sunnudagur, 26. febrúar 2006

Vetrarhátíð í Reykjavík

Virkilega fínt upplegg vetrarhátíð þeirra Reykvíkinga. Brá mér af því tilefni í höfðuborgina sl. föstudagskvöld. Fór fyrst á sýningu og tónleika í Listasafni ASÍ. Ingibjörg Jónsdóttir og Guðrún Marínósdóttir sýndu textil. Fínar sýningar hjá þeim báðum. Dúóið Stemma léku íslensk þjóðlög. Flutningur þeirra Heiðrúnar Önnu Jónsdóttur og Steef van Oosterhout var í einu orði sagt frábær en óhefðbundin. Rödd, víóla, steinar og marimbu (Sýlafón) Fínn hljómur í Listasafni ASÍ. Sem sagt stórkostlegir tónleikar innan um falleg og vönduð textílverk Ingibjargar Jónsdóttur.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur var næsti viðkomustaður minn. Erindið - Friðrik Örn og sýning hans „10.000 dagar með myndavél”. Varð ekki fyrir vonbrigðum enda Friðrik meðal okkar allra bestu ljósmyndara. Tækni hans og færni í stafrænni ljósmyndun er með eindæmum og í hæðsta gæðaflokki . Ákaflega góð sýning sem ég hvet alla áhugamenn um ljósmyndalist til að sjá.

Þakka fyrir mig og hefði vilja sjá margt fleira enda dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt og góð. Tek mér örugglega lengri tíma næst. En eins og fólk veit þá er fátt eins gott fyrir sálina og góður skammtur af hágæða kúltur - ekki satt.

laugardagur, 18. febrúar 2006

Tap en þó sigur

Brá mér í Menntaskólann við Hamrahlíð í gærkvöldi. Erindið að fylgjast með ræðukeppni framhaldsskólanna en þar atti Flensborg kappi gegn MH.
Fín keppni í alla staði og góð frammistaða. Þó svo að mínir menn hafi lotið lægra haldi þá er það fínn árangur að ná inn í fjögurra liða úrslitkepnninnar. Flensborgarar eru reynslunni ríkari og leiðin bara upp á við.
Morfískeppnin er gott upplegg og fínn vettvangur menntaskólanema til þess að þjálfa sig í því sem kalla má hornstein lýðræðisins – rökræðunni . Þakka fyrir mig, ánægjulegt kvöld.

mánudagur, 13. febrúar 2006

Glöggt er gests augað

Hitti um daginn Svía sem hér hefur búið s.l. tvö ár. Erindi hans var að ræða við mig um íslensk æskulýðsmál en viðkomandi er að vinna verkefni um þau í framhaldsnámi er hann stundar í Svíþjóð um þessar mundir.

Ekki var hjá því komist að ræða þjóðfélagsþróun almennt hér á landi og viti menn Svíanum fannst ástandið þrungið spennu í meira lagi og í mun meira lagi en góðu hófi gegndi. Ísland væri ákaflega vel stöndugt land efnahagslega en samt væri hagur almennings óviðunandi. Það væri greinilegur ójöfnuður í landinu, verkalýðshreyfingin væri slöpp, matvöruverðið afar hátt , vaxtaokur í bönkunum? Margt fleira í þessum dúr nefndi Svíinn sérstaklega máli sínu til stuðnings.

Hann spurði síðan “ Hvernig getur ungt fólk í þessu landi eiginlega komið undir sig fótunum, stofnað fjölskyldu, skaffað sér þak yfir höfuðið og átt börn? Hvers vegna býr almenningur á Íslandi ekki við sömu kjör og t.d. mitt fólk í Svíþjóð? Endaði hann síðan pistillinn með þeirri fullyrðingu að þessi spenna og ólga í samfélaginu hlyti fyrr en seinna að finna sér útrás og þá yrði sprenging og mikil læti.

Ég var ekki viss, Íslendingar væru sárþjáðir af “Pollýönnu heilkenninu”, yrðu bara spældir í þrjá daga og síðan yrði allt gott og blessað. “Verra gat það verið” hugsa menn og láta þetta yfir sig ganga, allt það sem Svíinn nefndi og fjölmargt annað.

Minnist þess að á námsárum mínum í Svíþjóð, á níunda áratug síðustu aldar, þá hækkaði mjólkurverð um 1% sem var umfram verðlagsforsendur kjarasamninga þess tíma og viti menn allt varð vitlaust, samningar voru samningar. Ekki tóku menn ró sína fyrr en búið var að koma málum til fyrra horfs.

Fór að segja Svíanum að Ísland væri sérstakt og erfitt að bera það saman við önnur lönd, landið væri lítið og allir þekktu alla. Flestir Íslendingar ættu því einhvern ættingja sem væri kvótaeigandi eða framámaður í bankakerfinu eða framkvæmdastjóri í stórmarkað eða yfirmaður hjá olíufélagi. Vegna nálægðar væri því erfitt að taka á þessu, manni væri ekki illa við fjarskyldan frænda sinn sem af dugnaði og eljusemi hefði komið sér upp 900 m2 einbýlishúsi!

