorstann við verklok. Ferðin verður nánar auglýst er nær dregur á heimasíðu STH.

sunnudagur, 13. júlí 2003

Hver er að hjálpa hverjum ?

Hver er að hjálpa hverjum ?
Fór á ansi góðan fyrirlestur í Odda um daginn. Sá að Armain- jakkafötunum, sem mörg hver voru þarna saman komin ásamt fjölda annara til að hlusta á bandarískan hagfræðiprófessor, leið ekki vel. Enda hlustandi á þær merku og jafnframt óþægilegu staðreyndir að þrátt fyrir alkyns einkavæðingarbrölt Alþjóðabankans og "aðstoð " hins vestræna heims við vanþróuðu ríkin þá eykst ekki hagsæld fólks í þessu löndum að sama skapi. Þeir sem höfðu einn dollar á dag í tekjur fyrir ca 25 árum hafa hann einnig í dag? Þetta leiðir hugann að því að harðsvíruð nýlendustefna í nýrri og jafnvel grimmari mynd hefur litið dagsins ljós. Hvað tilgangur er t.d. að einkavæða og stofna fyrirtæki í samfélögum sem vantar eingöngu hin einföldustu tæki til frumvinnslu og framleiðslu í eigin landi. Plottið er auðvitað það að þessi einkvæddu fyrirtæki tilheyra oftar en ekki þröngum forréttindahópum í landinu eða fjölþjóðlegum auðhringjum. Arðurinn kemst því sjaldan og illa til almennings í landinu og hver er þá að hjálpa hverjum?

föstudagur, 11. júlí 2003

Fæðingarorlofsmál

Fæðingarorlofsmál
Átti fund með nokkrum félagsmönnum í morgun. Þar var farið yfir greinargerð bæjarlögmanns og starfsmannastjóra um hið s.k fæðingarorlofsmál. Ekki er annað í spilunum á þessu stigi en að stefna Hafnafjarðarbæ til greiðslu fæðingarorlofs á tilteknum mismun milli lágra dagvinnulauna og fastrar eftirvinnu. Með tilkomu hins nýja fæðingarorlofssjóðs eru vandamál af þessum toga úr sögunni enda greitt af heildarlaunum. Hæstiréttur dæmdi ríkið til að greiða af fastri yfirvinnu. Hví skyldi það ekki eiga við í Hafnarfirði, bærinn er jú hluti af hinu íslenska lýðveldi

Ræddi við bæjarstjóra
Átti samtal við bæjarstjóra í morgun. Við ræðum reyndar oft saman og viðræður okkar eru yfirleitt bæði gagnlegar og hreinskiptar. Ekki þurfa menn endilega að vera sammála en orð eins og gagnkvæmur skilningur á sennilega vel við í þessum efnum. Á umliðnum vikum höfum við auðvitað rætt um mál málanna skipulagsbreytingarnar og ýmislegt þeim tengt. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hefur undirritaður haft uppi nokkurn pirring varðandi upplýsingaflæði milli aðila í þessu máli. Hins vegar væri það alrangt af mér að halda því fram að félaginu væru ekki ljós helstu efnisatriði málsins. Hins vegar er afar nauðsynlegt að félaginu berist öll gögn í máli eins og þessu, bæði fljótt og vel. Félagið þarf að bregðast við ótal fyrirspurnum félagsmanna , kanna ýmis réttindamál o.fl. Sem sagt hafa sem nákvæmastar upplýsingar hverju sinni. Það er öllum aðilum til hagsbóta, bæjaryfirvöldum, starfsmannafélaginu og starfsmönnum. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því að þessi mál valdi vandkvæðum á næstu misserum.

Áhyggjur
Það veldur mér hins vegar nokkrum áhyggjum að flökkusögur af ýmsum toga lifa sjálfstæðu lífi í kerfinu og valda bæði usla og óþægindum. Einfaldasta ráðið í þeim efnum er að óska staðfestingar t.d. starfsmannastjóra á slíku. Orka og einbeiting þarf að vera 100 % á raunverulegum atburðum en ekki á einhverjum sögum sem eiga allt sitt undir kvendi eins og Gróu á Leiti. Slíkt er einfaldlega ekki hægt að elta uppi og þjónar ekki neinum tilgangi frekar en hver annar vindmylluslagur.

