þriðjudagur, 27. maí 2003

Þá er lokaverkefnið um sögu félagsmiðstöðva komið út á vefinn

Þá er lokaverkefnið um sögu félagsmiðstöðva komið út á vefinn. Lenti í hinum mestu brösum við að koma efninu út af vefinn. Gallinn og kostirnir eru að vefurinn er uppbyggður í mörgum ólíkum "formötum" þ.e. texta, myndum, hljóðum og kvikmyndum.
Fyrst bar það til tíðinda að vefsvæðið var of lítið. En þrátt fyrir stækkun þá vildu hljóð- og kvikmyndafælar ekki fara út á netið. Hins vegar virkaði þetta allt saman glimrandi vel utan netsins. Vandamálið lýsir sér þannig að sambandið rofnaði í miðri yfirfærslu og maður varð að starta öllu upp að nýju, sem er auðvitað afar hvimleitt. Salvör hafði lent í svipuðum vandamálum. Spurningin er hins vegar hvort þetta sé lapsus í forritinu eða hvort þetta sé brotalöm í ADSL ,símakerfinu eða i hýsingu vefja ? Það er t.d. oft betra að vinna út á netið seint á kvöldin heldur en um miðjan dag.? Til að koma verkefninu frá mér í tíma þá brá ég á það ráð að minnka myndsafnið mjög verulega, setti inn eitt lítið lag í midi-formati og náði smá kvikmyndabút út á vefinn. það má því segja að vefurinn sé sýnishorn sem gefur þó vonandi mynd af því sem hann á að standa fyrir.
Til þessa að koma vef af þessu tagi frá sér yfir á netið þá þarf maður að koma sér upp góðu hljóðvinnsluforriti og klippiforriti. Með því móti getur maður gert skjöl þannig úr garði að blessaður Dreamwever-inn springi ekki á limminu í hvert sinn sem senda þarf skjöl af þessari tegund út í netheima.

Að lokum langar mig til þess að þakka ykkur öllum ánægjuleg samskipti og góða viðkynningu og óska ykkur áframhaldandi góðarar vegferðar. Ég er ánægður með þennan kúrs og tel mig hafa lært heilmikið og ekki síst á hinu praktíska sviði.

Hvað blessað bloggið varðar, þennan hentuga einkafjölmiðil, þá ætla ég að halda því gangandi meðan ég hef nennu til. Er jafnvel að pæla í að breyta honum í blogg formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar þannig að félagsmenn geti fengið upplýsingar beint og algerlega milliliðalaust "nánast í beinni".

mánudagur, 26. maí 2003

Nú er mál ekki flóknari en það að ...

Nú er mál ekki flóknari en það að mig vantar góð ráð varðandi Dreamweverinn. Ég hef átt í hinum mestu vandkvæðum með að færa út á vefinn hljóð og kvikmyndafæla t.d. Windows Media Audio V8. Sama hefur verið upp í teningnum varðandi webb album sem ekki fer yfir.
Í fyrstu taldi ég að heimasvæðið væri of lítið (10 mb) en nú er ég búin að láta stækka það upp í 40 mb sem er nokkuð meira en ég þarf undir vefinn. Vandmálið lýsir sér þannig að ADSL tengingin rofnar í miðjum klíðum og ekkert af ofangreindum fælum fer þangað sem það á að fara. Ef einhver þekkir problemið endilega senda mér línu á emailið

miðvikudagur, 21. maí 2003

Þá er maður búin að öllu nema ...

Þá er maður búin að öllu nema, nema, nema, ( eins og Stuðmenn kváðu forðum) koma þessu öllu á netið. Það reynist þrautinni þyngri þar sem að heimasvæði mitt er lítið. Ég brá því á það ráð að fá það stækkað snarlega um 30mb. Með því móti ætti þetta allt að blessast. Nú ef ekki, þá fækka ég hljóð- og myndfælum, sníð vefnum stakk eftir vexti. Það er sem sagt vefur um sögu félagsmiðstöðva sem er svona plássfrekur. Ég mun því að öllu óbreyttu smella því sem upp á vantar inn á morgun en allt ræðst þetta af snerpu starfsmanna Símans varðandi stækkun svæðisins

þriðjudagur, 20. maí 2003

Við erum lengi búinn að velta fyrir ...

