föstudagur, 22. september 2006

Borað í nefið í 7.300 daga

Það voru margir hissa á mér þegar fór úr ágætu starfi hjá ÍTR og tók við starfi æskulýðs- og tómstundafulltrúa Hafnarfjarðar. Kofi sem gekk undir nafninu Æskó, gömul lítil verbúð uppi á Flatahrauni sem bænum hafði áskotnast við gjaldþrot fiskverkunar Einars Gíslasonar h/f var allur sá “metnaður” sem bæjarfélagið lagði í málaflokkinn æskulýðsmál. Staðan var sú að samkvæmt könnun Dr. Þórólfs Þórlindssonar kom í ljós að hafnfirsk ungmenni sóttu skipulagðar tómstundir í mun meira mæli utan bæjarfélagsins en innan. Málaflokkurinn var rústir einar og skýrslan alger áfellisdómur um “starfsemina”.

Ekki ætla ég að þakka mér þann árangur sem við höfum náð í æskulýðsmálum en hann kom ekki af sjálfum sér og ég hef svo sannarlega notið þess að hafa starfað með góðu fólki. ÍTH hefur innleitt ýmsa nýbreytni hér á landi, nýja starfsþætti, samþætt málefni ungmenna og staðið fyrir víðtæku samstafi allrar þeirra aðila sem hafa með börn og unglinga að gera. Þetta hefur verið gríðarleg vinna, oft í miklum mótvindi og stundum við takmarkaðan skilning ráðamanna. Það hafa margir lagst á eitt í góðum hópi starfsmanna ÍTH og árangur er ótvíræður. Samkvæmt könnunum Rannsóknar og greiningar e.h.f. þá telja um 60 % af hafnfirskum ungmennum sig vera fastagesti í félagsmiðstöðvum bæjarins (mæta einu sinni í viku eða oftar).

Ekki verður annað skilið af umfjöllun Fjarðarpóstsins 21/9 á bls 3 “Var æskulýðsfulltrúinn óþarfur?” en að undirritaður hafi verið í langvarandi iðjuleysi árum saman enda starfið óþarft. Þessu megi m.a. finna stoð í, segir tiltekinn bæjarfulltrúi, að óþarft hafi verið að ráða afleysingu meðan undirritaður var vetrarlangt í námsleyfi fyrir nokkrum árum?

Ekki virðist viðkomandi bæjarfulltrúi sem þessu heldur fram vera alveg með á nótunum því í umræddu námsleyfi undirritaðs leysti sá ágæti drengur, þ.v. forstöðumaður Vitans, Geir Bjarnason æskulýðsfulltrúa af og í starf forstöðumanns Vitans fór Jóhanna Flekenstein annar afburðar góður starfsmaður ÍTH

Veit það ekki - kannski finnst einhverjum stjórnmálamönnum það óþarft að hafa einhverja verkstjórn í jafn mikilvægum málaflokki og æskulýðsmál eru. Menn verða þá að byggja þá skoðun á einhverjum rökum og ekki síst á hvernig málum er raunverulega fyrir komið.
Annars er bara verið að gera lítið úr störfum fólks sem a.m.k. í eigin hugskoti telur sig hafa verið að gera ágæta hluti og hefur lagt á sig ómælt erfiði og vinnu til þess að svo mætti verða.

Hlutverk og mikilvægi stjórnmálamanna felst m.a. í því að skapa forsendur. Ef ekkert er að gert í þeim efnum þá hendir ekkert. Án forsendna verða allar gerðir og ræður stjórnmálamanna eins og sagan af nýju fötum keisarans, innihaldslausar. Ef forsendur eru m.a. þær að verkstjórnendur séu óþarfir þá er auðvitað á litlu að byggja. Ergo, sú mikla þekking og reynsla sem starfsmenn búa yfir leitar einfaldlega annað, í aðrar forsendur.

þriðjudagur, 19. september 2006

Smá vesen

Ég lifi áhættusömu tölvulífi. Á hins vegar góða að þegar að villimennskan verður algjör. Bræður mínir eru allir tölvunarfræðingar auk þess sem ég hef oft leitað ásjár bestu tölvudeildar landsins þ.e. tölvudeildar Hafnarfjarðarbæjar.

Er sem sagt búin að vera að uppfæra tölvuna mína með nokkuð mislukkuðum árangri. Er hættur með adressuna arni@hafnarfjörður.is og jafn gagnlegt að senda erindi í hana eins og að ræða við næsta ljósastaur. Er hins vegar búin að koma minni prívat adressu arni.gudmunds@simnet.is og adressu formanns STH addigum@simnet.is í nýtt forrit.

