þriðjudagur, 29. mars 2005

Af smokkum

Vorum sammála um það ég og þáverandi bæjarstjóri Guðmundur Árni Stefánsson að óhæft væri að selja ekki smokka í félagsmiðstöðinni. Árið var 1988 og eins ótrúlegt og það kann að virðast þá var þetta nokkuð feimnismál.

Ungir menn áttu einn þann kost að fara í apótekið, sem var eini sölustaðurinn í þá daga, roðna og blána og versla oft á tíðum, þegar að upp var staðið, alkyns annan varning en blessaðar verjurnar, allt út úr tómum vandræðagangi. Var þetta því mörgum ungum manninum hin mesta sneypuför.

Ekki mátti búa við þetta ástand lengur, vorum við sammála um , þannig að ég geri mér ferð í hið virðulega Hafnarfjarðarapótek, sem þá var og hét. Spurði eldri dömu sem þarna afgreiddi umbúðalaust um verjur. Af hæversku réttir hún mér lítinn pakka eins og hér væri um leyniskjöl að ræða.

Var auðvitað ekki kátur með þessa afgreiðslu enda í opinberum erindagjörðum. Bið hana því að sýna mér fleiri tegundir sem og hún gerði, en skimar jafnframt í kringum sig. Velti fyrir mér í rólegheitum gæðum þessar 10 – 12 tegunda sem á boðstólum voru og spyr hana í framhaldinu um verð, gæði og hvað hún telji hagstæðustu kaupin. Spurningin kom henni í opna skjöldu enda sennilega aldrei verið spurð að þessu, bendir mér síðan á tiltekna tegund, sem hún kveður mest keypta. „Fæ þá 200 stykki af þessum“ segi ég eftir nokkra umhugsun og sé að konunni bregður við, hugsar sennilega hvað ég haldi að ég sé , Casanova eða eitthvað álíka fyrirbæri.

„Tekur þú beiðni frá bæjarsjóð “ spyr ég og sé þá að afgreiðslukonunni er allri lokið. Félagsmálstofnun að kaupa smokka fyrir einhvern kvennaflagarann, hugsar hún örugglega, lýkur samt afgreiðslunni af fagmennsku en með nokkurn roða í vöngum.

Blessaðir smokkarnir fóru síðan í sölu upp í gamla Æskó. Seldust ágætlega , flestir ef ekki allir sem þá keyptu nýttu þá sem vatnsblöðrur, enda ýmis ungmenni sem ekki voru klár að hinu viðtekna notagildi smokksins, sem auðvitað kom síðar. Hitt er annað mál að ástfangnir starfsmenn sáu sér sennilega leik á borði og versluð frekar hjá okkur en að fara í apótekið.

Hitt er svo allt annað mál að í félagsmiðstöðinni Vitanum var smokkasjálfsali löngu áður en það var almennt. Ágætur starfsmaður í félagsmiðstöðinni hafði sannfært fyrirtækið um að það yrði gríðarlega sala og fyrirtækið myndi græða verulega.

Salan var lítil en gestur nokkur í fermingaveislu sem þarna var haldin, en oft var húsið leigt undir slíkt þegar að allir aðrir salir voru uppteknir, sagði þetta í fyrsta skiptið sem hann hafi verið í fermingu þar sem jafnframt voru seldir smokkar.

sunnudagur, 20. mars 2005

Okkar menn unnu

Óska strákunum í hljómsveitinni Jakobínarína til hamingju með sigurinn í Músiktilraunum. Frábær árangur hjá ungum og efnilegum tónlistarmönnum úr Áslandinu.

Við hafnfirðingar eigum fullt af góðu tónlistarfólki, okkur vantar bara meira af æfingarhúsnæði. Menningarstarfsemi þarf sitt húsnæði alveg eins og blessaðar íþróttirnar.

