föstudagur, 31. október 2008

Rio Tinto er ekki jólasveinninn

Í gær var heilsíðuauglýsing í Fjarðarpóstinum frá Rio Tinto (með einum eða öðrum hætti) um undirskriftarherferð til stuðnings nýjum íbúakosningum um stækkun álvers Rio Tinto. Einnig grein frá starfsmanni álversins um að nú sé lag að redda atvinnumálum í Hafnarfirði og ef ekki bara gjaldeyrismálum þjóðarinnar .

Það eru nú aldeilis tíðindi að Río Tinto bregði sér í líki jólasveinsins og ætli sér að bjarga í einu vettvangi því klúðri sem nokkrir fjármálamenn hafa komið þjóðinni í. Eins og kunnug er þá eru hvergi þekkt dæmi um slíkt hjá Rio Tinto fyrirtækinu sem er því miður þekkt af öðru sbr umsvif fyrirtækisins í Indónesíu og víðar sem varð til þess að Norski Olíufjárfestingarsjóðurinn vill ekki bendla sig við fyrirtækið.

Veit ekki hvort það var meiningin með íbúalýðræði í Hafnarfirði að afar umdeilt alþjóðlegt stórfyrirtæki ráðist í hundruð milljóna „kosningabaráttu“ ár eftir ár? Haldi úti persónunjósnum um fólk sbr úrskurð Persónuverndar , haldi úti her launaðra starfsmanna, ráði til sín færustu ímyndar sérfræðinga, birti glansauglýsingar í dýrustu miðlum landsins, svona mætti telja og ekki má gleyma disknum hans Bo sem við Hafnfirðingar fengum sendan heim í álpakkningum. Er þetta íbúalýðræði ? Nei því fer fjarri þetta er grímulaus hagsmunabarátta stórfyrirtækis .

Þrátt fyrir erfiða tíma þá er margt í pípunum í Hafnarfirði. Allt stefnir í að frá Hafnarfirði hefjist umsvifamikill vatnsútflutningur . Umsókn um netþjónabú er til umræðu og svona mætti lengi telja. Rio Tinto álbræðsla sprettur ekki upp morgun og hefur enga þýðingu í þeirri krísu sem nú geisar. Álver og mengandi stóriðja nánast í miðbæ Hafnarfjarðar eru ekki lausnir morgundagsins – Samfélag morgundagsins byggir á umhverfisverndarsjónarmiðum og umhverfisvænni atvinnustarfsemi.

fimmtudagur, 30. október 2008

Hvað varð um gamla góða Moggann eða var ...

Mundi eftir alvöru leiðara í Mogganum um áfengismál. Minnti að það hafa verið fyrir margt löngu? Reyndar var Mogginn í mörg ár sá fjölmiðil sem virti í hvívetna lög um bann við áfengisauglýsingum. En viti menn það var fyrir rétt rúmi ári síðan að meðfylgjandi ritstjórnaragrein birtist. Grein sem ég get heilshugar tekið undir enda skrifuð af skynsemi og skilning á málefninu. Tilefnið hið marg framlagða frumvarp um sölu brennivíns í matvörubúðum , frumvarp sem aftur leit dagsins ljós í ár, ásamt frumvarpi um heimild til að auglýsa áfengi. Bæði þessi frumvörp illa unnin og byggja á 10- 12 ára gömlum heimildum.

Sala áfengis – Ritstjórnargrein MBL 16. Okt 2007
"Enn á ný er frumvarp til breytingar laga um verslun með áfengi komið til kasta Alþingis. 17 þingmenn úr þremur flokkum eru skrifaðir fyrir frumvarpinu. Markmið frumvarpsins er að leyfa sölu á léttvíni og bjór í stórmörkuðum og matvöru- og nýlenduvöruverslunum. Í greinargerð með frumvarpinu segir: "Erfitt er að finna rök fyrir tilvist áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en aftur á móti eru fjölmörg rök gegn henni." Er það virkilega svo erfitt?

Flutningsmenn frumvarpsins telja að núverandi fyrirkomulag sé tímaskekkja og eigi rætur að rekja til þess tíma sem "menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og fyrir einungis um 15 árum var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur". Þetta er ef til vill fyndið.

Ekkert er hins vegar skoplegt við málið sjálft. Áfengi er vara af allt öðrum toga en bílar, útvörp, sjónvörp, símar og eldspýtur. Engri vöru, sem seld er með löglegum hætti hér á landi, fylgir jafn mikil ógæfa og áfengi. Fjöldi Íslendinga á daglega í lífs- og sálarstríði við áfengisvanda, sem aldrei hverfur þótt hægt sé að halda honum niðri. Freistingarnar eru nægar og það er síður en svo eins og erfitt sé að ná í áfengi eða fólk láti það standa í vegi fyrir drykkju að geta ekki keypt áfengi í matvörubúðum.

En er ekki óþarfi að ekki sé hægt að kaupa í matinn án þess að freistingarnar blasi við fólki, sem á fullt í fangi með að halda sig á réttu spori? Er til of mikils mælst að fólk leggi það á sig að fara í sérstakar verslanir til að kaupa áfengi? Vissulega er göfugt markmið að ætla að einfalda fólki lífið, en ekki má gleyma að þessi ráðstöfun myndi einnig gera lífið að martröð fyrir fjölda manns.
Í greinargerðinni með frumvarpinu er lítið gert úr því að lögleiðing sölu áfengis í matvörubúðum muni hafa áhrif á aðgengi þeirra, sem ekki eru orðnir tvítugir, en er hægt að fullyrða það? Eftir því sem sala á áfengi verður dreifðari verður eftirlitið erfiðara.

Það er athyglisvert að í greinargerðinni er hvergi talað um áfengisvandann. Hún gæti rétt eins snúist um sölu á eplum eða súrmjólk. Hér er hins vegar á ferðinni frumvarp, sem engin ástæða er til að samþykkja. Í umræðum á þingi í gær var bent á að forvarnir hefðu ekki virkað. Munu þær virka betur verði frumvarpið samþykkt? Það er eins og flutningsmenn frumvarpsins séu tilfinningalausir og geri sér enga grein fyrir því um hvað áfengisvandamálið snýst." (MBL 16.okt 2007)

miðvikudagur, 29. október 2008

Morgunblaðið má mun sinn fífil fegurri

Leiðari Morgunblaðsins í dag um áfengi og auglýsingar er afar furðulegur.

“Á Íslandi er bannað að auglýsa áfengi. Engu að síður er áfengi mikið auglýst á Íslandi. Lögin hafa í raun verið til málamynda og það hefur verið látið refsilaust að auglýsa áfengi. Þar til fyrir helgi að Karl Garðarsson, fyrrverandi ritstjóri Blaðsins, var dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar.
Í sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara, sem vildi láta málið niður falla, kom fram að í samantekt á ætluðum áfengisauglýsingum í íslenskum blöðum og tímaritum á tímabilinu 1. maí 2005 til 2. júní 2006 hefðu greinst 999 tilvik. Með öðrum orðum hefðu lögin að því er virðist ítrekað verið þverbrotin án þess að lögregla eða ákæruvald lyftu litla fingri. Nema til þess að bregðast við auglýsingunum í Blaðinu.
Hér er eitthvað að. Áfengisauglýsingar eru daglegt brauð. Meira að segja áfengisverslun ríkisins kynnir þjónustu sína reglulega. Auglýsingar þar sem varað er við því að drekka eins og svín eru sýndar í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Það á sem sagt að drekka í hófi. Og auglýsandinn getur útvegað veigarnar til hófdrykkjunnar. Auglýsingarnar eru rækilega merktar honum. Við réttarhöldin var einnig vísað í Vínblaðið, kynningarblað ÁTVR, þar sem finna mætti áfengisauglýsingar. En líklegast er engin ástæða til að fara í mál við ríkið. Ríkið predikar hvernig umgangast eigi vín og auglýsir sjálft sig í leiðinni.
Tvískinnungurinn á bak við framkvæmd laganna, sem banna birtingu áfengisauglýsinga, er alger. Dómurinn yfir Karli Garðarssyni er vitaskuld í samræmi við lög. Lögin eru bara notuð það sjaldan að þegar þeim er beitt jaðrar það við réttarbrot.” (Ritstjórnargrein MBL 26/10 08)

