fimmtudagur, 25. maí 2006

Á ekki Silvía Nótt bróðir?

Er búin að vera erlendis síðustu daga. Sem sænskmenntaður vandamálafræðingur set ég mig aldrei úr færi við að lesa sænsku pressuna. Fékk vænan skammt af henni á Kastrup flugvelli.

Tók andköf af hlátri þar sem ég var að lesa hið “virta” sænska Aftonbladet sem er af sama kaliberi og DV heitið var þegar að það var verst. Málefnið hin albrjálað Silvía Night sem hafði lamið elskuhuga sinn til óbóta, formælt öllu milli himins og jarðar og eftir það horfið upp í rjáfur og hótað að henda sér niður. Allt þetta út af verðskulduð slöku gengi stjörnunnar. Daganna áður hafði blaðið einnig fjallað um íslensku stjörnuna sem m.a. hafði skellt hurð hjá sænsku dívunni Carolu og það sem verra að deginum áður hafði Silvía áreitt hina ofurtrúuðu sænsku söngkonu kynferðislega. Af þessu öllu hafði talsmaður íslenska hópsins verulegar áhyggjur að sögn blaðsins.

Niðurstaðan einföld engin veit lengur hver er að gera grín að hverjum. Silvía að pressunni og pressan að fólkinu eða bara allir að öllum. Sennilega hefur engin önnur eins “stjarna” mætt á svæðið og Silvia. Við verðum einhvern veginn að halda áfram með málið. Spurning hvort Silvía á bróður sem gæti mætt með eitthvert “austantjalds moll” í næstu keppni eða það sem væri hugsanlega betra – er ekki komin tími til að senda Árna Johnsen í Evróvision?

þriðjudagur, 23. maí 2006

Af bæjarstjórum

Ég hef yfirleitt sem formaður STH átt í ágætu samstarfi við þá bæjarstjóra sem í Hafnarfirði hafa starfað. Vissulega hefur oft á tíðum hvesst nokkuð hressilega en einungis í örfáum tilfellum hafa viðkomandi bæjarstjóri / ar ekki gert greinarmun á því hvaða hlutverki ég gegni hverju sinni. Sem embættismaður lýt ég hinu pólitíska valdi og framkvæmi af trúmennsku það sem fyrir mig er lagt. Sem formaður stéttarfélags hef ég þá undanbragðalausu skyldu að verja hagsmuni félagsmanna í hvívetna sem talsmaður þeirra. Í þeim efnum hafa yfirmenn embættismannsins ekkert forræði eða húsbóndavald. Þetta er lykilatriði sem einhvern tímann hafa því miður verið misskilin.

Ég hef ávallt átt gott samstarf við Lúðvík Geirsson. Gott samstarf byggir á trausti, hreinskiptni í samskiptum og ekki síst gagnkvæmum skilningi á þeim margvíslegum og flóknu málum er upp koma í starfsmannamálum. Tel að ágæt samskipti mín við bæjarstjóra byggi m.a. á þessum þáttum. Sama get ég ekki sagt um samskipti mín við þessa svokölluðu launanefnd sveitarfélaga og eða fulltrúa hennar. Enda hef ég talið það Hafnarfjarðarbæ helst til vansa að leggja lag sitt við það apparat. Hef ekki trú á öðru en að bæjarfélag eins og Hafnarfjörður komi sér út úr því “bandalagi” strax og kostur verður og afturkalli fullnaðarumboð sitt til nefndarinnar. Væri vel við hæfi og staðfesting á því að Hafnarfjarðarbær ætli sér í fremstu röð í starfsmannamálum.

fimmtudagur, 11. maí 2006

Akranesbær gefst upp á launanefnd sveitarfélaga

Akranesfélagið mun hugsanlega ganga inn í Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar – Akranesbær óskar í kjölfarið eftir því við Reykjavíkurborg að hún taki yfir samningsumboð sitt vegna starfsmanna á Akranesi?

