föstudagur, 23. nóvember 2012

Núna drekkur James Bond bara kók zero


Undanfarið hefur njósnari hennar hátignar James Bond, eða 007 eins og hann er auðkenndur í starfsmannaskrá MI6, birst okkur í tíma og ótíma, meðal annars í sjónvarpi allra landsmanna RÚV. Fyrir utan það að vera í miklum önnum þá er aðal mission-in í auglýsingu um nýjustu mynd kappans „Skyfall“ að ná sér í áfengi, bjórtegund eina sem ku vera „léttöl“ eins og alsiða er að auglýsa af hálfu framleiðenda og innflytjenda áfengis. Kvöld eftir kvöld sýnir, eða réttara sagt sýndi, RÚV þessa áfengisauglýsingu á prime time.

Siv Friðleifsdóttir, okkar ágæta þingkona, er ein þeirra fjölmörgu sem ekki var sátt við þessa illa dulbúnu áfengisauglýsingu. Hún gerir sér lítið fyrir, hringir í helstu verslanir landsins og spyr um „léttölið“ og fær þau svör úr öllum áttum að það sé ekki til, hafi aldrei fengist og sé sennilega ekki einu sinni framleitt?

Núna drekkur Bond bara kók og það zero í tíma og ótíma. "léttölið" ófáanlega með öllu horfið úr auglýsingunni og þess í stað  sýnir 007 nú afar einbeitta ásókn í kók zero.  Það reynist honum örugglega betur í mikilvægum störfum sínum en áfengið. Hvort þetta sé þingmanninum ágæta að þakka eða „kenna“ skal ósagt látið. Þetta einstaka kapp áfengisinnflytandans við að auglýsa vöru sem ekki er til, er utan þeirrar almennu greindarfarskröfu sem að öllu jöfnu er gerð til forsvarsmanna fyrirtækja og sem slíkt umhugsunarvert í meira lagi.

Eftir situr spurningin hvers vega er ekki gefin út ákæra á þá fjölmiðla sem brjóta lög er varða sjálfsögð réttindi barna og ungmenna til að vera laus við áfengisáróður sbr. þessi áfengisauglýsing? Er nóg fyrir RÚV og aðra fjölmiðla að segja sorry og halda síðan áfram eins og ekkert hafi í skorist. Er lögregluyfirvöldum lífsins ómögulegt að standa vörð um augljós réttindi ungmenna – Maður spyr sig ...aftur og aftur?