miðvikudagur, 9. júlí 2003

Bréfin streyma

Bréfin streyma
Þessa daganna hafa allnokkrir starfsmenn bæjarins fengið ábyrgðarbréf frá bæjaryfirvöldum. Innihaldið er að bjóða fólki nýtt starf í nýrri stjórnsýslu. Ekki verður annað séð í fyrstu en að í flestum tilfellum sé einungis um sambærileg störf í nýju skipuriti að ræða. Uppsagnir eru vart hægt að telja nema á fingrum annarra handar en um er að ræða tvo STH félaga ( sem er samt of margt).
Hins vegar eru einhverjir sem ennþá íhuga hvort þeir ætli að sæta tilfærslu og íhuga biðlaunarétt sinn. Breytingar eru mestar hjá bæjarverkfræðingsembættinu. Ef einhverjir félagsmenn eru í hinum minnsta vafa um sín mál þá er félaginu bæði ljúft og skylt að veita aðstoð. Hægt er að hafa samband við formanninn í gegnum rafpóst addigum@simnet.is

Nánari útfærslur um tilflutning einstakra starfsmanna má lesa um í næsta Fjarðarpósti??? Af því tilefni þá hefur formaður STH sent inn hugmynd í hugmyndabanka á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar um á hvern veg best er að haga "samstarfi" bæjarins og STH í framtíðinni. Svo virðist vera að hinar fremstu skyldur bæjarins séu við hið ágæta blað Fjarðarpóstinn og mun fremur en við hagsmunafélag starfsmanna STH . Eitt skipti slys, tvö skipti "too much" , þrisvar sinnum ???

Skynsamlegt hefði verið

Mikil vonbrigði
Nú liggur fyrir að Hafnarfjarðarbær mun ekki greiða fæðingarorlof með sama hætti og nýgengin Hæstaréttardómur segir til um og gekk í máli nokkurra kvenna er vinna hjá ríkinu. Sá dómur gekk m.a. út á að greiða beri fæðingarorlof af heildarlaunum þ.e.a.s. einnig af fastri eftirvinnu en ekki bara af (lágum) grunnlaunum. Sanngjörnum óskum nokkurra starfsmanna bæjarins í þessa veru hafna bæjaryfirvöld nú alfarið og eftir að hafa velt þessu máli á undan sér mánuðum saman. Þessi afstaða bæjarins veldur Starfsmannafélaginu miklum vonbrigðum og ljóst að næstu skref af okkar hálfu eru einfaldlega þau að sækja mál þetta fyrir dómsstólum.

Skynsamlegt hefði verið
Leið skynseminnar hefði hins vegar verið sú að bæjaryfirvöld hefðu einfaldlega viðurkennt fordæmi Hæstaréttar og greitt þessar krónur sem upp á vantar. Slíkt hefði verið ágæt yfirlýsing í anda jafnréttis og jákvæðrar starfsmannastefnu. Því er ekki að skipta í þessu máli og því ekki um aðrar leiðir en að senda málið inn í dómskerfið (aftur og nýbúið ?) .

fimmtudagur, 3. júlí 2003

"Listdans" og taugaáföll

"Listdans" og taugaáföll
Hlusta oft á útvarp Sögu, fínn miðill og fjölbreyttur. Ágætt að hafa stöðina í bakgrunni þegar maður er að vinna ýmis verkefni. Hlustaði í morgun á þátt Arnþrúðar Karlsdóttir þar sem hún ræddi við einhvern Gústaf sérlegan tengilið "listdansstaðarins" Boheim við erlendar umboðsskrifstofur. Geri ráð fyrir að nefndur Gústaf hafi sérþekkingu á listdanssviðinu, sé jafnvel menntaður dansari?

Var svo heppnin/óheppnin að á námsárum mínum (hinum fyrri) í Svíþjóð í upphafi níunda áratugarins, að fá tækifæri til þess að kynna mér ítarlega hið hollenska félagsmálakerfi og aðstæður þeirra sem minna mega sín í því þjóðfélagi. Þar í landi eru "listdansstaðir" af þessu tagi víða. "Starfsfólkið" þar eru hvorki "háskólastúdínur" eða stúlkur sem vilja næla sér tímabundið í ríflegar aukatekjur. Hollenski bransinn sem er ekkert öðruvísi en annars staðar og gengur á dópi. Sá sem er þræll fíkniefna á ekkert val og gerir hvað sem er fyrir næsta skammt. Í Hollandi fá um 90 % "listdönsurunum" taugáfall í "vinnunni" árlega. Ungar stúlkur á niðurleið er samnefndari yfir vegferð þessa fólks sem lendir í þessum ömurlegum aðstæðum. Frá "fylgdarþjónustu" í ræsið er því miður hinn bitri veruleiki.

