þriðjudagur, 29. desember 2009

Farsælt kom(m)andi ár


Óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla og farsældar á kom(m)andi ári (eins og vinur minn einn orðaði þessa kveðju ávallt) á sennilega vel við í ár.

fimmtudagur, 10. desember 2009

Álver í Vatnsmýrina

Leik blak með félögum mínum í HÍ. Í þeim ágæta hópi er margt skrafað að leik loknum og mörg heimsins vandamál krufin til mergjar og jafnvel leyst ef svo ber undir. Ekkert mál er svo ómerkilegt að það verðskuldi ekki umræðu þessa ágæta hóps sem gegnir heitinu Blakmenn Björgvins.

Nú bar svo við, þar sem nokkrir Hafnfirðingar eru í þessum hóp, að málefni álversins í Straumsvík komst á dagskrá. Töldu Hafnfirðingar undarlegt í meira lagi að endalaust væri kosið um sama mál, eða átti bara að kjósa þanngað til að Rio Tinto ynni sigur í íbúakosningum? Sem leiðir hugann að þessu sem kallast íbúalýðræði sem á hafnfirska vísu gengur út á það að bláfátækir einstaklingar standa í baráttu við alþjóðlegt stórfyrirtæki sem ekki unir úrslitum kosninga. Ekki veit ég hve mörg hundruð milljónir fóru í síðustu kosningabaráttu Rio Tinto "hreyfingarinnar" eða "samtakanna". Og glansauglýsingar þar sem hin fegurstu tákn íslenskrar náttúru eru nýtt sem bakgrunnur í grímulausum áróðri Rio tinto eru þegar byrjaðar að birtast og sem fyrr verður ekki spurt um peninga þegar "kosningabaráttan" er hafin.

En svona er það nú - einhverjir telja starfsemi álvera lausn morgundagsins og því fleiri og stærri sem þau eru saman komin því betra. Í því ljósi kom fram mikilvægt innlegg eða tillaga ónefnds blakfélaga inn í alla þessa álversumræðu, tillaga sem myndi að mati einhverra efla til mikilla muna atvinnuástandið í höfuðborginni og reyndar á öllu stór-Hafnarfjarðarsvæðinu ef því er að skipta.

Sem sagt hugmyndin
um að reisa 600 - 700 þúsund tonna álver í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn mun hvort sem er víkja fyrr eða síðar og ekki fyrirséð að verktakabransinn hafa stórfelld áformum um íbúðabyggingar á svæðinu í bráð. Þar er plássið og þar eru þessar fínu samgöngur, mætti jafnvel hugsa sér að halda einni flugbraut opinni meðfram fabrikkunum eða jafnvel á milli þeirra? þannig að menn gætu flogið inn með súrálið og burtu með óunnið álið til frekari úrvinnslu erlendis. Rafmagnið yrði áfram á tombóluprís og fengið beinlínutengt frá OR.

Lagt var til að Reykvíkingar nýttu sér s.k. íbúalýðræði í ákvörðunarferlinu sem felst fyrst og fremst í rándýrri "charming offensiv" misvirts alþjóðlegs fyrirtækis gegn fjölda venjulegs fólks sem þykir vænt um umhverfi sitt en á ekki fjármagn til þess að standa í skaki við alþjóðlegt stórfyrirtæki.

Góð lausn !- úff - mengandi stóriðja inni í miðjum bæjum og borgum! - Springfield Homers Simpsonar orðin íslenskur raunveruleiki? Er það eitthvað til að stefna að?

laugardagur, 28. nóvember 2009

Teiknimyndin um drykkfelda jólsveininn

Af vefnum 
Working on driving the world slightly insane.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað börn hafa gaman af teiknimyndum. Núna í aðdraganda jólanna þykir Ölgerð Egils Skallagrímsonar, m.a. í nánu og innilegu samstarfi við markaðsdeild RÚV ohf og yfirmenn þessa fyrirtækis allra landsmanna, við hæfi að bjóða börnum upp á teiknimynd.

Að vísu sama teiknimyndin sýnd ítrekað fyrir og eftir og jafnvel inni í þáttum . En teiknimyndin fjallar í stuttu máli um drykkfeldan jólasvein sem á sleða sínum er á leið til að sinna mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna. Á ferð sinni mætir hann vöruflutningabifreið sem er full af áfengi. Í stað þess að halda áfram sem leið liggur til hefðbundinna jólasveinastarfa þá snýr sveinki sér tafarlaust við og eltir áfengið með þeim hætti sem einungis langt gengnir alkahólistar myndu gera. Ekki veit ég hvað síðan á sér stað en tel einsýnt að sveinki eigi erfitt að með að sinna skyldum sínum þetta kvöld þéttkenndur eða augafullur eftir drykkju á áfenginu eftirsótta ("léttöli sem er ekki til") Þar sem þetta er auðvita teiknimynd og þær eru "ekki alvöru" þá er áfengið það ekki heldur enda stendur afar óljósum stöfum og birtist örskamma stund að sveinki sé einungis á eftir "léttöli". Þetta gera börnin sér auðvitað grein fyrir að mati Ölgerðarinnar og RÚV en það sem verra er að "léttölið" er ekki til og hefur aldrei verið framleitt! en hinn útlenski texti teiknimyndarinnar er um áfengi en það er allt í lagi þar sem börnin skilja ekki dönsku alla vega ekki þau yngstu.

Mér dettur hug sambærileg auglýsingaherferð frá sígarettufyrirtæki sem bjó til alveg einstaklega geðþekka teiknimyndapersónu, úr merki fyrirtækisins, úlfalda nokkurn sem þau kölluðu að mig minnir Joe. Blessuðum börnunum fannst mikið til mannkosta Joe koma og auðvita gátu sígrettupakkar með mynd af honum í huga barnsins ekki verið neitt annað en eitthvað jákvætt og gott. Teiknimyndaþættirnir voru sýndir í barnatímum víða í Bandaríkunum. Báru vott um sorglega lágt siðferðisplan þar sem í engu var svifist í markaðsátaki og engu skeytt um annað en að selja sem mest.

Ölgerð Egils Skallgrímasonar hefur nokkra dóma á bakinu vegna brota á réttindum barna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Það er einungis tímaspursmál hvenær "Sjónvarp allra landsmanna" RÚV ohf lendir í þessum vafasama félagsskap. Teiknimyndir um drykkfeldan jólasvein eða um úlfaldann Joe sem liður í auglýsingaherferð sem sérstaklega snýr að börnum er fullkomin lágkúra. Viðskiptasiðferði ef siðferði skyldi kalla af þessum toga er þessum aðilum til skammar. Að Rúv ohf skuli taka þátt í þessu er með ólíkindum og algerlega ljóst að það er ekki með fulltingi 317.829 eigenda þess. Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem starfa á svona lágu plani, Skilja stjórnendur RÚV ohf ekki ábyrgð sína í samfélaginu og er ekki réttast að koma RÚV út af auglýsingamarkaði a.m.k. meðan að svo er.

þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Bréfaskóli Hannesar Hólmsteins

„Vonandi missir Samfylkingin a.m.k. 2 menn í næstu bæjarstjórnarkosningum. Þannig öðlast Hafnfirðingar von um að einveldi Lúðvíks (og Gunnars) ljúki og "lýðræði komist aftur á að nýju" í Hafnarfirði. “ segir Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir stjórnmálafræðingur formaður Fram, sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar á bloggi sínu.

Spurt er: Er það bara kallað lýðræði þegar að sjálfstæðisflokkurinn nær meirihluta í kosningum. Ef meirihluti Hafnfirðinga kýs annan flokk en íhaldið er það þá einveldi sem á ekkert skylt við lýðræði? Í hvaða stjórnmálafræðibókmenntum finnur maður þessum "vísindum" stað. Er það í bréfaskóla Hannesar Hólmsteins?

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Skynsamir unglingar í Hafnarfirði

Hafnfirskir unglingar sýndu frábært frumkvæði í gær þegar að þeir efndu til mótmæla við bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar. Æska bæjarins er greinilega orðin langþreytt á eilífum niðurskurði til félagsmiðstöðva og sífellt verri aðstöðu til félagsmiðstöðvastarfseminnar. Þegar að rúmlega 700 ungmenni þramma í mótmælagöngu, halda fund og ræða málefnalega og skýrt um sínar aðstæður þá er það skylda bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að taka fullt mark á slíku og ekki síst koma til móts við óskir unga fólksins.

Staðreyndin sú að æskulýðsstarfsemi í Hafnarfirði hefur átt undir högg að sækja í mörg ár og það jafnvel á tímum góðæris. Það hefur því verið eða var að a.m.k. eitt af meginhlutverkum þeirra sem unnu í málflokknum að berjast fyrir tilveru félagsmiðstöðvanna og fjárveitingum til þeirra og því miður oft við lítinn skilning og eða áhuga æðstu embættismanna og einstakra bæjarfulltrúa.

Þær tillögur sem nú liggja fyrir fylltu greinilega mælinn og margt sem olli því. Unglingarnir skynja stöðugt minnkandi þjónustu. Einstakir starfsmenn fengu óformlega að heyra um að þeirra væri ekki vænst í nýju skipulagi. Og svo hitt að fyrirhugað skipulag er arfa vitlaust og gerir ráð fyrir tæplega 25% fækkun starfa í félagsmiðstöðvum þar sem auk þess er gert ráð fyrir "að við aðgerð eins og þessa gefist tækifæri til þess að endurskoða launkjör starfsmanna félagsmiðstöðva"! Samkvæmt reynslu minni af launastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Hafnarfjaðrarbæjar þá er ekki átt við "upp á við". Grundvallaratriði í þessum skipulagsbreytingum er því að skera verulega niður og minnka þjónustu við æsku bæjarins enn og aftur og umfram annan niðurskurð hjá bæjarfélaginu.

Það er sagt að reynsla tilraunverkefnis í Áslandinu hafi gefið góða raun? og slík staðhæfing gerð að aðalatriði sem ástæða fyrir skipulagsbreytingum. Spurt er hefur einhver fagleg úttekt farið fram á því? Veit sem er að forstöðumaður Ássins er afar góður starfsmaður og ferst flest vel úr hendi algerlega óháð einhverri skipulagslegri umgjörð. Á því hvort vel hefur til tekist eða ekki er ekki annað en eitthvert einka mat embættismanna sem er fjarri því ígrundað eða faglegt, einhverjar tvær þrjár línur í einhverri greinargerð þess efnis hafa einfaldlega ekkert faglegt gildi.