Undarlegur leiðari og ljóst að hinn ónefndi höfundur hefur ekki kynnt sér mál sem skyldi. Dæmi um slík er eftirfarandi:

"... það hefur verið látið refsilaust að auglýsa áfengi. Þar til fyrir helgi að Karl Garðarsson, fyrrverandi ritstjóri Blaðsins, var dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar." segir í ritstjórnargrein. Þetta er einfaldlega rangt það hafa all nokkrir dómar fallið en alltof fáir miðað við fjölda afbrota. Karl Garðarson er ekkert sérstak "fórnarlamb" framkvæmdastjórar ýmissa fyrirtækja í áfengisbransanum njóta þessa vafasama "heiðurs" sem og Reynir Traustason þv Mannlífs ritstjóri svo nokkur dæmi séu nefnd.

"Það keyra allir á 200 km hraða og af hverju er ég bara sektaður" eru rök sem ekki eru samboðin hvorki Morgunblaðinu né öðrum. Auðvitað á að gefa út kærur í þessum málum eins og gangvart öðrum augljósum lögbrotum. 0.001% eru kærðar - hvar er jafnræðisreglan gagnvart öðrum brotamönnum á ekki að gefa út 999 kærur þar sem sannarlega liggur fyrir mat a.m.k. eins Hæstaréttardómara að um brot sé að ræða. Ef það er bara nóg að glæpum á þá að hætta að kæra?

Bann á tóbaks- og áfengisauglýsingum lúta heilbrigðis og velferðarsjónarmiðum en ekki grjóthörðum viðskiptasjónamiðum. Tóbak (þ.m.t. "ávaxtatóbak" sbr "léttöl"? og Mogginn sá ástæðu til að “kynna” um daginn sem nýjan trend unga fólksins) hefur ekki verið auglýst en ætti samkvæmt nákvæmlega sömu röksemdum og menn í áfengisbransanum nota um áfengisauglýsingar að vera leyfilegt. Það vill engin sbr hörð og afar neikvæð viðbrögð gagnvart umfjöllum Moggans um "ávaxtatóbak" og sama á við um áfengisauglýsingar, foreldrasamfélagið er á móti þessu og börn og unglingar eiga lögvarin rétt til þess að vera laus við þennan gengdarlausa áróður - Fjölmiðlar , auglýsingastofur, áfengisframleiðendur og áfengisinnflytjendur fara sínu fram , virða lögin að vettugi og taka ýtrustu viðskiptahagsmuni fram fyrir rétt barna og unglinga og lög landsins - Er Morgunblaðið blað hinna ýtrustu viðskiptahagsmuna jafnvel þó að það sé á skjön við íslensk lög ? Auglýsingasiðferði er það óþekkt hugtak þegar þetta sjálfsagða velferðarmál æskunnar er til umfjöllunar?

fimmtudagur, 23. október 2008

Eiga börn að afgreiða auglýst áfengi til annara barna

Á Alþingi voru nýverið lögð fram tvö gömul frumvörp. Annars vegar um leyfi til áfengisauglýsinga. Flutningsmenn eru Sigurður Kári Kristjánsson, Bjarni Benediktsson,Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal.

Og hins vegar um leyfi til sölu áfengis í matvörubúðum. Flutningsmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, og aðrir meðflytjendur Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Einar Már Sigurðarson, Ásta Möller, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir.

Bæði þessi frumvörp eru úrelt því ef litið er í greinargerðir þeirra þá rekur maður fyrst augun í það að frumvörpin byggja á upplýsingum og heimildum sem eru 10 til 12 ára gamlar . Þær “nýjustu ” sýnist mér vera frá árinu 2001. Flutningsmaður – menn þess hafa heldur betur kastað til höndunum í þessari vinnu. Það sem vekur einnig furðu mína er það að formaður heilbrigðisnefndar Ásta Möller er meðflutningsmaður á frumvarpinu um sölu áfengis í matvörubúðum. Finnst það með ólíkindum?