Við erum lengi búinn að velta fyrir okkur kaupum á digital myndavél fyrir heimilið. Gamla Minoltan stendur reyndar fyllilega fyrir sínu laus við alla sjálfvirkni og því við engan nema mann sjálfan að sakast ef myndir heppnast illa. Við eigum aðra vél, litla Pentax fyrir abs filmur. Þrátt fyrir góða dóma ( og hátt verð) þá hefur hún ekki staðið undir væntingum. Í vinnunni (Æskulýðs- og tómstundaráði Hafnarfjarðar) er Cannon EOS vél sem nýtt er til þess að taka myndir úr starfinu og í fyrra keypti stofnunin stafræna Nikon vél 2.1 coolpix. Báðar þessar vélar hafa reynst vel og myndir úr þeim hafa ratað bæði á netið sem og í prentmiðla. Í félagsmiðstöðvum hafa digtalvélar alfarið tekið við af gömlu vélunum , enda mun ódýrara og fljótvirkara en þegar að menn nýttu filmur. Atburðir nánast komnir á netið í beinni.

Eftir mikla yfirlegu varð að ráði að fjárfesta í Olympus C5050 vél sem fannst á vefnum ZDNet Þetta er alhliða maskína sem gefur mikla möguleika og hefur það fram yfir margar vélar að hægt er að vinna með henni án sjálfvirkni, sem gerir það að verkum að ef maður vill taka myndir með sérstakri lýsingu eða áferð þá er það mjög einfalt. Mikil sjálfvirkni gerir allar myndir eins og er því ekki endilega kostur þó svo að það sé þægilegt. Góðar vélar þurfa því að bjóða upp á þessa möguleika, sem og auðvitað mikla upplausn í þeim tilfellum sem þess þarf. Fyrir þau ykkar sem áhuga hafið á ljósmyndun þá er vefurinn hér að ofan hafsjór upplýsinga og ekki síst hvar hægt er að höndla slíkar vélar á sem hagstæðustu verðum

fimmtudagur, 15. maí 2003

Fékk þessi fínu ráð

Fékk þessi fínu ráð hjá Sólveigu Friðriks varðandi hvernig maður býr til myndaalbúm í Dreamwever. Reyndist lítið mál þegar að til kastanna kom. Finn ekki samsvarandi kerfi fyrir hjóð og kvikmyndir en er búinn að bjarga því með því að gera millisíður þ.e. efnisyfirlit sem vísar síðan í viðkomandi fæla. Hvað varðar músik og kvikmyndir þá vinnst mér ekki tími til að breyta analog í digital svona 1,2, og 3, þannig að ég afritaði nokkur lög í wma format með Dylan og kvikmyndabút í wmv formati til þess að sjá hvort þetta gerir sig ekki. Það reyndist allt virka.
Ég á hins vegar afar gamla bílskúrsbandamúsík á segulbandi sem ég get fært yfir á minidisk og komið því þannig í stafrænt form og afritað inn á tölvuna en það tekur tíma og eins er með 8mm kvikmyndir sem ég hef aðgang að, þær þarf að sýna á vegg og taka upp með digitalvél og afrita frá henni yfir á tölvu. Það verður ekki gert að sinni þó svo að ég voni að ég geti komið því í framkvæmd fyrr en seinna. Allt eru þetta atriði er tengjast unglingamenningu þess tíma og sögu félagsmiðstöðva.
Er sem sagt að komast á lokasprettinn. Næsta dæmi er að staðsetja vefinn sem undirvef á heimsíðunni hjá mér, en þar ætla ég að geyma hann til að byrja með.

þriðjudagur, 13. maí 2003

Þá er pólitíska tímabilinu á þessu bloggi lokið í bili

Þá er pólitíska tímabilinu á þessu bloggi lokið í bili. Ég er búin að vera að vefa síðustu daga. Það hefur vafist nokkuð fyrir mér að setja inn myndaalbúm á vefinn. Ég hef notað Photshop til þess að setja það upp. Það gengur ágætlega en ég fæ alltaf flie- nöfnin með , dagsetningu og fleira aukastöff sem ég vill ekki hafa. Ég finn ekki þennan fídus Fireworks, Ég ætla að reyna að klóra mig áfram í þessu. Öll góð ráð í þessum efnum vel þegin.

