þriðjudagur, 30. september 2003

Bæjarbíó

Bæjarbíó
Feykilega vel heppnað framtak hjá Kvikmyndasafni Íslands að viðhafa sýningar á kvikmyndaklassík í Bæjarbíói. Billeder fra Island var á dagskrá í kvöld sem og frumsýning á stuttmynd Gunnars B Gunnarssonar og félaga . Ljómandi fínar ræmur báðar tvær, afar ólíkar enda 60 ára aldursmunur. Fassbinder var sýndur í síðustu viku og á næstunni er von á ýmsum perlum kvikmyndasögunnar. Húsfyllir var í kvöld og vonandi verður svo áfram. Kvikmyndasafnið er sem sagt sannkölluð lyftistög bæði fyrir íslenskt og ekki síður hafnfirskt menningarlíf. Ekki spillir hin virðulega umgjörð safnsins, Bæjarbíó, fyrir.

sunnudagur, 28. september 2003

Starfsmat

Starfsmat
Það er komnar fínar tengingar á heimasíðu STH varðandi starfsmatið, það eru tvær krækjur á heimasíðu LN. Ein um fréttir af framvindu vinnunnar en hin um ýmislegt er tengist starfsmatinu . Fínar síður og fróðlegar, sjón er sögu ríkari, sjá www.sthafn.is

Sami samningur en sitt hvor laun ?
Margir velta fyrir sér og einnig sá sem þetta skrifar hvernig standi á því að svipuð eða sambærileg starfsheiti/störf gefi mismunandi laun eftir bæjarfélögum, þrátt fyrir að samningar séu hinir sömu? Hef verið að fara yfir mál og sé ekki betur en að verulega halli á í einhverjum tilfellum og að í einhverjum tilfellum séum við yfir.

Aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð í Garðabæ er t.d. þremur launaflokkum hærri en forstöðumaður í félagsmiðstöð í Hafnarfirði? Afar sérkennilegt, óskiljanlegur munur sem þarfnast að sjálfsögðu gaumgæfilegrar skoðunar og leiðréttingar hið fyrsta.

miðvikudagur, 24. september 2003

Stjórnarfundur
Kl 17:30 var stjórnarfundur hjá STH. Ýmis mál á dagskrá eins og úthlutun á Siggubæ fram til áramóta, húsnæðismál félagsins, nýja þjónustuverið, fyrirhugaður trúnaðarmannfundur, aðlögunarsamningur á Sólvangi , fyrirhugaðar viðræður við Heilsugæsluna og ekki síst starfsmatið.

En af
starfsmati er það helst að frétta að verklag verður með þeim hætti að ekki verður rætt við hvern og einn starfsmann í fyrstu hrinu, heldur verða tekin út tiltekin fjöldi starfslýsinga hjá starfsmönnum sem geta verið einkennandi ( staðallýsing ) fyrir fjölda starfsmanna. Hugmyndin er síðan að tengja samkvæmt því. Ef viðkomandi starfsmaður telur starf sitt ekki eiga við neina lýsingu þá er hægt að kæra og er þá mál viðkomandi er tekið sérstaklega upp.
Þetta vinnulag er viðhaft til þess að hægt verði að ljúka vinnu við matið fyrir 1. desember n.k. Hér er því um millileik að ræða en vinnan mun halda áfram jafnt og þétt og matið klárað eins og upphaflega var ráðgert. Breytingar geta því verið að koma inn hægt og sígandi á næstu misserum þrátt fyrir þennan millileik.

þriðjudagur, 23. september 2003

Er í sumarleyfi

Er í sumarleyfi
að vísu bara dagspart og verð jafn hvítur og áður er ég kem til byggða. Er í Munaðarnesi við þá ágætu sumarleyfisiðju að kenna samningatækni á námskeiðum fyrir forystufólk BSRB. Það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hve fínn og kröftugur mannskapur er innan samtakanna. Námskeið þessi eru skipulögð af fræðsludeild BSRB og eru keyrð í þremur staðbundnum lotum auk þess sem fólk nýtir Webbann þess á milli. Fyrir utan samningatækni þá er fjallað um verkefnastjórnum, ræðumennsku, fundarsköp, sögu verkalýðshreyfingarinnar, samskipti við fjölmiðla, upplýsingatækni, lög og reglugerðir, hagfræði o.fl. Sem sagt félagsmálaskóli BSRB þar sem fjöldi leikinna og lærðra kemur að. Mennt er máttur.