Hvað sem menn kunna að segja í umræðunni m.a. í bæjarstjórn þá er margt undarlegt í þessu máli. Fyrirmynd skipulagsbreytinga er sögð koma frá Reykjavík ? og Kópavogi? Hafnarfjörður er ekki þrisvar sinnum stærri en Grafarvogurinn og skiplag mála í Kópavogi hefur ekki þótt til eftirbreytni.

Skipurit hins nýja skipulags sýnir einfaldlega að fækka á forstöðumönnum um helming og setja í stað þeirra ódýrari starfskrafta á gólfið og með því draga úr afleiðingum hins mikla niðurskurðar. Á skrifstofu ÍTH munu því væntanlega bætast við þrír skrifstofumenn og síðan er óljóst hvað verður um ágætan rekstrarstjóra ÍTH. Með þessu verður yfirbyggingin því orðin veruleg

Í þessum hugmyndum um skipulagsbreytingar er ekki stafur um fagleg málefni? En ljóst að starfseminna á að byggja á "ódýrari" starfsmönnum sem þýðir á mannamáli að ekki verða gerðar neinar teljandi kröfur um menntun. Horfið er til baka til "samræmis" við frístundheimili þar sem litlar sem engar kröfur hafa verið gerðar um fagmenntun og eiga langt í það að ná félagsmiðstöðvum. Fagfólkið þeir fáu sem verða eftir verður skrifstofumannskapur langt frá vettvangi.

Faglegur standard í félagsmiðstöðvum í Hafnarfirði verður með þeim hætti að nemar í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands geta ekki sótt vettvangsnám sitt til Hafnarfjarðar þar sem starfsmenn munu ekki uppfylla lágmarksskilyrði til þess að taka að sér nema. Þá má því miður segja að hugtakið faglegur metnaður sé fjarri í þessum skipulagslagsbreytingum sem auk þess eru sennilega unnar án nokkurs samráðs við það ágæta fagfólk sem (ennþá) vinnur hjá ÍTH.

Starfsaðferðir unglingalýðræðis hafa lengi verið við lýði í starfsemi félagsmiðstöðva í Hafnarfirði, í því starf felst hvatning til unga fólksins til virkar þátttöku, ábyrgðar og frumkvæðis í starfi og leik. Með því auka ungmennin félagslega hæfni sína sem er ákaflega góð "menntun" í nútímasamfélagi og ekki síðri en hin formlega menntun skólakerfisins. Með virkri afstöðu sinni gegn óhóflega miklum niðurskurði til félagsmiðstöðva og skerðingar á þeirri starfsemi sýnir unga fólki í verki hug sinn til þessara mála enda finna þau á eigin skinni hverning þjónustan er sífellt skorin niður. Þessu frumkvæði unga fólksins ber að fagna að taka fyllsta mark á.

Sjá ennfremur:
Unglingalýðræði
Börn, unglingar og þjóðfélagsumrót

mánudagur, 2. nóvember 2009

Ólafur landlæknir og fleira gott fólk

Hef stundum verið að velta því fyrir mér hvers vegna mér finnst engin landlæknir hafa verið síðan Ólafur Ólafsson lét af störfum? Nú eða hvers vegna frú Vigdís er alltaf forsetinn í mínum huga og sr Sigurbjörn Einarsson alltaf biskupinn?

Leiðir hugann að því að það er fólk sem gerir embætti að því sem þau verða en ekki embættin sjálf. Þetta fólk sem hér er nefnt er dæmi um fólk sem hefur vegna persónulegra eiginleika sinna og visku hafið embættin upp til vegs og virðingar. Þau hafa með störfum sínum, frumkvæði og málsvarahlutverki sínu lagt samfélaginu ómetanlegt lið.

Er sennilega óvitlaust að hafa þetta í huga á þessum síðustu og verstu þar sem við höfum og fáum örugglega dæmi um hið gangstæða. Ráðuneytisstjóri sem hverfur frá störfum með ríflegan starfslokasamning til þess að "skapa starfsfrið" fremur en að tilteknar og gildar siðferðilegar ástæður hafi verið fyrir brotthvarfinu er dæmi um hið gagnstæða. Vonandi fáum við fleiri "Ólafi, Vigdísar og Sigurbirni" til áhrifa í íslensku samfélagi.

þriðjudagur, 27. október 2009

Hve oft á eiginlega að kjósa um þetta álver?

Nú eru komnar fram óskir um nýjar kosningar um stækkun álversins í Hafnarfirði? Sem var fellt eftirminnilega fyrir ca tveimur árum. Segjum sem svo að ef aftur verður kosið og segjum að ef svo illa færi að þessari gríðarlega öflugu kosningavél Rio Tinto tækist í krafti gríðarlegra fjármuna og með auglýsingaskrumi að ná meirihluta fyrir stækkun álvers er þá ekki spurning að kjósa í þriðja sinn að beiðni okkar sem erum á móti stækkun?

Það hlýtur að vera kleyft svo fremi að náist að uppfylla skilyrði fyrir íbúakosningu? Tæknilega virðist því vera hægt að velta þessu máli áfram árum saman og fella eða samþykkja sömu tillöguna mörgu sinnum. Er þetta einhver borðtennisleikur? Þarf að samþykkja tillöguna nokkrum sinnum eða fella nokkrum sinnum, þarf hún eða vera felld eða samþykkt tvisvar eða þrisvar til þess að öðlast gildi eða á hún bara að gilda þegar hún hentar hagsmunum Río Tinto?

Hvað þá ef endalaust á kjósa um þetta sama mál, sem meirihluti bæjarbúa hefur sagt hug sinn í með formlegum hætti, finnst mönnum þá við hæfi að kjósa um þetta samhliða bæjarstjórnarkosningum? Við þau fjölmörgu sem erum í Sól í Straumi urðum vitni að kosningabarráttu stórfyrirtækis sem eyddi milljónum á milljónir ofan og efndi til "kosningabarráttu" þar sem kostað var til hundruðum milljóna, álverið bauð hverjum þeim starfsmanni sem vildi leggja barráttunni lið að gera það á fullum launum, sendu Bo í álpappír að hvert hafnfirsk heimili , gerðu fjölda glansauglýsinga og sýndu látlaust á dýrasta auglýsingatíma, héldu úti heilu flokkum manna sem hringdu á hvert hafnfriskt heimili og héldu úti persónunjósnadeild þar sem skoðanir bæjarbúa voru bókfærðar með skipulegum rafrænum hætti og kolólöglegum enda fór það svo að persónuvernd hafi afskipti af álverinu.

Þetta er grímulaus hagmunabarrátta stórfyrirtækis sem á ekkert skylt við lýðræði hvað þá þetta sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar kallar íbúalýðræði. Í samhengi "álverskosninga" verða bæjarstjórnarkosningar eins og auka mál enda ljóst að stjórnmálaflokkarnir í bænum hafi ekki efni á viðlíka "kosningabaráttu" og Rio Tinto - Eiga næstu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði að snúast um "galvaniseraða" eða "ekki galvaniseraða" frambjóðendur og munu frjáls framlög atvinnulífsins taka mið af því? Og hvar er þá lýðræðið svo ekki sé minnst á íbúalýðræðið?

miðvikudagur, 21. október 2009

Ég er orðin milljónamæringur og loksins einn sem var skotinn

Það urðu mér mikil gleðitíðindi þegar ég í kvöld fékk tilkynningu í tölvupósti um að ég hefði unnið 1.000.000 evrur í hinu virðulega Madridar-lottói og það án þess mér vitanlega að hafa spilað.

Sem ég var að ákveða hvernig snekkju fjölskyldan skyldi koma sér upp þá mundi ég allt í einu mín fyrri samskipti á sviði ofurgróða sem voru aðallega við umkomulausar Afrískar ekkjur sem allar áttu það einnig sameignilegt að vera moldríkar en vegna einhverra hluta gátu þær ekki komið arfinum úr landi. Af milljónum Evrópubúa þá fannst þeim allmörgum tilhlýðilegt að eiga orðastað við mig um vel launuð viðvik tengt arfinum mikla. Það runnu hins vegar á mig tvær grímur og skrifaði ég í framhaldinu eftirfarandi pistil:

Fæ mikið magn af pósti frá fólki sem lent hefur í mikilli ógæfu. Yfirleitt hefjast bréfin á "My former husband general XXXXX sem var keyrður niður, fórst í flugslysi eða var handtekinn og lést í fangelsi, varð fyrir sprengjuárás, eða hvarf sporlaust og hefur ekki sést síðan.
Agaleg tíðindi sem því miður virðast engan endi ætla að hafa því nú nýverið fékk ég fregnir af einum til viðbótar sem yfirgefið hafði þessa jarðvist með byssukúlu í brjóstið.

Hinar afar sorgmæddu fjölskyldur hafa þó allflestar náð að bera harm sinn í hljóði (ef frá er talin hin afar sorglega umfjöllun um jarðvistarskipti ástvinanna í upphafi bréfanna) og tekið til við að ná hinum stórfelldu eignum hins framliðna úr hinu virðulega Nígeríska eða Gahaniska bankakerfi sem ku sýna mikla óbilgirni nema ef vera vildi að einhver góðhjartaður vesturlandabúi vildi vera svo vænn að þiggja nokkrar milljónir til að hjálpa örlítið við að koma nokkrum milljörðum úr landi .

Erindin því ekki beint ósk um hluttekningu og aðstoð í sorgarferlinu - lífið verður að halda áfram þó að einn og annar generálinn fari yfir móðuna miklu - hins vegar óþarfi að láta aurana fara líka - ætlum við að bera ábyrgð á því að ekkjan og fjölskylda hins mikla XXXXX þurfi að borða hrísgrjónavelling það sem eftir er, eins og sauðsvartur almúginn?

