föstudagur, 27. júní 2003

Fundur með bæjarstjóra

Fundur með bæjarstjóra
Átti fund með bæjarstjóra í dag þar sem mál voru rædd vítt og breytt. Áréttaði meðal annars áhyggjur félagsins af málum. Gagnlegur fundur, vonast til að línur skýrist óðum og því fyrr því betra.

Ímynd
Hef verið að velta fyrir mér ímynd bæjarins í miðjum þessum hamagangi. Minnist þessi ekki að hafa lent í fjölmiðlum á umliðnum árum nema í hasarstellingum.

Eitt sinn datt stjórnmálamönnum í huga að lækka laun fjölda fólks einhliða með skerðingu á yfirvinnugreiðslum. Fyrir rúmum fjórum árum voru gerðar skipulagsbreytingar og að auki var tæpum tug starfmanna sagt upp og starfslokasamningar gerðir í löngum bunum. Ekki eru ennþá öll kurl komin til grafar í því brölti og háar skaðabótakröfur á hendur Hafnarfjarðbæ í meðferð dómskerfisins vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar félagsmálastjóra. Núna eru skipulagsbreytingar og einhverjar uppsagnir enn á ný á döfinni.

Velti fyrir mér hvernig á því standi að Hafnarfjörður sé sífellt í málum af þessum tagi meðan að ekki heyrist hósti né stuna frá öðrum bæjarfélögum í þessa veru? Veit það eitt og hef lært á langri vegferð að brölt af þessu tagi hefur ekki góð áhrif hvað ímynd varðar.

Þó svo að ég viti að starfsmenn bæjarins hafa alflestir mikla ánægju af störfum sínum
( samkvæmt könnun STH ) þá er spurning hvernig utanaðkomandi fólk lítur á Hafnarfjarðarbæ sem vinnustað. Er Hafnarfjarðarbær álitlegur kostur? Veit að svo er, en er ekki viss um að það sé hið almenna viðhorf úti í þjóðfélaginu.

Gott starfsfólk er hin sanna auðlegð og að því býr Hafnarfjarðarbær. Þennan auð þarf að fara vel með og umgangast með þeim hætti að hann renni ekki úr höndum manns á stundarkorni vegna einhverra lausataka eða bráðræðis.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli