sunnudagur, 30. maí 2004

Vænn kostur - Ragnar Reykás

Vænn kostur - Ragnar Reykás
Veit það ekki en finnst einhvernvegin að tími Ragnars Reykáss sé kominn innan Sjálfstæðisflokksins. Sé það á hinum fyrrum digurbarkalegum frjálshyggjudrengjum sem hika ekki eitt sekúndubrot við að skipta um hugmyndakerfi úr frelsi yfir í helsi og standa vini okkar Ragnar Reykás feti framar í umskiptunum. Ragnar væri því hógvær og föðurlegur leiðtogi í samanburði við hin snörpu umskipti stuttbuxnadeildarinnar. Ragnar er væntanlega á lausu.

En sennilega
er það nú svo að Spaugstofan á eina bestu pólitísku analýsu seinni tíma með "sketsinum" þegar að vakinn er upp frjálshyggjudraugurinn ógurlegi sem síðan ræðst ekkert við og allt fer í vitleysu. Lýsandi fyrir hið pólitíska andrúmsloft um þessar mundir og þau átök milli valdablokka sem nú eiga sér stað í samfélaginu. Býst ekki við almenningur njóti góðs af því stríði frekar en fyrri daginn.

Almenningur
á enga hlutdeild í Kolkrabbanum eða Baugi nema síður sé. Veldi þessara beggja blokka byggir á sama prinsippi þ.e. því einu að taka mun meira til sín en þeim ber og það er auðvitað sótti í vasa almennings með einum eða öðrum hætti, t.d: með grjótharðri láglaunapóltík í bullandi góðæri , með okurvöxtum, okur þjónustugjöldum, með okri á matvörumarkaði, með gjafakvóta, og svona mætti lengi telja.
Í komandi kjarasamningum þarf verkalýðshreyfingin að hafa þetta í huga - góðærið er ekki bara fyrir fáa útvalda - eða hvað?

fimmtudagur, 27. maí 2004

Virðuleg athöfn


Virðuleg athöfn
og mikið fjölmenni lýsir jarðarför Þóris Jónssona vinar míns vel. Sennilega vel yfir 1.500 manns, Víðistaðakirkja fullsetinn sem og íþróttahús Víðistaðaskóla en athöfninni var varpað upp á risaskjá. Virðuleg kveðjustund og vel farið með. Flagga hér á dagskinnuni í minningu Þóris. Blessuð sé minning hans.

fimmtudagur, 20. maí 2004

Þórir Jónsson 1952 - 2004

Þórir Jónsson 1952 - 2004
"Það gengur ekki lengur að vera bíllaus , stoppum á bílasölu", sagði formaðurinn skyndilega. Var að skutla honum í vinnuna að afloknum hádegisfundi í Æskulýðs- og tómstundaráði Hafnarfjarðar. Nýttum tímann í þessum fjölmörgu ökuferðum til þess að fara í gegnum helstu mál í bransanum og ráða ráðum okkar.

"Fínn bíll, býð 200 þúsund á borðið, " sagði formaðurinn
"Gengur aldrei" segir bílasalinn umsvifalaust og heldur áfram "það eru sett 450 þúsund á þessa glæsikerru"
"Ekki þitt mál að skera úr um það, þitt hlutverk er að hringja í eigandann",segir formaðurinn og skömmu seinna "sagði ég ekki, hann tók tilboðinu. Ég kem með auranna eftir augnablik."

"Ég hef ekki hugmynd hvernig ég á að redda aurunum" sagði hann við mig, þegar að við erum komnir út af bílasölunni. Hringdi nokkur símtöl í kjölfarið , aurarnir fljótlega í höfn og kaupin gerð upp snarlega. Seljandinn, sem reyndist vera gamall nemandi formannsins, sagði brosandi " Gat ekki verið annar en þú"

Innan við klukkustund frá ákvörðun þar til að málinu var lokið. Engin aukaatriði, kjarni málsins klár og hin notadrjúga bifreið komin í drift - málið leyst, þurfti ekki að hugsa meira um það og strax farið í næstu verkefni sem voru að vanda fjölmörg.

Svona var Þórir Jónsson vinur minn og margar góðar minningar um hann koma upp í huga manns á þessari sorgarstundu þegar að hann er allur eftir hörmulegt bílslys.
Er maður lítur yfir farin veg þá þakkar maður fyrir þau forréttindi að hafa fengið að vera honum samferða í ýmsum verkum og ekki síst fyrir að hafa átt hann fyrir vin.
Börnum hans, fjölskyldu allri og unnustu votta ég mína dýpstu samúð, missir þeirra og sorg er mikil. Blessuð sé minning hins góða drengs Þóris Jónssonar.

þriðjudagur, 18. maí 2004

Í gær

Í gær
var haldin trúnaðarmannarástefna STH í Skíðaskálnum í Hveradölum.
Ráðstefnan var fyrsta stigið í undirbúning fyrir næstu kjarasamninga. Ræddar voru helstu áherslur í tilvonandi kröfugerð félagsins. Hvet félagmenn til þess að koma ábendingum til trúnaðamanna á sínum vinnustað. Annar fundur af svipuðum toga er ráðgerður í haust.

fimmtudagur, 13. maí 2004

Rafmagnað andrúmsloft

Rafmagnað andrúmsloft
var þegar að dregið var úr rafrænum launaseðlum (hvernig sem það er nú gert) í rafræna hafnfirska launamiða happdrættinu. Spenna og stuð við verðlaunaafhendingu sagði heimildamaður minn. 10.000 kall, í boði KB banka ( þessi sem græddi 7.000.000.000 krónur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs ), og blómvöndur í verðlaun. Gott mál og bíð eftir að dregið verði um verðlaun meðal þeirra bæjarstarfsmanna sem eru í pappírsdeildinni.

Lifi jafnræðisreglan
dettur manni þó í hug og spurning hvort bæjayfirvöld leiti ekki á náðir Sparisjóðs Hafnafjarðar varðandi verðlaunafé fyrir pappírsliðið - bíð spenntur eins og smástrákur í sínu fyrst bingói - (launa)miði er möguleiki - spyr bara hvenær verður dregið ?

miðvikudagur, 12. maí 2004

Kjarni

Kjarni
málsins ekki alltaf ljós og ekki liggja allar leiðir um Kjöl. Hvað með það kemst ekki á framhaldsaðalfund fimm bæjarstarfsmannafélag í Munaðarnesi n.k. laugardag, fékk boðið allt of seint ( eða í dag þann 12 . maí sé reyndar á dagsetningu að bréfið er ritað í Hrútafirði þann 25. apríl s.l.) og verð í öðrum málum en FÍÆT Félag íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa er með ráðstefnu og aðlafund um helgina á Selfossi. Gott fólk og sterkur faghópur.

Hvað með það
veit ekki hvort ég hefði mætt, og þó? Hefði kosið aðra þróun meðal bæjarstarfmannafélaga í kjölfar síðustu kjarasamninga og á þá ósk eina að bæjarstarfsmenn geti fyrr en seinna skipað sér í eina sveit og öðlast sinn fyrri styrk og sess.
Kjölur var í fyrstu samstarf 13 félaga og hét þá Kjarni. Á vegferðinni hefur kvarnast nokkuð úr hópnum og ljóst að hugurinn stóð til mun víðtækara og stærra félags en nú er verið að stofna. Hitt er annað mál að skynsamlegt er að sameina nokkur fámenn félög. Ef það er markmiðið þá hefur það tekist og óska ég forsvarsmönnum viðkomandi félaga til hamingju með það og velfarnaðar á hinni oft á tíðum torfæru braut sem verkalýðsmál eru.

