föstudagur, 25. apríl 2008

Síbrotavilji, þráhyggjukenndur, einbeittur og einlægur

Sem ég var að lesa Fréttablaðið í morgun þá rak ég augun í enn eina brennivínsauglýsinguna frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar.

Væri vart í frásögu færandi ef ekki væri fyrir þær sakir að fyrirtækið er nýdæmt fyrir brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum? Fyrirtækið sýnir í kjölfarið landsmönnum og íslenskum lögum fingurinn , virðingarleysið algert. Skil svo ekki í Fréttablaðinu eða öðrum fjölmiðlum að birta auglýsingar af þessum toga - vitandi vits að um lögbrot er að ræða.

Undarleg viðbrögð við hegningarlagabroti og hrokakennd í meira lagi - verð ég að segja. Á maður sem manneskja í siðuðu samfélagi að eiga viðskipti við svona fyrirtæki ?– Nei það liggur í augum uppi að slíkt gengur ekki. Siðferðiskennd fyrirtækisins og virðing gagnvart réttindum barna og unglinga er á svo lágu plani að það myndi að öllum líkindum auglýsa áfengi á fæðingardeildinni ef það mögulega kæmist upp með það.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Legg til að forstjórinn haldi upp á dóminn ...

...með því að fjarlægja áfengisauglýsingar fyrirtækisins úr strætóskýlum á höfuðborgarsvæðinu. Eru fyritækinu til skammar og vanvirða við réttindi barna og unglinga

Forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar var 22. apríl 2008 dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar.

"... Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa birt auglýsingar á áfengi, eins og honum er gefið að sök, og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákærunni. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og er refsing hans nú, með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 22 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ólafs Ara Jónssonar hdl., ákveðast 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal ákærði greiða þau. Áður hafði Jakob R. Möller hrl. verið skipaður verjandi ákærða og skal hann einnig greiða laun hans, 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Dómsorð
Ákærði, Andri Þór Guðmundsson, greiði 300.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 22 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ólafs Ara Jónssonar hdl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun verjanda síns, Jakobs R. Möller hrl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. "

Sjá dóminn í máli nr. S-1343/2007 í heild sinni HÉR

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Síbrotafyrirtækið Egill Skallagrímsson

En á ný þverbrýtur Ölgerð Egils Skallagrímssonar lög um bann við áfengisauglýsingum. Fyrirtækið hefur þegar a.m.k. einu sinni hlotið dóm vegna brota á þessum lögum.

Sem endranær beinist áfengisherferð fyrirtækisins að börnum og unglingum sérstaklega. Af því tilefni eru strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu þakin auglýsingum. Fullkomin lágkúra og algert virðingarleysi við börn og unglinga, sem eru eins og kunnugt er helstu viðskiptavinar Strætó. Og það er auðvitað með eindæmum að Strætó bs skuli taka þátt í þessu með því að legga biðskýli fyrirtækisins undir ólöglegar áfengisauglýsingar og gefa þar með sínum helstu viðskiptavinum langt nef.

Hvar er ákæruvaldið? og hvers vegna eru flest brot af þessum toga látin óátalin – Hvers vegna er einlægur og einbeittur brotvilji stjórnenda fyrirtækisins (og samsvarandi fyritækja) látin viðgangast misserum og árum saman.

Spyr sá sem ekki veit – en undrast afskiptileysi og fálæti stjórnvalda sem virðast hafa takmarkaðan áhuga á því að verja lögvarinn rétt barna- og ungmenna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Sorglegt og ekki boðlegt í siðuðu samfélagi.

laugardagur, 12. apríl 2008

Þjóhagsstofnun...

... var sem kunnugt lögð niður með einu pennastriki. Faglegt mat þeirrar ágætu stofnunnar í efnahagsmálum voru ekki í anda þeirra pólitísku tilfinninga er þá réðu ríkjum. Þáverandi forsætisráðherra sá sér því þann kost vænstan að leggja stofnunina niður. Var í raun álíka gáfulegt og að henda öllum hitamælum á sjúkrahúsum landsins og segja í kjölfarið að heilbrigði landans sé fínt enda samkvæmt pólitískum stefnumiðum ráðandi stjórnmálaflokks.

Við tóku m.a. greiningadeildir bankanna (og skúffa í fjármálaráðuneytinu) sem hafa reglulega gefið út álit um horfurnar í efnahagsmálum. Þær spár hafa eins og dæmin sanna reynst ófullnægjandi og það eilífðar sólskin sem þar er ávallt spáð hefur látið eftir sér bíða, raunveruleikinn, rok og rigning blasir við. Og jafnvel þá stinga menn hausnum í sandinn eins og strúturinn og fjármálakreppan einhverjum vondum mönnum úti í útlöndum að kenna, mönnum sem eru að "leika sér með krónuna" í eigin ágóðaskyni ? – Utanbæjarmenn, eins og slíkir misyndismenn er gjarnan kallaðir í heldri manna byggðarlögum hérlendis.