Sólvangur
Haraldur Eggerts og Gurrý trúnaðarmaður áttu fund á Sólvangi s.l. föstudag um endurskoðun á s.k. aðlögunarsamningi. Fundurinn gekk vel og framvinda mála með ágætum. Fundir um sama efni verða á Heilsugæslunni innan tíðar.

föstudagur, 19. september 2003

Jósku heiðarnar

Jósku heiðarnar
áttu verða hlutskipti íslendinga forðum daga hvað búsetu varðaði . Þótti góður kostur að mati Konungs en afleiddur að mati flestra annarra og ekki síst forfeðra vorra sem sjálfviljugir kusu vosbúð og vesæld. “Bjartur í Sumarhúsum” einkennið snemma verði fyrir hendi hjá íslendingum og ýmislegt lagt á sig í nafni sjálfstæðis. Kóngur gafst ekki upp við svo búið, sótti nokkra þýska smábændur sem ollu hneykslan á sinni tíð með því er virtist vonlausum búskap, ræktuð kartöflur út um allar heiðar og voru lengi vel kallaðir “potatis bönderna” og nutu lítillar virðingar a.m.k. fyrst um sinn

Núna einhverjum 200 árum seinna sé ég ekki betur en að mannlíf á Jósku heiðunum sé með miklum blóma og heiðarnar allar hinar búasældarlegustu á að líta. Allt hefur þetta tekist þrátt fyrir íslendingaleysið.

Nú er svo komið sögu að n.k. sumar 2004 munu unglingar víða úr Skandnavíu heiðra svæðið með nærveru sinni á menningarhátíðinni Ung i Norden . Hlutskipti mitt er þátttaka í stjórnarnefnd verkefnisins. Hér er um að ræða 300 -400 unga listamenn sem koma saman í vikutíma. Heiðarnar Jósku munu því iða af norrænni menningu.. Íslenskur kúltur mun flæða um heiðarnar næsta sumar og þar sem ekki tókst að flytja landsmenn vora þangað á sinni tíð þá trúi ég ekki öðru en kóngur vor hefði verið ánægður með framtakið - a.m.k. íslenska menningu á heiðunum þó seint sé.

laugardagur, 13. september 2003

Háskólinn i Greenwich

Háskólinn i Greenwich
og Dr. David Hall prófessor eru aldrei nefndir á nafn eða í heyrandi hljóði hjá einkavæðingarliðinu hérlendis. Hvers vegna ekki? Sennilega vegna rannsókna þessa virta háskóla á einkavæðingu um víða veröld og afleiðingar hennar fyrir almenning. Nú nýverið var að koma út ný skýrsla um vatnsveitur. Sjá athyglisverða samanburðartöflu um kostnað,Table 2, á blaðsíðu 3. Öll skýrslan hér.

Háskólinn í Greenwich tók út Farum einkavæðinguna og komst að þeirri niðurstöðu að verið hefði um trúarlega nálgun gagnvart einkavæðingu opinberrar þjónustu að ræða frekar en almenna skynsemi. Hefðbundin gildi eins og rekstur, debet og kredit, því vikið fyrir ofsatrú ráðamanna á einkavæðingu sem heildarlausn í opinberum rekstri. Farum endað sem kunnugt er með algeru gjaldþroti bæjarfélagsins.

föstudagur, 12. september 2003

Fór til sálfræðings í hádeginu

Fór til sálfræðings í hádeginu
enda ekki vanþörf á. Var reyndar í hópi bæjarstarfsmanna sem sóttu fyrirlestur í hádeginu í bókasafninu.
Fræðingurinn taldi einhverja bæjarstarfsmenn á þá skoðun að Pollyanna og hennar geðlag væri heppilegt í lífsins ólgu sjó. Veit það ekki, í verkalýðsmálum myndi Pollyanna nýtast illa enda slöpp á mótbárunni sem oft er hlutskipti verkalýðsforingja. Hins vegar er örugglega þægilegt að brosa ávallt út í annað og sjá alltaf það góða í hinum misgreindarlegum ráðgerðum mannskepnunnar. Pollyönnur allra landa fella sig því við stjórnsýslubreytingar af öllum hugsanlegum toga og ávallt með bros á vör, Gott “attitjút” , veit það ekki ?