Gamla Samflotið
var afar öflug eining og mín skoðun er sú að bæjarstarfsmenn hafi einfaldlega ekki efni á því að koma sitt í hvoru lagi til kjarasamninga. Það er því von mín að Kjölur sjái sér samboðið að starfa með Samflotsfélögunum gömlu og það er einnig von mín að þau örfáu félög sem utan bandalaga hafa starfað komi einnig til liðs við okkur. Hagsmunir umbjóðenda okkar krefjast þess og ábyrgð okkar sem forystumanna er að tryggja að svo verði. Annað er aukaatriði. Látum ekki gust reiðinnar slökkva ljós skynseminnar.

mánudagur, 10. maí 2004

Ekki verður á allt kosið

Ekki verður á allt kosið
í blessaðri tilverunni. Það er hverjum verkalýðsforingja ljóst og ýmislegt er það sem betur má fara, sumt er óhjákvæmilegt, annað sem kannski hefði verið hægt að breyta til betri vegar og svo er auðvitað fullt af atriðum sem gengu eftir.

Datt þetta í hug í aðdragandi kjarasamninga og hugurinn hvarflar af því tilefni í smiðju hins mikla skálds Guðmundar Böðvarssonar sem orti svo snilldarlega um hin glötuðu tækifæri í ljóði sínu Rauði steinninn. Læt hér fylgja með fyrsta og síðasta erindið:

Í vegarins ryki lá rauður steinn
við riðum þar hjá, eins og gengur,
með hávœrum þys í þeysandi hóp.
Þá var ég ungur drengur.
Og röðull skein þá
hverri rós á brá.
Við riðum þar hjá.
------------------------------
Minn glitrandi steinn, hví greip ég þig ei
úr götunni höndum tveimur?
Hví bar mig þar fram um? Þar beið mín þó
heill blikandi unaðarheimur.
Eins og rúbínsteinn
varst þú rauður og hreinn,
eins og rúbínsteinn

Efinn þessi fylgifiskur verkalýðsforingja ávallt erfiður, var eitthvað sem betur mátti fara, voru einhver tækifæri sem ekki voru nýtt, var gegnið til góðs? Veit það ekki alltaf?

Datt þetta í hug í aðdraganda kjarasamninga. Samningar við ríkið lausir í haust og upp úr næstu áramótum fara kjarasamningar við launanefnd sveitarfélaganna í gang.

Verða sennilega ekki á skáldlegu nótunum og ekki um hin glötuðu tækifæri né um blikandi velsæld. Hins vegar þörf hugsun og áminning um að láta ekkert fara fram hjá sér sem hugsanlega getur komið okkar hagsmunum til góða.

fimmtudagur, 6. maí 2004

Stjórn STH ákvað

Stjórn STH ákvað
á fundi sínum 6. maí að selja ekki hótelmiða í ár. Ástæður eru tvíþættar.

1. Miðarnir hafa farið hækkandi
í innkaupum og raunverð þeirra er allt of hátt og ekki í nokkru samræmi við verðgildi. Gisting á heimavist án baðs og morgunverðar er einfaldlega allt of dýrt og í raun merkilegt að verðlag hér á landi sé með þeim hætti að gisting sem ekki nær einni stjörnu sé svipuðu verði og þriggja til fjögurra stjörnu hótel i Danmörku? Einnig hefur það farið fyrir brjóstið á mörgum félagsmönnum að fólk þarf að tilkynna sérstaklega að það sé með hótelmiða og er gert panta með nokkrum fyrirvara. Oft allt upppantað þrátt fyrir góðan fyrirvara og einhverjir talið að farið sé með sig sem annars flokks kúnna

Til að miðar þessir nýtist kaupgetu launafólks þarf því að greiða þá verulega niður. Það getur ekki verið hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að "styrkja greinina" með þessum hætti og meðan verðlag til hreyfingarinnar er með þessum hætti er einfaldlega ekki hægt að eiga í þessum viðskiptum.

2. Við erum að fjárfesta
í nýju og glæsilegu sumarhúsi við Stykkishólm og við höfum verðið að taka íbúðina Akureyri í gegn. Endurnýjaður var pottur í Siggubæ og í Munaðarnesi er verið að "pottavæða". Stjórnin telur mikilvægari að einbeita sér að þessari uppbygginu á næstunni í stað þess að eyða miklum fjárhæðum í allt of dýra hótelmiða.