Hér á landi eru greyin sem fyrir þessari starfsemi standa, að eigin sögn , lagðir einelti og sæta pólitískum ofsóknum? Málið er hins vegar að bransinn á Íslandi sker sig ekkert úr nema síður sé og hin "hörmulega" (í öllum skilningi þess orðs) "listdansstarfsemi" er ekki rekin á neinum öðrum forsendum en annarsstaðar, forsendum mannlegra auðmýkingar og niðurlægingar.

Greiðslur í fæðingarorlofi

Greiðslur í fæðingarorlofi
Fyrir nokkru féll Hæstaréttardómur varðandi greiðslur vegna fastrar eftirvinnu í fæðingarorlofi. Mál þetta er í athugun og geri ég ráð fyrir dómafordæmið eigi fyllilega við hér í bæ og mál verði því leiðrétt fyrr en seinna. Um er að ræða 4 - 5 félagsmenn STH.

þriðjudagur, 1. júlí 2003

Þá eru tveir farnir

Þá eru tveir farnir
Jafnréttisfulltrúinn, skipulagsstjórinn farnir og starfsmaður á bæjarverkfræðingsembættinu búin að fá munnlega uppsögn? Stemmingin á 3. hæðinni ( hjá bæjarverkfræðingsembættinu ) er því ekki upp á marga fiska þessa daganna. Breytingar og tilfærslur ennþá í lausu lofti með tilheyrandi óöryggi og óþægindum. Finnst þess mál öll fyrir neðan allar hellur og vinnubrögð ekki sæmandi bæjarfélaginu.
Væri ekki ráð að halda fund með starfsfólki bæjarverkfræðingsembættisins og skýra út fyrir fólkinu í hverju þessar "skipulagsbreytingar" eru fólgnar.

föstudagur, 27. júní 2003

Fundur með bæjarstjóra

Fundur með bæjarstjóra
Átti fund með bæjarstjóra í dag þar sem mál voru rædd vítt og breytt. Áréttaði meðal annars áhyggjur félagsins af málum. Gagnlegur fundur, vonast til að línur skýrist óðum og því fyrr því betra.

Ímynd
Hef verið að velta fyrir mér ímynd bæjarins í miðjum þessum hamagangi. Minnist þessi ekki að hafa lent í fjölmiðlum á umliðnum árum nema í hasarstellingum.

Eitt sinn datt stjórnmálamönnum í huga að lækka laun fjölda fólks einhliða með skerðingu á yfirvinnugreiðslum. Fyrir rúmum fjórum árum voru gerðar skipulagsbreytingar og að auki var tæpum tug starfmanna sagt upp og starfslokasamningar gerðir í löngum bunum. Ekki eru ennþá öll kurl komin til grafar í því brölti og háar skaðabótakröfur á hendur Hafnarfjarðbæ í meðferð dómskerfisins vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar félagsmálastjóra. Núna eru skipulagsbreytingar og einhverjar uppsagnir enn á ný á döfinni.

Velti fyrir mér hvernig á því standi að Hafnarfjörður sé sífellt í málum af þessum tagi meðan að ekki heyrist hósti né stuna frá öðrum bæjarfélögum í þessa veru? Veit það eitt og hef lært á langri vegferð að brölt af þessu tagi hefur ekki góð áhrif hvað ímynd varðar.

Þó svo að ég viti að starfsmenn bæjarins hafa alflestir mikla ánægju af störfum sínum
( samkvæmt könnun STH ) þá er spurning hvernig utanaðkomandi fólk lítur á Hafnarfjarðarbæ sem vinnustað. Er Hafnarfjarðarbær álitlegur kostur? Veit að svo er, en er ekki viss um að það sé hið almenna viðhorf úti í þjóðfélaginu.

