fimmtudagur, 26. maí 2005

Þjóðarskúta siglir í strand

Kristján Ragnarsson var ákaflega farsæll hagsmunagæslumaður íslenskra útvegsmanna. Það skipti engum togum , ef allir fiskarnir í sjónum í kringum landið voru ekki á hraðferð inn í botnvörpur hans manna sem þinglýst eign , þá mætti hann í fjölmiðla og tárbunan stóð út úr báðum augunum beint upp í loftið. Þjóðfélagið færi algerlega á annan endann, kreppa hæfist,landið legðist í auðn og ýmis önnur óáran myndi dynja fólkinu.

Kalla þetta að vinna mál “á tárakirtlunum”. Skil reyndar ekki hvers vegna þessi pæling kemur upp í huga mér í miðri kjarasamningalotu hér í Karphúsinu?

Sennilega eru það þau miklu ótíðindi sem hér hafa farið um sali eins og eldur um sinu, sem þessu valda. Tíðindin um hina verulega bágu fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, sem ku vera að fara á hausinn umvörpum og því ekki nokkurt vit í að stefna fjármálum þeirra í frekari óefni en komið er. Ef fram fer sem horfir þá mun .... og svo framvegis!

Líklega best að allir peningarnir fari á einn stað rétt eins og fiskarnir, hugsar maður með sér. Vitandi það að oft veltir lítil þúfa stóru hlassi og ekki viljum við smælingjarnir sem nefndir erum bæjarstarfsmenn verða þess valdandi að allt fari á anna endann í þjóðfélaginu vegna ofurlaunakrafna okkar í kjarasamningum.
Þá er nú betra að þiggja bara það sem að manni er rétt og lána viðkomandi aðilum vasaklút – ekki satt?

þriðjudagur, 24. maí 2005

Vírus

Ég á í hinum mestu brösum með email þessa daganna því að í tölvu mína hljóp óværa mikil og hef ég því með engu móti getað svarað þeim fjölmörgum póstum sem til mín berast.

Um er að ræða póstföngin addigum@simnet.is og arni.gudmunds@simnet.is. Vonast ég til þess að maskínan komist í fyrra horf á næstu dögum. Þangað til er best að senda erindi til formanns STH á póstfangið sthafn@simnet.is

Veit ekki hvað er að þessu liði sem af einlægum ásetningi eyðilegur tölvur fólks með því að senda vírusa út og suður - sorglegt og sé sem er að verkefni uppeldisfræðinnar ( og sálfræðinnar) eru óþrjótandi a.m.k. meðan óvitar á öllum aldri hegða sér með þessum hætti.

miðvikudagur, 18. maí 2005

Opinberir starfsmenn i Danmorku

Eru þeir aðilar vinnumarkaðarins sem njóta mests trausts i Damnörku. Og fremstir meðal þeirra eru pedagogarnir sem starfa m.a. við félagsmiðstöðvar,leikskóla, tómstundaheimili og í skólunum.
Danir treysta hins vegar ekki, eða i besta falli, afar illa bílasölum og blaðamönnum. Ekki eru launin i nokkru samræmi við þetta hvorki i Danmörku né á Íslandi.

Þetta og margt annað höfum við verid ad ræða hér í Brussel á EPSU fundi( samtök evrópskra verkalýðsfélaga - bæjarstarfsmannadeildin )
Það hefur einnig komði í ljós að réttindi launafólks i þeim löndum sem nú eru að koma inn i Evrópusambandið eru afar slopp. Í Rumeníu er allt selt og einkavætt sem hugsast getur og ríflega það. Í Tyrklandi eru réttindi veigalítil og ekki i nokkru samræmi við Það sem áunnist hefur t.d. i Skandinaviu og i norður Evrópu. Fleirri dæmi mætti nefna en það bíður betri tima.