Hvað framtíðin ber
í skauti sér er óljóst en víst að möguleikar eru margir . Ekki er loku fyrir það skotið að semja við erlenda aðila um hótelmiða. Fargjöld til og frá landinu er ódýr og ef við bætist ódýrt hótel þá er frí að slíku tagi orðin verulega hagkvæmur kostur og vænlegur. Einnig má vel vera og vonandi að ferðaþjónustan hér að landi fari að endurskoða verðlag sitt. Eins og staðan er í dag það hefur íslenskt launafólk ekki efni á að ferðast um í eigin landi. Meðan að svo er þá er eitthvað að!

miðvikudagur, 5. maí 2004

Sniðganga / bojkott

Sniðganga / bojkott
Hraunið fjarri lagi ef þú ert í jakkafötum og brýtur lög. Tryggingarfélögin sleppa létt frá víðtæku ,lagvarandi og ólöglegu samráði. Olíufélöginn freista þess að semja? Velti fyrir mér hvað það er í þjóðarsálinni sem gerir það að verkum að fólk lætur þetta ganga yfir sig og hristir þetta af sér eins og hverja aðra óværu. Hve mikla og langvarandi óvirðingu má ráðherra sína lögum landsins? Hve bjánaleg lög er hægt að setja og hve langt er hægt að ganga fram af fólki átölulaust eða án nokkurra eftirmála Er íslenska þjóðarsálin eins og maðurinn sem ávallt sagði þegar að "gaf á" í lífsins ólgu sjó, "verra gat það verið". Velti þessu oft fyrir mér ,ótrúlegt langlundargeð landans og Pollyönnu-legt viðhorf

Ef manni er misboðið
Var heppin að vera uppfóstraður um í tíma í ríki Svía. Lærði mikið af þeim og verð fyrir það þakklátur. Varð það á, þegar ég nýkomin til landsins fór út að borða með nokkrum samstúdentum mínum, að panta kóka kóla með matnum. Sá strax á félögum mínum að ég hafði gert eitthvað vitlaust en vissi ekki hvað ? Eftir nokkurt fum þá vindur skólabróðir minn sér að mér og segir:"Árni ég veit að þú ert nýkomin til landsins og ekki víst að þú vitir að Kóka kóla kompaníð hefur orðið uppvíst að glæpum gangvart starfsfólki sínu í tilteknu landi í suður Ameriku og það sem verra er að baráttumenn þessa fólks hafa horfið sporlaust... til þess að sýna hug okkar í verki gagnvart fyrirtækinu þá er samstaða um það að sniðganga kóka kóla í þessu landi "

Peningakassinn er kjörkassi fyrirtækjanna
Salan fór niður í 5 % af venjulegri sölu á nokkrum mánuðum og hefur nú fjölmörgum árum seinna ekki náð fyrri styrk.
Skilaboðin skýr - fólki misbýður - fólk sýnir hug sinn í verki á einfaldan en áhrifaríkan hátt.
Af þessu getum við mikið lært og ætti að vera okkur til eftirbreytni sérstaklega á þessum "síðustu og verstu" þar sem ærin tilefni hafa gefist til þess að sýna hug sinn i verki. Peningakassinn er kjörkassi fyrirtækjanna og það sem ekki kemur í hann eru ekki síðri skilaboð en t.d. þau skilaboð sem almenningur sendir stjórnmálamönnum í formi kjörseðla í kjörkassanna á fjögurra ára fresti. Hvoru tveggja á maður að nýta sér til hins ýtrasta hvort sem um er að ræða að sýna hug sinn varðandi siðlaust viðskiptilíf eða siðlausa pólitík.

mánudagur, 3. maí 2004

Ég sleppi aldrei "góðu röfli"

Ég sleppi aldrei "góðu röfli"
Duttu tvö góð í hendur mínar um helgina.