Nú eru góð ráð dýr. Var bent á eitt sem virkar þokkalega. Fékk mér sem sagt forritið I hate spam og viti menn sorgarsögum frá Nígeríu og Ghana hefur fækkað verulega - getur verið að þessi fjölmörgu og margþættu áföll séu bundin fáum fjölskyldum? Eða eru bara svona fáar email adressur í Afríku? Eða er einhver að plata mann? Veit það ekki?

fimmtudagur, 15. október 2009

Brennuvargarnir - frábær sýning

Brá mér í Þjóleikhúsið í gærkvöldi - erindið að sjá forsýningu á leikritinu Brennuvargarnir eftir Max Frisch. Óþægilega mikil skírskotun í samtímann þó svo að verkið hafi verið skrifað fyrir margt löngu. Frábær leik- og hljóðmynd. Afburða leikarar með Eggert Þorleifsson fremstan meðal jafningja. Fín sýning, fínn stígandi og áleitið viðfangsefni. Sem sagt gott leikhús og sýning sem á erindi við alla ekki síst á þessum síðust og verstu - hvet fólks til þess að láta þessa sýningu ekki fram hjá sér fara.

laugardagur, 10. október 2009

Af "áhangendaáráttu"

Á meðan engin segir sorry og engin gengst við ábyrgð á hruninu þá verður ekki sátt í íslensku samfélagi - Sorgleg málefnafátækt í þinginu - Halda menn með sínu liði algerlega óháð því sem á undan er gengið? - Er stjórnmálabarátta einhverskonar fótboltaleikur sem byggir á "áhangendaáráttu" fremur en almennri skynsemi?

Veit það ekki en ég skil ekki fylgistölur stjórnmálaflokka þessi dægrin sem ekki eru í neinu samræmi við "aldur og fyrri störf" viðkomandi flokka. Hin blinda ást ruglar fólki í rýminu og það jafnvel svo mikið að sómasamlegt ræstingarfólk fær það óþvegið fyrir það eitt að reyna að þrífa upp óhreinindin eftir ástmöginn.

þriðjudagur, 6. október 2009

25 ár frá BSRB verkfallinu

"Tíminn líður hratt að gervihnattaöld" kvað söngvaskáldið Magnús Eiríksson. Orð að sönnu sem merkja má af því að 25 ár er frá BSRB verkfallinu. Ég tók sem félagsmaður í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar virkan þátt i verkfallsvörslu. Var m.a. sendur suður í Hafnarfjörð í þeim erindagjörðum og kom þá í fyrsta skipti á Hellisgötuna í húsnæði STH Starfsmannafélags Hafnarfjarðar en í því félagi ég átti síðar eftir að verða formaður nokkrum árum seinna. Embætti sem ég gengdi síðan um langa hríð. Þetta voru lærdómsríkir tímar og einstök samstaða lengst af. Hins vegar olli samningur borgarinnar og STRV sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti nokkrum usla sem leiddi til þess að vikuhlé varð á verkfallsaðgerðum meðan að hann var borin undir atkvæði þar sem hann var kolfelldur. Ógleymanlegur tími sem kenndi manni margt ekki hvað síst hvað samstaða getur komið mörgu til leiðar. Sjá nánar umfjöllun á heimasíðu BSRB
http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1555/

miðvikudagur, 30. september 2009

Skál og velkomin kæru foreldrar

"Foreldrakvöld Frístunda Íslands mun bjóða upp á kynningar og aðra sérstaka viðburði fyrir foreldra" segir á heimasíðu Frístunda Íslands. Að öðru leiti segir útgefandi (sem ekki kemur fram á heimasíðunni hver er?) að síðan sé " Ný og spennandi leið til að nálgast upplýsingar um innan og utandyra frístundir fyrir börn og unglinga á höfuðborgarsvæðinu."

Foreldrastarfið er einhæft í meira lagi, samkvæmt umfjöllun á þessari barna og unglingasíðu, svo ekki verði meira sagt. Foreldrakvöldin eru sem sagt eingöngu áfengis"kynningar"(auglýsingar).
"Fyrsta kynningin verður vínsmökkun í samstarfi við X . X heldur úti vefsíðunni XXX og er höfundur bókarinnar XX sem kom út árið 2000. Á námskeiðinu mun X kenna okkur að meta gott léttvín frá öllum heimshornum. Ekki missa af þessu tækifæri!" Nú og svo er önnur "vínkynning" ... og svo hin þriðja .. og fjórða.

Hvílík vitleysa ... eða smekkleysa öllu heldur. Er barnapössun innfalin í "kynningunum" kann einhvert foreldrið að spyrja ? og ætli fyrirtækið Móðurást sem auglýsir (sjá mynd) á síðu Íslenskrar frístunda hafi kosið að vera "samsíða" áfengisauglýsingum. Sorglegt þegar að ritstjórum er ekki ljós ábyrgð sín og virða að vettugi 20. grein áfengislaganna sem sett voru m.a. út frá velferðarsjónarmiðum barna og unglinga. Einstaklega óviðeigandi í tilfelli eins og þessu þar sem gera má ráð fyrir mikilli umferð barna og ungmenna um þennan vef.

mánudagur, 28. september 2009

Alþjóðlegur miðill - "frábær þýska" hjá "mér"

Fékk þetta innslag sent frá áhugamanni um þýsku - kvaðst hafa fundið þýska version af síðunni minni og þótt lítið til hennar koma - er viðkomandi algerlega sammála eins og meðfylgjandi pistill sýnir. Greinilega alþjóðlegur áhugi á síðunni? en þýðingarforrit ekki alveg að ráða við þetta ennþá? Upprunalegan pistill má sjá á HÉR - "Hot spring river this book"

Wish Lesern einen guten Rutsch ins neue Jahr und ich danke dem Leser Feedback-Seite der "Anzug" für das Jahr. Haben in der Regel eine positive, aber natürlich manchmal muss man Wort in das Ohr erhalten. Merkilegast ist wahrscheinlich der ein und demselben Artikel kann geðbrigðum reichen in beide Richtungen führen und ist daher in einer Zeit, in der Meinung der Person, die besten oder schlimmsten Fall den Artikel gelesen hat.

Was dient dann auch seinen Zweck ist einfach zu lassen, den Geist zu verschiedenen Fragen, die nach oben wandern sind in meinem Kopf jeder Zeit. Preis læriföður meine KHI dem Gebiet der Informationstechnologie Dr. Salvöru Gissurardóttur. Berger Gissurardóttur immer dankbar für ihre Einführung in dieses große Technologie, das Internet.

Solidarnoz - Konsens geht in diesem ersten Jahr und pistli nicht vanþörf auf, dem Jahr, war es in EU-Angelegenheiten zu leiden hat, werden beide traurig und extrem schwierig. Verzögerte Auswertung erheblich suchte die Widerstandsfähigkeit der Menschen und sollte nicht überraschend.

Und wenn die Schläge gegen sie ist nichts weiter als im Gleichgewicht stehen fest zusammen in Gruppen statt ersetzen und stellen Sie Stummel in den Wind auf jedem undanhaldi. Viðsemjanda Unser Ziel ist es offensichtlich, halten láglauna Politik und damit auch eine zerdrückte Trades Bewegung nach unten die am weitesten verbreitete und die meisten Einheiten.

Für Löhne Ausschuss ist insgesamt óskastaða wenn bæjarstarfsmenn in dem die meisten Unternehmen, die kleinen und schwachen Einheiten, die mit einem kleinen Druckverband anlegen und können individuell wenig getan Einar. LN Kosten sehr gering, wahrscheinlich nur vorübergehend Diskriminierung während dies zu gehen vorbei, die nur wenig tut, wenn auf lange Sicht.

Angestellt Typ launanefndar Gemeinden einseitig abschaffen Protokoll Nr. 7 am 1. Dezember 2002 über die Harmonisierung der Löhne Universität Gruppen innerhalb bæjarstarfsmannafélaga mmt gesamte Zusammensetzung, sagte natürlich sagen muss, dass alle in diesem Zusammenhang.

Launanefnd lokalen insgesamt fünf Personen und fünf Produkte, die vollständig befugt Gemeinschaft in dem Land zu gehen, haben die Gemeinden nicht einmal tragen einen Vertrag für die Zulassung in der bæjarstjórnum - Ursache ist absolut.

Das Ergebnis wahrscheinlich als "fein" Zweck soll eine Entschädigung erhalten harten Felsen Ausschuss láglauna politischen Deal mit hoher ágætum. Ein Beispiel dafür ist, dass STH Partnern zusammenarbeiten, die mit dem Staat, in ähnlichen Arbeitsplätzen und STH Partner mit bæjarfélaginu werden und sogar deutlich höhere Löhne als bæjarstarfsmenn innerhalb von STH.

Es gibt keinen Vorteil in der Position für die Arbeitnehmer stehen zusammen und kämpfen gegen den Wind. Es ist absolut notwendig für die März-Kontrakte nk gleiten und dann haben wir es anwenden muss. Um es mag die Menschen treffen, um zusammen zu stehen. Es geschieht nicht von selbst in dieser Hinsicht, macht es das kein Mensch und es gibt nichts in unserer Hand. Trades "Bewegung" ist keine Macht, außer durch samhentra Mitglieder. Der Fall ist nicht komplizierter als diese. Werden Sie aktiv und Stand-Team und wird uns auch in den harten Kampf, der vor uns liegt farnast

fimmtudagur, 24. september 2009

Hvaða áskrift hentar þér ...

... spyr Mogginn? Engin svara ég tafarlaust. Davíð Oddsson í stól ritstjóra Morgunblaðsins er ekki akkúrat það sem íslensk þjóð þarfnast. Málsvörn hrunsins og umfjöllun a la Davíð Oddsson og hans kumpána dag út og dag inn verður engum bjóðandi, pólitískt klám - Afturhvarf til hinnar grímulausu hagsmunabaráttu sægreifa og efstu laga viðskiptalífsins, sem meðal annars mun felast í linnulausum og ómaklegum árásum á það fólk sem nú um stundir gerir ekkert annað en að þrífa upp "messið" eftir hugmundafræðilegt gjaldþrot þeirra stefnu sem ritstjórinn stóð fyrir. Nei takk ómögulega hef ekki hug á því að styrkja slíkt blað.

Mogginn a la Davíð Oddsson og kornfleksið að morgni dags fer ekki saman - læt ekki kornfleksið líða fyrir það - segi upp Mogganum frá og með dags dato . Velti fyrir mér hvort að 3.000.000.000 króna skuldaniðurfelling á skuldum Moggans í febrúar s.l. sé ekki í raun hæsti flokkstyrkur Íslandssögunnar. Illa farið með mikið fé á erfiðum tímum.