Til hvers allt þetta brölt . Málið einfalt Akranesbær losnar undan þeirri skussastefnu sem launanefnd sveitarfélaga hefur haft uppi í launamálum, starfsmenn fá Reykjavíkursamninginn að öllu leyti og ekki síst þá gildir starfsmat og starfsmatstenging Reykjavíkurborgar. Sem sagt allur þessi leikur til þess eins gerður að rétta kjör starfsmanna Akranesbæjar án aðkomu launanefndar sveitarfélaga!

Krýsuvíkurleið, ekki spurning. Sennilega eina leið bæjarfélagsins til þess að losna undan launanefnd án verulegra óþæginda? Þurfa sveitarflögin í landinu að afsala samningumboði sínu til höfuðborgarinnar til þess að fólk fái starfsmat sem virkar? Kjánaskapur að öllu leyti og óþarfi en eitt af fjölmörgum merkjum þess um að verulega sé farið að vatna undan launanefnd sveitarfélaga.

Annað merki er það að Mosfellsbær er að taka upp Reykjavíkurtengingar starfsmatsins gagnvart sínu starfsfólki. Það er gert án þess að velta bæjarfélaginu og starfsmannafélaginu á annan endann enda verulegur efi um að endurskipuleggja þurfi heilu og hálfu bæjarfélögin til þess að komast undan samþykktum launanefndar.

Fyrir áhugfólk um stjórnsýslu birti ég hér úrdrátt úr fundargerð bæjarráð Akraness:

„3. Viðræður við stjórn Starfsmannafélags Akraness. Til viðræðna mættu Valdimar Þorvaldsson formaður, Hafdís Sigurþórsdóttir, Anna Pála Magnúsdóttir og Emilía Árnadóttir.Stjórn St.Ak. afhenti bæjarráði svohljóðandi yfirlýsingu:

“Stjórn Starfsmannafélags Akraness hefur ákveðið að óska eftir formlegum viðræðum við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um sameiningu félaganna þannig að samþykktir Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar gildi um hið sameinaða félag eftir samrunann. Verður boðað til almenns félagsfundar í Starfsmannafélagi Akraness á næstunni þar sem leitað verður heimildar félagsmanna til samninga um þetta efni.”

Eftirfarandi bókun var lögð fram af meirihluta bæjarráðs:
“Á undanförnum árum hefur samvinna og samstarf milli Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar stöðugt aukist. Nægir þar til að nefna samstarf í Orkuveitu Reykjavíkur, sameiningu hafna við Faxaflóa og almenningssamgöngur. Svæðið er því orðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Akraneskaupstaður samþykkir því að leitað verði eftir samvinnu við Reykjavíkurborg um launa- og kjaramál, enda verði tillaga stjórnar Starfsmannafélags Akraness um sameiningu þess félags við Starfsmannafélag Reykjavíkur samþykkt á almennum félagsfundi og Reykjavíkurborg samþykki fyrir sitt leyti að gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað verði á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Ákvörðun þessi er tekin að fenginni yfirlýsingu Starfsmannafélags Akraness um viðræður um sameiningu félagsins við Starfsmannfélag Reykjavíkurborgar. Bæjarstjóra og bæjarráði er falið að óska eftir viðræðum við borgaryfirvöld um málið.”Bæjarráð samþykkir bókunina

þriðjudagur, 9. maí 2006

Gott mál

Er ánægður með þá nýbreytni Hafnarfjarðarbæjar að setja upptökur af fundum bæjarstjórnar inn á ágætan vef bæjarins. Ekki það að maður liggi yfir umræðunum, heldur hitt að það er afar praktískt að geta hlustað á það sem maður vill eða þarf þegar að það hentar manni í stað þess að "heyra út í bæ af umræðu" eða þurfa að hlusta á allan fundinn. Sjón (og heyrn) er sögu ríkari
http://www.hafnarfjordur.is/bhfundur/