Röfl eitt
Samtök atvinnulífsins gráta yfir öllum þessum frídögum sem að þeirra sögn slíta sundur vinnuvikuna? Hvað með 1. maí og aðra hátíðardaga þegar að þeir koma upp á helgum? Af hverju eru þeir ekki bættir með frídegi t.d. fyrir eða eftir helgina? Á það að vera hipsum happs og allt eftir því hvernig árið liggur hvernig frí verða? Nei segi ég, það ætti ekki að vera nokkur spurning um að taka sérstakt leyfi ef viðkomandi dag ber upp á helgardag enda eru þetta umsamdir frídagar.

Röfl tvö
Hafnarfjarðarbær sem sérstaklega verðlaunar starfsmenn þá er þiggja eingöngu rafræna launaseðla greiðir ekki út laun fyrr en á fyrsta virka degi mánaðarins? Þetta þýðir með öðrum orðum að flestir starfsmenn Hafnafjarbæjar fá útborgað þriðja þessa mánaðar? Einhverjir sennilega blankir um helgina af þessum sökum og svo hinir sem ekki njóta vaxta sem skyldi . Stirður enter takkinn þegar á að millifæra launin og virðist sem tölvutæknin sé víðsfjarri. Ætti að vera einfalt mál að kippa í liðinn á "tölvuöld"???

laugardagur, 1. maí 2004

1. maí ávarp

1. maí ávarp flutt í Grundarfirði og í Ólafsvík
Gleðilega hátíð

Verkalýðsbaráttan er
eins og sagan endalausa. Þegar að einum áfanga er náð þá blasir hinn næsti við. Verkefnin ótæmandi og stöðugt ný sem bætast við.

Ef litið er til lengri tíma þá er ljóst að margt hefur áunnist í baráttunni hér landi síðustu áratugina og ef við lítum til enn þá lengra tíma og allt að tímaum iðnbyltingarinnar í Englandi um miðja 18 du öldina, þar sem að líf kolanámuhestsins var meira virði en hins þrælkað barns. Hesturinn mun sterkari og bar mikið magn kola úr námunum og því verðmætari vinnukraftur. Börnin allt niður í 4 -5 ára gömul voru veikburða en þóttu hins vega afar nýtileg við að krafla kol úr þröngum útskotum í námunum. Þau entust illa, urðu lasburða, mörg létust, mörg flýðu og lögðust á vergang. Réttindi barna voru minni en vinnudýra og voru þau sett skör neðar. Breski rithöfundurinn Charles Dickens gerir þessum ömurlegu aðstæðum barna og verkafólks góð skil í bókum sínum.

Sem betur fer þá
hefur margt áunnist frá þessum ömurlegu tímum, það hafa margar orrustur unnist og mörgum árásum á kjör alþýðunnar hefur verið hrundið á bak aftur. Setning vökulaganna um 1920 á Íslandi var mikil áfangi og fjarri því sjálfgefin.

Í þessu samhengi það sjáum við greinileg að gríðarlega margt hefur áunnist. Við vitum einnig að það hefur ekkert komið upp í hendurnar á okkur baráttulaust. Fyrir hverri einustu breytingu hefur þurft að hafa fyrir. Þetta segir okkur og sýnir að verkalýðshreyfingin hefur gengt gríðarlega mikilvægu hlutverki og gerir enn og hreyfingin mun gegna mikilvægu hlutverki áfram.

Það er okkur því nauðsyn að styrkja innviði okkar með margvíslegum hætti. Við verðum að fá unga fólkið til liðs við okkur, við verður að fá hinn almenna félagsmann til að vera virkari og við þurfum að láta rödd okkar heyrast.

Það er engin tilviljun
að fyrir Alþingi liggi tillaga frá þingmanni úr stuttbuxnadeild íhaldsins um að afnema aðild fólks að verkalýðsfélögum. Járnfrúin hin breska sem féll af stalli með eftirminnilegum hætti, og skyldi samfélagið eftir í upplausn, barðist hatrammri baráttu gegn verklýðshreyfingunni bresku og með þeim hætti og árangri að en þann dag í dag hefur hún ekki borði sitt barr.