Ef litið er til hagsmuna barna og unglinga þá eru þessi frumvörp fjarri því að geta talist í þeirra þágu. “Fyrimyndarlandið” Danmörk sem býr við svona löggjöf státar að þeim vafasama heiðri að eiga við mestu unglingadrykkju í heimi að etja . Er það eitthvað fyrir okkur – nei takk ómögulega - Hef í gegnum störf mín á vettvangi norðurlandastamstarfs átt viðræður við danska félagsmálafrömuði um þessi mál sem all flestir eru komnir á þá skoðun að bæði verði að takmarka aðgengi unglinga að áfengi sem og að hefta auglýsingar.

Þingið er margsinnis búið að sýna hug sinn til þessara mála í raun og hefur ekki einu sinni áhuga að taka þess mál til meðferðar eða alla vega ekki sett þessi mál í neinn forgang. Á þessum síðustu og verstu tímum er tíma þingsins betur varið í önnur mál en þessi gjörendurnýttu frumvörp með fortíðartilvísunum. Eiga börn í stórmörkuðum að afgreiða auglýst áfengi til annara barna? Veit sem er að það eru ekki margir sem óska þess.

föstudagur, 17. október 2008

Er virk fyllibytta í stjórn SÁÁ ?

Nei sem betur fer ekki enda þau ágætu samtök meðvituð um það að til þess að hafa fullkomið kontrol á stöðunni þarf fólk að vera alsgáð og einbeitt. SÁÁ fólk gerir sér grein fyrir því vitandi af biturri reynslu að best er að sjá hlutina eins og þeir eru en ekki eins og maður heldur að þeir séu. Meðvirkni og afneitun eru því ekki í boði. En hins vegar er slíkt ávallt kvilli þeirra sem þjást í virkum alkahólisma og aðstandenda þeirra

Datt þetta í hug í morgun þegar ég vara að lesa meðfylgjandi grein í Fréttablaðinu eftir Dr. Hannes Hólmstein Gissurarson “Hvað gerðist” (í partý-inu). Þar sem einn fremstu skipuleggjendum veislunnar miklu fer að fimbulfamba út og suður um það að allt sem gekk úrskeiðis í partýinu væri öllum öðrum að kenna en þeim sem skipulögðu það, vitlausir gestir, og ómögulegir nágrannar. Hannes bendir einnig á önnur partý öllu verri þannig að hans partý hafi þrátt fyrir allt verið mjög vel heppnað og svona mætti lengi telja. Svona partý lifi áfram það þurfi bara nýja gesti í þessa tegund af partýum . Jafnvel þurfi að setja einhverjar umgengisreglur en auðvitað bara tímabundið

Bullandi meðvirkni og afneitun um ástand efnahagsmála myndi einhver kalla skrif doktorsins og spurningin því sú hvort heppilegt sé að maður með slíkt veganesti sé í stjórn Seðlabankans – Partý-ið er búið og annað slíkt verður ekki haldið í bráð. Afneitun, meðvirkni og blind bókstafstrú er ekki það sem þarf í dag við “stjórn“ Seðlabankans – alveg á sama hátt og að í stjórn SÁÁ er ekki pláss fyrir virka fyllibyttu.

miðvikudagur, 15. október 2008

Af álverum, olíuhreinsunarstöðvum og ...

... öðru því sem menn telja að "leysi" kreppuna? Sjálfstæðismenn hugmyndafræðingar og aðalábyrgðarmenn hins aðframkoma íslenska hagkerfis telja (a.m.k. í Hafnarfirði) að lausn efnahagsmála felist m.a. í stækkun álversins í Straumsvík sem er í eigu fyrirtækisins Rio Tinto (Sjá nánar umfjöllun MBL hér að neðan).

