mánudagur, 29. nóvember 2004

I left my heart in San Francisco

“Komdu þá endilega með á tónleika hjá okkur í kvöld, við munum spila á sjúkrahúsi hér í útjaðri borgarinnar” sagði Juhanni stjórnarmaður í UFN við mig. Ég var nýkomin til Helsinki og hafði sagt honum að ég hefði ekkert sérstakt á prjónum þetta tiltekna fimmtudagskvöld. Samkvæmt venju var stjórnarfundur UFN á dagskrá kl 13.00 næsta dag.

Ekki slæmt að lenda á tónleikum hjá lúðrasveit samtaka Finnskra félagsmiðstöðva, hugsa ég með mér. Þetta er áhugamannasveit sem leikur víða og gjarnan á ýmsum stofnum.

Heldur var bandið dapurt, trommarinn átti í mesta basli með taktinn og það vantaði allt “grúv” í bandið. En samt sem áður voru áheyrendur allir sem einn himinlifandi og þegar að sveitin lék lagið “I left my heart in San Francisco”, gamlan “standard” sem vinsæll var á stríðsárunum, þá féllu víða tár. Veit sem var að það var ekki vegna tónlistarflutningsins.

Var staddur á hersjúkrahúsi og í salnum voru 200 -300 manns – allt karlmenn frá aldrinum 65 + og upp úr, mismunandi mikið fatlaðir og áttu það allir sameignlegt að hafa verið sendir á vígvöllinn sem kornungir menn eða réttara sagt sem unglingar og hafa í raun aldrei komið heim eftir stríðið. Mér varð það skyndilega ljóst að tala fallinna segir ekkert þegar styrjaldarátök eru annars vegar. Hér (1997) rúmum 50 árum eftir stríðslok blasa en við hinar hörmulegu afleiðingar seinni heimsstyrjaldarinnar. Mér varð það einnig ljóst hér voru sögur hinna óþekktu hermanna saman komnar og þvílík firring og sóun stríðsátök eru. Hvað höfðu þessir menn eiginlega til saka unnið?

Enginn lýsir þessu tilgangsleysi betur en hinn stórkostlegi finnski rithöfundur Väinö Linna í bók sinni “Óþekkti hermaðurinn” sem fjallar um örlög hermanna í finnska vetrarstríðinu. Bókin ætti að vera öllum og sérstaklega ungu kynslóðinni skyldulesning.

Áhrifamestu tónleikar sem ég hef nokkru sinni farið á – varð ekki samur maður eftir - erfitt en lærdómsríkt – varð þarna ljóst hvílíka gæfu við íslendingar búum við að hafa lent að sem mestu leyti utan þessa hildarleiks sem seinni heimstyrjöldin var. Verð Juhanni ávallt þakklátur fyrir boðið.

mánudagur, 22. nóvember 2004

Al er norður íri

Al er norður íri og bjó í Belfast , flutti hins vegar fyrir alnokkrum árum til Dyflinnar, í friðsældina, eins og hann segir. Hafði verið virkur í póltík og verkalýðsmálum, var einlægur aðskilnaðarsinni og fannst sem slíkum lítið koma til bretanna. Fann þeim flest til foráttu og taldi að þeir hefðu sem aðall og herraþjóð sölsað undir sig eigur sem með öllum rétti væri sameign hinnar írsku þjóðar, landinu sjálfu.

Einn dag fékk hann nóg , viðurkenndi ósigur , og flutti til Dyflinnar með alla fjölskylduna. Hafði verið að keyra börnin þá 11 og 13 ára í skólann árla morguns og verður vitni að því þegar að skyndilega lýstur saman fylkingum manna, steinsnar frá skóla barnanna. Upp hófst skothríð sem lyktaði með því að nokkrir menn lágu í valnum, flestir nærstaddra urðu lamaðir af ótta og fyrir börnin var þetta óbærileg og mjög erfið reynsla.