Sjá pistill frá 2. febrúar s.l. "Ríkisrekin frjálshyggja"

miðvikudagur, 16. september 2009

Af pólitísku alzheimer

Íslensk pólitík er i pattstöðu – fyrir það fyrsta þá muna sjálfstæðismenn og framsóknarflokkur ekkert eftir pólitísku handlangi sínu í fyrri ríkistjórnum, sem leiddi okkur í mestu kreppu s.l. 150 ára eða svo. Í öðru lagi gefa menn sér upp þær forsendur að í efnahagsmálum sé hið algerlega frjálsa val kostur í stöðunni. Vegna þeirrar stefnu sem þessir flokkar kannast ekki við og vita ekkert af þá er Ísland einfaldlega ekki vaðandi í möguleikum hvað varðar leiðir út úr kreppunni.

Stjórnmálaumræðan hefur í fáu tekið mið af þessu ef marka má umræður á Alþingi í sumar. Hið pólitiska alzheimer gerir það að verkum að menn kannast ekki við neitt úr fortíðinni og umræðunni má líkja við pælingar um ýmsar tegundir af sumarfatnaði til þess að fara í út í sólina? þegar að hinn napri raunveruleiki er fimbulkuldi og vetrarhörkur. Heimur spádeilda bankanna um hið eilfía sumar í efnhagsmálum var tálsýn, „auglýsingarveruleiki“.

Umræður á Alþingi hafa því verið á sorglega lágu plani og í engu til þess fallnar af leiða þjóðina úr þessu ógöngum. Slíkt er ábyrgðarleysi og ber vott um pólitískt alzheimer eða meðvirkni á heimsmælikvarða „það er/var ekkert að“ það eru bara svo léleg stjórnvöld núna ? – veit það ekki en veit þó að gamaldags þrætubókarlist a la umræður sumarsins skilar engu - nema ennþá minni tiltrú á stjórnmálamönnum sem kannski var nú ekki mikil fyrir. Pólitískar skotgrafir eru ekki það sem þjóðin þarf á að halda.

laugardagur, 12. september 2009

Af hafnfirskum forvörnum

Margir Hafnfirðingar muna eftir „Stöðinni“ eins og hún var hér í eina tíð. Var eins og Hallærisplanið í Reykjavík, hluti af rúntinum á stór Hafnarfjarðarsvæðinu, vinsæll meðal unglinga m.a. vegna þess að þarna var endastöð Landleiða og sjoppan var opin langt fram eftir nóttu. Oft var margt um manninn, mikil ölvun og jafnvel slagsmál. Þó svo að ástandið um miðjan níunda áratuginn hafi verið betra en fyrr á árum þá var ástandið alls ekki gott. Menn höfðu sérstaklega áhyggjur af yngstu unglingunum sem einnig bjuggu við nokkurt aðstöðuleysi í tómstundum sínum . Gömul verbúð (Æskó) á Einarsreitnum sem bærinn hafði tekið upp í gjaldþrotaskiptum var eina athvarfið. Þegar að ákveðið var að gera átak í málefnum unglinga í lok nýjunda áratugarins þá var einnig ákveðið að freista þess að sporna við neikvæðri menningu eins og vissulega var raunin á Stöðinni.

Það var ekki gert á einni nóttu og það var heldur ekki neinn einn aðili öðrum fremur sem að því stuðlaði. Það var einfaldlega gert með víðtæku samtarfi allra þeirra sem unnu að unglingamálum með einum eða öðrum hætti. Æskulýðsráð, félagsmálayfirvöld, Lögreglan, skólayfirvöld og ekki síst foreldrasamfélagið tók höndum saman og með samstilltu langtíma átaki tókst að breyta ástandinu algerlega. Foreldrasamfélagið sýndi og sannaði að með afskiptum og einföldum skilaboðum má færa ástand til hins betra. Oft er unglingum kennt um að setja sér ekki mörk sem þau vita ekki hver eru. Það er hlutverk foreldrasamfélagsins og þegar að það gerir það eins og reyndin var varðandi Stöðina forðum þá einfaldlega virkar slíkt.

Æskulýðsráð Hafnarfjarðar sinnti forvörum af miklu kappi á þessum árum (meðfram öðrum verkefnum) m.a með stofnun Götuvitans (útideildar), fræðslufundum fyrir foreldra o.fl. Félagsmálastofnun, skólarnir og Lögreglan voru virkir þáttakendur í fræðslustarfinu. Ekki síst átti þetta við í efnahagslægðinni um miðjan tíunda áratuginn en í slíku ástandi myndast óróleiki í unglingasamfélaginu eins og raunin varð þá og kom t.d. fram í mjög aukinni áfengis- (Landa) og vímuefnaneyslu unglinga.

Það var heillaspor þegar að bæjaryfirvöld ákváðu að setja á stofn sérstaka forvarnarnefnd og setti þar með þennan mikilvæga málaflokk á eina hendi. Forvarnir eru langtímaverkefni sem snúast um að samstilla viðhorf og taka í tauma löngu áður en illa fer. Því miður er það svo að oft er blásið í herlúðra á elleftur stundu með afar takmörkuðum árangri. Tiltekin atvik geta vissulega haft mikið forvarnargildi en til langframa virkar það ekki þar sem sífellt nýjar kynslóðir vaxa úr grasi auk þess sem margt ungt fólk samsamar sig ekki með viðkomandi atvikum sem verða þá frekar séð sem slys fremur en myndgerving tiltekins þjóðfélagsástands s.s. aukinnar vímuefnaneyslu.

Forvarnarstarf í Hafnarfirði hefur síðustu ár verið til fyrirmyndar og með þeim hætti að eftir hefur verið tekið . Fyrirkomulag hér í bæ hefur verið öðrum bæjarfélögum fyrirmynd hvað varðar uppbygginu í málaflokknum. Samspil rannsókna og aðgerða er meðal þess sem einkennir starfið hér í Hafnarfirði . Rannsóknir R&G ( Rannsókn og greining) sem gerðar eru á tveggja ára fresti meðal unglinga efstu bekkja grunnskóla á öllu landinu hafa verið leiðarljós. Með því að greina niðurstöður fyrir hvert skólahverfi í Hafnarfirði og vinna forvarnarstarfið út frá þeim forsendum þá hefur tekist að koma í veg fyrir þróun sem hefði geta leitt til verri vegar. Með markvissum vinnubrögðum s.s foreldrasamstarfi , æskulýðstarfi o.fl. hefur því tekist að hafa verulega áhrif til hins betra í viðkomandi hverfum milli kannana. Því miður er það oft þannig að þegar að vel gengur þá er gengið að slíku sem vísu og ekki horft til allrar þeirrar sífelldu vinnu sem visslega fer fram til þess að halda þessum málum í eins góðu horfi og raun ber vitni.

Sterk forvarnarnefnd ásamt góðum starfsmanni er grundvöllur þess að vel gangi. Forvarnarnefnd sem hefur skýrt pólitískt umboð sem embættismaður sækir framkvæmdavald sitt til er forsenda velgengi á þessu sviði. Með nefndinni er tryggt að forvarnarmál fá vægi en lendi ekki sem aukamál í einhveri annari nefnd og hverfi í skugga annarra óskyldra mála. Forvarnarfulltrúi verður „landlaus“ hvað varðar umboð og þarf að leita til margra nefnda. Skilvirkni verður minni, ákvarðanataka verður mun flóknari og síðast en ekki síst er hætta á að áralöng reynsla og þekking fari forgörðum. Forvarnastarf gegnir mikilvægu hlutverki og ekki síst á tímum eins og þessum þar sem æskan er sérstakur áhættuhópur. Að leggja niður forvarnarnefnd var misráðið og hefur auk þess óverulegan sparnað í för með sér. Eitt af verkefnum forvarnarnefndar þessi dægrin ætti að vera stefnumótun um hverning bæjaryfirvöld munu taka á auknu atvinnuleysi 16 – 20 ára ungmenna sem er sérstakur áhættuhópur umfram aðra atvinnulausa. Annað ætti að vera að búa foreldrasamfélagið undir breytta tíma í unglingaumhverfinu og svona mætti lengi telja. Verkefni eru ærin og ekki vænlegt til árangurs að leggja ára í bát.

miðvikudagur, 9. september 2009

Næsti formaður BSRB?

Í október verður haldið BSRB þing. Sem kunnugt er þá mun Ögmundur Jónasson láta af störfum sem sem formaður. Ögmundur hefur reynst afar farsæll leiðtogi og gert BSRB að virku afli í íslensku samfélagi. Í hans tíð hafa margir sigrar unnist og mörgum misundarlegum ráðagerðum stjórnvalda gegn hagsmunum opinberra starfsmanna og launamanna almennt hefur verið hrundið á bak aftur. Þvert á það sem pólitískir andstæðingar Ögmundar hafa haldið fram þá hefur hann átt náið og gott samstarf við "allra flokka fólk"innan BSRB enda forystan skipuð fólki úr öllum áttum og reyndar ekkert endilega flokksbundnu fólki. Þetta breiða samráð og samstarf er einfaldlega galdurinn á bak við farsæld formannsins og velgengni BSRB á umliðnum árum. Verkalýðsbarátta spyr ekki um flokkskírteini, hún spyr einfaldlega um hverjir eru hagsmunir launafólks og hverning eru þeir best varðir.

Nú vaknar óneitanlega sú spurning hver verður næsti formaður BSRB? Þegar að þetta er ritað er engin búin að gefa opinberlega kost á sér en heyrst hafa nöfn eins og Árna S Jónssonar formanns SFR, Garðars Hilmarssonar formanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns FOSS og Samflots bæjarstarfsmanna, Örnu Jakobínu Björnsdóttur formanns Kjalar og Snorra Magnússonar formanns Landsambands lögreglumanna.