Gott starfsfólk er hin sanna auðlegð og að því býr Hafnarfjarðarbær. Þennan auð þarf að fara vel með og umgangast með þeim hætti að hann renni ekki úr höndum manns á stundarkorni vegna einhverra lausataka eða bráðræðis.

miðvikudagur, 25. júní 2003

Fréttatilkynning STH

Fréttatilkynning
Stjórn Starfsmannafélags Hafnafjarfjarðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum þ. 25. júní 2003.

Um nokkurt skeið hafa verið í bígerð skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ. Ekki virðist að svo komnu máli einfalt að átta sig á upphafi eða endapunkti þeirra mála. Samþykkt bæjarstjórnar frá því í gær virðist einungis vera einn áfangi af fleirum? Nú hefur verið ákveðið að fela sviðum og ráðum bæjarins nánari útfærslu á skipulagsbreytingum. Ljóst er því að vinnuferlið lengist sem verður að teljast afar óheppilegt. Aðstæður af þessum toga hafa í för með sér mikil óþægindi og óöryggi meðal starfsmanna bæjarfélagsins.
Stjórn félagsins skorar því á bæjaryfirvöld að skýra línur hið fyrsta svo koma megi í veg fyrir alkyns óþægindi meðal starfsmanna og ekki síst í veg fyrir flökkusögur af ýmsum toga.
Starfsmannafélagið krefst þess því að fá upp á borðið þær breytingar og tilfærslur sem fyrirhugaðar eru þannig að hægt sé að koma þessum málum í viðundandi horf hið fyrsta. Það getur ekki talist til góðra stjórnunarhátta að halda fjölda starfsmanna í óvissu vikum saman.

Félagið harmar jafnframt þær uppsagnir sem þegar hafa átt sér stað og bendir á að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar eru síst fleiri en hjá sambærilegum sveitarfélögum.

Langur fundur í bæjarstjórn

Langur fundur í bæjarstjórn
Það voru heitar umræður og langar á bæjarstjórnarfundi í kvöld. Lét mig hafa það að sitja sem áheyrandi frá kl 17:05 til 00:25.
Heldur þótti mér fyrrverandi bæjarstjóri senda STH tóninn í upphafi fundar er hann lýsti eftir hvar félagið væri núna og hefur sennilega haldið að undirritaður og fleiri sætu með hendur í skauti þessa dagana . Áttaði mig fljótlega á því að viðkomandi er sennilega ekki einn af þeim sem les heimasíðu STH eða Dagskinnu formanns reglulega. Það hefði hins vegar verið æskilegt því viðbrögð starfsmannafélagsins eru í engu öðru vísi nú en þegar að fyrrverandi meirihluti stóð í sömu sporum fyrir rúmum fjórum árum. Ennþá er reyndar ekki séð fyrir endann á málum sem þar var stofnað til eins og t.d. brottrekstri Mörtu Bergmann fv. félagsmálastjóra.

STH bregst við tilteknum aðstæðum með tilteknum viðbrögðum og á sínum forsendum og alltaf í þágu sinna umbjóðenda. STH lýtur engu öðru og félagið skuldar engum eitt né neitt. Í þessu máli hefur félagið haft upp nákvæmlega sömu vinnubrögð og ávallt í sambærilegum tilfellum. Flokkspólitískir hagsmunir eru félaginu algerlega óviðkomandi og það rekst ekki eftir þeim, hvorki fyrr né síðar.

En sem sagt um þessi mál var karpað lengi kvölds og bókað vel og ítarlega á báða bóga. Ég hvet alla félagsmenn til þess að kynna sér innhald þeirra en fundargerð bæjarstjórnar er birt á vefsíðu bæjarins.

Skipulagsbreytingarnar voru að lokum samþykktar auk þess sem samþykkt var að segja upp Jafnréttisfulltrúa og Skipulagsstjóra. Jafnréttisfulltrúi er félagsmaður STH og eins og fram hefur komið þá er Gestur Jónsson lögfræðingur komin með þau mál og er í þeim efnum verið að skoða réttindi viðkomandi starfsmanns. Tilfærslum var vísað til viðkomandi sviða og gert ráð fyrir að nýtt skipulag taki gildi 1. sept. n.k

Ef / Þegar önnur mál koma upp þá mun félagið taka á þeim er þau berast. Það er fullvíst að einhver álitamál verða uppi, þó svo að fyrir liggi að launabreytingar eigi sér ekki stað við tilfærslu. Það getur verið að flokka megi nýja vettvanginn sem lægra sett starf og þar af leiðandi gæti skapst biðlaunaréttur ef viðkomandi velur að hafna hinu nýja starfi á þeirri forsendu að það sé ekki sambærilegt. Félagið mun því bregðast við hverju máli fyrir sig

Hvað varðar skoðanir á þessu breytingum þá eru hér áréttaðir fyrri annálar Dagskinnunnar og eins og lesendur sjá þá ríkir ekki sérleg kátína með þessar breytingar.

