miðvikudagur, 30. júní 2004

Er á Ung i Norden

Er a mennigarmotinu Ung i Norden i Herup a nordur Jotlandi i Danmørku. Sigldum med hop vaskara islenskra ungmenna yfir hafid. Gekk vel ad øllu leyti nema Ægir var i ham vid Færeyjar. Urdu almargir nokkud sjoveikir af theim søkum, en tho ekki undirritadur.

Ekki kemur thessi undarlega stafsetnig min til af godu , malid er ad farsima minum var stolid um bord i ferjunni, get thvi ekki sent post i gegnum fistølvuna mina og hef adeins danska stafi. Vona tho ad thad komi ekki ad søk.

Færeyjar eru fagrar, ekki bara ur lofti, thær eru ekki sidri thegar ad madur siglir thangad, leidin liggur milli eyja a leidinni til Thorshafnar. Thorshøfn er afar fallegur bær en thvi midur er stopp Norænnu stutt, en tho er hægt ad skoda sig um i bænum i nokkra klukkutima.

Serkennilegt ad koma til Hjaltlandseyja, en ferjan stoppa einnig thar, en afar stutt og ekki gefst radrum til thess ad fara i land. Leirvik serkennileg, husagerdir allt adrar en i Færeyjum adrir litir og ekki laust vid ad ahrifa breska heimsveldisins gæti nokkud. Ørugglega margt ad sja thar og athyglisvert

laugardagur, 19. júní 2004

17. Júní, Löggan og verslunin 10 -11

17. júní, Löggan og verslunin 10 -11. Í ýmsu stendur maður í hlutverki framkvæmdastjóra 17. júní hátíðarhaldanna í Hafnarfirði. Flest allt af ánægjulegra taginu en því miður ekki alltaf. Það er að mörgu að hyggja og allt þarf þetta að stemma bæði í tíma og rúmi. Ég bý að gríðarlega dugmiklu samstarfsfólki og af þeim sökum hefur þetta gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig í gegnum árin.

Alltaf er samt eitthvað sem kemur upp og aldrei veit maður fyrirfram hvað það kann að vera. Í þeim tilfellum þá er það bara að bretta upp ermarnar og vinda sér í málið.

Árið í ár var engin undartekning. Þannig háttar til að Þjóðhátíðarnefnd gefur út sérstök (tjald)söluleyfi á hátíðarsvæðunum og eru leyfin einungis veit félagasamtökum sem liður í fjáröflun þeirra. Í ár fór kvöldskemmtunin fram á planinu við Hafnarborg og verslunarmiðstöðina Fjörð. Til þess að allt gengi nú vel fyrir sig ákvað nefndin með ærnum tilkostnaði að hafa sérstaka gæslu inni í verslunarmiðstöðinni enda vitað að veitingastaður og verslunin 10 - 11 væru með opið og að margt fólk yrði á svæðinu.

Nú brá hins vegar svo við að verslunin 10-11 kemur sér fyrir með sölubás á hátíðarsvæðinu í óleyfi og óþökk allra aðila. Þrátt fyrir vinsamleg tilmæli og ábendingar um að fjarlæga sölubásinn þá virti starfsfólk þær að vettugi. Þegar framkvæmdastjóri 10 - 11 tilkynnir undirrituðum (sem gefur út söluleyfi í umboði þjóðhátíðarnefndar) í símtali að verslunin hafi söluleyfi á svæðinu og muni ekki færa sig hvað sem tauti og rauli, þá var orðið fullljóst að það var einlægur ásetningur 10 -11 verslunarinnar á virða að vettugi allar reglur.

Þegar að svona var komið þá var auðvitað bara einn kostur í stöðunni sem var að kalla til Lögreglu. Lögreglan kannaði málið og frekar var það snautlegt að sjá starfsfólk 10 -11 taka saman sitt hafurtask og hafa sig á brott í lögreglufylgd fyrir framan nefið á fleiri þúsund manns? Hitt er einnig snautlegt í meira lagi að verslunarkeðjan skuli ætla að hafa fjáröflun af bláfátækum íþróttafélögum með þessum hætti?

þriðjudagur, 15. júní 2004

Húrra fyrir Sjónvarpinu

Húrra fyrir Sjónvarpinu fyrir að henda boðflennunni Carlsberg út úr umgjörð Evrópukeppninnar í fótbolta. Hef oft verið að velta fyrir hvílíkum félagskap fótboltinn er hafnaður í! Bjór og hamborgarar, þvílík blanda og þvílík vitleysa. Og í hvaða samhengi setur þetta forvarnarstefnu íþróttahreyfingarinnar?

