fimmtudagur, 28. apríl 2011

Hve lágkúruleg getur hin pólitíska umræða orðið - eru engin mörk?

Umræður stjórnmálamanna margra hverra eru fjarri því lausnamiðaðar - snúast um einhverjar "pólitískar keilur" að mati viðkomandi en hljóma í eyrum flestra annarra sem rakalausar dylgjur, dónaskapur og ærumeiðingar.
Dæmi um slíkt er meðfylgjandi frétt í Fréttablaðinu 28/4 2011 .  "Málflutningur" sem er engum boðlegur og sýnir í hnotskurn hvers vegna stjórnmálmenn njóta takmarkaðs trausts. Tek heils hugar undir með Nóbelsskáldinu sem sagði með réttu "er ekki komin tími til þess að lyfta umræðunni á hærra plan. Vandinn er vissulega ærin en "umræða" af þessum toga gerir bara illt verra.

sunnudagur, 17. apríl 2011

Í upphafi skyldi endinn skoða

Samfélag dagsins í dag og sífellt flóknari samfélagsgerð kallar á sérhæfingu og ekki síst hvað varðar uppeldismál. Frístundaheimili eru einn angi hinna nýju viðfangsefna samtímans hérlendis. Að vísu tiltölulega seint fram komin hér á landi miðað við Norðurlöndin til dæmis. Á þeim vettvangi lýtur starfsemin sérstöku fagumhverfi (fritidspedagogik) og hefur um margra áratuga skeið þróast sem starfsemi er lýtur allt öðrum forsendum en hefðbundið skólastarf.
Á Íslandi kallaðist þessi starfsemi, víða til að byrja með, „lengd viðvera“ sem sagði allt sem segja þarf um faglega stöðu starfseminnar og innihald a.m.k. í upphafi. Sá sem þetta ritar vann að úttekt á stöðu þessara starfsemi í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum sem þáverandi yfirmaður æskulýðs- og tómstundarmála hjá bæjarfélaginu. Þar kom m.a. fram að starfsemin sem þar var nefnd „heilsdagsskóli“ var fyrst og fremst samheiti en ekki hugtak eins og t.d . félagsmiðstöð eða skóli.

Starfsemin var eins ólík og staðirnir voru margir og mótuðust fyrst og fremst af viðkomandi starfmönnum sem ekki voru gerðar neinar sérstakar kröfur til hvað varðar menntun eða reynslu á þessum vettvangi. Þetta var sá raunveruleiki sem blasti við ekki bara í Hafnarfirði heldur víða um land. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa nú ákveðið, eftir tilraunatímabil, að færa starfsemi „heilsdagsskóla“ að öllu leyti undir ÍTH (Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar) sem er gæfuspor alveg eins og það var afar skynsamlegt á sínum tíma hjá borgaryfirvöldum að færa frístundaheimilin undir ÍTR (Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur). Starfsemi sem var í kjölfarið tekin til gagngerrar endurskoðunar frá A- Ö. Innra starf, starfsaðferðir, fagmennska, starfsskrá, endurmenntun og menntun starfsfólks o.fl. Með öðrum orðum starfsemin öðlaðist innhald og sundurlausu samheiti var breytt í hugtakið frístundaheimili. Starfsemi frístundaheimilanna var faglega samræmd og rekin í sama anda hvar sem var í borginni, út frá bestu manna þekkingu hverju sinn og af fagmennsku sem einkennir allt starf ÍTR. Árangurinn hefur verið góður enda foreldrasamfélagið afar sátt ef marka má þær kannanir sem gerðar hafa verið um slíkt og sama á við um starfsfólk frístundaheimilanna en sömu kannanir sýna mikla starfsánægju þess. Sem sagt vaxandi starfsemi sem byggir á fagmennsku og hefur allar forsendur til þess að verða enn betri fá hún frið til þess.

Í þessu ljósi eru þær breytingar illskiljanlegar sem borgaryfirvöld áforma um að færa forræði starfseminnar að einhverju leyti aftur yfir til skólanna og jafnvel með því fororði að skólastjórar séu yfirmenn alls þess starfs sem fram fer innan skólanna? Fyrir slíkt fá viðkomandi allnokkrar aukagreiðslu sbr. kjarasamninga, þó svo að viðkomandi komi ekkert að starfinu að öðru leyti. Og svo hitt að kennarar komi í auknum mæli inn í starfið? sbr. skýrslu starfshópsins. Við Menntavísindasvið HÍ fer fram afbragðsgóð kennaramenntun eins og skólar landsins hafa ekki farið varhluta af. Þar fer reyndar einnig fram afar fjölþætt menntun á sviði uppeldismála m.a. í heildstæðu BA og M.Ed námi í Tómstunda- og félagsmálafræði og úr þeim ranni kemur fagfólk og sérfræðingar á sviði frístundaheimilanna. Sérþekking kennara er ekki á þessu sviði enda tómstunda- og félagsmálafræði ekki hluti af kennaranámi. Tómstunda- og félagsmálafræðingar eru ekki mikið í stærðfræðikennslunni enda lítið lært formlega til þeirra verka og margir sem hefðu efasemdir um ágæti slíks fyrirkomulags. Sama á auðvitað við um kennara sem starfa á öðrum vettvangi en sínum.

