miðvikudagur, 26. júlí 2006

Fullur Lundi á þjóðhátíð

Aumingja fuglinn, dettur mér helst í hug. Mörður Árnason gerir þessu máli vel skil á heimasíðu sinni sjá: http://www.althingi.is/mordur/mal_og_menning/safn/002925.php

Með bjórdollu í annarri hendi og forvarnarstefnu í hinni hendinni er hreint pönk. Velti fyrir mér hvort bæjarfélög eigi ekki að skilyrða styrkveitingar sínar til íþróttafélaga þannig að gleðikonustand eins og ÍBV stundar geti ekki átt sér stað.

Vinir mínir í Haukum í Hafnarfirði tóku fyrir mörgum árum þá ákvörðun að auglýsa ekkert sem hefur skírskotun til áfengis þ.m.t. þessa heimskulegu útúrsnúninga á áfengislöggjöfinni sem menn kalla „léttöls" auglýsingar. Þetta ættu önnur íþróttafélög að taka sér til fyrirmyndar. Hvet allt hugsandi fólki til þess að sniðganga auglýstar áfengistegundir

mánudagur, 24. júlí 2006

Sýnum hug okkar í verki - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

„Held áfram á meðan að dómarinn flautar ekki“ sagði ungur verðbréfasali eitt sinn aðspurður um hvort tiltekin afar vafasamur viðskiptamáti stæðist lög. Ekki man ég hvort dómarinn „flautaði“ að lokum en veit það eitt að dómarinn flautar lítið ef nokkuð í sumum málum
Eitt af þeim málum er einlæg og sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum á lögum, sem með skýrum hætti banna auglýsingar af þessum toga, eru lögin brotin margsinnis dag hvern. Áfengisauglýsingar eru boðflenna í tilveru unglinga sem þau eiga fullan rétt á að vera laus við.

Hin siðferðilegi boðskapur laganna sem og innhald er afar skýrt. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um.

Það er eins og engin sé ábyrgur? Áfengisinnflytjendur eða framleiðendur auglýsa hvað af tekur og eyða til þess gríðarlegum fjárhæðum; flestir fjölmiðlar birta þessar auglýsingar átölulaust; auglýsingastofur framleiða þær? Þrátt fyrir einlægan síbrotavilja þessara aðila þá „flautar dómarinn ekki“ Ríkissaksóknari ákærir ekki þrátt fyrir sífellt og augljós brot. Ungt fólk virðist ekki búa við sama rétt og aðrir þegnar þessa lands. Þrengstu viðskiptahagsmunir eru teknir fram fyrir velferð barna og ungmenna..

Núna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar í flestum fjölmiðlum dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram.

Við foreldrar, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það þykir mér alls ekki við hæfi.

sunnudagur, 9. júlí 2006

Brá undir mig "betri" fætinum

Sem reyndar er sá vinstri þessa daganna. Er sem sagt enn að súpa seiðið af útskriftarveislunni góðu. Fór nánast beint frá Færeyjum á Vestfirði. Dvaldi þar með fjölskyldunni í góðu yfirlæti í sumarbústað í Mjóafirði. Ótrúlega líkt landslag á þessum tveimur stöðum nema hvað það er öllu minna undirlendi í Færeyjum og fjöll brattari. Annars glettilega líkt og sama góða fólkið á báðum stöðum.

Var fjarri “menningunni” sem kom fram í því að farsími og Internet virkuðu ekki á svæðinu. Afar þægilegt í alla staði og spurning hvort þessi fjarskiptatækni sé ekki komin út í vitleysu. Fólk á helst að vera aðgengilegt 24 tíma á sólahring. 100 e- mail , 20 sms , 15 skilaboð í talhólfi, 30- 40 símtöl á sólarhring og sívirkt msg eins og raunin virðist vera orðin hjá mörgum er auðvitað orðin tóm vitleysa.

Það hefur blásið hressilega í kringum mig síðustu vikur. Sagði sem kunnugt er upp starfi mínu sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi 13. júní s.l. og það sem ég taldi að yrði fyrst og fremst persónuleg ákvörðun mín virðist skipta margt fólk verulegu máli. Áttaði mig auðvitað á því að sem embættismaður er maður opinber persóna, fagmaður og ekki síst fyrirmynd eins og aðrir framámenn í æskulýðs- og íþróttageiranum. Starfsmenn ÍTH undirgangast og starfa samkvæmt siðareglum Félags fagfólks í frítímaþjónustu FFF sjá hér. Sá því sem var að uppsögn mín er kannski ekki einkamál mitt, þó svo að ég hafi talið það í fyrstu. Hef hins vegar valið þann kost að fjalla um málið á almennum nótum.

Kjarni þessa máls er einfaldlega sá að stjórnmálamenn ráða, þeir taka ákvarðanir í umboði kjósenda. Ef og þegar embættismanni þykir pólitískur ráðahagur eða samþykkt algerlega óviðunandi, þá hefur hann einungis um tvennt að velja, þ.e. að vinna áfram og láta eins ekkert sé eða hætta. Ég sagði upp, ástæður fyrst og fremst faglegar forsendur.