Allt er þetta sómafólk og þau fjögur fyrstnefndu þekki ég vel í tengslum við störf mín innan BSRB um langa hríð. Öll eru þau fulltrúar stærri heilda innan BSRB og ef að líkum lætur þá mun forystumaður fjölmennasta félagsins sigra í formannskjöri en með minna en 50 % fylgi sökum mikillar dreifingar atkvæða. Ef bæjarstarfsmenn sameinast um kandidat þá vinnur sá en það verður að teljast harla ólíklegt að slíkt verði þó svo að ekkert sé útilokað í þeim efnum. Það má jafnframt velta fyrir sér hvort æskilegt sé að formaður komi úr stærstu félögunum. Ögmundur Jónasson var fulltrúi Starfsmannafélags Sjónvarpsins sem var og er mjög lítið félag þrátt fyrir sameiningum við Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins. Í þessu mikilvæga embætti er nauðsynlegt að geta hafið sig yfir félagsheildir innan BSRB og formaður verður að vera sameiningartákn og ótvíræður fulltrúi allra félaga og félagsmanna innan BSRB.

Treysti mér ekki í að spá fyrir um lyktir en veit að verkefnið verður vandasamt, hver sem við því tekur, og ekki síst það að taka við af sterkum formanni sem naut nánast 100% trausts þing eftir þing. Mun að sjálfsögðu fylgjast með með framvindu mála.

mánudagur, 31. ágúst 2009

Af pólitísku kennitöluflakki

Það verður að segjast eins og er að oft hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt betri daga í íslenskri pólitík en nú um stundir. Málflutningur formannsins í Valhöll um daginn hljómar eins og að flokkurinn hafi fengið nýja kennitölu og komi ekki lengur við gamla kennitalan eða mál henni fylgjandi. Þarna var um að ræða afneitun á heimsmælikvarða. Er auðvitað absúrd eins og reyndar sneypirför aðal hugmyndafræðings flokksins um daginn í mótmæli gegn sjálfum sér á Austurvöll með bók sína „Svartbók kommúnismans“ undir hendinni. Fullkomlega misheppnað PR hjá hugmyndafræðingnum ,var svona álika „gáfulegt“ eins og að kveikja sér í sígarettu í púðurgeymslu.

Hugmyndafræðilegt gjaldþrot er staðreynd og bjartsýni að halda að gamla þrotabú frjálshyggjunnar nýtist eitthvað inn í framtíðina. Oddur Ólafsson heitinn og ýmsir aðrir mætir menn héldu uppi merkjum samhygðar og félagshyggju innan Sjálfsstæðisflokksins í eina tíð. Þá var öldin önnur og engin kannast við slíkt lengur, núna eru tímar frjálshyggjunnar og fyrirheitnu löndin eru Argentína og Chile. Hinn pólitíski kompás íhaldsins er í algeru lamasessi og bendir einungis á „ysta hægrið“ og meðan að svo er þá á flokkur lítið erindi við samtímann og fjarri því að vera það afl sem einu sinni var.

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Unglingalýðræði en bara þegar að vel gengur

Velti fyrir mér hvort Ungmennaráð Hafnarfjarðar hafi verið haft með í ráðum í ákvörðunum um verulegan niðurskurð í starfsemi félagsmiðstöðva? Held ekki og velti fyrir mér hvers vegna hefur ekki verið óskað álits þeirra á þessari ráðagerð sem snertir þau með beinum hætti ? Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara. Minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann, sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða ?

Hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð Hafnarfjarðar ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál sín að segja þegar á reynir ? Ungmennin eru ekki einu sinni spurð álits þegar að unglingastarfsemi í bæjarfélaginu er skorin verulega niður og langt umfram annan niðurskurð ?

Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára aldur og með því gefa ungu fólki raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins og ekki síst á þau mál sem á þeim brennur – Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs - Tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð sem því miður vill verða – Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

Núna í aðdraganda Verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram, óháð lögum, fjölda dóma og almennu siðferði.

Við foreldrar
, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það er ekki við hæfi.


Foreldrar – forráðamenn og allir þeir aðilar sem hafa velferð æskunnar að leiðarljósi - Sýnum hug okkar í verki - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Mikilvæg áskorun frá FFF

Barst þessi þarfa áskorun frá FFF

Sjá ennfremur pistil frá 18.nóvember 2008 http://addigum.blogspot.com/2008/11/skan-erfium-tmum.html

"Stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu hefur sent sveitarstjórnum á Íslandi eftirfarandi áskorun:

"Félag fagfólks í frítímaþjónustu skorar á sveitarstjórnir að standa vörð um starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila fyrir börn og unglinga á þeim umbrota- og óvissutímum sem Íslendingar lifa nú og tryggja um leið jöfn tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu frítímastarfi. Félagið varar við afleiðingum þess að skerða framlög til frítímastarfs barna og unglinga hjá sveitarfélögunum.


Sveitarstjórnir eru langstærsti stuðningsaðili við frístundastarf barna og unglinga. Á vegum sveitarfélaganna er komið til móts við þarfir ófélagsbundinnar æsku, sérstaklega þeirra barna og unglinga sem finna síður sína fjöl hjá íþróttafélögum eða frjálsum félagasamtökum. Þörfum barna og unglinga sem standa höllum fæti er nær eingöngu mætt í frítímaþjónustu sveitarfélaganna. Sú starfsemi er því kjarninn í öllu forvarnarstarfi á Íslandi. Öflugt frístundastarf stuðlar að auknum samskipta- og félagsþroska barna og unglinga og er lykilatriði þegar hlúð er að komandi kynslóðum sem munu bera uppbyggingu þjóðfélagsins í náinni og fjarlægri framtíð.


Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda dregur úr líkum á hvers kyns áhættuhegðun, s.s. áfengis- og vímuefnaneyslu og ofbeldi. Ávinningur af því að skerða starfsemi þar sem börn og unglingar eru virkir þátttakendur er því enginn. Mikill ávinningur yrði hins vegar að því að styrkja slíka starfsemi.


Félagið bendir jafnframt á að Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þann 16. mars sl. var samþykkt þingsályktunartillaga um lögfestingu sáttamálans á Íslandi. Samkvæmt 31. grein sáttmálans viðurkenna aðildarríkin rétt barns til tómstunda og til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess. Auk þessa skuldbinda aðildarríki sig til að virða og efla rétt barns til fullrar þátttöku og stuðla að viðeigandi og jöfnun tækifærum til tómstundaiðju."


F.h. Félags fagfólks í frítímaþjónustu,

Eygló Rúnarsdóttir, formaður

Afrit: Félagsmálaráðherra, Heilbrigðisráðherra, Menntamálaráðherra og Umboðsmaður barna"

þriðjudagur, 14. júlí 2009

Jón Hlöðver Áskelsson

... tónskáld er praktíserandi menningarveita sem gerir það að verkum að maður á erindi oftar en ella til Akureyrar. Sá og heyrði í Kvartett Inga Rafns í Ketilhúsinu s.l fimmtudag þar sem téður Jón Hlöðver kynnti kvartettinn til leiks. Fínir spilarar m.a Sigurður Flosason sax, Kjartan Valdimarsson píanó og einn efnilegast bassaleikari landsins Valdi Kolli. Mjög fínir tónleikar en ekkert einsdæmi því tónlistarlífið á Akureyri er í miklum blóma og hefur verið um margra ára skeið. Minnist með gleði Djangó jazz hátíðar sem ég sótti fyrir nokkrum árum og var sérstaklega vel heppnuð. Þetta og margt fleira sprettur ekki fram af sjálfu sér, það er fyrir tilstilli manns eins og Jón Hlöðvers og hans samstarfsmanna sem auðugt tónlistarlíf verður að veruleika. Og slíkt fólk er mikill akkur fyrir sitt bæjarfélag og þess nýtur Akureyrarbær ríkulega.


mánudagur, 22. júní 2009

Dópið og vélainnflutningur

Sem kunnugt er var einn af eigendum Vélasölunar - R. Sigmundsson handtekin grunaður um stórfelldan eiturlyfjainnflutning. Ekki þekki ég nánari deili á þessu máli að öðru leyti en því að þetta minnir mig á mál sem kom upp í Svíþjóð á námsárum mínum þar fyrir margt löngu, mál sem vakti töluverða athygli.

Þannig var að glöggur starfsmaður í tollaeftirliti uppgötvaði að fyrirtæki eitt, vélasala, flutti inn tölvert magn af gröfubúnaði og íhlutum í vinnuvélar, sem ekki var í frásögu færandi nema af þeirri ástæðu einni að þrátt fyrir töluverðan innflutning þá var lítið selt og auk þess til mun betri framleiðsla innanlands.

Maðkur í mysunni -hugsaði okkar maður og tilkynnti efasemdir sínar til yfirvalda alls óvitandi um að með því kæmi hann upp um stórfelldan fíkniefnainnflutning. Við rannsókn kom í ljós að nánast allur vinnuvélabúnaðurinn sem fluttur var inn var stútfullur af eiturlyfjum og flest var þetta hlutað í sundur, dópið hirt og græjunum oft hent.

Ekki ætla ég að halda því fram að Vélasalan R Sigmundsson sé í þessum bransa en óneitanlega finnst manni í ljósi sögunar að öllu umhverfi þessara glæpamanna sem stunda eiturlyfjainnflutning sé gaumur gefin - ekki satt?

fimmtudagur, 18. júní 2009

Í hvaða liði er landlæknir ?

Ég er alveg gapandi hissa á ýmsum ummælum landlæknis í Fréttablaðinu í dag. Ég hélt að landlæknisembættið tilheyrði forvarnarapparatinu. Reyndar er það svo að margir starfsmenn embættisins eru afar dugmiklir á þeim vettvangi og því undarlegt að æðsti yfirmaður embættisins sé í hróplegu ósamræmi við störf þess ágæta starfsfólks. Sorglegt að landlæknir skuli veifa hvítri dulu í "fíkniefnastríðinu". Hvað næst, ráðleggingar um hvernig nýta má kannabis til að vinna á þunglyndi vegna notkunar e-pillunnar? Nei takk ómögulega - Afnám laga fækkar "brotum" en bætir ekki raunverulegt ástand. Í þessum málaflokki þýðir ekkert að setja rassinn upp í vindinn og hrekjast undan.

miðvikudagur, 10. júní 2009

Spilandi Tommaborgari ?

Íþróttafréttaritarar eiga oft æði skrautlegar fyrirsagnir en þessi er með þeim betri:

"Þýski handb: Hamborgari m/markamet"


Hvort ætli það sé MacDonalds eða Burger King - varla Tommaborgari?