Það liggur ekkert annað fyrir en að starfsemi frístundaheimila á vegum ÍTR sé afar vel viðunandi og í því ljósi er erfitt að átta sig á hvað tilgang breytingar af þeim toga sem fram koma í skýrslu starfshóps á vegum borgarinnar þjóna. Það liggur fyrir hvernig starfseminni var háttað áður en ÍTR var falin umsjá hennar. Grundvallarspurningin er því sú hvort einhverjar þær gagngeru breytingar hafi átt sér stað í skólakerfinu síðustu ár sem gera það að verkum og réttlæti breytingar af þeim toga sem tíundaðar eru í skýrslu starfshópsins. Ég get ekki séð það og finn því hvergi stað í skýrslunni. Í hana vantar allar forsendur, faglegt mat á starfseminni og ekki síst hverju væntanlegar breytingar eiga að skila umfram það sem nú er? Ég skora á borgaryfirvöld að draga þessar hugmyndir til baka en vinda sér þess í stað að styðja við og byggja upp þessa afar mikilvægu starfsemi í fullri sátt við fagumhverfið og útfrá þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Árni Guðmundsson M.Ed . sérfræðingur í æskulýðsmálum – starfsmaður á Tómstunda- og félagsmálafræðabraut MVS

mánudagur, 11. apríl 2011

Allir eiga sér sitt eigið Icesave

Icesave málið er „lang besta deila“ sem skotið hefur upp kollinum í Íslensku samfélagi um áratugaskeið. Deilan býður upp á eins marga fleti og hverjum og einum sýnist. Hugmyndir og tilfinningar verða í hita leiksins að staðreyndum sem verða grunnur að umræðum sem leiða til einhverra þeirra ályktanna sem smella passa við skoðanir og eða tilfinningar viðkomandi þá stundina og skipti í engu hvora hliðina menn studdu.

Þannig gátu pólitískir hugmyndasmiðir hrunsins stillt sér upp við hlið fórnarlamba hrunsins og mælt einum rómi mót því að samþykkja Icesave þó svo að á allt öðrum forsendum hafi verið. Annars vegar hinn eindregni vilji að koma ríkisstjórninni frá og komast til valda með hvað ráðum sem hægt er og hins vegar venjulegt fólk sem er stútfullt af réttmætri reið vegna hræðilegra aðstæðna í kjölfar hrunsins. Venjulegt fólk og flokkshestar í grímubúningum og allt þar að milli, allir eiga sitt eigið Icesave. Dæmi um gæðin í deilunni er þegar að forsetinn í baráttu við heimskapítalismann er orðin ein helsta fyrirmynd hugmyndasmiðs nýfrjálshyggjunnar hér á landi. Samsinnungar hvor af sínum pólitíska kanti. Það er af sem áður var – sama ferð sitt hvor tilgangurinn ? Allir eiga sitt eigið Icesave sem sameinar hið ólíklegast fólk og sundrar öðru.

mánudagur, 4. apríl 2011

Músiktilraunir og Íslenska óperan

Þá er velheppnuðum Músiktilraunum lokið. Umgjörðin sem fyrr frábær í alla staði og afar viðeignandi að hafa lokakvöldið í Íslensku óperunni. Sem endranær tóku þátt fjöldi efnilegra listamanna, fjölbreytt tónlist, frábær flutningur og sköpunargleðinn í fyrirrúmi. En eitt árið í glæsilegri 30 ára sögu Músiktilraunanna sem eru sannkallaður stökkpallur fyrir ungt tónlistarfólk eins og dæmin sanna, nánast allir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar hafa einhverja snertingu við Músíktilraunir í upphafi á sínum ferli.
Það eru margir sem hafa lagt hönd á plóginn til þess að gera þennan menningarviðburð að veruleika. Fyrir utan listfólkið og starfsmenn Hins Hússins (HH)  er framlag fólks eins og Markúsar Guðmundssonar framkvæmdastjóra  HH, Ásu Hauksdóttir deildastjóra  menningarmála í HH, Hauks Harðarsonar tæknigúrús HH, Óla Palla á Rás tvö og Árna Matthíassonar blaðamanns á Morgunblaðinu algerlega ómetanlegt. Allt hefur þetta fólk hvert á sínum sínum vettvangi stuðlað að velheppnuðum Músiktilraunum ár eftir ár og unnið að því af miklum metnaði og meira eða minna í sjálfboðavinnu.

föstudagur, 1. apríl 2011

Ferlegt að missa gott fólk

Jakob F. Þorsteinsson og eiginkona hans Vanda Sig. samstarfsfólk mitt við Tómstunda- og félagsmálafræðibrautina við MVS HÍ eru að flytjast af landi brott. Er auðvitað ekki gott en skiljanlegt eins og ástandið er hérlendis.
 Kobbi hefur fengið fína stöðu við Inverness College UHI sem er hluti af   University of the Higlands and Islands  háskólanum  en þar var hann m.a. við nám  þegar hann vann að afar vandaðri M.A ritgerð sinni um útinám. Kobbi er okkar fremsti sérfræðingur í öllu sem viðvíkur informal education og outdoor learnig and leisure og mun stýra þeirri deild háskólans í Inverness.

Það er auðvitað ekki einfalt að flytjast á milli landa en svo heppilega vill til að Vanda sem stundar doktorsnám við HÍ getur einfaldlega unnið að því verkefni frá Skotlandi,. Hitt svo annað mál að Vanda mun sennilega taka að sér þjálfun  Innverness City Ladies Fotball Club en liðinu hefur gengið afar illa í skosku kvennadeildinni, eru í næst neðsta sæti og verulega farið að hitna undir núverandi þjálfara, sem vægast sagt er afar umdeildur. Ég óska þeim velfarnaðar í mikilvægum störfum en ljóst að það verður skarð fyrir skildi í deildinni okkar næstu misserin.