Ekki tókst betur til við þá aðgerð mína að ég finn ekki pósta úr gamla forritinu, veit þó að þeir eru þarna einhver staðar. Fæ að öllu jöfnu mikinn fjölda skeyta og geri mér því grein fyrir að einhver bið verður á svörum. Bræðralag og vinnátta við snillinga á tölvusviðinu er því mikils virði eins og reyndar öll vinátta. Vona að mál komist í samt horf fyrr en seinna.

mánudagur, 11. september 2006

Kani móðgaður

Var einu sinni sem oftar á ferð yfir hafið. Sessunautar mínir í fluginu Hollendingur, myndlistamaður á leið í brúðkaup til Íslands og Kani, viðskiptafræðingur ,deildarstjóri hjá stórfyrirtæki, á leið heim eftir sína fyrstu ferð til Evrópu en þar hafði hann verið á vegum fyrirtækisins. Við tókum tal saman og ræddum heima og geyma. Skemmtilegt, en með öllu tíðindalaust spjall þar til við nálgumst Vestmannaeyjar. Skyggni var afar gott og útsýni hið besta.

Ég hóf því að ræða málefni Keikós heitins enda blasti heimili hans við okkur. Ég tjáði sessunautum mínum hvert viðhorf íslendinga til málsins væri og að helst vildi ég borða fiskinn enda væri „sænautasteik” hinn besti matur, svona syndandi Galloway naut. Það sem meira var ég tjáði þeim félögum að ágætur maður teldi að hægt væri að útbúa 60.0000 úrvals máltíðir úr Keikó einum saman.

Hollendingnum fannst þetta merkilegt en Kanninn þagði og varð fáskiptinn í meira lagi. Fékk ekkert upp úr honum næstu mínúturnar. Heldur var hann þungur þegar hann sagði mér að hann væri styrktaraðili í Free Willy Keiko Foundation, greiddi 10 dollara á mánuði til samtakanna og hefði gert í mörg ár. – Úps hugsaði ég með mér og var ekkert ósáttur við að stutt var í lendingu. - Fékk aldrei nafnspjaldið sem hann ætlaði að fá mér

föstudagur, 1. september 2006

Mikið rosalega er ég ríkur

Vann minn síðasta starfsdag hjá Hafnarfjarðarbæ í gær. Áformaði að ljúka störfum með því að fara á starfsmannafund í félagsmiðstöðinni Vitanum í Lækjarskóla klukkan 16:00. Bjóst við tveggja til þriggja tíma fundi. Þarna hafa verið tóm leiðindi í gangi allt frá því að skólastjórinn óskaði eftir og fékk samþykkt í fræðsluráði að yfirtaka starfsemina? Til grundvallar lagði hann fram „Stefnumótunarplagg” fyrir félagsmiðstöðina ásamt tveimur kennurum, plagg sem vægast sagt hefur mælst ákaflega illa fyrir meðal fagfólks innan frítímaþjónustunnar og víðar í fagheimum.

Var því vel undirbúin í það að peppa okkar mannskap upp og brýna til góðra verka sem endranær. Ekki veitir af því forstöðumaðurinn er kominn í veikindaleyfi og langt í brosið hjá staffinu yfir ástandinu. Geir vinur minn Bjarnason kvaðst ekki komast á fundinn sem gerði það að verkum að mér fannst algjör nauðsyn að mæta(sem mér var auðvitað bæði ljúft og skylt).

Allt í einu kemst Geiri á fundinn, þannig að við förum saman. Þegar að við erum komnir út Hverfisgötuna þá þarf Geiri allt í eina að koma við heima hjá sér. Og viti menn í götunni er allt troðfullt af bílum og það sem undarlegra var að nokkrir vinir mínir voru á sveimi í götunni. Grunaði félaga minn um græsku sem reyndist og rökum reynst.

Viti menn húsið og garðurinn troðfullur af vinum mínum sem síðan áttu eftir að verða fleiri og héldu áfram að streyma í teitið fram eftir kvöldi. Ekki var það verra að upphaldshljómsveitin mín (sem reynda heitir ýmsum nöfnum eftir verkefnum t.d. Gleðisveitin Runólfur/Pétur og Úlfurinn m.m. Helgi Egils bassaleikari. Snorri Páll Úlfhildarson Jónsson trommari, Ingmar Andersen klarínettuleikari, Eiríkur Stefáns trompetleikari), léku fyrir gesti af sinni alkunnu snilld. Frábærir hljómlistarmenn.

Allt var þetta skipulagt með 2 -3 tíma fyrirvara hjá fyrverandi samstarfsfólki mínu hjá ÍTH enda var ekki fullljóst um hvenær ég myndi hætta fyrr en um hádegið í gær. Sýnir í hnotskurn hve gríðarlega fín stofnum ITH er og hve snerpan og vinnulagið er gott. Svona fínt teiti með þessum örstutta fyrirvara gæti engin skipulagt nema ÍTH

Fann hve rosalega ríkur ég er af góðum vinum. Teitið varð fyrir vikið ein af mestu gleðistundum lífs míns þrátt fyrir þau megnu leiðindi að vera að hætta. Tær snilld hjá samstarfsfólkinu að efna til gleði af þessu tagi í stað þess að leggjast í depurð yfir afleiðingum af ráðslagi stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn ráða en við (fv)embættismenn ráðum hvort við viljum verða samferða.

Fyrir teitið verð ég vinum mínum æfilega þákklátur. Nota hér einnig tækifærið til þess að þakka öllum þeim fjölmörgu sem sent hafa mér hlýjar og góðar kveðjur í tölvupósti. Yndislegt að vera svona moldríkur og eiga allt þetta góða fólk að vinum.