sunnudagur, 30. maí 2010

Sem endranær þá sigruðu allir

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðum stjórnmálamanna eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Sem endranær sigurðu allir í þessum kosningum! Ég velti fyrir mér í fullri alvöru hvort  stjórnmálmennirnir sjálfir trúi þessu bulli sínu ?  Og ef svo er, er þá hægt að treysta á að mat þeirra á öðrum mikilvægum viðfangsefnum samtímans sé ekki byggt á sömu ranghugmyndum? Eða er það kannski raunin? Veit það ekki en "Pollyönnu heilkenni" margra íslenskra stjórnmálamanna er sennilega algert.  

Auðvitað eru það svona viðbrögð sem gera það að verkum að tiltrú almennings á stjórnmálamönnum fer sífellt minnkandi. Tilvera almennings  er ekki samfelld sigurganga eins og "kosningasaga" stjórnmálamanna. Á milli þessara heima er af þessum sökum  breikkandi  gjá sem skynsamir stjórnmálamenn ættu að fyrirbyggja að þróist frekar . Að takast  á við lífsins sigra ... og töp af auðmýkt , æðruleysi og heilindum er hluti af tilverunni þ.m.t í pólitíkinni. Stjórnmálamenn sem ætlast til að þeir séu teknir alvarlega þurfa að gera sér grein fyrir þessu.

mánudagur, 17. maí 2010

Toblerone pólitík

Sótti  Svía heim um daginn. Þar er pólitíkin að komast á fullt enda þingkosningar í haust. Áhugi á pólitíkinni öllu meiri en hérlendis. Af því fer maður ekki varhluta enda umræður komnar á fulla ferð. „Go morgon“ þáttur sænska sjónvarpsins stendur fyrir ágætis umfjöllun, umræðan er hörð en málefnaleg sem er nokkurt nýmæli fyrir íslenskan áhugamann um stjórnmál.

Sem endranær telja hægri menn mikilvægast að lækka skatta enn frekar og á sama tíma telja kratarnir mjög mikilvægt að gæta hófs í þeim efnum enda þjóni skattalækkanir helst hagsmunum þeirra sem meira eiga sín í samfélaginu. Margt kunnuglegt í umræðunni. Ungum frambjóðanda hægri manna varð það á að telja Monu Salin formann sænskra jafnaðarmann keyra „tobleronepólitík“! og vísað þá til þess er hún notaði opinbert greiðslukort í eigin þágu. Sá hinn sami var vart búin að sleppa orðinu þegar að hann var minntur á að menntamálaráðherra „hans manna“ hefði ekki greitt afnotagjöld útvarps og sjónvarps um langt skeið og að annar ráðherra hans flokks hrökklaðist einnig frá völdum þegar að upp komst að viðkomandi réð barnapíu í „svarta vinnu“.

Á íslenskan mælikvarða er þetta „smotterí“ en í Svíþjóð höfðu þessi mál afgerandi áhrif. Þó svo að Mona Shalin hafi að einhverju leyti náð sér á strik eftir að hafa sagt af sér öllum helstu vegtyllum í sænskri pólitík fyrir rúmum áratug þá mun þessi Toblerone pakki fylgja henni alla tíð og hefur í raun gert það að verkum að hún er fjarri þeim pólitíska styrk sem hún gæti búið yfir ef þetta mál hefði ekki komið upp. Sama á við um hina ráðherranna sem eru trausti rúnir og í raun búnir í pólitík.

Þegar að maður fer að bera þessi mál saman við íslenskan raunveruleika þá verður veröldin absúrd. Ekki veit ég hve mörg hundurð þúsund þúsund Tobelronepakkar eru á sveimi í einni eða annarri mynd í íslenskri pólitík og eða í viðskiptalífinu. Svo má böl bæta sem bent sé á annað verra er lykilatriði á Íslandi. Og svo er auðvitað það "að engin er sekur fyrr en að sekt er sönnuð", sem er einhverskonar sér íslenskt skálkaskjól. Ekki minnist ég þess að þessir sænsku stjórnmálamenn hafi verði sérstakt viðfangefni dómskerfisins? En svo má vel vera, en kjarni málsins hins vegar sá að þessir stjórnmálamenn voru algerlega rúnir trausti löngu áður en dómskerfið hafði kveðið upp nokkurn dóm.

laugardagur, 1. maí 2010

1. maí 2002

Var að taka til  á gamla tölvudiskinum mínum  og rakst þá á  1. maí ávarp frá 2002  sem ég skrifaði  í nafni  verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði en ég var á þeim tíma formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar.
Ekki verður annað sagt en við höfum sterklega varað við þeirri þróunn sem leiddi okkur inn í mesta efnahagsvanda seinni tíma. Birti hér nokkrar glefsur úr ávarpinu 2002 af tilefni dagsins.
 
"...allt er þetta þó í afar öfugsnúið þegar að litið er til afkomutalna hinna ýmsu fyrirtækja í landinu. Olíufélögin,  sem láta dag hvern eins og olíuverð sé háð einstakri umhyggju félaganna fyrir velferð almennings og byggð á góðmennsku þeirra, sýna afkomutölur upp á hundruð milljóna í gróða. Útgerðafyrirtæki sýna hagnað sem nemur miljörðum króna. Fákeppni á ýmsum sviðum  sem og einokun skapa beinlíns jarðveg fyrir enn meiri  gróða einstakra fyrirtækja. Háir vextir og sívaxandi þjónustugjöld í bankakerfinu eru komnir út fyrir allt velsæmi og svona mætti lengi telja. Ekki var þetta hugmyndin um stöðugleika við gerð síðustu kjarasamninga á hinum hógværu nótum og ekki var þetta hugmyndin með fórnum launafólks nær allan tíunda áratug síðustu aldar í kjölfar þjóðarsáttarninnar. Fyrirtækin í landinu er stikkfrí í öllu sem heitir þjóðarsátt og hagsmunir eigenda og markmið hámarkságóða tekin fram fyrir þjóðaheill. Hvert dæmið á fætur öðru sannar slíkt svo ekki verður um villst. Grátbroslegt verður þó að teljast þegar forráðamaður erlendrar hamborgarkveðju hér á landi seilist á ystu nöf röksemdanna er hann  telur skýringu á hinni afar háu verðlagningu fyrirtækisins hérlendis vera háann launakostnað?"

Og síðar

"Oft er deilt á hinn opinbera geira. Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í þeim tilfellum sem það á rétt á sér þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlöm misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra. Einkavæðing hefur hvergi leitt til lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Ný lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. um hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkaframkvæmdir á hafnfirska vísu eru og munu reynast dýrkeyptar og tryggja áframhaldandi há gjöld á bæjarbúa. Umhugsunarvert er að eignarmyndun þrátt fyrir há framlög er nánast enginn? Einkavæðing hefur því og mun leiða með beinum og óbeinu hætti til minnkandi kaupmáttar. Sem fyrri daginn mun hin almenni launamaður sitja í súpunni."

Svo mörg voru þau orð.