"Carlsberg hluti af leiknum" eru sennilega ein mestu öfugmæli seinni tíma. Leikmenn falla einfaldlega á lyfjaprófi þar sem ein meginforsenda leiksins er að menn séu ódrukknir. Praktíserandi fyllibyttur eru ekki bara slappir í boltanum heldur einnig afar lélegar fyrirmyndir ungu íþróttafólki. Á fjölskyldan að setjast saman fyrir framan sjónvarpið og drekka Carlsberg ? Er það hluti af leiknum ?

Íþróttahreyfingin nýtur gríðarlegar aðstoðar og velvildar samfélagsins. Bæjarfélög styrkja íþróttahreyfinguna með verulegum fjármunum í formi rekstrarstyrkja og til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum. Hreyfingin hefur því ríkum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu sem m.a. felast í því að boða heilbrigðan lífstíl. Það er auðvitað ekki gert í samvinnu við bjórbransann nema síður sé. Það verður ekki bæði haldið eða sleppt í þessum efnum. Áfengisauglýsingar - forvarnir ? Eitthvað lætur undan að lokum og eflaust verður það trúverðugleikinn sjálfur.

"Hluti af leikum" er því að henda þessum boðflennum út og það virðist mér Ríkissjónvarpið hafa gert og fyrir því tek ég ofan.

mánudagur, 14. júní 2004

Gamla bókasafnið

Gamla bókasafnið gegnir stóru hlutverki í hafnfirsku menningarlífi. Í kvöld voru vel heppnaðir tónleikar þar. Hljómsveitirnar Rain, stúlknasveitin Barbarella , Fjöllistahópur Mujaffa, voru meðal þeirra sem létu ljós sitt skína, allt saman ungt og efnilegt listafólk.
Gamla bókasafnið er vettvangur unglista og sem slíkur afar mikilvægur þar sem ungu og efnilegu listafólki af ýmsum sviðum gefst tækifæri til þess að koma fram með list sína og stíga sin fyrstu spor á listabrautinni.
Fínir tónleikar, flott listafólk og fullt hús. Veit bara á gott.

sunnudagur, 13. júní 2004

Besta bíó sem gert er í dag

Besta bíó sem gert er í dag
gerir Gunnar B Guðmundsson og hans lið í "Þeim tveimur". Brá mér sem sagt á menningahátíðina Bjarta daga í gær, nánar tiltekið í Bæjarabíó og sá í annað sinn hina rómuðu og verðlaunuð Karmellumynd.

Aðalatriðið var hins vegar frumsýning á kvikmyndinni "Konunglegt bros". Frábær (heimildar)mynd um hinn afar sérstaka "fjöllistamann" Friðrik Friðriksson og um leikstjóra heimildarmyndarinnar sem missir sig í þær pælingar að toppa fjöllistamanninn í gjörningum. Frábær mynd, þó svo að hún sé "skotin" í vídeó, flott hugmynd sem gerir sig vel.

Bíð eftir að kvikmyndasjóður fari að gjóa augunum hingað suður í Hafnarfjörð, það er löngu tímabært að Gunni og félagar geri "eina með öllu". Vona að þess verði ekki langt að bíða, mæti á svæðið þegar að því kemur og veit að þar verður bíó á heimsmælikvarða.

miðvikudagur, 9. júní 2004

Sáttmáli

Sáttmáli
Það var hátíðleg stund þegar að flest bæjarstarfsmannfélög í landinu undirrituð samstarfssáttmála í tengslum við komandi kjarasamninga á Hótel Loftleiðum þann 1. júní s.l.
Að samkomulaginu ( sjá www.samflot.is ) standa 14 félög bæjarstarfsmanna og líklegt að hugur fleiri félaga standi til samstarfs.

laugardagur, 5. júní 2004

Veit það ekki

Veit það ekki
en held að við höfum gengið of snemma í Evrópusambandið segir Markus hinn eistneski. Við vitum ekki hvernig þjóð við erum og hefðum þurft 10 – 15 ár til þess að komast að því. Árin undir ráðstjórnarríkjum reyndust okkur erfið og við vitum ekki lengur hver okkar raunverulegi þjóðarkarakter er. Hin eistneska þjóðarsál þarf tíma og rými sem ég er ekki viss um að finnist innan Evrópusambandsins.

Er sem sagt búin að vera í Tallinn í Eistlandi í erindagjörðum sem formaður UFN, samtaka norrænna félagsmiðstöðva, erindið að funda með samtökum félagsmiðstöðva þar í landi sem óðum eru að komast á legg. Í ráði er að bjóða hinum nýstofnuðu eistneskum samtökum aukaaðild að hinum norrænu samtökum. UFN hefur verið að aðstoða Baltnesku þjóðirnar varðandi uppbygginu í þessum málaflokki. Eistar er lengst komnir meðal Baltnesku landanna. Lettland og Litháen eiga lengra í land. Það er athyglisvert hve ólíkar þessar þjóðir eru þrátt fyrir landfræðilega nálægð. Tengsl landanna er mun minni en ætla mætti m.a. vegna ólíkar tungumála.