föstudagur, 26. október 2012

Hin grjótharða hafnfirska láglaunapólitík


Var fundarstjóri á almennum félagsfundi STH (Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar) í gær 25/11 . Rennur blóðið til skyldunnar og er bæði ljúft og skylt að taka að mér eitt og annað viðvikið fyrir STH ef því er að skipta. Var lengi formaður þessa ágæta félags sem státar af langri og merkilegri sögu. Efni fundarins var tvíþætt annars vegar kynntu fulltrúar frá Capacent kjarakönnun BSRB og sérstaklega hlut STH í samhengi við önnur BSRB félög og svo hitt að ræða s.k. launleiðréttingar bæjaryfirvalda sem miklar efasemdir eru um að hafi verið framkvæmdar með skilmerkilegum hætti.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að niðurstöður launkönnunar BSRB er stórfelldur áfellisdómur um starfsmannastefnu bæjarins, nánast hvar sem litið er. Laun STH félaga eru rúmlega 10% lægri en meðaltalslaun BSRB félaga hvort sem litið er til dagvinnu- eða heildarlauna. Samkvæmt könnun Capacent þá hafa 33,2 % prósent BSRB félaga fengið launaleiðréttingu en einungis 7,2% félagsmanna STH. 40% félagsmanna STH eru mjög ósáttir við laun sín á sama tíma og 27% BSRB félaga eru það. (Heimild Capcent)

Það voru fjörugur umræður og fyrirspurnir að loknum framsöguerindum. Margt bar á góma m.a. launafyrirkomulag.

Í einu orðinu er sagt að óunnin föst yfirvinna sé aðferð til þess að jafna bil milli ólíkrar launakerfa (BSRB /BHM) og þar með viðurkennt að starfsmatið virki ekki ( sem eru engin ný sannindi ). Í öðru orðinu er svo sagt að ekki sé til neitt sem heiti óunnin yfirvinna og þar með staðfest að t.d. háskólamenn innan STH njóti verulega lakari kjara en kollegar þeirra í öðrum stéttarfélögum, sem er brot á öllu sem heitir jafnræði og ákvæðum um sömu laun fyrir sömu vinnu. Þegar að við þetta bætist að Hafnarfjörður eitt bæjarfélaga átti í stórfeldum erfiðleikum við að uppfylla bókun 7 í kjarasamningum (um að dagvinnulaun taki mið af launakjörum viðkomandi stéttarfélags þ.e. lág grunnlaun + yfirvinna STH verður sama og grunnlaun og engin yfirvinna BHM ) var mörgum hópum ekki vært innan félagsins, þó svo að viðkomandi myndu helst óska þess að vera þar. Með þessu hafa bæjaryfirvöld og eða fulltrúar þess tekið að sér að skipa launafólki í félög og sennilega í þeim tilgangi að veikja eitt sterkast aflið í kjarabaráttu starfsmanna bæjarfélagsins STH

Hin grjótharða láglaunapólitík Hafnarfjarðarbæjar kemur fullkomlega í ljós í þessari Capacent könnun sem og starfsmannastefnan í svörum þeirra er sinna starfmannamálum. Augljóst er að átakasækni og óbilgirni þeirra sem með þessi mál fara fyrir hönd bæjarfélagsins síðustu ár ef ekki áratugi , sem og pólitískt GO, hefur komið starfsmannastefnu Hafnarfjarðarbæjar í óefni, í stefnu hinna lægstu viðmiða. Þetta er algerlega afleitt ekki í síst í ljósi þess að meirihluti bæjarstjórnar kennir sig að öllu jöfnu við félagshyggju.

Ég get ekki annað en sem fyrrverandi formaður STH skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða starfsmannstefnu sína frá A –Ö. Hafnarfjarðarbær státar af góðu starfsfólki og okkar ágæta bæjarfélag hefur ekki efni að öðru en að breyta algerlega um kúrs í þessum efnum. Niðurstöður Capacent er áfellisdómur, niðurstöður sem er algerlega nauðsynlegt að bregðast við og gefa tilefni til gagngerra endurbóta – það er sannarlega rými til framfara á þessu sviði.

laugardagur, 6. október 2012

Palme


Var í Stokkhólmi um daginn og brá mér eitt kvöldið  í Grand bíóið. Erindið að sjá nýja heimildarmynd um Olof Palme. Var dulítið einkennilegt að sitja í bíóinu sem er jafnframt partur af myndinni sjálfri. Það örlagaríka kvöld 28. febrúar 1986 sótti Palme og frú kvikmyndasýningu í bíóinu. Skammt frá bíóinu er Hötorg jarðlestastöðin við Sveavägen en þar var Palme myrtur er þau hjón gengu áleiðis heim til sín að lokinni kvikmyndasýningu . Við Sveavägen stendur einnig Adolf Fredriks kirkjan þar sem Palme er jarðsettur. Myndin um Palme er afar góð og lýsir vel ferli afar merkilegs stjórnamálamanns nánast frá vöggu til grafar. Það er kaldhæðni örlagana að ung kona, efnilegur leiðtogi ungra jafnaðarmanna, Anna Lindh skulu flytja kveðjuorð í jarðaför Palme,  Lindh varð farsæll stjórnmálamaður, utanríkisráðherra og leiðtogaefni jafnaðarmanna er hún féll fyrir hendi morðingja tæpum tveimur áratugum síðar. Maður upplifir ekki of að fólk klappi í bíó en sú var raunin í fullum sal í Grandbíó við Sveavägegn þetta kvöldið og ljóst að myndin snart áhorfendur afar djúpt.

Olof Palme - Därför är jag demokratisk socialist

Olof Palme - Latin kings