laugardagur, 26. ágúst 2006

Unglingar eru líka fólk

Fagna niðurstöðum persónuverdar þar sem skóla í Sandgerði er gert óheimilt að neita unglingi í félagsmiðstöðinni um að kaupa miða á SAMFÉS hátíð á grundvelli mætingaskrá skólans. Að straffa nemendur í gegnum þriðja aðila er út úr korti og brot á öllum grundvallar mannréttindum og ekki síst rétti ungs fólks til einkalífs.

Í Morgunblaðinu, í dag 26. ágúst, segir:
„PERSÓNUVERND hefur kveðið upp úrskurð um meðferð upplýsinga um mætingar í grunnskóla en kvartað var yfir notkun á upplýsingum um mætingar í Grunnskóla Grindavíkur. Tilefni kvörtunarinnar var að nemanda Grunnskóla Grindavíkur var meinað um aðgöngumiða á hátíð fyrir unglinga sem haldin var á vegum samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, Samfés, þar sem hann hafði ekki sýnt viðunandi skólamætingu.”


Og áfram heldur Mogginn:
„Kennari við skólann, sem jafnframt vann að félagsmálum á vegum Grindavíkurbæjar, fékk listann þannig í hendur. Þegar kom að því að útdeila miðum á umrædda hátíð setti hún það skilyrði fyrir úthlutun að skólasókn yrði að vera í lagi og notaði listann síðan sem viðmið fyrir það. Úthlutun miða á Samfés-hátíðina var ekki liður í starfi hennar fyrir grunnskólann, heldur fyrir félagsmiðstöðina.”


Unglingar eru líka fólk – ekki bara skólafólk. Unglingar eiga sitt einkalíf fyrir utan skólann. Ekki er ódælum kennara gert óheimilt af skólastjórnendum að mæta í leikhús? Unglingum sem einhverra hluta vegna eiga í erfiðleikum í skólakerfinu eru og eiga að vera velkomnir í félagsmiðstöðvar enda margir einstaklingar sem hafa náð sér á strik gegnum það ágæta starf sem félagsmiðstöðvar um allt land halda úti. Tilgangslaust og engin lausn að loka öllum dyrum á ungviðið, þó baldið sé, og hefur ekkert pedagogiskt gildi nema síður sé.

föstudagur, 18. ágúst 2006

Ansans fordómar eru þetta

Um daginn var umfjöllun um veggjalist (grafiti) í Fréttablaðinu á afar neikvæðum nótum; þetta væri mikil plága og borgin öll orðin útkrössuð. Umfjölluninni fylgdi hins vegar mynd af glæsilegu vegglistaverki?

Skemmdaverk geta verið af ýmsum toga og eitt af þeim er krass á veggi og á ekkert skylt við veggjalist þó svo allt og oft sé fjallað um það í sömu andrá. Afar slæmt þegar að fólk gerir ekki greinarmun á þessu tvennu og setur þetta undir sama hatt. Staðreyndin er sú að víða gefur að líta verulega vönduð verk hjá ungu og efnilegu listafólki. Hvet allt listelskandi fólk til þess að gefa þessari listgrein gaum.

Leiðilegt hve umræða um ungt fólk verður oft fordómafull sbr. veggjalistina – Veit ekki hvort fólk vill frekar steingráa og ískalda veggi í undirgöngum fremur en veggjalist. Gleymum því ekki að okkar þekktasti “veggjakrotari” hét Jóhannes Kjarval

fimmtudagur, 10. ágúst 2006

Nokkrir góðir dagar án fistölvu

Hef lítið skrifað inn á dagskinnuna undanfarið. Hef verið á ferðalagi um landið og verið í afar takmörkuðu tölvusambandi. Bið þá sem hafa verið að senda mér póst velvirðingar á skeytingarleysinu. Verð komin til byggða um miðjan mánuðinn og vind mér þá í að svara þeim erindum sem borist hafa.

Annars hinn kátasti eftir að hafa skondrast um fjöll og firnindi síðustu 10 daga. Ákaflega fallegt landið okkar og skiljanlegt að afar þéttbúandi Evrópubúar vilji gjarnan sækja okkur heim.