Góður tónlistarskóli skilar ekki bara fólki í „Melabandið”, góður tónlistarskóli er fínn grunnur fyrir poppara. Þess njótum við svo sannarlega þessa daganna (og árin) hér í Hafnarfirði, enda fullt af góðum unglingaböndum í bænum. Jakobínarína fremstir meðal jafninga – Íslandsmeistarar í rokktónlist - húrra, húrra, húrra og húrra.

miðvikudagur, 16. mars 2005

Komust mun fleirri en vildu

Hélt gagnmerkan fyrirlestur í kvöld á okkar ágæta Byggðarsafni. Þekkti alla gestina sem voru , forstöðumaður í félagsmiðstöð, aðstoðarforstöðumaður í annarri félagsmiðstöð, ritstjóri , sagnfræðingur, bæjarfulltrúi og deildarstjóri í menntamaálráðuneytinu. Allt saman sóma fólk.

Minnugur þess að sjálfir Bítlarnir fengu ekki marga á tónleika hjá sér á Hamborgar árunum, heyrði reyndar að einhvern tímann hafi þeir leikið fyrir einn gest, þá flutti ég fyrirlesturinn.

Og viti menn, eftir rúmlega klukkustundar fyrirlestur um félagsmiðstöðvarnar í hinu sögulega ljósi þá fór ríflega annar eins tími í afar fjörugar og málefnalegar umræður meðal gesta. Er því á þeirri skoðun að magn gesta sé ekki endilega mælikvarði á góðan fund. Virkni og áhugi þeirra sem mæta er lykilatriði og yfir því var ekki hægt að kvarta í þessu tilfelli nema síður sé. Segi því bara - þakka þeim sem á hlýddu.

sunnudagur, 13. mars 2005

Fín árshátíð hjá starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar

Held ég? Það er nefnileg þannig að við sem stöndum í, og höfum staðið í undirbúningi ýmiskonar viðburða og hátíðarhalda til margar ára, vitum sem er að ekki er á vísan að róa hvað fólki finnst gott eða slæmt. Mér fannst skemmtikraftar, veislustjóri sem og hljómsveit standa sig með mikilli prýði. Guðrún Gunnarsdóttir alltaf góð, enda ein af okkar allra bestu söngkonum.

Það ytra þ.e. skemmtikraftar, matur og fleira í þeim dúr er eitt og á því eru eins margar skoðanir og þátttakendur eru. Annað eru atriði eins og tæknimál, tímasetningar á dagskráatriðum , uppröðun og aðbúnaður í húsi er annað og oft hlutir sem fólk tekur ekkert eftir og hefur enga skoðun á svo fremi að allt gangi þokkalega fyrir sig og sé snyrtilega gert.

Dettur í hug ýmislegt t.d. varðandi 17. júni hátíðarhöldin í gegnum árin. Eitt sinn vorum við, að okkar mati sem þetta skipulögðum með fremur kléna dagskrá, höfðum af þessu nokkra áhyggjur, höfðum lítil fjárráð og allt stemmdi í lélegan 17. jánda .

Dagurinn rennur upp og viti menn brakandi sólskin og sumarverður eins og það gerist best. Bæjarbúar fjölmenntu á hátíðina og allir himinlifandi og allir mjög ánægðir og einhverjir töldu hér vera á ferðinni þann besta 17. júní.

Velti því fyrir mér ef að þessi sami 17- jándi hefði farið fram í slæmu veðri? Hefðum sennilega fengið orð í eyra. Velti því fyrir mér í þessum efnum hvort mat á gæðum og hvernig stemming verður sé ekki eitthvað sem fyrst og fremst mótast innra með fólki og að dagskrá sem slík sé ekki endilega lykilatriði í þeim efnum þ.e.a.s. svo fremi að hún sé þokkaleg.