Okkar maður hugsar með sér að samfélag af þessum toga sé engum bjóðandi og síst af öllu saklausum börnum sem engan þátt eiga í þessu ástandi. Býð ekki börnunum mínum upp á þetta hugsaði hann fór með alla fjölskylduna og hefur aldrei komið til baka.

sunnudagur, 14. nóvember 2004

60 % af íslenska hernum í lamasessi

“Íslenski herinn var í vanda las ég í blöðunum heima í Dublin“ sagði Al vinur minn hinn írski og formaður fulltrúarráðs Evrópskra bæjarstarfsmanna, hélt svo áfram og sagði, “að einhver Viggertsson?, íslenskur geniráll hefði dvalið fulllengi við teppakaup í miðborg Kabúl og engum togum skipt að herinn íslenski lenti í hryðjuverkaárs og sennilegast ekki orðið af teppakaupum genirálsins í þetta sinnið, íslenskir hermenn , þrír ef ekki fjórir, hefðu verið stórslasaðir”

Her, segi ég, við höfum nú engan her, köllum þessa menn friðargæsluliða, eru að mig minnir fimm stykki, verðum auðvitað að vera með í þessum hasar ekki satt?

“Hvað segir þú” segir Al afar undrandi og gefur lítið fyrir þetta friðargæslu tal í mér, “greinilega gríðarlegt áfall fyrir íslenska herinn þarna í Kabúl, 60 % íslenska heraflans í lamasessi eftir þessa einu árás”. Reyni ekki að skýra mál frekar tek undir hið hræðilega áfall hersins íslenska og færi talið að öðru!

fimmtudagur, 11. nóvember 2004

Sumar og sól - finnst mér

Sumar og sól taldi ég, en var sennilega einn um það, því fólkið í kringum mig var kappklætt? Fannst eins og ég væri í vitlausri bíómynd. Fínt ef við gætum gengið að svo veðri vísu á 17. júní, myndi létta alla vinnu við hátíðarhöldin, hugsaði ég með mér í blíðunni.

Hér í Madrid er fólk sem sagt að drepast úr kulda í ca + 15 og glampandi sól. Blæs úr norðri sem veit ekki á gott að sögn innfæddra. Kannski erum við íslendingar með öðruvísi hitaeliment því ekki fannst mér nokkurt tilefni, hjá blessuð leigubílstjóranum sem kom mér á fundarstað í morgun, að hafa hitann í bílnum á fullu í þessu sannkallaða blíðviðri. Sennilega er maður víkingur þrátt fyrir allt?

Er sem sagt í Madrid á fundi í fulltrúaráði Evrópska bæjarstarfsmanna EPSU þar sem ég sit fyrir hönd BSRB. Hefði gjarna vilja vera heima enda miklar annir á öllum vígstöðvum, en því miður var búið að ganga frá öllum endum varðandi fundinn þannig að ég átti þess ekki kost. Treysti á góða vinni mína og samherja í verkalýðsmálum.

Á fundinum hér er m.a verið að ræða nýja könnun á vegum EPSU varðandi samninga opinberra starfsmanna víða í Evrópu. Þar er fjallað um atrið eins og vinnustundafjölda á ári, frídaga, orlofsdaga, vikulega vinnuskyldu, hvenær samningar eru lausir, hvað þjónusta er á vegum hins opinbera og hvaða þætti einkageirinn hefur “séð” um.
Skýrsla þessi verður von bráðar gefin út og á í raun að vera skyldulesning fyrir alla sem fjalla um samningamál.

Einkavæðingin er í sífelldri umræðu. Hið hörmulega járnbrautslys í Bretlandi fyrir nokkrum dögum rekja menn beint til einkavæðingar, því augljóslega eru orsakir þessa hörmulega slyss að rekstraraðilinn er uppvís af því að vinna ekki samkvæmt þeim öryggisstöðlum sem bresku járnbrautirnar sálugu viðhöfðu og fóru eftir.

miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Anna Pálína Árnadóttir


Þau verða fáfengileg viðfangsefni dagsins þegar að maður stendur frammi fyrir forgengileika tilverunnar og lífsins. Og á slíkum stundum staldrar fólk við og gefur gaum að hinum sönnu verðmætum. Þetta rann í gegnum huga minn er ég fylgdi ágætri vinkonu minni Önnu Pálínu Árnadóttur síðasta spölinn s.l. mánudag

Athöfnin var öll hin virðulegasta og fór fram í Hallgrímskirkju að viðstöddu miklu fjölmenni, þar sem hver stóll var skipaður: Perlur vísnatónbókmenntanna voru leiknar af okkar færust hljómlistarmönnum. Sinikka Langeland kantele- leikari lék spunaverk, einlægt og fallegt. Næmni, auðmýkt og virðing eru þau orð sem eru mér efst í sinni þegar ég hugsa um þátt séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Falleg umgjörð og athöfnin sem slík í raun eitt listaverk.