þriðjudagur, 24. júní 2003

Fundað um skipulagsbreytingar

Fundað um skipulagsbreytingar
Mætti á fund hjá Samfylkingunni í gærkvöldi. Mæti reyndar bæði beðin og óumbeðin á alla þá fundi sem ég tel þjóna hagsmunum STH. Hef hins vegar ekkert haft mig í frammi á hinum pólitíska sviði um langa hríð. Á þennan fund þótti mér við hæfi að mæta þar sem hann fjallaði m.a. um fyrirhugaðar stjórnsýslubreytingar og þá í þeim tilgangi að koma viðhorfum Starfsmannafélagsins á framfæri sem og ég gerði. Umræður á fundinum voru málefnalegar og hreinskiptar. Því fer hins vegar víðs fjarri að túlka beri nærveru mína á fundinum sem "heilbrigðisvottorð" á tilvonandi breytingar. Starfsmannafélagið mun sem fyrr gæta ýtrustu hagsmuna sinna félagsmanna í þessu máli sem og öðrum. Afstaða okkar er ljós og viðbrögð okkar verða í samræmi við það.

sunnudagur, 22. júní 2003

Fínt golfmót

Fínt golfmót
Fínt golfmót bæjarstarfsmanna á föstudaginn. Þjónustumiðstöðin átti veg og vanda að framkvæmdinni í ár. Varð svo frægur að sjá loksins Karlsen stýrimann þessa frægu og umtöluð dönsku mynd en hún var sýnd í Bæjarbíói á laugardaginn í tengslum við menningarhátíðina Bjarta daga. Skemmtileg mynd. Annars gaman hve þessi menningarhátíð hefur tekist vel og sett svip á bæinn á umliðnum vikum . Flott framtak.

Skipulagsbreytingar
Fæ mikið af samtölum þessa daganna frá bæjarstarfsmönnum sem vilja kynna sér réttindi sín. Það er ekkert launungarmál að margir eru uggandi um sinn hag. Kynning í aðdraganda langrar helgar og keyrslan á málum í gegnum bæjarapparatið þykir mörgum ekki góður fyrirboði. Bæði kom inn í þetta ferli Hvítasunnan og 17 . júní. Með þetta er margir mjög óánægðir.
Eitt stykki bæjarfélag er ekki eins og lítið kompaní úti í bæ því er auðvitað nauðsynlegt að ganga hægt inn um gleðinnar dyr í þessum efnum. Bæjarfélag er ekki fyrirtæki heldur samfélagsþjónusta. Kerfisbreytingar á þeim vettvangi lúta auðvitað allt öðrum lögmálum en hjá harðsvíruðum bíssnesfyrirtækjum.

Mál Jafnréttisfulltrúa fer beint til lögfræðings eftir helgi. Gert er ráð fyrir að það starf verði lagt niður.

fimmtudagur, 19. júní 2003

20% kynbundin launamunur hjá Hafnarfjarðarbæ

20% kynbundin launamunur hjá Hafnarfjarðarbæ
Kynbundin launamunur hjá Hafnarfjarðarbæ er ca 20 %. Könnun STH 1996 sýndi þetta glögglega og þessar niðurstöður hafa fengið frekari stoð í könnun er jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar gerði fyrir nokkrum misserum. Næg verkefni á þessum vettvangi en fálæti varðandi framkvæmd. Er ekki komin tími til að koma þessu í lag?

miðvikudagur, 18. júní 2003

Fundur með bæjarstjóra

Fundur með bæjarstjóra
Fór á þessa líka fínu tónleika í Hafnarborg í hádeginu. Frábærir listamenn og vönduð efnisskrá. Átti fund með bæjarstjóra um eittleytið þar sem rætt var um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Ákveðið var að ræða mál frekar á næstu dögum.