Vísindi ? – veit það ekki það er svo margt sem breytist – Spádómar um eigið ágæti, eins og greiningardeildir bankanna spá reglulega, er eitthvað sem ekki virkar – verður því sennilega seint flokkað sem vísindi, verður marklaust eins og hver önnur misheppnuð pólitísk ideólogía. Tímar breytast?

Breytta tíma má meðal annars merkja á því að helstu forkólfar frjálshyggjunnar hér á landi hafa tekið til handargagns eitt af helstu einkennum félagshyggjunnar – samhygðina og samhjálpina, aðstoðina við þá þegna samfélagsins sem minna mega sín – okkar minnstu bræður, í þessu tilfelli Hannes Hólmstein. Og þá skiptir ekki neinu máli þó svo að okkar minnstu bræður hafi af fúsum og frjálsum vilja tekið röð frjálsra en óheppilegra ákvarðana sem leiða til væntanlegrar ómegðar viðkomandi. Bjargráðið er að efna til fjársöfnunar fyrir bágstadda, sem er gott og göfugt markmið. Það er reyndar hægt að ná þessu markmiði með öðrum leiðum eins og jöfnun lífskjara og fleira í þeim dúr en það tekur sennilega of langan tíma og leysir ekki bráðavanda.

Hornsteinn frjálshyggjunnar hið algerlega frjálsa val þ.m.t. rit- og málfrelsi er í útrýmingarhættu að sögn forsvarsmanna hjálparstofnunarinnar . Við því þarf að bregðast því allar raddir samfélagsins þurfa að heyrast (með eða án stuðnings hjálparstofnanna) – ekki síst rödd skynseminnar sem ávallt var einkenni þess sem frá Þjóðhagsstofnun hinni sálugu kom – Er ég kannski komin með samsinnunga úr óvæntri átt varðandi hugmyndir mínar um það að til þess að alvöru umræða um efnahagsmál fari fram í samfélaginu, þurfi m.a. að hafa starfandi stofnun eins og Þjóðarhagstofnun var – í útlöndum telja menn slíkt nauðsynlegt?

föstudagur, 11. apríl 2008

Geir Gunnarsson


Votta vini mínum Lúðvík Geirssyni og fjölskyldu hans allri mína dýpstu samúð vegna fráfalls föður hans Geirs Gunnarssonar. Blessuð sé minning hans.

þriðjudagur, 8. apríl 2008

Sorry ég svaf hjá systur þinni ...

...er nafn á leikriti sem Flensborgarskóli setti upp í vor. Fínt stykki hjá krökkunum (þó mér sé málið allverulega skylt þar sem sonur minn Freyr Árnason er einn af höfundum verksins) þar sem gert er stólpagrín af staðalímyndum. Temað, hinir gjörkunnu vegir ástarinnar í heimi unglinga. Og ekki nóg með ágæta tilburði margra leikarana, hinar ólíklegustu persónur verksins brustu af og til í söng með góðum árangri. Músíkin var verulega flott, flutt af góðu bandi með “brassi og alles”, alvöru fönk slagarar frá sjöunda og áttaunda áratug síðustu aldar með bráðfyndnum textum í anda verksins. Að sjálfsögðu happy ending en eftir þyrnum stráða vegferð eins og vera ber. Fín sýning, sem fékk fína dóma, enda uppselt á allar sýningar sem í boði voru.

Bergþóra Árnadóttir

Brá mér á tónleika s.l. laugardagskvöld í Grafarvogskirkju. Minningartónleika um hinn frábæra listamann Bergþóru Árnadóttur vísnasöngvara. Frábærir tónleikar og ákaflega skemmtilega farið með góða tónlist Bergþóru. Útsetningar fjölbreyttar og frábærar, spilamennskan í algerum sérflokki enda valin maður í hverju rúmi. Birgir Bragason á bassa, Björgvin Gíslason á gítar, Hjörleifur Valsson á fiðlu ásamt fjölda annarra afburðar tónlistarmanna. Sándið fínt og umgjörð öll hin besta. Vona að efnið rati á disk og hvet vin minn Aðalstein Ásberg, ein af skipuleggjendum tónleikanna, sem á og rekur hið framsækna útgáfufyrirtæki Dimmu til þess að gefa þessa tónleika út. Þakka fyrir mig – átti virkilega ánægjulega kvöldstund

laugardagur, 5. apríl 2008

Tími hinna pragmatísku ákvarðana ...