Sé sem er að ströglið og baráttan hjá íslenskri verkalýðshreyfingu i gegnum árin hefur svo sannarlega skila árangri. Þó svo ad maður vilji stundum gleyma því. Við megun svo sannarlega ekki sofna a verðinum.

miðvikudagur, 11. maí 2005

Vísað frá dómi

Máli verkalýðsfélagsins Hlífar vegna útboðs Hafnarfjarðabæjar á ræstingum var vísað frá Félagsdómi. Phyrosarsigur fyrir Hafnarfjarðarbæ myndi ég telja enda herkostnaður mun meiri en landvinningar í þessu máli. Liggur í augum uppi þar sem málið snertir fjölmargar fjölskyldur hér í bæ og lífsafkomu þeirra með einum eða öðrum hætti.

Finnst einhvern vegin að bæjarfélög hafi ríkari skyldur gagnvart starfsfólki sínu en praktíseraðar hafa verið í þessu máli. Fyrirtækið Sólar fær töluvert fyrir sinn snúð enda ekki í góðgerðarbransanum. Vinnuframlag ræstingarfólks (sem eru mun færri en voru) er nú 3 - 4 sinnum meira en var en kaupið í besta falli það sama ?
Veit það ekki - ræstingarfólk og bágborin kjör þess, er það eitthvað til að krukka í ?

miðvikudagur, 4. maí 2005

Fáir hveitibrauðsdagar !

Hver segir að lífið eigi að vera eins og dans á rósum? Veit það sem verkalýðsforingi að slíkt er víðs fjarri. Datt þetta í hug í kjölfar þess að nokkrir fyrrverandi félagsmenn STH hafa undanfarið borið sig aumlega við sinn fyrrum foringja.

Lofuð himnasæla sem virtist blasa við á næsta leyti við það eitt að skipta um félag, lætur eftir sér bíða. Sú eina sanna launanefnd sveitarfélaga það eina sem blasir við sem fyrrum og hefur í engum breytt í sínum ranni enda ekki við slíku að búast.

Einn vinur minn taldi sig og “sitt fólk” t.d. vera að fara í sérstakar einkaviðræður við Hafnarfjarðarbæ, viðræður sem aldrei urðu og viðkomandi félagi einfaldlega vísað í röðina hjá launanefnd sveitarfélaga til þess að ræða sín mál á landsvísu.
Annar hafði beinlínis lækkað í launum, þrátt fyrir hækkun grunnkaups, vegna yfirvinnusamninga sem gilda að sjálfsögðu eingöngu varðandi STH félaga.

Einhver veruleg álitamál virðist einnig vera uppi varðandi lífeyrissjóðsaðild enda svo að viðkomandi félag hafa enga aðra lífeyrissamninga en við LSR eða LSS sem hvorugur hefur s.k B deild sem er að öllu leyti verðmætari.?
Orlofsmöguleikar eru afar lélegir og endurmenntunarmál fjarri því að vera viðunandi.

Við sem erum í forsvari félaga og vinnum af ábyrgð getum ekki leyft okkur að búa til eitthvað tilboð eða yfirboð sem síðan reynist innstæðulaust þegar á hólminn er komið. Fyrir okkur , sem með þessu erum gerð að dugleysingjum, gildir bara það eitt að vinna áfram með markvissum hætti og treysta á samstöðu félagsmanna. Annað er skrum og ábyrgðarleysi.

Fyrir okkur eru það ekki nein ný sannindi að kjarabætur koma ekki af sjálfum sér og félagsaðild á ekki að byggjast eingöngu á því hvað “félagið” getur gert fyrir einstaklinga. Virkni félagsmanna og félagsleg samstaða eru þau gildi sem virka – félagið eru bara félagsmennirnir – Það fer engin langt ef viðkomandi nennir ekki að ganga – hvorki í gömlu skónum né öðrum notuðum skóm. Sjálfgangandi skór eru ekki til fremur en “stéttarfélag” sem færir “félagsmönnum” á silfurbakka allt það sem hugurinn girnist.