þriðjudagur, 2. júní 2009

Núna eru kjarasamningar lausir...

...og sami söngurinn í vinnuveitendum sem endranær. Ekki einu sinni staða til að efna gerða samninga. Minnist þess hins vegar ekki að nokkurn tíma hafi verið ráðrúm til eins eða neins og var ég þó um langa hríð í þessu baksi sem formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og stjórnarmaður í BSRB. Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík ríður ekki við einteyming og sorglegast er að launanefnd sveitarfélaga tók að sér það viðvik, fyrir margt löngu, fyrir hönd vinnuveitenda í landinu, að vera helsti talsmaður þessarar mannfjandsamlegu launastefnu. Stefnu sem fylgt hefur verið af fullri einurð árum saman, eindrægum vilja og algerlega óháð efnahagsástandi .

Meira að segja í „góðærinu“ sáluga var ekki ráðrúm til hækkana sem nú hefur augljóslega leitt til enn meiri vandakvæða fyrir almenning en ella hefði verið. Sanngjörn laun hefðu auðvitað leitt til þess að neysla hefði byggt á eigin sparnaði en ekki lántökum eins og raun varð í samfélagi „góðærisins“ þar sem bankamenn fenguð sérstök aukalaun fyrir að moka út lánasamningum vegna of gnóttar fjár í bankakerfinu.

Hærra hlutfall launa hefði auðvitað slegið á ofurgróða (og þenslu) margra fyrirtækja eða í það minnsta deilt ágóðanum út á sanngjarnari máta en raunin varð. Hins vegar hafa íslenskir kjarasamningar því miður ekki snúist um réttláta og sanngjarna skiptingu tekna samfélagsins – um það hefur fjarri því verið sátt og íslensk kjarabarátta hefur því einkennst af samfeldum átökum og vantrausti gagnvart vinnuveitendum.

Þjóðarsáttin sáluga var í boði verkalýðshreyfingarinnar – raunhæf og ábyrg leið a.m.k. hvað varðaði þátt verkalýðshreyfingarinnar í henni. Samningar og hugsun sem hélt ekki og varð græðgisvæðingunni að bráð , hinnar sk. brauðmolahagfræði sem kennd er við frjálshyggjuna. Í stað þess að byggja upp innri stoðir samfélagsins með margvíslegum hætti og nýta ávinning þjóðarsáttarinnar í þágu samfélagsins alls þá varð raunin allt önnur og sú sem við okkur blasir nú. Og svo halda menn að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík, þetta félagslega böl, sé líkleg til þess að koma íslensku efnahagslífi í gang?

laugardagur, 23. maí 2009

Börn, unglingar og þjóðfélagsumrót

Í bókinni Da Danmark fik sin ungdom, saga Ungdomsringen (Danska Samfés) í 50 ár, kemur fram hve gríðarlega mikilvægu hlutverki félagsmiðstöðvar gegndu á stríðstímum í hinni hernumdu Danmörku. Í Dönsku andspyrnuhreyfingunni var margt ungt fólk sem upplifði því miður ýmislegt sem ekki var beinlínis uppbyggilegt.

Samfélagið varð því að finna einhver ráð til þess að halda utan um ungviðið. Í þeim efnum voru félagsmiðstöðvar í lykilhlutverki – ekki hvað varðar skipulag og starf andspyrnuhreyfingarinnar – félagsmiðstöðvar voru lykilaðilar í því að halda hinum mannlegu gildum að ungmennum, gildum sem því miður fer lítið fyrir í stríðsátökum og gildum sem því miður verða ríkjandi ef ekkert er aðhafst í þeim samfélögum þar sem allt fer á skjön.

Hættan er því sú að kynslóðir ungs fólks sem ekki hafa hin sammannlegu gildi í hávegum vaxi upp og lifi og starfi í samfélaginu út frá reynslu sem ekki virkar með tilheyrandi árekstrum og vandamálum.

Ekki ætla ég að jafna ástandi hérlendis þessi misserin við reynslu þeirra sem búa yfir hinni sáru og óbærilegu reynslu stríðsátaka. Ég ætla hins vegar að halda því fram að kreppan sem læðist að okkur eins og skugginn muni hafa margvíslegar félagslegar afleiðingar sem hugsanlega munu leiði til einhverskonar afskiptaleysis gagnvart æskunni. Við slíkar aðstæður er hætta á að unglingurinn/ barnið telji að hið erfið ástand sé því að kenna. Sá sem þetta ritar upplifði kreppuna 68 með augum barnsins, skynjaði að eitthvað var að en skyldi ekki hvað það var og eða hvers vegna var svona dauft yfir fullorðna fólkinu. Í þessu ljósi er því gríðarlega mikilvægt að gleyma ekki ungviðinu eins og því miður gæti orðið raunin.

Æskulýðsstarf í sinni víðustu mynd hefur því afar miklu hlutverki að gegna og góðu fréttirnar eru þær að við eigum góða að í þeim efnum; starfsemi félagsmiðstöðva er með miklum blóma , Ungmennafélagshreyfingin, Skátarnir, KFUM & K, íþróttahreyfingin og fleiri státa af mjög fjölbreyttu og vönduðu starfi. Hlutverk stafsmanna í æskulýðsstarfi er alltaf mikilvægt og á tímum eins og þessum sérlega mikilvægt.

Hin faglega kunnátta að geta unnið með börnum og unglingum út frá hinum félaglegu afleiðingum kreppunnar eru sönn verðmæti sem ekki verða metin til fjár á hinum síðustu og verstu...

miðvikudagur, 20. maí 2009

Frábært frumkvæði

Framhaldsskólanemar gefast ekki upp þó að á móti blási. Nú hefur Samband framhaldsskóla haft forgöngu um samstarfi við Menntamálráðuneytið, Hugmyndaráðuneytið og ÍTR að verkefninu FRUMKVÆÐI sem byggir á þeirri hugmynd að virkja ungt atvinnulaust fólk með ýmsum hætti. Afar mikilvægt og verðugt verkefni sem mun örugglega gera sig vel og koma mörgu ungu fólki til góða. Sjá nánar: www.frumkvaedi.is

mánudagur, 4. maí 2009

Kemur ekki á óvart

Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands gerði nýverið könnun um breytt gildi Íslendinga í kjölfar hrunsins (Þjóðmálastofnun. Könnun á viðhorfum til endurreisnar samfélagsins Háskóla Íslands, Kolbein Stefánsson og Stefán Ólafsson Fréttabréf nr. 4 - 2009).
Niðurstöður skýrar eins og sjá á myndum hér að neðan sem teknar eru úr grein þeirra Kolbeins og Stefáns. Athyglisvert en kemur ekki á óvart. Frjálshyggjan á sér fá talsmenn um þessar mundir, tiltrú á markaðinn lítil eins og sjá má.

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Einstaklega "háð" blað

"Margir ætla að skila auðu" segir Morgunblaðið í stríðsfréttaletri á forsíðu í morgun. Þýðir á íslensku - "Ósáttir sjálfstæðismenn í guðana bænum afsalið ykkur kosningaréttinum og kjósið ekki aðra þó þið séuð spæld út í okkur" - Morgunblaðið á tímum kosninga, einstaklega "háð" blað

mánudagur, 20. apríl 2009

Að fortíð skal hyggja þá framtíð á að byggja

Undirritaður skilur vel að sjálfstæðismenn vilji helst gleyma 6.575 daga valdatíð sinni sem fyrst - en að byggja kosningabaráttu sína fyrst og fremst upp á skítkasti um aðra flokka er sorglegt - Fyrir hvað stendur þessi flokkur eiginlega ? - Hvar eru "málefnin"? - "Að fortíð skal hyggja þá framtíð á að byggja"

laugardagur, 11. apríl 2009

Það segir fátt af Sigurði Kára

Þingmaðurinn Sigurður Kári fór mikinn s.l. haust í afar ómaklegri og persónulegri árás á ágætan vin minn og starfstarfsmann til margra ára Ögmund Jónasson. Sigurður sakaði Ögmund m.a. um að notfæra sér BSRB í pólitískum tilgangi. Nú þarf Sigurður Kári endilega að skýra fyrir okkur hvert sé hans álit á því að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (og fyrverandi formaður Vinnuveitaendasambandsins) sé jafnframt formaður fjáröflunarnefndar Sjálfstæðisflokksins?

Spurning er því sú hvort komi fyrst hænan eða eggið - er Sjálfstæðisflokkurinn hluti af "eignasafni" Samtaka atvinnulífsins eða öfugt? Og hvor er að nýta sér hvern eða er þetta sama apparatið allt saman? Veit það ekki en óneitanlega álitið "hagkvæmt" að sami maður gegni þessum mikilvægu hlutverkum? Hvað segir Sigurður Kári?

föstudagur, 10. apríl 2009

Í hinni vinnunni í vinnuni

Sem fyrrum verkalýðsforingi lenti ég einu sínni í því að reyna að grípa til varna fyrir starfsmann sem hafði orðið á í messunni. Viðkomandi hafði ráðið sig til starfa úti í bæ án þess að að segja upp sínu fyrra starfi sem er auðvitað brot á öllum reglum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Viðkomandi sagði sér til málsbóta að eiginkona hans sinnti starfsskyldum hans þar sem störfin sköruðust, sem var í nokkru mæli en að öðru leyti sinnti hann öllum starfskyldum en viðurkenndi að vinnudagurinn væri oft æði langur. Vinnuveitandi og hans fulltrúar gerðu ekkert með þessi rök og viðkomandi var umsvifalaust vikið úr starfi með tilvísun í réttindi og skyldur opinberra starfsmanna .

Þetta leiðir hugann að ýmsu sem varðar starfsskyldur í samfélaginu. Bankamenn margir hverjir hafa í sínum vinnutíma og á kostnað vinnuveitenda sinna, viðkomandi banka, möndlaði í sína þágu – selja sínum fyrirtækjum verðbréf af ýmsum toga . Ekki hefur verið gert mikið með þetta fyrr enn núna síðustu daga. Þjóðþekktur ógæfumaður lék í sjónvarpsauglýsingu fyrir öryggisfyrtæki hér um árið. Vakti mikla gagnrýni en fyrirtækið sá ekkert athugavert við slík en hefði sennilega skipt um skoðun ef viðkomandi hefði stundað iðju sína innan veggja fyrirtækisins. Það má velta fyrir sér hvort þetta sé ekki hinn blákaldi veruleiki varðandi marga háttsetta bankamenn síðustu ára – á kaupi við að brjótast inn hjá vinnuveitenda sínum?