... er runnin upp ef marka má viðbrögð háskólarektors vegna dóms yfir Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Sagnfræðilega sinnaðir uppeldisfræðingar eins og ég eiga vin í fræðunum sem er blessuð tímalínan. Tíminn bæði sá liðni og ekki síst sá ókomni skýrir mörg mannana verk og hugmyndir.

Spurning hvort viðbrögð Háskólarektors hefðu verið með öðrum hætti ef ekki væri önnur mál HH í farvatninu sem snerta Háskólann beint eins og eins og notkun á heimasíðu HÍ í meiðyrðamáli ? Sem gamall verkalýðsleiðtogi veit ég ekki hvaða flóknu lagatæknilegu atriði rektor vitnar til sem koma í veg fyrir að veitt sé áminning? Áminningarferli í kjölfar dómsmáls er afar einfalt ferli. Viðbrögð rektors er því að setja borð fyrir báru þar sem áminning í einu máli leiðir til brottviknar í næsta tilfelli ef upp kemur. Með öðrum orðum hvernig sem mál fara þá mun prófessorinn áfram sinna fræðistörfum við HÍ og í versta falli með áminningu vegna dómsmáls í Bretlandi.

Sennilega eru mál ekkert flóknari en þetta. Prófessorinn mun sem fyrr standa í hugmyndafræðilegum stórræðum, sem er fínt – ekki síst fyrir okkur sem erum vinstra megin við miðjuna því prófessorinn hefur í sinni hugmyndafræðilegu vinnu á sviði frjálshyggjunnar aflað okkar viðhorfum, félagshyggjunnar, fjölmargra talsmanna í gegnum árin.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Hvar eru "ítölumennirnir" núna ?

Rakst á þetta frábæra og bráðfyndna myndband á þeim ágæta vef http://www.eyjan.is/ . Mikið grín eða... sjá: http://www.youtube.com/watch?v=SJ_qK4g6ntM . Sennilega hægt að flokka þetta undir tragí comedíu miðað við ástand efnahagsmála hérlendis.

Umræðurnar á myndbandinu eru sennilega greindarlegri en margt það sem margur spésílaistinn lætur frá sér þessa daganna. Ýmsir velta fyrir sér hvar "ítölumennirnir" frá verðbréfafyrirtækjunum eru núna? Sést ekki einu sinn í iljarnar á þeim - eru dagar þeirrar stéttar taldir ? Eða koma þeir í ljós með hækkandi verðbréfavísitölu?

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Er orðin flugnemi

Lét loksins gamla draum rætast – er orðin flugnemi. Hef þegar tilkynnt vini mínum Þorgeir Haralds að ég komi til starfa hjá Icelandair þegar að öll tilskilin leyfi og próf liggja fyrir. Mun auðvitað fyrst um sinn fljúga Cessnu og, sennilega til að byrja með, sveima í æfingasvæðinu sunnan við Straumsvik. Bið vini og vandamenn hins vegar að venja sig við þá tilhugsun að skammt undan Ingólfshöfða, í rúmlega 30 þúsund feta hæð, heyrist:

Góðan daginn góðir farþegar þetta er flugstjórinn Árni Guðmundsson sem talar. Við erum ...

Geir til Lýðheilsustöðvar

Það kom mér ekki á óvart að frétta að fyrirverandi samstarfsmaður minn til margra ára Geir Bjarnason forvarnarfulltrúi í Hafnarfirði og forstöðumaður þeirra merku (unglinga)menningarmiðstöðvar Gamla bókasafnsins, sé förum og í nýtt starf hjá Lýðheilsustöð.

Þórólfur Þórlindsson forstjóri Lýðheilsustöðvar hefur verið að vinna fínt starf undanfarið og því ekki að undra að hann sækist eftir okkar besta fólki til áframhaldandi uppbyggingar þessarar ágætu stofnunar.

Geir hefur sem forvarnarfulltrúi í Hafnarfirði sýnt í verki hvernig hægt er að nýta rannsóknir til að betrumbæta starf á vettvangi . Hann er sem sagt einn af okkar helstu sérfræðingum á því sviði og sem slíkur afar verðmætur starfskraftur á Lýðheilsustöð. Mér skilst að sveitarfélög komi því til með að geta sótt ráðgjöf til Lýðheilsustöðvar um þessi mál mjög fljótlega. Óska félaga mínum til hamingju með nýtt starf, óska honum velfarnaðar og veit að hann á eftir að standa sig með prýði.