laugardagur, 23. maí 2009

Börn, unglingar og þjóðfélagsumrót

Í bókinni Da Danmark fik sin ungdom, saga Ungdomsringen (Danska Samfés) í 50 ár, kemur fram hve gríðarlega mikilvægu hlutverki félagsmiðstöðvar gegndu á stríðstímum í hinni hernumdu Danmörku. Í Dönsku andspyrnuhreyfingunni var margt ungt fólk sem upplifði því miður ýmislegt sem ekki var beinlínis uppbyggilegt.

Samfélagið varð því að finna einhver ráð til þess að halda utan um ungviðið. Í þeim efnum voru félagsmiðstöðvar í lykilhlutverki – ekki hvað varðar skipulag og starf andspyrnuhreyfingarinnar – félagsmiðstöðvar voru lykilaðilar í því að halda hinum mannlegu gildum að ungmennum, gildum sem því miður fer lítið fyrir í stríðsátökum og gildum sem því miður verða ríkjandi ef ekkert er aðhafst í þeim samfélögum þar sem allt fer á skjön.

Hættan er því sú að kynslóðir ungs fólks sem ekki hafa hin sammannlegu gildi í hávegum vaxi upp og lifi og starfi í samfélaginu út frá reynslu sem ekki virkar með tilheyrandi árekstrum og vandamálum.

Ekki ætla ég að jafna ástandi hérlendis þessi misserin við reynslu þeirra sem búa yfir hinni sáru og óbærilegu reynslu stríðsátaka. Ég ætla hins vegar að halda því fram að kreppan sem læðist að okkur eins og skugginn muni hafa margvíslegar félagslegar afleiðingar sem hugsanlega munu leiði til einhverskonar afskiptaleysis gagnvart æskunni. Við slíkar aðstæður er hætta á að unglingurinn/ barnið telji að hið erfið ástand sé því að kenna. Sá sem þetta ritar upplifði kreppuna 68 með augum barnsins, skynjaði að eitthvað var að en skyldi ekki hvað það var og eða hvers vegna var svona dauft yfir fullorðna fólkinu. Í þessu ljósi er því gríðarlega mikilvægt að gleyma ekki ungviðinu eins og því miður gæti orðið raunin.

Æskulýðsstarf í sinni víðustu mynd hefur því afar miklu hlutverki að gegna og góðu fréttirnar eru þær að við eigum góða að í þeim efnum; starfsemi félagsmiðstöðva er með miklum blóma , Ungmennafélagshreyfingin, Skátarnir, KFUM & K, íþróttahreyfingin og fleiri státa af mjög fjölbreyttu og vönduðu starfi. Hlutverk stafsmanna í æskulýðsstarfi er alltaf mikilvægt og á tímum eins og þessum sérlega mikilvægt.

Hin faglega kunnátta að geta unnið með börnum og unglingum út frá hinum félaglegu afleiðingum kreppunnar eru sönn verðmæti sem ekki verða metin til fjár á hinum síðustu og verstu...

miðvikudagur, 20. maí 2009

Frábært frumkvæði

Framhaldsskólanemar gefast ekki upp þó að á móti blási. Nú hefur Samband framhaldsskóla haft forgöngu um samstarfi við Menntamálráðuneytið, Hugmyndaráðuneytið og ÍTR að verkefninu FRUMKVÆÐI sem byggir á þeirri hugmynd að virkja ungt atvinnulaust fólk með ýmsum hætti. Afar mikilvægt og verðugt verkefni sem mun örugglega gera sig vel og koma mörgu ungu fólki til góða. Sjá nánar: www.frumkvaedi.is

mánudagur, 4. maí 2009

Kemur ekki á óvart

Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands gerði nýverið könnun um breytt gildi Íslendinga í kjölfar hrunsins (Þjóðmálastofnun. Könnun á viðhorfum til endurreisnar samfélagsins Háskóla Íslands, Kolbein Stefánsson og Stefán Ólafsson Fréttabréf nr. 4 - 2009).
Niðurstöður skýrar eins og sjá á myndum hér að neðan sem teknar eru úr grein þeirra Kolbeins og Stefáns. Athyglisvert en kemur ekki á óvart. Frjálshyggjan á sér fá talsmenn um þessar mundir, tiltrú á markaðinn lítil eins og sjá má.