miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Hvar er fagmennskan ?

Að sameina starfsemi félagsmiðstöðva og heilsdagsskóla (HS) í Hafnarfirði er skynsamleg ráðagerð. Það hefði reyndar mátt ganga enn lengra með því að færa félagsmál aldraðra undir ÍTH en það er önnur umræða. Eins vel og þessi sameining hljómar þá er framkvæmdin og innleiðingin út úr öllu korti. Það er sorglegt að forsvarsmenn fjölskyldusviðs virðast ekki vita mikið um málaflokkinn og eða skilja mikilvægi hans. Þetta lýsir sér í því að viðkomandi nýta fagleg sóknarfæri fyrst og fremst til þess að skera niður og gjaldfella starfsemina sérstaklega hvort sem horft er til fjármuna eða fagmennsku sbr Excel skjöl af ýmsum toga um útfærslu á þessum skipulagsbreytingum. Hvernig staðið var að (fjölda) uppsögnum í sambandi við þessar breytingar, tímasetningar, lögfræðilegar tilvísanir, starfslok o.fl er kapítuli út af fyrir sig og sætir furðu að Starfsmannafélag Hafnafjarðar hafi ekki látið sig málið varða? Allt virðist þetta gert í þeim tilgangi að lækka lág laun enn frekar með starfsheitabreytingum.

Samkvæmt atvinnuauglýsingum ( Sjá vef Hafnarfjarðarbæjar) um störf í nýju skipulagi eru gerðar afar takmarkaðar kröfur til starfsmanna (sem reyndar hefur vakið athygli víða og er umtalað í fagumhverfinu). Sjá auglýsingu um Frístundaleiðbeinendur . Starfsfyrirkomulagið byggir að virðist á einhverjum tveimur „farandfagmönnum“ , sem þó þurfa ekki , samkvæmt annarri auglýsingu á sama vef ( Verkefnastjóri frístundastarfs), að hafa viðeigandi háskólamenntun né reynslu af starfsemi af þessum toga. Viðkomandi „fagmenn“ eiga síðan að koma inn á hinum ýmsu starfstöðum sem „sérfræðingar“ þegar að á mæðir og þörf gerist (sbr Excel útfærslu/ bls 13, Greinagerð starfshóps) ? Það er einnig stórkostlegt álitamál hvernig einhver deildastjóri á að starfa sem næsti yfirmaður rúmlega 50 starfsmanna sem vinna á fjölda starfsstaða (bls 13, Greinargerð starfshóps). Þetta er algert metnaðarleysi þar sem markmiðið virðist fyrst og fremst vera að skera ennþá meira niður í þessum mikilvæga málaflokk en gert hefur verið á umliðnum árum og þykir þó flestum nóg um, ekki síst unga fólkinu sem sýndi hug sinn í verki með eftirminnilegum hætt með mótmælum við bæjarskrifstofurnar haustið 2009.

Innleiðing á þessari löngu tímabæru sameiningu hefði mátt útfæra með einföldum og tiltölulega átakalitlum hætti. Grundvallaratriði er að byggja breytingarnar á uppeldisfræðilegum forsendum fremur en einhverjum Excelskjölum. Það sparast strax við sameiningu umtalsverðar fjárhæðir vegna minni kostnaðar við yfirstjórn HS í hverjum skóla . Með aðhaldi, reyndu og góðu fagfólki má útfæra þetta svo vel verði og samlegðaráhrif verði enn meiri. Hitt er svo öllu verra að fjöldi lykilstarfsmanna ÍTH, vel menntuðu fólki á sviði æskulýðsmála , traustu og virtu fagfólki, er svo misboðið að viðkomandi sækja ekki um „niðurfærð“ störf í nýju skipulagi og hverfa á braut. Það er afspyrnu slæmt en segir það sem segja þarf, eru óþægilega skýr skilaboð sem vert er að taka mark á. Í þeim gögnum sem ég hef séð er lítið fjallað um innhald starfseminnar, uppeldisfræðileg markmið, starfsskrá eða annað í þeim dúr. Ég get ekki heldur séð að ágæt umsögn kollega minna í Háskóla Íslands um aukna fagmennsku og mikilvægi menntunar á þessu fagsviði hafi ratað inn í þessa útfærslu (sem nb er að virðist önnur en óskað var umsagnar um )? Það er leitt að horfa upp á þetta klúður sem seint verður flokkað undir fagmennsku. Ég ráðlegg bæjaryfirvöldum eindregið að endurskoða þessa innleiðingu frá A- Ö og framkvæma þetta af einhverjum þeim metnaði og fagmennsku sem er bæjarfélaginu sæmandi. Í því liggja hin faglegu sóknarfæri og raunverulegur „arður“ - Æskan er okkar fjársjóður.