Sá sem var að Svíinn gaf ekkert fyrir þessa málsbætur mínar. Varð það þá skyndilega ljóst að ég er sjálfur með “Pollýönnu heilkennið” á háu stigi og það sem verra er, ég er praktíserandi “kóari” ( meðvirkur ) eins meðferðarbransinn kallar oft aðstandendur alkahólista - læt eins og ekkert sé. Lærdómurinn af þessari heimsókn Svíans var því ekki síður minn en hans – glöggt er gests augað

fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Starfsmat

Það eru margir sem velta fyrir sér þessu blessaða starfsmati . Birti hér fólki til glöggvunar mismun á tengingu í Reykjavík og hjá sveitarfélögunum. Stig eru einfaldlega mun verðmeiri í Reykjavík en hjá sveitarfélögunum, sem þýðir á mannamáli að samkvæmt starfsmati þá verða störf sem fá jafnmörg stig í þessu samræmda kerfi lægra launuð hjá sveitarfélögunum en hjá borginni. Ástæður einfaldar launanefnd sveitarfélaga neitaði alfarið í síðustu kjarasamningum að fækka stigum milli launaflokka sem hefði getað bjargað því sem bjargað varð. Neðangreint dæmi sýnir í hnotskurn hvílík mismunun á sér stað:

Reykjavík / Sveitarfélögin þ.m.t. Hafnarfjörður

315 stig = launafl 127 / 119 = 153.765 / 146.763 kr = mism. 7.002 kr
361 stig = launafl 134 / 124 = 170.656 / 158.106 kr = mism. 12.550 kr
400 stig = launafl 141 / 128 = 189.401 / 167.808 kr = mism. 21.593 kr
470 stig = launafl 151 / 138 = 219.808 / 194.748 kr = mism. 25.060kr


Þær tillögur sem launanefnd sveitarfélaga kom fram með til lausnar í yfirstandandi kjaradeilu taka ekkert á þessu máli. Starfsmatið mun því ekkert nýtast sem launamyndunarkerfi nema síður sé ( og til hvers er það þá eiginlega ?). Launanefnd nýtti aðallega krónutöluhækkun sem deyr fljótlega út og mjög fljótlega eftir að allra lægstu láglaununum sleppir.
Til hvers er þá verið að halda úti kerfi ef það er ekki nýtt til lausnar í þeirri krísu verið hefur uppi. Er það vegna þess að launanefnd sveitarfélags vill einungis leiðrétta eins lítið og hugsanlega var hægt að komast upp með?

Það verður að taka bíl úr handbremsu ef akstur á að verða viðunandi . Það verður að tengja starfsmatskerfið við raunveruleikann ef það á að virka. Ný tenging sveitarfélaganna til samræmis við Reykjavík hefði leyst allt það sem leysa þurfti. Það var ekki gert og flokkast auðvitað undir eitt af þeim fjölmörgu “undarlegheitum” sem fylgja þessu blessaða starfsmati. Vegir launanefndar sveitarfélaga eru rannsakanlegir og augljósir. Stefnan kristallast i hinni ... þið vitið hvað ég meina.

mánudagur, 6. febrúar 2006

Dr. Spock og önnur góð bönd

Hljómsveitin Dr. Spock eru engir aukvisar þegar músík er annars vegar. Heyrði í köppunum á föstudagskvöldið í félagsmiðstöðinni Hrauninu. Tilefnið Rokkhljómsveitakeppni Hafnarfjarðar. Þar komu fram fimm efnileg bönd. Úrslit urðu eftirfarandi . Fóbía úr Setrinu vann, í öðru sæti var Própanól úr Hrauninu og í þriðja sæti stelpubandið Fnykur úr Verinu Allt efnileg og góð bönd sem á vonandi eftir að heyrast mikið frá í framtíðinni. Viðtökur hinna fjölmörgu gesta voru mjög góðar og stemmingin fín.

miðvikudagur, 1. febrúar 2006

Fullt hús

Það hafa sennilega verið vel á fimmta hundrað unglingar í félagsmiðstöðinni Öldunni í kvöld. Húsið var algerlega stappað og rífandi stemming. Tilefnið var úrslitakvöld söngkeppni Hafnarfjarðar. Fín keppni fjölbreytt lagaval fínn flutningur en því miður aðeins þrjú efstu í keppninni sem fara í söngkeppni SAMFÉS, hefðu mátt vera mun fleiri miðað við standardinn.

Veit að okkar fólk á eftir að ná langt. Sigurvegarinn Berglind Björk, fremst meðal jafningja, úr félagsmiðstöðinni Verinu, söng lagið Líf snilldarlega og fer sennilega langt í SAMFÉS keppninni. Virkilega ánægjulegt kvöld og öllum til sóma