mánudagur, 14. júlí 2008

Það segir fátt af einum - Hvar er Hannes ?

Það segir fátt af einum, þessa dagana, þegar að ríkustu fátæklingar í heimi fara að ókyrrast út af bágbornu efnahagsástandi. Hvar er Hannes? spyrja menn í síversnandi kreppunni og velta fyrir sér hver sé hin fræðilega útskýring Hólmsteins Gissurarsonar á þessum vandræðagangi í spilverki nýfrjálshyggjunnar bæði hérlendis og erlendis.

Ekki er nú beint hægt að heimafæra vandræðaganginn upp á gamla Sovétið eða kommunistaliðið. Sumir segja að hugmyndakerfið sé fullkomin “stéttaskilvinda” en aðrir að nú sé þar komið í Matadorinu að allar bestu göturnar séu komnar á fárra manna hendur og nú sjái fyrir lok leiksins. Rót vandans liggi mest megnis í þessu?

Hvað veit maður – Hannes þegir og við hinir ríku fátæklingar vitum ekki af þeim sökum í hvorn fótinn við eigum að stíga í. Erum við eins og tilraunastofa frjálshyggjunnar í Chile eða erum við eins nýfrjálshyggjan í Nýja Sjálandi? Hvað segir Thatcher? Hannes þögnin er æpandi - hefur frjálshyggjan engin svör?

fimmtudagur, 10. júlí 2008

HK gerir mistök

Gunnar Guðmundsson fv þjálfari HK er drengur góður sem og afbragðs þjálfari. Held að það hafi verið mikil mistök hjá stjórn HK á láta hann taka pokann sinn. Félagið hefur búið við þröngan kost og fjárhagsströgl um langt skeið. Þjálfaraskipti kosta sitt og ef til eru aurar í það þá veltir maður fyrir sér hvort ekki hefði verið nær að nýta þá fjármuni í að styrkja liðið. Félaginu mun reynast erfitt að ráða þjálfara upp á þau býtti sem Gunnar bjó við og vann vel úr sbr. gengi liðsins síðustu ár.

Held því að stjórn HK hafi gert grundvallarmistök með uppsögn Gunnars. Var að mín mati óþarfi , verkefnið sem fyrir lá og liggur er fólgið í því að styrkja leikmannahópinn. En svo er nú fótboltinn - í hita leiksins er oft mikið um feil sendingar (og þessi sending stjórnar HK lenti langt upp í stúku!).

laugardagur, 5. júlí 2008

Öll brot kærð! - af krókódílatárum

Vissi ekki að Hagkaup hefði vínveitingaleyfi? Vínkynning og smökkun í Hagkaupum?Verslunarstjóri Hagkaupa fer á kostum í viðtali í Fréttablaðinu í dag, kvartandi yfir því að í hvert sinn sem talað er um að selja brennivín í búðum þá fari "lobbýistavélarnar" í gang. Verslunarstjórinn á þá sennilega við fólkið í landinu, sem nota bene er á móti áfengisauglýsingum og að áfengi sé selt í matvörubúðum.

Sorgleg og hrokafull ummæli í ljósi þess að sá bransi sem hann tilheyrir og þjónar hefur ausið hundruðum milljóna í ólöglegar áfengisauglýsingar, keyptar umfjallanir og kjánaskap eins vínsmökkun í Hagkaupum o.fl í þeim dúr. Allt athæfi sem ganga þvert á vilja almennings en allt í þeim tilgangi að þjóna ítrustu viðskiptahagsmunum.

Hagkaup hefur hvorki vínveitinga - eða áfengissöluleyfi og því er óskhyggja verslunarstjórans um að fólk kaupi rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum fyrst og fremst draumsýn. Legg til að Hagkaup höndli réttu megin við lög í landinu, þrátt fyrir "lobbýistaliðið". Ég á ekki von á öðru en að Hagkaup fái á sig kæru vegna "kynningarinnar" - öll brot kærð stendur í mörgum verslunum - á það ekki líka við um áfengislagabrot?