Nú eru bankarnir komnir í ríkiseign þannig að réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ættu að gilda – fínt plagg og varðað ýmsum siðferðilegum viðmiðum sem hæfa í siðuðu samfélagi - Veitir ekki af þar sem siðareglur bankakerfisins (ef einhverjar eru) hafa ekki virkað.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Þora sjálfstæðismenn ekki út úr (þing)húsi

Fólk veltir fyrir sér þessu endalausa málþófi sjálfstæðismanna á þingi. Er þetta uppstand í hnotskurn grímulaus hagsmunagælsa flokksins t.d gagnvart „séreign“ á auðlindum þjóðarinnar (sbr. frumv. um breytingar á stjórnarskrá) eða þora sjálfstæðismenn ekki út í vorið og inn í kosningarbaráttuna. Getur verið að sjálfstæðismenn meti stöðu sína svo veika að betri kostur sé að húka inni á þingi í endalausu málþófi fremur en að freista þess að koma stefnumiðum flokkisins á framfæri við kjósendur í heiðarlegri kosningabaráttu? Í hverra þágu er allt þetta leikverk sjálfstæðismanna? Sorglegt hvað flokkurinn gerir lítið úr sjálfum sér.

þriðjudagur, 31. mars 2009

Bókin kemur ekki út á morgun

Eins og margir vinir mínir vita þá hef ég nýlokið við bók um sögu æskulýðsmála í Hafnarfirði. Ég áætlaði að bókin yrði klár úr prentun í byrjun apríl en vegna prófkjara og landsfunda ýmiskonar þá var prentsmiðjan tilneydd til þess að fresta útgáfunni um nokkra daga. Bið ég fólk afsökunar á þessari seinkun og einnig því að áætluð móttaka í Hafnarborg á morgun 1. apríl kl 17:00 fellur niður.
Hins vegar má panta bókina í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar í sima 585 55 00 og eða póstfanginu hafnarfjordur@hafnarfjordur.is Bókin er 186 síður, prýdd fjölda mynda og kostar aðeins 2.600 krónur.

mánudagur, 23. mars 2009

Er frjálshyggjan ekki frjálshyggjunni að kenna ?

Undarlegt að sjá undir iljarnar á helstu talsmönnum "hugmyndafræði frjálshyggjunnar" þegar að talið berst að ábyrgð ! Vondir karlar í “góðu kerfi” er hið staðlaða svar – hefur maður ekki heyrt þessa frasa áður og voru það ekki akkurat menn eins og hugmyndfræðingurinn Hannes Hólmsteinn og hans lærisveinar sem gerðu grín að svona rökum hér í eina tíð. Þótti ekki góð retorik í þá daga en að virðist nýtileg í nauðvörn frjálshyggjunnar um þessar mundir. Verst auðvitað ef að menn afneiti tengslum við hugmyndakerfið með öllu, svona svipað eins og í Markúsarguðspjalli 14:72

Í Chile frjálshyggjunnar var mikið haft fyrir “góðu körlunum” – eitt stykki her nýttur til að halda hugmyndafræðinni gangandi sem reyndar átti einnig við í Sovétinu sáluga – Alltaf erfitt þegar að almúginn passar ekki inn í hugmyndakerfi aðalsins hverju nafni sem hann kann að nefnast hverju sinni - skiptir þá í engu hvort átt er við fullkomlega misheppnaða brauðmolahagfræði frjálshyggjunnar eða alræði Sovétsins sáluga.

mánudagur, 16. mars 2009

Barnasáttmálinn lögfestur

Sá afar ánægjulegi atburður átti sér stað í dag að Alþingi Íslendinga lögfesti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það var þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústson sem fékk frumavarp sitt þess efnis samþykkt.
Sannarlega gleðitíðindi þar sem lögfestingin verður til þess að margvísleg réttindi barna og ungmenna hvíla nú á sterkari stoðum en verið hefur – ekki veitir af höfum við mörg hver sagt, sem í uppeldisgeiranum vinnum.

Sjá sáttmálann

sunnudagur, 15. mars 2009

Tóbakssalar og Davíð Oddsson

Voru orð í tíma töluð, þó langt sé um liðið. Á sér hliðstæðu í "markaðsátaki" bjórbransans í dag. Vettvangur - Fundur Æskulýðsráðs Reykjavíkur, dagurinn er þriðjudagurinn 22. febrúar á því herrans ári 1977. Dagskráliður 7.

"Rætt um auglýsingaherferð tóbaksseljenda sem stendur yfir. Formaður ráðsins, Davíð Oddsson, lagði fram eftirfarandi tillögu: "Æskulýðsráð Reykjavíkur fordæmir þá herferð, sem hafin er í þeim tilgangi að hvetja m.a. ungt fólk til tóbaksnotkunar. Hvetur ráðið sérhvern borgara að gera sitt til þess að slík herferð renni út í sandinn, svo hún nái ekki að vinna það tjón, sema henni er ætlað.” Tillagan var samþykkt samhljóða. Jafnframt var framkvæmdastjóra falið að beina þeim eindregnu tilmælum til kaupmanns þess, er verslun rekur í Skaftahlíð 24 ( við Tónabæ) , að hann fjarlægi tóbaksauglýsingar úr gluggum verslunarinnar".

Tek sérstaklega ofan fyrir formanninum fyrir þessa skeleggu bókun. Þurfum nokkrar svona bókanir og viðbrögð í dag gegn auglýsingaherferðum í áfengisbransanum, auglýsingar sem að langstærstum hluta er beint gengdarlaust á börn og ungmenni. Fara því miður yfir strikið átölulaust um þessar mundir, bæði siðferðilega og ekki síst lagalega.

Vona hins vegar að það fari fyrir þeim eins og fór fyrir tóbaksauglýsingunum, hverfi, og þangað til að svo verður þá hvet ég fólk til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir

þriðjudagur, 3. mars 2009

Fréttatilkynning frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum.

Undanfarið hefur staðið yfir markviss áfengisauglýsingaherferð. Tilefnið “20 ára afmæli bjórsins”. Sem fyrr þá er auglýsingum beint sérstaklega að börnum og unglingum. Þrátt fyrir fjölda dóma vegna sambærilegra auglýsinga þá brjóta hagsmunaaðilar lögin dag út og dag inn að virðist átölulaust. Viðskiptasiðferði þessara aðila er á lægsta plani og virðing fyrir lögvörðum réttindum barna og unglinga er engin.

Útvarpsstöðvar sem höfða sérstaklega til barna og unglinga auglýsa ekki bara bjór, fjölmargar auglýsingar eru frá veitingarhúsum og eru um sterka áfengadrykki. Einstaklega ósmekklegt þar sem markhópur viðkomandi útvarpsstöðva hefur ekki einu sinni aldur til að sækja viðkomandi vínveitingahús. Ríkissjónvarpið sem hefur ríkum skyldum að gegna í þessum efnum og á að vera öðrum miðlum fordæmi birtir með reglulegum hætti áfengisauglýsingar og nú síðast án þess að reyna á nokkurn hátt að snúa út úr skýrri löggjöf um bann við áfengisauglýsingum. Vinsælir þættir á Skjá einum eru kostaðir af áfengisframleiðendum með tilheyrandi áfengisauglýsingum og svona mætti lengi telja.

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum spyrja einfaldlega – Hvar er ákæruvaldið? Hvar er útvarpsréttarnefnd? Hvar er hin ritstjórnarlega ábyrgð? Hvar eru borgar- og bæjaryfirvöld sem veita jákvæðar umsagnir um vínveitingaleyfi til vínveitingastaða sem þverbrjóta lög?

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á almenning að sýna hug sinn í verki og senda inn ábendingar um brot á banni við áfengisauglýsingum. Það er hægt að gera með einföldum hætti rafrænt í gegnum heimasíðu samtakanna http://www.foreldrasamtok.is/ á slóðinni http://foreldrasamtok.is/?p=kaerubref

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum
http://www.foreldrasamtok.is/

Vinsamlegast áframsendið þessa tilkynningu til vina, vandamanna og allra þeirra sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti.

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Hugtakið "pólitísk hirðfífl"

...dettur manni helst í hug þessi dægrin, hugtak sem því miður á sorglega vel við um málflutning ýmissa þingmanna.

Ábyrgðarleysi að dýrmætur tími Alþingis á ólgutímum sem þessum sé “nýtur” með eins fáfengilegum hætti og dæmi eru um. Breytingar á kosningalöggjöf verða vonandi til þess að ábyrgir kjósendur skipi viðkomandi þingmönnum af þessu kalaberi verðugan “sess” á listum þegar í kjörklefann er komið.

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Veist þú hvar barnið þitt...

... er á Netinu auglýsir Síminn og bendir á netvara sem fyrirtækið býður áskrifendum sínum.

“Með Netvaranum fær heimilið öflugt tæki til að útiloka óæskilegt efni á netinu og koma þannig í veg fyrir að börn og unglingar villist þangað sem þau eiga alls ekki erindi.”

Er gott og gilt svo langt sem það nær – sem er stutt því á vef fyrirtækisins Ja.is er illa dulbúinn brennivínsauglýsing – ætli netvörnin virki gegn því ?

Þvílík lágkúra af hálfu fyrirtækisins og virðingarleysi gagnvart þeim börnum og unglingum sem nýta sér þjónustu Ja.is

laugardagur, 7. febrúar 2009

Ingvar Viktorsson í sérverkefni varðandi Seðlabankann

Ingvari Viktorssyni vini mínum hefur tekist það sem mörgum hefur dreymt um. Okkar ágæti forsætisáðherra Jóhanna Sigurðardóttir ætti að ráða Ingvar í tímabundið og afmarkað verkefni sem væri að koma seðlabankastjóra út, því nú virðist ljóst að það verður ekki einfalt mál. Því er runnin upp tími nýrra og óhefðbundinna lausna í þessari tragí komidíu seðlabankastjórnas.

