laugardagur, 3. mars 2012

Samfestingurinn - Samfés

Það er eins og gerst hafi í gær sú stund er við nokkur stofnuðum SAMFÉS. Staðurinn var hið virðulega hús Fríkirkjuvegur 11 og dagurinn 9. desember.  Kalt, kyrrlátt og fallegt vetrarkvöld árið 1985. Ekki  grunaði okkur sem að þessu stóðu á þeirri stundu  hve farsæl vegferð samtakanna yrði .
Datt þetta allt í einu í hug þegar að ég stóð fyrstu vaktina á  Samfésballinu ,eða Samfestingnum eins og það er nefnt núna,  í gærkveldi. Hef af því mikla ánægju og sjálfsagt að leggja hönd á plóginn. Fyrirkomulag er þannig að það er  þörf á auka gæslu í upphafi dansleiksins því starfsmenn félagsmiðstöðvanna sem jafnframt sinna gæslu koma með unglingunum.  

Í miðju stússinu í dyragæslunni  innan um æskufólk sem geislaði  gleði, spenningi  og ánægju fór ég að velta fyrir mér hvort einhverstaðar í heiminum sé samkoma þar sem um 30% af tilteknum aldurshópi einnar þjóðar komi saman á einum stað. Og það sem meira er  stórsamkomu sem er nánast hnökralaus í framkvæmd og teljandi á fingrum annarra handar þau atvik sem koma upp, sem eru sem betur fer auk þess öll minniháttar. 4.500 unglingar sem eru sjálfum sér og öðrum til sóma saman komin á tveggja daga stórhátíð, sem saman stendur af dansleik og söngvakeppni, eru góð og þægileg skilaboð frá efnilegri æsku þessa lands.

Og sem betur fer eykst skilningur okkar sem eldri eru á mikilvægi þess að æskan njóti verðskuldaðrar umfjöllunar. Forsíða Fréttablaðisins í dag er til fyrirmyndar sem og bein útsending RÚV frá söngvakeppninni  bæði í útvarpi og sjónvarpi.

Já sennilega mikið vatn runnið til sjávar frá kvöldinu góða að Fríkirkjuveginum og svo sannarlega ánægjulegt að sjá  og upplifa hve mikilvægur vettvangur SAMFÉS er íslensku æskufólki. Slíkt er ekki sjálfgefið og til þess að svo hafi orðið þarf fullt af góðu fólki með stór hjörtu sem vinnur af fagmennsku og eldmóð. Sú er raunin og í þessu kristallast velgengni SAMFÉS.