Það er því varhugavert og allrar varkárni vert að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað hér á landi. Verkalýðshreyfingin er litin hornauga og talinn standa í veginum - fyrir hverju spyrja menn? Svarið er augljóst ! Í veginum fyrir grímulausum eignatilfærslum í íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfinginn hefur leyft sér að hafa skoðanir á skiptingu þjóðarteknanna. Verkalýðshreyfingin hefur leyft sér að hafa skoðanir á einkavæðingu og að eignum samfélagsins séu færðar sérvöldum gæðingum
Verkalýðshreyfingin er ógn við þá grímulausu gróðahyggju þeirra afla sem nú ráða íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfingin hefur staðið vörð um velferðarkerfið. Verkalýðshreyfinginn er óþægileg því hún stendur í vegi fyrir markmiðum óheftrar gróðahyggju fámennra hópa samfélagsins og truflar þau margmið verulega. Sendisveinar þessara hagsmunaafla eru á Alþingi á stuttbuxunum einum saman og settir sérstaklega í það verkefni að ráðast að hreyfingunni með öllum tiltæknum ráðum.

Verkalýðhreyfingin er samfélagslega ábyrg
gerða sinna og um okkur er samt sem hægt að segja eins og fram kemur í ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá" Þjóðarsáttarsamningarnir eru það eldmeti sem núverandi góðæri og velferð byggir á. Við höfum hins vegar ekki fengið sanngjarnan hlut nema síður sé og þrátt fyrir einhverja mælanlega kaupmáttaraukningu almennings þá er hún í engu samræmi við þann ofurgróða sem bankar - og fjármálastofnannir sýna. Okurvextir , ofur þjónustugjöld, verðsamráð olíufélaganna, fákeppni á matvörumarkaði og hlutfallslega hátt vöruverð miðið við samkeppnislöndin gerir það að verkum að hlutdeild almennings í góðærinu er í engu samræmi við þær fórnir sem færðar hafa verið.
Hámarksávöxtun hlutbréfa, hámarksarðsemi,og skyndigróði er hið eina markmið margra fyrirtækja ,ýtrustu einkahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Afkomutölur fyrirtækja í landinu sýna svo ekki verður um villst að ráðrúm er til tekjuskiptingar með öðrum og sanngjarnari hætti en verið hefur.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki
að deila gæðum þó svo að stundum geti virst að svo séu þeirra meginmarkmið. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa sátt og samlyndi um helstu gildi og um leikreglur samfélagsins. Í dag fer því víðs fjarri að sátt og samlyndi ríki um skiptingu gæða í samfélaginu og í raun sjaldan verið eins mikil ójöfnuður og nú um þessar mundir. Stjórnvöld hafa ekki haft getu eða vilja til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til þess að sátt náist

Oft er deilt á hinn opinbera geira.
Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í flestum þeim tilfellum þar sem það á rétt á sér, þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlömb misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa með störfum sínum. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra.

Einkavæðing hefur hvergi leitt til
lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi sem kostað hefur ýmis samfélög gríðarlegar fjárhæðir, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Nýleg lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkarekinn einokun er sennilega versta og kostnaðarsamasta rekstraform fyrir samfélagið sem völ er á þegar að upp er staðið.

Verkalýðsbaráttan er sagan endalausa
sagði ég hér í upphafi. Orð að sönnu, hún þarf að styrkja innviði sína og hún þarf að láta rödd sína heyrast vel og víða og hin ýmsu verkalýðsfélög þurfa að mæla einum rómi. Það þarf að þétta fylkinguna og efla. Það þarf að hvetja unga fólkið til dáða og virkni innan hreyfingarinnar. Hin gömlu klassísku sannindi um að "sameinuð stöndum vér en sundruð föllum vér" er í fullu gildi. Leggjum á eitt til að svo megi verða og þá styrkjumst við og þá mun okkur farnast vel í hinum mörgu og erfiðum verkefnum framtíðarinnar