Þannig var nefnilega mál með vexti að fyrir nokkrum árnum mætti seðlabankastjórinn þv. forsætisráðherra á herrakvöld FH. Veislustjórinn Ingvar Viktorsson, sem er húmoristi mikill, tók embætti sitt af mikilli alvöru og eftir að hafa farið með allmargar sögur og gamanmál tók hann til við fjáröflun sem fólst í bögglauppboðum. Heldur voru menn tregir til kaupa en samt sem áður gekk uppboðið ágætlega en frekar hægt fyrir sig. Ingvar vildi auðvitað, í þágu okkar ágæta félags, fá þolanleg verði fyrir fótnuddatækin, eftirprentarinar, íþróttafatnaðinn, handklæðin, prentarana, ryksuguna, pútterinn, bumbubanann, FH bollastellið og ekki síst fyrir þurrkarann.

Það var akkúrt í þann mund sem að Sæli Guðmunds, FH-ingurinn góðkunni, er að bjóða í þennan kostagrip að ræðumaður kvöldsins seðlabankastjórinn tilvonandi fyrverandi og þáverandi forsætisráðherra stóð upp og rauk á dyr án þess að kveðja hvorki kóng né prest.

Verkefni Ingvars einfalt – skipulag og framkvæmd herrakvölds FH í salarkynnum Seðlabankans með frómri ósk um hátíðarræðu.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Ríkisrekin frjálshyggja...

... er ný vídd í pólitískri hugmyndafræði. Blað "allra landsmanna" Morgunblaðið er á framfærri þjóðarinnar um þessar mundir í gegnum banka okkar landsmanna sem ku vera með blaðið í öndunarvél.

Samkvæmt hefðbundinni Mogga lógik þá er blaðið orðið offramboð af sjálfu sér og því svo komið að leggja þarf blaðið niður enda hefur "markaðurinn" hafnað því. Samkvæmt sjónarhorni frjálshyggjunnar er ritstjórnin léleg, blaðmenn ómögulegir, leiðinleg skrif, ómögulegar greinar, blaðið illa rekið svo nokkur dæmi séu nefnd og síðast en ekki síst, engin vill auglýsa í blaðinu og áskrifendur eru fáir.

Ríkisdagblaðið Mogginn er arfaslöpp hugmynd en því miður veruleiki - einu afskipti ríkisins af Morgunblaðinu eiga að vera þau að búa blaðinu einhvern sess á Þjóðminjasafninu innan um aðra sýningargripi. Sýningargripurinn - Morgunblaðið im memorium - blaðið sem varð að lokum fórnarlamb eigin hugmyndaheims – táknrænt fyrir gjaldþrot frjálshyggjunnar bæði á hinum veraldlega og huglæga vettvangi – ekki satt - Mörg brýnni verkefni sem bankarnir okkar ættu að sinna fremur en að dæla milljónum í Moggann sem fólk vill ekki kaupa?

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Hefur einhver verið í ...

...brúðkaupi þar sem skyndilega, í miðri veislunni, einhver gestanna rýkur upp á sviði, tekur hljóðnemann og æpir yfir samkvæmið “ ég elska þig Gunna” og í sama mund í hinum enda salarins brestur kona í grát og segir “ ég elska þig líka Þorlákur”. Þetta verður til þess að Þorlákur hleypur ( hægt og svífandi !) þvert yfir salinn beint í útbreiddan faðm Gunnu ... og þau kyssast innilega ... og viti menn brúðhjónin, presturinn, ættingjar, og aðrir gestir mynda hálfhring um parið, fella tár, klappa og gleðjast innilega yfir örlögum Þorláks og Gunnu sem nú hafa greinilega loks náð saman. Hljómsveitin leikur gleðisöng Þorláki og Gunnu til heiðurs ...!

Aulahrollur hríslast um mann og hugsun um hve ótrúlegt rugl er borið á borð fyrir ungt fólk í formi margra amerískra bíómynda, sem leiðir hugan að því hve nauðsynlegt er að hlú að okkar eigin menningu. Ef ekkert verður að gert í þeim efnum þá munum við sennilega fyrr en varir fá töluvert af “æpandi pörum” í brúðkaupum annara. Amerísk "hágæða" væmni? Ekki beinlínis sú menning sem íslendingar vilja kenna sig við eða hvað?

Menningarverðmæti er það bara frasi í hátíðarræðum stjórnmálamanna?

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Það er um að gera ...

...að eyða dýrmætum tíma þingisins til þessa að vinna að því hörðum höndum að koma brennivíni í matvörubúðir. Skil ekkert í skrílnum að láta svona fyrir utan Alþingishúsið, þingið verður að fá frið og ráðrúm til þess að koma helsta stefnumáli stuttbuxnadeildar íhaldsins í framkvæmd.

Það er ekkert betra fyrir “unga” þingmenn en það að geta keypt sér í matvörubúðinni eina tvær rauðvínsflöskur á degi eins og þessum til þess að dreypa á með þriðjudags kjötbollunum og ekki er nú verra að fá sér örlítið koníak með kaffinu á eftir.

Það er í mörgu að mæðast hjá formanni menntamálanefndar og formanni heilbrigðisnefndar Alþingis sem bæði hafa þá djúpu pólitísku sannfæringum að þetta, að koma auglýstu áfengi í matvörubúðir, séu hin brýnu málefni íslensks samfélags í dag.

Í hverslags félagskap er Samfylkingin eiginlega í ?- Eigum við ekki að fara að kjósa?

föstudagur, 16. janúar 2009

“Við” skuldum 3.225.000 kílómetra af þúsundköllum

Ég er sem sagt búin að vera velta fyrir mér skuldum íslenska ríkisins. 2.150 milljarðar (2.150.000.000.000) segir fjármálaráðherra? Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessa tölu og get ekki komið henni í almennilegt samhengi. Bregð því hér á það ráð að koma þessu í sjónrænt samhengi sem oft er kostur þegar að abstrakt stærðir eins og peningar og hagfræði eru til umfjöllunar. Ég hef lengst af verði opinberstarfsmaður og því fórnarlamb hinnar íslensku láglaunastefnu. Ég skil þúsundkalla og jafn vel nokkra í hóp en ekki marga, veskið er ekki stórt og launin sjaldnast neitt til að hrópa húrra yfir.

Mér reiknast til að ef við leggjum þúsundkall við þúsundkall þá nemi skuldirnar vegalengdinni 3.255.000 kílómetrum. Þjóðvegur 1 er ca 1.400 kílómetrar en hann má leggja einfaldri röð þúsund kalla u.þ.b. 2.325 sinnum eða rúmlega 81 skipti í kring um jörðina, eða tæplega 10 sinnum til tunglsins. Að keyra meðfram þúsundköllunum miðað við góð skilyrði t.d. á 80 km hraða tekur ca 2 ár og fjóra mánuði ef keyrt er allan sólarhringinn. Miðað við vinnutímatilskipun EB þá má reikna með rúmlega 10 ára törn ( rúmlega fjórðung starfsævinnar) í verkið.

Ef við fletjum þúsundkallana út þá er flæmið 2.257.500 ferkílómetrar eða rúmlega 22 falt flatarmál landsins eða 2/3 hluta Indlands. Ef við deilum höfðatölu í “flatamál skulda” lagðir í þúsund köllum þá hefur hver Íslendingur ca 7.500 fermetra út af fyrir sig sem hlýtur að vera heimsmet.

Sé það á þessu að skuldirnar eru efnahaglegt stórvirki á hryðjuverkasviðinu a.m.k. gangvart íslenskum almenningi , örugglega heimsmet og “einstakt afrek” og í raun “einhverskonar snilld” sem felst í því hvering fáum einstaklingum hefur tekist að klúðra jafnmiklu og rækilega á jafn skömmum tíma og sem bitar á jafnmörgum og nú er raunin ...og svo eru menn hissa á því að einhverju ungmenninu hitni í hamsi - Það eru ekki margir sem sitja uppi með 7.500 fermetra af þúsundköllum í skuld algerlega að ósekju – menn hafa fengið að kjaftinn fyrir minna – ekki satt?

mánudagur, 12. janúar 2009

"Ég er ekki sekur...

...fyrr en það er búið að dæma mig" er túlkun margra íslenskra “ofur”athafnamanna á orðatiltækinu að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Því miður eru fjölmörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi þessi misserin sem sýna “varnartilburði” af fyrrgreindum toga. Málið auðvitað öllu verra ef menn hafa trúað því og talið þetta vera einhvern anga sk. “viðskiptasiðferðis” (ef það er yfir höfuð til). Það er ekki með nokkru móti hægt að byggja upp siðað samfélag á þessum forsendum.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Það er mikil bjartsýni að halda...

...að draga muni úr mótmælum á næstunni. Því fer því miður sífellt fjölgandi fólkinu sem hefur mun meiri “frítíma” en það kærir sig um eða hefur á nokkurn hátt óskað eftir. Við slíkar aðstæður er sennilega fátt eins hressandi fyrir bæði líkama og sál en að mótmæla. Og ekki bætir úr skák þegar að sama liðið og ber ábyrgðina á ruglinu í íslensku samfélagi situr í einni eða annari mynd í sömu stólum. Einhverjir tindátar úr hersingunni farnir en í megin atriðum allt óbreytt. Skýrslur ekki birtar og fjöldi manns virðist helst vera í óðaönn við að “búa til” fortíð sem ekki var.

Meðan að svo er og ef engin tekur raunverulega ábyrgð þá munu mótmæli aukast enda kjöraðstæður fyrir slíkt. Það er einföldun að telja mótmæli þessa daganna léttvæg. Venjulegt fólk sem hefur unnið hörðum höndum í gegnum árin í hinu íslenska láglaunaumhverfi til þess eins að hafa í sig og á, er allt í einu orðið ofaukið í íslensku samfélagi og hefur ekkert aðhafst sem réttlætir slíkt. Því mun fylgja gríðarleg reiði og ef slík reiði brýst út þá leysast úr læðingi kraftar sem engin ræður við. Það er alvarlegt ef ráðmenn þjóðarinnar, hinir kjörnu fulltrúar almennings, skapa kjöraðstæður fyrir slíkt með ráðleysi, flumbrugangi og ógegnsæi í aðgerðum sínum varðandi rannsókn á hruni hins íslenska hagkerfis.