Línur eru hins vegar að skýrast í málinu og við getum þá einbeitt okkur að því að takast á við þau mál sem uppi eru og hætt að elta flökkusögur. Því miður var kynning á þessum breytingum og umfjöllun í kjölfarið þess eðlis að ætla mætti að breytingarnar væru mun umsvifameiri en efni sanda til. Engu að síður er málið alvarlegt og ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði átt að byrja á þeim enda sem nú stendur út af , starfsmönnum. Ef svo hefði verið er ég viss um að málið hefði þroskast á annan hátt en varð.

mánudagur, 16. júní 2003

Er starfsmannahald að sliga bæjarfélagið?

Gestur Jónsson
Yndisleg þessi gsm-tækni. sem gerir mann kleyft að vera í sambandi nánst hvar sem er á byggðu bóli. Ekki hefur veitt af því síðustu daganna hér í Vestmannaeyjum og margt verið skrafað og ráðgert. Ljóst er að einhverjir starfsmenn munu ekki lúta tilfærslum yfir í önnur störf. Sérstaklega á þetta við um rekstrarfólkið sem með rétt telur margt hvert að um algerlega nýtt starf sé að ræða og með mun minni ábyrgð en verið hefur. Gestur Jónsson lögfræðingur STH mun fara yfir öll þau mál sem þurfa þykir.

Er starfsmannahald og rekstur að sliga bæjarfélagið ?
Það liggur fyrir að staða bæjarfélagsins er arfa slöpp. Hins vegar er það nokkuð sérstætt að starfsmannhald og rekstur séu að sliga bæjarfélagið? Yfirbygging Hafnarfjarðarbæjar er síst meiri en sambærilegra sveitarfélaga og ekki er hin grjótharða íslenska láglaunapólitík að gera yfirvöldum erfitt fyrir nema síður sé. Undarlegt að menn telji þessi lúsarlaun sé eitthvert afgerandi atriði. Skýringanna er auðvitað að leita hjá stjórnmálamönnum. Hér hafa verið tekar margar rangar og kostnaðarsamar ákvarðanir á umliðnum árum. Vandi Hafnarfjarðar liggur því auðvitað í misheppnaðir fjármálapólitík fremur en rangri stjórnsýslu. Blessaðir stjórnmálamennirnir eiga því allan "heiðurinn" af ástandinu. Bakarinn , smiðurinn, hengingin og stjórnsýslubreytingarnar eiga kannski einhverja samsömun í þessu máli?

fimmtudagur, 12. júní 2003

Meira af skipulagsbreytingum

Meira af skipulagsbreytingum
Það var var heitt í kolunum á skólaskrifstofunni í gær. Kynningarfundur um skipulagsmál var á dagskránni og fjarri því að menn væru á eitt sáttir um ágæti tillagnanna. Í máli margra mátti heyra mikil vonbrigði með tillögurnar. Framsögumenn Sveinn Bragarson og Gunnar Beinteinsson máttu því hafa sig alla í frammi en vikust undan fimlega að svara hvað varðar nánari útfærslur. Margt í þessum tillögum þykir fólki þokukennt í meira lagi.

Er staddur á pæjumótinu í Eyjum með dóttur minni . Var vakin snemma dags með símtali (og nokkur önnur fylgdu í kjölfarið) og spurður hvort ég hefði lesið Fjarðarpóstinn.. Fjarðarpósturinn er vissulega fyrstur með fréttirnar. Mér til nokkurar furðu kemur þar fram að til standi að ráða nýjan æskulýðs- og tómstundafulltrúa? Maður er auðvitað orðin ýmsu vanur á langri vegferð í verkalýðsmálum . Við sem í þessu stöndum eru meira og minna með okkur sjálf sem prívatpersónur undir. Hitt auðvitað afar sérstakt að maður lesi örlög sín á síðum blaðanna. Ég kannast ekki við annað en að hafa sinnt starfi mínu sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi með ágætum? Velti fyrir mér hvort bæjaryfirvöld eigi í nánara samstarf í þessu skiplagsbrölti sínu við einstaka fjölmiðla fremur en einstaka starfsmenn bæjarins eða stéttarfélag þeirra? Fjarðapósturinn það ágæta blað hefur tvær síðustu vikurnar “skúbbað” í fréttaflutningi sínum af skipulagsbreytingum . Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar bárust hins vegar gögn málsins fyrst í dag 12. júní og eftir að hafa sérstaklega óskað eftir þeim?

