mánudagur, 9. september 2013

Brauðmolahagfræði og kjarasamningar


Á næstu vikum og misserum munu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ótt og títt kveða sér hljóðs á almennum vettvangi í þeim tilgangi að boða váleg tíðindi í íslensku efnahagslífi.  Þeirri vá verði einugs mætt með því að taka snarlega upp að nýju brauðmolahagfræðina. Stefna sem að flestra mati var talið að hefði dáið drottni sínum með hruninu? (http://addigum.blogspot.com/2008/10/er-virk-fyllibytta-stjrn-s.html) Þessi kenning gengur út á það að fyrirtæki í landinu eigi helst ekki að borga neitt til samfélagsins og fái frekar ríkisaðstoð í formi skattaafsláttáttar m.m. Allt gengur þetta út að það að fyrirtæki græði sem allra mest því þá fjárfesti það og með fjárfestingum myndist einhver gróði sem þá þarf að nýta í aðrar fjarfestingar. Þegar að eigendur fyrirtækjanna eru búnir að braska með auranna eins og frekast er unnt, kaupa og selja fyrirtæki, hlutbréf og annan loftkenndan varning (jafnvel erlendis) þá verður (vonandi) til eitthvert smáræði, brauðmolarnir sem eru grundvöllur þessarar kenningar.

Brauðmolarnir, sem falla af borðum alsnægtanna, eru síðan það sem er til skiptanna þ.e. kaupgjaldið þeirra sem vinna verkin. Vandinn er hins vegar sá að brauðmolarnir eru afar fáir, ef nokkrir, þegar upp er staðið enda grundvöllur þessarar stefnu það sem að í daglegu tali er kallið hin grjótharða íslenska láglaunapólitík. Allt rask á þessu fyrirkomulagi nema ef vera skyldi í þá veru að fækka brauðmolum veldur stórfeldri vá, að sögn almennt en með réttu hvað varðar ítrustu sérhagsmuni umbjóðenda SA

Málflutningur fulltrúa á næstu misserum mun bera keim af þessu. Grein framkvæmdastjóra SA í Fréttablaðinu 24. ágúst 2013 „Verðbólgan ræðst af niðurstöðum kjarasamninga“ er klassískt dæmi um Brauðmolaretorik. Þar eru forsendur um einhverja smáræðis hækkun á launum í spám Hagstofu og Seðlabankans taldar kom öllu í vitleysu. Framkvæmdastjórinn tekur síðan dæmi um hófsamar hækkanir í nágrannalöndum okkar sem séu til fyrirmyndar, án þess þó að geta í nokkru eða gera tillögur um sambærilegt kaupgjald og þar ríkir. Sú hófsemd sem SA boðar almennt gildir auk þess eingöngu fyrir aðra en þá eins og sjá má varðandi hækkun kaupgjalds og þróun þess hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja.

Íslenskir kjarasamningar eru, sennilega einir kjarasamninga (í hinum vestræna heimi), því marki brenndir að vera markaðir af kerfis- og lögbundnu óréttlæti. Kaupgjald sem ekki er vísitölubundið í vísitölubundnu þjóðfélagi er rót mikils vanda og gerir það að verkum að kjarasaming eftir kjarasamning velta aðilar SA/SI/SVÞ og fleiri samtök öllum kaupgjaldshækkunum beint út í verðlagið, án nokkurs eftirmála, sem væri ekki hægt ef kaupgjaldið lyti sömu reglum og annað í íslensku hagkerfi.

Að mati SA er aldrei ráðrúm til hærra kaupgjalds, ekki einu sinni á þeim tímum er efnahagur hefur verið í blóma. Íslenskir kjarasamningar hafa því miður ekki snúist um réttláta og sanngjarna skiptingu tekna samfélagsins – um það hefur fjarri því verið sátt, íslensk kjarabarátta hefur einkennst af samfeldum átökum og vantrausti gagnvart vinnuveitendum vegna langvarandi óbilgirni . Telur SA að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík, þetta félagslega böl, sé líkleg til þess að koma íslensku efnahagslífi í gang?

Brauðmolahagfræði a la SA er einungis ávísun á áframhaldandi og síaukin ójöfnuð í íslensku samfélagi. Verkefni næstu kjarasamninga snúast ekki um slíkt . Þau snúast um sanngjörn skipti, og sanngjarna hlutdeild. Slíkt eru öllum til góða ekki síst umbjóðundum SA.