Var ekki var við annað en að fólk væri þokkalega hresst með gærkvöldið - Liggur kannski í ódýru miðaverði, afar ódýrum veitingum og hressu og skemmtilegu fólki - sem bæjarstarfsmenn í Hafnarfirði vissulega eru - málið er sennilega ekkert flóknari en það?

mánudagur, 7. mars 2005

20.000 gestir

Nokkur áfangi um helgina þar sem gestir síðunnar eru orðnir 20.000. Góður miðill og fínt form, þ.e.a.s.ef fólk skrifar undir nafni og standur með þeim hætti fyrir sínum skoðunum. Því miður eru nokkur brögð á því að svo sé ekki raunin hjá ýmsum þeim er nýta sér þennan miðil. Sem er auðvitað verulegur galli á þessari stóru veröld sem Netheimar eru orðnir. Netverjavegabréf hlýtur að vera það sem koma skal.

Hef sjálfur þá reglu að breyta aldrei neinu sem komið er inn á síðuna en þó með þeirri undantekningu að stafsetningar- og málfræðivillur eru leiðréttar, þ.e.a.s ef maður sér þær. Tjáningarfrelsið er aðalatriðið og sem slíkt haft í öndvegi, hef því ekki verið að láta hina kórréttu setningarfræði eða lög um íslenska stafsetningu trufla mig neitt sérstaklega.

Mun halda þessu áfram eins lengi og ég nenni og hef eitthvað að segja. Það er afar praktískt að eiga persónulegt málgagn. Get með þeim hætti fjallað um nánast hvað mál sem er og um verkalýðsmál út frá allt örðum forsendum en ég geri sem ritstjóri og ábyrgðamaður STH síðunnar.( Starfsmannafélags Hafnarfjarðar)

Fæ yfirleitt mjög fín viðbrögð frá lesendum, með nokkrum undantekningum þó. Þó er það merkilegt að það eru yfirleitt sömu greinarnar sem fá sterk viðbrögð og þá í báðar áttir. Veit þá sem er að þar eru mikil álita mál á ferðinni - hitamál sem auðvita er nauðsynlegt að fjalla um. Þakka lesendum, ábendingar, athugasemdir og hlý orð.

þriðjudagur, 1. mars 2005

Láglaunastefnu mótmælt á alþjóðlegum vettvangi


Hélt gagnmerka ræðu s.l. sunnudag í London. Staðurinn var Speakers Corner í Hyde Park þar sem málfrelsið er algert og þeim sem það vilja býðst að segja hug sinn og afstöðu í hverju því málefni sem viðkomandi þurfa þykir, en aðeins á sunndögum.

Lenti í smá aðstöðuleysi í upphafi , en þar sem að múslimi nokkur var í málhvíld þótt mér víð hæfi að hann af umburðarlyndi sínu léði mér kassa sinn um stundar sakir þannig að ég gæti hafði mig örlítið yfir viðstadda og breitt út minn göfuga boðskap. Sá síðskeggjaði vildi ekki fyrir nokkurn mun lána mér kassann sinn í nokkrar mínútur þar sem ég væri kristin maður? Fordómar spyrja ekki um stað og stund.

Umræðuefnið, mótmæli við hina grjóthörðu láglaunastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem kristallast í stefnu launanefndar sveitarfélaga. Stefnu þessari var harðlega mótmælt og varað við afleiðingum hennar með fjölmörgum dæmum og gildum rökum þar um. Skoraði ég á bæði launanefnd sveitarfélaga og Hafnarfjarðarbæ ( enda óljóst hver ræður ferð í stefnumótun) að láta af þessari stefnu hið fyrst og taka upp nútímalegri og jákvæðari viðhorf í þessum málum.

Ekki var ég var við annað en að fundamenn væru mér að öllu leyti sammála , allavega þeir sem íslensku skyldu, sem voru a.m.k. fimm manns. Aðrir gestir sýndu hug sinn í verk með því að staldra við og gefa ræðumanni gaum og sáu sem var að málefnið var mikilvægt og þrungið alvöru.