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.águst

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík

Mestu öfugmæli  sveitarfélaga og annara vinnuveitanda í kjaramálum ( s.l. 30 - 40 ár amk) er frasinn að allt fari til andskotans í efnahagsmálum ef laun hækki. Þangað er allt farið og enn hanga viðsemjendur launafólks á grjótharðri láglaunapólitík eins og hundar á roði, við erum ennþá í þessum láglaunpytti.

Ef litið er til sögunnar þá hefur aldrei verið ráðrúm til launahækkana, hvorki í góðærum eða á samdráttarskeiðum. Rök vinnuveitenda hafa hverju sinni verið gaumgæfilega útfærð og ekkert endilega í samhengi við þau sem áður voru eða eftir á komu.  Í góðærum ógna launahækkanir "stöðugleika" og á samdráttarskeiðum "þarf" að leggja niður og draga saman grunnþjónustu ef laun fara yfir fátækrarmörk. Allt rök sem vega að öryggistilfinningu fólks og ala á ótta þess. Svona mætti lengi telja og þegar að mest á mæðir taka talsmenn vinnuveitenda þetta á "tárakirtlunum"  enda eftir nokkru að slægjast, stöðug láglaunapólitík í húfi .

Það sem verra er að margur trúir því að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík sé orsök alls okkar vanda. Þokkalegt sjónvarpstæki og notaður 7 ára gamal fjölskyldubíll er talin orsök hrunsins mikla. Og það að eiga eða hafa þokkalega umgjörð um sig og sína þykir lúxus hérlendis en meðal flestra þjóða talið til grunnþarfa. Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl og varð m.a. til þess að hrunið kom verr niður á okkur en ella.

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter, sem seint verður talið málsvari félagshyggjunnar, birti,  í kjölfar hrunsins hérlendis, m.a. grein í þessa veru. Í greininni var því haldið fram að vegna lágra launa í hinu íslenska samfélagi "allsnægta" þá hefðu íslendingar fjármagnað neyslu sína með lánum fremur en sparnaði af launum eins og ku vera alsiða í nágrannalöndum okkar þar sem ríkari sátt er um skiptingu auðsins en hérlendis. Í stað sanngjarnar tekjuskiptingar í efnuðu íslensku samfélagi hefði fjármagn safnast á nánast einn stað, í bankakerfið sem síðan lánaði öllu sem hreyfðist (m.a ómálga börnum - innskot ÁG) á okur vöxtum með hræðilegum afleiðingum eins og launafólk margt hvert hefur fengið að reyna í kjölfar hrunsins.

Verkalýðshreyfingin þ.m.t. ég sem f.v. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og  f.v. stjórnarmaður í BSRB m.m. höfum ekki staðið okkur sem skyldi á umliðnum árum eða áratugum. ASÍ hefur að vísu átt góða spretti en betur má ef duga skal. BSRB hefur oft verið meira áberandi en um þessar mundir.

Leikskólakennarafélagið sýnir gríðarlegan styrk um þessar mundir. Frammistaða formannsins í Kastljósi þar sem hann blés á og hrakti hefbundin harmakvein kjarasviðs sveitarfélaganna, var afar góð. Það er einlæg von mín að leikskólakennarar nái markmiðum sínum, enda algerlega nauðsynlegt að brjóta á bak þessa grjóthörðu íslensku láglaunapólitík. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans og ekki síst sem liður í því að byggja upp samfélag sem byggir á öðrum gildum en þeim sem komu okkur til "andskotans". Með því að ganga fram fyrir skjöldu og berjast af einurð og festu fyrir bættum kjörum hafa leikskólakennarar sýnt í verki að þeir eru verðugir fulltrúar samfélagsins til þess að innleiða nýja launastefnu, sem er grundvallarforsenda fyrir sátt í samfélaginu.

þriðjudagur, 9. ágúst 2011

Formannsmyndin tilbúin en að vísu á eftir að kjósa

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi, hefur gefið kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Framboðsmyndin er ekki af verri endanum og sómir sér vel innan um myndir af reynslunnar mönnum eins og hér má sjá.

Ólafur Ragnar lét sem kunnugt er taka af sér "forsetamyndina" áður en hann var kosin forseti. Hvort þetta bragð nýtist sjálfstæðismanninn unga skal ósagt látið en óneitanlega verður fróðlegt að fylgjast með hverning til tekst.

Myndin er full íhaldssöm og stöðluð fyrir minn smekk - Nútímatæki eins og gemmsi á borðinu hefði komið þessari mynd inn í 21. öldina og höfðað til fleiri en Félags eldri Sjálfstæðismanna - En hvað með það myndin vekur umfjöllun og þar með er takmarkinu sennilega náð... eða hvað ?