Listaverk og því ákaflega falleg og viðeigandi umgjörð um minningu Önnu Pálínu sem var einn mikilhæfasti listamaður þjóðarinnar og þá ekki síst fyrir ríkulegt framlag sitt á sviði vísnatónlistar. Listin er eilíf og því mun minning hennar og sem verk lifa sem hluti af hinum íslenska og skandnaviska tónlistararfi. Þar mun hún eiga verðugan sess um ókomna tíð.
Blessuð sé minning Önnu Pálínu sem kvaddi okkur allt of fljótt, hún hafði mörgu góðu komið í verk og í raun miklu meira en aldur hennar sagði til um, en hún átti örugglega margt eftir ógert.

Votta Aðalsteini , börnunum og öllum ættingjum mína dýpstu samúð.

miðvikudagur, 3. nóvember 2004

Á almennt siðferði bara við um vinstra fólk

Finnst með eindæmum hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins fer með olíusamráðsmál. Borgastjórinn í Reykjavík vondi karlinn!

Veit ekki betur en að málið teygi sig vel inn í innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins. Velt fyrir mér hvort þriðji varaforseti Alþingis eigi ekki að segja af sér vegna augljósra tengsla við málið? Spurning hvort að stjórnarformenn og forstjórar þessara fyrirtækja, sem lugu blygðunarlaust og kerfisbundið að þjóðinni, eigi ekki að sæta ábyrgð í stað þess að rífa stólpa kjaft?

Get auðvitað tekið undir að borgarstjóri er í erfiðum málum. Gæfi hins vegar mikið fyrir það að Sjálfstæðismenn nýttu sér í eigin þágu þá siðferðisramma er þeir ætla öðrum að fara eftir.

Er til eitthvað sérstakt hægri siðgæði sem lýtur ekki sömu viðmiðum og hjá okkur hinum? Veit það ekki en dettur í hug "bjálkinn og flísin". Velti fyrir mér hvort vinstra fólk hafi sterkari siðferðiskennd og viðmið en þau sem formaður Sjálfstæðisflokksins stendur fyrir.

mánudagur, 1. nóvember 2004

Atti kapp

Átti í kappræðum við markaðstjóra Ölgerðar Egils Skallagrímssonar s.l. föstudag á ráðstefnu viðskipta og hagfræðinema við Háskólann í Reykjavík. Þemað, siðferði og bjórauglýsingar. Vorum ekki á eitt sáttir frekar en fyrri daginn en áttum engu að síður gott spjall. Virði fyrirtækið fyrir það að mæta til leiks og ræða málið á opnum vettvangi. Það er mun meira en önnur sambærileg fyrirtæki gera.

Sum hver henda einhverjum 100.000 köllum í auglýsingarstofur þegar að þessi mál ber á góma í samfélaginu og svara með nokkrum heilsíðuauglýsingum eða sjónvarpsauglýsingum. Kalla þetta meira að segja tjáningarfrelsi. Einhliða áróður í krafti fjármagns segir Hæstiréttur í dómsútskurði ef mig minnir rétt.

Tel að miðlunartillagan falli

Hef ekki trú á öðru en að kennara felli miðlunartillögu sáttasemjara. Ástæðan einföld. Kjör eru með þeim hætti að tillagan nær ekki einu sinni þeim samningum er ríkið samdi við sína kennara í framhaldsskólum í kjölfara síðustu samninga við grunnskóla kennara. Það er því verið að gera kennurum tilboð sem ríkið treysti sér ekki að bjóða sínu fólki í síðustu samningum.

Hví ætti ríkið ekki að hafa afskipti af þessari deilu, samningar á hinum almenna markaði hafa nánast ávallt verið þríhliða þ.e.a.s. að ríkið hefur komið inn með framlög í einu eða öðru formi til þess að loka samningum. Oftar en ekki hafa þessi inngrip ríkisins haft úrslitaáhrif. Sérkennilegt ef slíkt getur ekki átti við þegar að starfsmenn sveitarfélaga freista þess að semja við sveitarfélögin. Á ríkið bara "að splæsa" þegar að almenni markaðurinn á í hlut og er það þá hlutverk ríkisins að niðurgreiða sérstaklega laun á hinum almenna vinnumarkaði umfram hinn opinbera?