Boðar fyrirtækið undirskriftasöfnun meðal íbúa bæjarins á vegum (launaðra) starfsmanna þess, í þeim tilgangi að fá samþykkta nýja íbúakosningu um stækkun álversins? sem eins og kunnugt er var felld í fyrra þrátt fyrir gríðarlegan fjáraustur fyritækisins í áróður um eigið ágæti. Rio Tinto er ekki beinlínis þekkt fyrir ríka samfélagsábyrgð eins og dæmin sanna. Spurning er því þessi, ætlum við að "leysa" þetta efnahagsklúður með þriðja heims lausnum a la Rio Tinto. Nei takk ómögulega - ekki risaálver nánast í miðbæ Hafnarfjarðar - skilum komandi kynslóðum allavega þokkalega hreinu og heilbrigðu umhverfi.

Norski olíusjóðurinn hættir að fjárfesta í Rio Tinto
Norski olíusjóðurinn, eftirlaunasjóðurinn sem stór hluti olíuvinnslutekna Norðmanna rennur í, mun ekki lengur fjárfesta í bresk-ástralska námufyrirtækinu Rio Tinto, móðurfélagi Alcan á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík. Ástæðan er námuverkefni, sem Rio Tinto er með í Indónesíu en því fylgir gríðarleg mengun.
Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur eftir Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra, að engar upplýsingar liggi fyrir um að Rio Tinto muni breyta um stefnu í Indónesíu og olíusjóðurinn geti ekki fjárfest í slíkum félögum.
Olíusjóðurinn seldi fyrir tveimur árum hlutabréf í námufélaginu Freeport McMoRan vegna þátttöku félagsins í umdeildum framkvæmdum í á Papua í Indónesíu við svonefnda Grasbergnámu, sem er stærsta gullnáma heims og þriðja stærsta koparnáma í heimi.
Í kjölfarið var bent á að Rio Tinto ætti 40% í Freeport McMoRan. Í apríl í ár bað norska fjármálaráðuneytið seðlabanka landsins að selja bréf olíusjóðsins í Rio Tinto Plc. og Rio Tinto Ltd. Þeirri sölu er lokið en alls voru seld hlutabréf fyrir 4419 milljónir norskra króna í Rio Tinto Plc. og fyrir 430 milljónir norskra króna í Rio Tinto Ltd. Samtals nemur þetta nærri 77 milljörðum íslenskra króna.
NRK segir að við framkvæmdirnar í Indónesíu sé um 230 þúsund tonnum af jarðefni út í vatnakerfi svæðisins og þessi losun muni aukast eftir því sem námugreftrinum vindur fram
.
Heimild mbl.is 10.9.2008

föstudagur, 10. október 2008

Ekki gleyma börnum og unglingum

Á þessum síðustu og allra verstu tímum þá hvílir gríðarleg ábyrgð á okkur sem eldri erum hvað varðar það að upplýsa börn og unglinga um það ástand sem ríkir í samfélaginu. Börn og unglingar skynja ástandið í gegnum foreldra sína og þá sem eldri eru. Þegar að tímar eru víðsjáverðir eins og nú þá er ljóst að margt fólk hefur miklar áhyggjur, er óöruggt og jafnvel mjög reitt. Barn eða unglingur sem upplifir slíkt, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir hvers vegna foreldrarnir eru svona leiðir, verður óöruggt ekki ósvipað því sem á sér stað í brotnum fjölskyldum. Í slíku ástandi á barn eða unglingur t.d. oft mjög erfitt með að einbeita sér í skóla, heldur að leiðin í foreldrunum sé sér að kenna o.sv. frv.

Því er ákaflega mikilvægt fyrir foreldra og aðra uppalendur að setjast niður með ungviðinu og ræða það þjóðfélagsástand sem uppi er. Koma börnum og unglingum í skilning um ástandið og gera þeim kleyft að skilja og vera hluti af því sem á sér stað á þeirra forsendum. Með því sýnum við ekki einungis ábyrgð sem foreldrar og uppalendur - við erum ekki síst að gefa börnum og unglingum gríðarlega gott veganesti inn í breytt þjóðfélag.