föstudagur, 30. júní 2006

Leiksigur á Ung i Norden

Er í Færeyjum en þar fer fram þessa daganna ungmennamenningarmótið Ung í Norden. Þannig háttar til að ég er í verkefnisstjórn fyrir Íslands hönd en ÍTH er framkvæmdaraðili f.h. Menntamálaráðuneytisins hvað varðar þátttöku íslenskra ungmenna á mótinu. Þetta er í þriðja skiptið sem við sjáum um þetta verkefni sem fram fer annað hvert ár. Hópurinn er skipaður 18 ungmennum á aldrinum 14 – 18 ára. Auk Hafnfirðinga eru krakkarnir víða af landinu enda ekki síst markmið með þessu verkefni að mynda tengslanet íslenskra unglistamanna.

Er hér í góðum félagskap og þar fara fremst samverkamenn mínir og vinir þau Andri Ómars farastjóri og aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöðinni Öldunni og Sara Marti Guðmundsdóttir söng-, leik- og listakona sem alfarið hefur séð um listræna stjórnum og undirbúning þess hluta verkefnisins. Frábær listamaður sem á ákaflega einfalt með að fá það besta út úr unga fólkinu.

Enda fór svo að sýning íslenska hópsins sló algerlega í gegn. Unga fólkið sér og sínum til mikils sóma. Smelli hér til gamans mynd úr sýningunni. Áhugafólki um unglingamenningu bendi ég á íslenska heimasíðu verkefnisins http://unginorden.blogspot.com/ sem og á hinni opinberu síðu mótsins http://www.unginorden.fo/

þriðjudagur, 27. júní 2006

Mr. Bean og Mr. Guðmundsson

Sló út vin minn Mr. Bean í hrakförum. Tókst það ótrúlega sem var að slasa mig við móttöku gjafar? Var við þá skemmtilegu iðju að taka á móti gestum í útskriftarteiti er ég hélt af tilefni meistaraprófi mínu frá KHÍ. Ekki vildi betur til en að ofan á mjúkum pakka leyndist einn harður – grjótharður. Ekki vildi betur til en að sá harði féll við móttöku beint ofan á tánna á mér. Varð af því mikil sársauki en sem gestgjafi var ekki um annað að ræða en að halda áfram gleðinni og harka af sér. Daginn eftir var hins vegar ljóst að hin verulega bláa tá var verkefni fyrir læknavísindin og hin nýfengna forfrömun mín á svið uppeldisvísinda mátti sín lítils gagnvart þessu vandamáli.

Fór því á þar til gerða stofnun Slysó. Hjúkrunarfræðingurinn í móttökunni átti erfitt með að skrifa slysaskýrsluna vegna hláturs en fyrir utan það fékk ég afbragðs þjónustu. Sem var gott mál enda á leið til Færeyja daginn eftir. Dvel þar þessa stundina í góðu yfirlæti og vonast til þess að leggja hækjunni fljótlega.

Af gjöfinni "góðu" er það að segja að koníakið og flaskan harðgerða sluppu algerlega ósködduð úr fallinu – veit ekki hvort ég kýs frekari samskipti við hana að sinni – þó aldrei að vita – verður þó af stakri aðgæslu sem auðvitað gildir alltaf þegar að áfengi er annars vegar.

miðvikudagur, 21. júní 2006

Fjarðarpósturinn og PAN

Ritstjóri Fjaraðpóstsins gerir að umtalsefni í tölublaði þessarar viku hljómsveitina PAN sem honum þótti lítið til koma sem síðasta dagskráliðar á kvöldskemmtun 17. júní hátíðarhaldanna í ár. Vitnar í m.a. umfjöllun mína hér á dagskinnunni um bandið. Af því má ráða að það hafi verið sérstakt áhugamál mitt að fá bandið til að spila. Dagskrá 17. júní er aldrei miðuð við smekk þeirra sem standa að framkvæmd og skipulagningu hátíðarhaldanna. Á 17. júní er markmiðið að koma til móts við og reynt að höfða til sem allra flestra íbúa bæjarins frá 0 – 100 ára.

17. júní nefnd hefur auk þess nánast ávalt gefið ungum og efnilegum hafnfirskum listamönnum sem eru að stíga sín fyrstu spor kost á að koma fram á hátíðarhöldunum og í ár var það hljómsveitin PAN. Á næsta á má gerða ráð fyrir einhverjum öðrum ungum og efnilegum hafnfirskum listamönnum enda af nægu að taka í þeim efnum. Við sem eldri erum eigum auðvitað að gefa okkar unga og óreynda listfólki tækifæri og veita því stuðning þó svo að list þeirra falli ekki endilega að okkar eigin smekk. Trúi því ekki að menn séu eitthvað á móti því?

föstudagur, 16. júní 2006

Og ennþá meira af tónlist

16. júní tónleikar færðir af Víðistaðatúni í Gamla bókasafnið vegna veðurs. Fínir tónleikar og af mörgum góðum böndum þá bið ég fólk að leggja á minnið hljómsveitina “Form áttanna” þrælgott band sem er rétt að byrja ferilinn en eru strax orðnir verulega góðir spilarar. Blúsað rokk í sérflokki. Í hörðu deildinni er hljómsveitin PAN góð, minna á köflum á vini mína í Mínus þó ögn rólegri og melodískari, glittir í gamla þungarokkið. Flottir tónleikar bland af minni spámönnum og lengra komnum. Spilagleði í fyrirrúmi og margt listavel gert. Þakka fyrir mig.

fimmtudagur, 15. júní 2006

Meira um músík

Brá mér á opnunarkvöld sumarfélagsmiðstöðvarinnar Öldunnar + í kvöld. Þar var margt um manninn og upphafið lofar góðu. Hljómsveitin Fóbía lék fyrir gesti. Flott band og engin tilviljun að sveitinni gekk afar vel á músíktilraununum. Það er með eindæmum hvað við eigum mikið af efnilegu ungu tónlistarfólki hér í firðinum.

Fyrir tónlistaráhugafólk á öllum aldri þá verður sannkölluð tónlistarveisla á Víðistaðatúni þann 16. júní þar sem saman koma fjölmargar hafnfirskar unglingahljómsveitir. Vona bara að veðrið verði þokkalegt. Hvet fólk til þess að missa ekki af þessum tónleikum sem hefjast klukkan 20:00.

þriðjudagur, 6. júní 2006

Pétur og úlfurinn

Brá mér í Hafnarfjarðarleikhúsið í gærkvöldi. Erindið að hlusta á hljómsveitina Alræði öreiganna spila hið klassíka verk Pétur og Úlfinn í funk/rokk útsetningu. Fín spilamennska hjá bandinu og gaman að heyra þessa frábæru tónlistarmenn túlka verkið með þeim metnaðarfulla hætti sem þeir gerðu. Snorri trommari er sennilegast einn sá efnilegasti í bransanum í dag og sama má segja um þá félaga Helga Egils bassaleikara og Huma (Ragnar Ragnarsson) hljómborðleikara. Ekki má gleyma Halldóri gítarista sem sýndi flotta takta og góða spilamennsku Frábært framtak og skemmtilegt, bíð bara eftir því að menn vindi sér ú útgáfu sem er orðið fyllilega tímabært. Þakka fyrir mig