mánudagur, 12. maí 2003

Jæja þá er búið að kjósa og allir töpuðu

Jæja þá er búið að kjósa og allir töpuðu, sem hlýtur að segja það að 100 % - in nægja alls ekki þegar stjórnmálin eru annars vegar. Gef lítið fyrir varnarsigra út og suður. Sé ekki betur en að % markmið stjórnmálaflokkanna hafi þegar að allt kemur til alls slagað vel á annað hundraðið í %. Og öll megin markmið flokkanna hvað varðar kjörfylgi (og jafnvel önnur markmið hafa því mistekist) Af þessum sökum munu stjórnmálamenn víla og díla út og suður og væntanleg ríkistjórn verður sennilega ekki í nokkru samræmi við niðurstöður og sennilega síst það sem almenningur á skilið. Fylgishrun Sjálfstæðisflokks er þó mesta tapið og ætti að öllu jöfnu að leiða til þess að menn staldri við og hvíli sig um skeið og safni kröftum. Ríflega 51% atkvæðamagn er ekki mikið og stjórnin á því sitt líf fyrst og fremst að þakka ójafnri skiptingu þingmanna fremur en prósentulegum styrk. 34 þingmenn í krafti 51,4% fylgis er afar rífleg nýting á sama hátt og 48,6% gefi einungis 29 þingmenn sem hlýtur að teljast ósanngjarnt. Fólk vill breytingar er augljóst, en hvenær hafa stjórnamálamenn gefið því gaum. Svo virðist vera að flokkar þurfi nánast að þurrkast út til að ganga sjálfviljugir frá borði. Að missa 15- 25 % af eigin kjörfylgi virðist a.m.k. ekki nægja . Hún er skrýtin tík þessi pólitík, ekki satt?

föstudagur, 9. maí 2003

Þetta undarlega lögmál próflesturs

Þetta undarlega lögmál próflesturs ( þ.e.a.s. að próflestur fari fram í sól og hita og svo hitt að þegar að prófi er lokið þá skelli á með rigningu og roki ) hefur gert það að verkum að fyrirhuguð afrek á sviði golfíþróttarinnar hafa ekki ennþá átt sér stað. Önnur afrek í tilverunni um þessar mundir eru afar óljós eins og t.d. gengi í aðferðarfræðiprófinu megindlega.

Hef eiginlega misst af kosningabaráttunni en finn stemminguna þessa síðustu daga. Ég er sjálfur þess sinnis að tími sé til kominn að gefa hinum pólitíska armi LÍÚ frí næstu árin. Hef í raun aldrei skilið að ráðmenn þessarar moldríku þjóðar, að sögn þeirra sjálfra, geti ekki séð sóma sinn í því að búa okkar minnstu meðbræðrum mannsæmandi tilveru. Sýnir að mínu mati í hnotskurn forgangsröðun í þjóðfélaginu. Gæti haldið lengi svona áfram og ef fólk hefur áhuga í þessum málum þá er 1. maí ávarp formanns STH á heimasíðu félagsins.

Nú gefst tími til að vinda sér í NKN verkefnin. Ég hef verið að vinna í vefnum um félagsmiðstöðvar. Finn hins vegar fáar fyrirmyndir af sambærilegum vef úti í hinum stóra heimi, nema helst vefi sem eru sagnfræðilegs eðlis. Verð í þessum pælingum á næstunni.

sunnudagur, 4. maí 2003

Ég er ekki frá því að golfkylfurnar mínar...

Ég er ekki frá því að golfkylfurnar mínar hafi gefið mér illt auga í dag er ég var að erindast úti í bílskúr. Ég hef ekkert sinnt þeim í vor, frekar en mörgu öðru, enda haft í mörgu öðru að snúast síðustu vikurnar. Ég er hins vegar harðákveðinn slá nokkur vel valin högg á Hvaleyrinni á þriðjudaginn eftir aðferðafræðiprófið og ná úr mér mesta prófhrollinum. Njóta vorsins og reyna að ná í restina af kosningastemmingunni. Síðan er að vinda sér í NKN verkefni á fullu og klára þau með stæl á tilsettum tíma

Bloggið hjá mér hefur fjallað hingað til að mestu leyti um tölvumál og NKN kúrsinn. Bush og Írak hafa verið á dagskrá hjá einhverjum af því tilefni langar mig að birta hér mynd er kunningi minn sendi mér. Myndin segir allt sem segja þarf um afstöðu mína í þessu máli.
Bush tvífari / hvor er orginalinn ?

laugardagur, 3. maí 2003

Nú er svo komið í þessari tækni framhaldssögu

Nú er svo komið í þessari tækni framhaldssögu að ný öflug og hljóðlát örgjörvavifta er komin á sinn stað og ekki að sökum að spyrja, allt fellur í dúna logn . Anovu -útreikningar að annað góðgæti hinnar megindlegu aðferðafræði nú unnið í mun hljóðlátara umhverfi en fyrr.

Mikið rosalega eru annars orðnar margar fínar síður og góð blogg hjá mörgum í NKN kúrsinum. Dæmi um slíkt finnst mér, af öðrum ólöstuðum; vefsíður eins og Hildar og Ingibjargar , sannkallaður listvefnaður sem maður getur lært mikið af. Fínir pennar á blogginu , oft fínn texti, lipur og skemmtilegur.