miðvikudagur, 11. febrúar 2015
föstudagur, 6. febrúar 2015
Skessuhorn - Æskan er okkar fjársjóður
Þessi grein birtist í Skessuhorni 4. febrúar 2015 - Vangaveltur um fagmennsku á sviði æskulýðsmála í Borgarnesbyggð af gefnu tilefni.
Mikilvægasta verkefni hvers samfélags er uppeldi æskunnar hverju sinni. Samfélagið er flókið og margþætt og það er engin ein stofnun sem nær utan um uppeldi æskunnar í heild og í raun óraunhæft að gera kröfur til þess að svo sé. Til þess að vel megi fara þá þarf heildrænt skipulag sem byggir á fagmennsku og þeirri bestu þekkingu sem fyrir hendi er hverju sinni. Allt sem fram fer í samfélaginu kemur fram og myndgerfis í hinum margvíslegu félagslegu athöfnum mannsins, er grundvöllur og samnefnari fyrir þroska einstaklingsins sem á sér stað í samfélagi við aðra. Samfélagið og félagslegar athafnir þess eru grundvöllur uppeldis. Mikilvægastir eru foreldrarnir og fjölskyldan síðan koma stofnanir og eða starfsemi í nær umhverfi barna og ungmenna. Það þarf þorp til þess að ala upp barn og í því ljósi byggja flest sveitarfélag umgjörð sína, umfang og stefnu.
Við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands er starfrækt Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum (NTF). Fjöldi fólks hefur lokið BA prófi frá brautinni. Aðsókn í námið er með miklum ágætum og er brautin sú eining innan MVS sem vex hve hraðast. Nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálfræðingar eiga að öllu jöfnu auðvelt með að fá vinnu. Starfsvettvangur tómstunda- og félagsmálafræðinga er afar fjölbreyttur, s.s. félagsmiðstöðvar, frístundaheimili, íþróttafélög, grunnskólar, leikskólar, félagssamtök, á vettvangi forvarnarmála, meðferðarstofnanir, þjónustumiðstöðvar, félagstarf aldraðra og skrifstofur íþrótta- og tómstundamála m.m. Meginfræðasvið í tómstunda- og félagsmálafræði eru tómstundafræði, sálfræði, félagsfræði, félagsuppeldisfræði, siðfræði, verkefna- og viðburðarstjórnum ,útivist og ekki síst fagmennska og vettvangsnám. Lögð er áhersla á að nemendur verði færir um að stjórna, skipuleggja, framkvæma og meta tómstundastarf.
Nýverið var auglýst laust til umsóknar starf í félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarnesi og samkvæmt auglýsingunni var óskað eftir starfsmanni með menntun á þessu sviði enda starfið eða störfin augljóslega þess eðlis. Nú brá svo við að eini umsækjandinn sem uppfyllti menntunarkröfur fékk ekki starfið? Slíkt verður að teljast undarlegt og má í raun líkja því við að við grunnskólann í Borgarnesi væru einungis ráðnir leiðbeinendur í stað kennara þó svo að menntaðir kennarar stæðu til boða? Slíkt yrði talið dæmi um metnaðarleysi og einhverskonar fúskvæðingu skólastarfsins. Sama á auðvitað við um hvað varðar ráðningu í jafn mikilvæga starfsemi og þá sem fram fer í félagsmiðstöðvum. Samkvæmt rannsóknum þá eru starfsmenn félagsmiðstöðva þeir aðilar sem ungmenni leita einna fyrst til ef þau eru í vanda. Forvarnarstarfsemi, leitarstarf og fyrirbyggjandi starfsemi félagsmiðstöðva lýtur fag- og fræðilegum forsendum. Slíkt starf er ekki á færi félagslyndra og ágætara ungmenna á menntaskólaaldri . Það er ábyrgðarhlutur af hálfu bæjarfélagsins fela viðkomandi ungmennum starf sem viðkomandi hafa hvorki aldur, þekkingu né menntun til þess að sinna og eða axla þá miklu ábyrgð sem störfum á þessum vettvangi fylgja. Slíkt er einungis gert með fagmennsku í hvívetna hvort sem litið er til einstakra ráðninga eða skipulags málaflokksins í heild. Á slíku hefur verið nokkur brestur ekki bara hvað varðar ráðningu þá sem hér er til umfjöllunar, hún er sennilega einkennandi fyrir stefnu í málflokknum í heild og all fjarri því ágæta starfi er bæjarfélagið stóð fyrir í æskulýðsmálum af myndaskap og fagmennsku til margra ára. Á þeim grunni hefði verið skynsamlegt að byggja í stað þeirra stefnu er sennilega kristallast í þeim ráðningamálum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Æskan er okkar fjársjóður og það er ábyrgð okkar sem eldri erum að búa henni eins góðar aðstæður og uppeldisskilyrði og frekast er unnt.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)