Verkalýðsbarátta er eins og gangan endalausa, það er ekki fyrir búið að klífa eina hæðina þegar að sú næsta blasir við. Verkefni eru óþrjótandi, það eru mörg ljón í veginum og ekki á vísan að róa hvað framvindu varðar. Á slíkri vegferð þurfa allir að leggjast á eitt og affarasælast að ganga einu liði fremur en mörgum smáum og dreifðum.

sunnudagur, 1. maí 2005

1. maí og blessað vatnið okkar

Okkar ágæti formaður BSRB Ögmundur Jónasson hélt ræðu dagsins hjá okkur Hafnfirðingum á 1. maí. Ögmundi mæltist afar vel sem endranær. Fín ábending um hin sönnu gildi og markmið samfélagsins. Sennilega ein besta og kjarnyrtasta ræða sem hér hefur verið flutt á 1. maí. Ánægjulegt að fá formann BSRB til okkar á þessum degi. Ræða Ögmundar sem er hin besta lesning er HÉR

Eitt af því sem Ögmundur ræddi um var vatnið og einkavæðing þess. Björn nokkur Ingi varaþingmaður Framsóknar setur málið í samhengi eins og þeim flokki er einum lagið og segir á heimasíðu sinni:

“Ögmundur Jónasson hefur einnig verið óþreytandi á þingi við að gagnrýna öll áform um breytingu á rekstrarformi vatnsveitna í landinu. Engu má breyta í þeim efnum, ekki einu sinni færa til nútímahorfs, því það stríðir að mati Ögmundar gegn almannahagsmunum. Undir þetta hafa svo félagar Ögmundar að sjálfsögðu tekið undir á þingi og í fjölmiðlum.

Og hvað gerðist svo í vikunni? Jú, mjög óvænt tók stjórn BSRB upp á því að ræða um málefna vatnsveitna á fundi sínum, enda augljós tenging fyrir verkalýðsfélög og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa ályktað um þessi mál.”


og seinna í sömu grein segir Björn:

“Það er naumast hvaða tengingar Vinstri grænir hafa inn í BSRB, sérstaklega stjórnina! Það getur ekki verið að Ögmundur, þingflokksformaður VG, sé að blanda sínum málum inn í störf sín sem formaður BSRB. Það getur bara ekki verið.
Á meðan launþegar hafa svona forystu, sem heldur sig við aðalatriðin og er ekki sí og æ að blanda sér í pólitísk deilumál, eru þeir í góðum málum...”



Birni til fróðleiks má benda að á heimasíðu Starfsmannafélags Hafnarfjarðar hefur verið um langa hríð tengill þar sem m.a má nálgast skýrslu um hina afar misheppnuð einkavæðingu Vatnsveitunnar í Grenoble. Ráðagerð sem kostað almenning stórfé. Þar er einnig bent á úttektir sem Háskólinn í Greenwich hefur gert á einkavæðingu víðsvegar í veröldinni.

Að BSRB sé að ganga einhver sérstakra erinda formannsins eða Vinstri grænna er auðvitað jafn mikil della og slagorð Framsóknarflokksins sem búið var til á auglýsingastofu hér um árið og hljóðaði: “Fólk í fyrirrúmi”

Einkavæðing og afleiðingar hennar snertir launafólki í þessu landi svo sannarlega og þessar kerfisbundu eignatilfærslur frá samfélaginu til útvalinna góðvina ríkistjórnarflokkanna sem Björn og hans félagar baksa við dag og nótt eru allra síst í þágu almennings.

Einkavæðing og hin neikvæðu áhrif hennar hafa því um langt skeið verið til umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar bæði hérlendis og erlends. Á því hefur verið full þörf og hvað okkur BSRB félaga varðar þá höfum við verið svo heppin að eiga formann sem hefur tekið þessi mál upp og staðið að opinberri umræðu sem svo sannarlega hefur ekki verið vanþörf á.

Umræðan um einkavæðingu vatns er fjarri því ný, þó svo að varaþingmanninum komi hún í opna skjöldu. Undrum varaþingmannsins er sérkennileg og ekkert annað í stöðunni en það eitt að hvetja hann til þess að fylgjast betur með umræðunni.