Þessir kynningarfundir gefa ekki tilefni til annars en að í mörgu verði að snúast á næstunni. Átt því samtal við Gest Jónsson lögmann STH í dag þar sem mál voru rætt í lengd og breidd. Sem fyrr mun STH standa vörð um réttindi sinna félagsmanna í hvívetna.

miðvikudagur, 11. júní 2003

Skipulagstillögur

Skipulagstillögur
Fór á kynningarfundi um nýtt skipulag í morgun kl 8:30 með starfsmönnum bæjarverkfræðingsembættisins. Ekki verður sagt að ríkt hafi rífandi stemming meðal starfsmanna og þó að fundurinn hafi farið vel fram þá var þungur undirtónn í mannskapnum. Það fannst mér ekki gott því reynslan segir mér að oft hefjast hinar raunverulegu umræður í matartímanum eða kaffitímanum eftir slíka fundi. Auðvitað er best að sem mest komi fram á hinum formlega fundi því að þá eru skilaboð til bæjarstjórnar skýr og hrein. Hitt er annað mál að fólk er að sjá þessar tillögur í fyrsta sinni og því kannski ekki reiðubúið að tjá sig sérstaklega. Einnig er mjög þokukennt á þessu stigi hvar í nýju skipurit fólk lendir. Dagsetningar eru óljósar. Umræðan á því eftir að aukast að næstu dögum.

sunnudagur, 8. júní 2003

Skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ

Skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ
Enn eina ferðina er verið að gera skipulagsbreytingar á bæjarkerfinu. Ef mig misminnir ekki þá hafa þrír síðustu meirihlutar gert einhverjar breytingar. Árangur virðist oft á tíðum vera takmarkaður eða misheppnaður, því vart væri endalaust verið að breyta nema ef væri að gamla kerfið virkaði ekki.. Ekki ætla ég að dæma um þessar nýjust hugmyndir enda ekki búin að fá heildarmyndina . Allar svona tilfæringar hafa í för með sér mikið óöryggi meðal starfsmanna.
Ég hef litla trú á ráðgjafafyrirtækjum í þessum bransa. Hver ráðleggur ráðgjöfunum eða er þetta allt upp úr einhverjum amerískum stjórnunarbókmenntun um strúktúra í bandarískum stórfyrirtækjum. Er hinn almenni bæjarstjórnarmaður vel inni í stjórnsýslunni? Veit það ekki? Hef hinsvegar eins og áður sagði efasemdir um þessi mál. Reynslu þeirra sem vinna í kerfinu ætti auðvitað að nýta betur í breytingum af þessu tagi .
STH er auðvitað með viðbúnað og mun bregðast við því sem þurfa þykir með þeim hætti er þjónar viðkomandi félagsmanni best.


2.303% álagning / vextir
Ótrúlegt en satt. Ég hef átt í lítils háttar viðskiptum við S 24 Netbankann. Eftir ágæt viðskipti um nokkra hríð þá kastaðist heldur betur í kekki. Reikningi mínum fylgir kort og mér berst rukkun fyrir endurnýjun þess, sem ég greiði ca tveimur vikum eftir sendingu rukkunarinnar. Skömmu seinna berst mér í póst bréf þar sem ég er krafin um 33 króna greiðslu vega dráttarvaxta, 515 króna "ítrekunargjald", og 245 króna útskriftargjald, eða samtals 793 krónur. Álagning á dráttarvexti sem sjálfur "NET" bankinn S 24 sendir í "SNAIL- mail" (venjulegum pósti) orðin 2.303 %. Ég get ekki staðið í viðskiptum við stofnun af þessu tagi og færði snarlega viðskiptin annað. Einhverjar 8 krónur liggja eftir á reikningum.
Forsíðugrein Hlífarmanna í nýjasta Hjálm fjallar meðal annars um sjálftöku af þessu tagi

Fín forystugrein í Hjálm, blaði Hlífar . 1. tbl 92. árg.
Íslenskir okurvextir heitir hún og þar kemur m.a. fram að vextir á Íslandi er 300 % hærri en víðast hvar í Evrópu. Þetta er fín grein hjá Hlífar fólki og orð í tíma töluð.
Frelsi til okurs, fákeppni fjármálamarkaðarins, miljarðahagnaður bankakerfisins og dapurlegt hlutskipti og varnarleysi launafólks gangvart þessum stofnunum er umfjöllunarefnið.