Hitt er
annað mál því hádegisfyrirlestrar á vegum fræðsludeildar bæjarins eru gott framtak þó svo að menn þurfi ekki endilega að taka allt gott og gilt sem þar kemur fram, gagnrýnin hugsun er auðvitað kostur. Já takk - fleiri fyrirlestra í hádeginu, fínt framtak.

fimmtudagur, 11. september 2003

Út við ysta sæ
örlar á blessuðu starfsmatinu. Þá átti reyndar að vera tilbúið fyrir margt löngu en aðlögun og yfirfærsla kerfisins hefur því miður dregist úr hömlu. Um þessar mundir er hins vegar vinna við viðtöl að hefjast og vonandi ekki langt í að einhverjar niðurstöður liggi fyrir.

Aðalfundur SSB
Þetta og margt annað er til umræðu á aðalfundi SSB sem haldin er þessa daganna á Brjánslæk í Skeiðahreppi. Komandi kjarasamningar, trúnaðarmannafræðsla, málefni fjölskyldu og styrktarsjóðs BSRB, starf samstarfsnefndar SSB og LN, starfsmennamál, vísindasjóður og orlofsmálefni eru allt málefni sem fjallað hefur verið um á aðalafundinum.

sunnudagur, 7. september 2003

Sem endranær
ritar Ögmundur vinur minn af skynsemi og nú í grein í Mogganum um daginn. Umfjöllunin, kjör opinberra starfsmanna versus kjör almenna vinnumarkaðarins sérstaklega m.m.t. lífeyrisréttinda. Sjón er sögu ríkari, greinin er hér
Ögmundur heldur úti mjög virkri og góðri heimasíðu, slóðin er ogmundur.is

Frelsi, frelsi, frelsi........ auðmagnsins
GATS umræðan komin á fullt og gott frumkvæði sem við BSRB-arar höfum haft í þeim efnum. Páll Hannesson sérfræðingur BSRB flutti stórfróðlegt erindi um þetta mál á kynningarfundi utanríkisráðuneytisins. Hvet fólk til þess að kynna sér málið. Sjá erindið hér .

fimmtudagur, 4. september 2003

5.000 gestir

5.000 gestir
Dagskinnan hefur reynst mér vel. Gestakomur langt umfram það sem ég gerði mér hugmyndir um. Ekki veit ég hvaðan allt þetta fólk kemur en ljóst að það eru ekki bara félagsmenn STH sem lesa dagskinnuna.

Dagskinnan er praktísk því formenn verklýðsfélaga búa oft við mikið ónæði, stundum eðli málsins samkvæmt en stundum út af smærri málum sem gjarnan mættu bíða næsta dags. Á hitt er að líta að fólk byggir alla sína afkomu á starfinu og þeim kjörum sem þar fást. Allt rask hversu lítið sem það er veldur ugg í brjósti fólks og af þeim sökum kjósa félagsmenn að bregðast við í skyndingu og hafa samband við forsvarsmenn félagsins, sem er auðvitað eðlilegt.

Dagskinnan sem kemur upplýsingum á framfæri frá sjónarhorni formanns STH, gerir það að verkum að fólk getur fengið fréttir nánast í beinni útsendingu og milliliðalaust. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að mikið af þeim upplýsingum sem félagsmenn sækjast eftir " hér og nú" eru til staðar og einfalt mál að nálgast þær og allt rask minnkar.

Dagskinnan er því afar hagnýt tæki, ekki bara sem upplýsingamiðill því hún er ekki síður öflugt baráttutæki og málgagn í verkalýðsbaráttunni. Það hef ég svo sannarlega reynt á umliðnum mánuðum varðandi mál eins og skipulagsbreytingar á bæjarskrifstofum. Í þeim efnum sem og öðrum hef ég tamið mér að vera hreinskiptin og hef ekki veigrað mér við að segja frá hlutum eins og þeir hafa komið mér fyrir sjónir sem formanni. Hvort einhverjum stjórnmálamanninum þyki lítið til koma , læt ég mig engu varða. Það er einfaldlega skylda formanns stéttarfélags að benda á það sem betur má fara og standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna.

Að láta móðan mása um málefni líðandi stundar þess á milli er ágætt og sennilega meinholt fyrir sálartetrið. Held því ótrauður áfram og þakka þeim sem stundum hafa sent mér línu um eitt og annað varðandi Dagskinnuna.

þriðjudagur, 2. september 2003

1. september um land allt í gær

1. september um land allt í gær
Ekki man ég nafnið á hinum hafnfirska verklýðsleiðtoga er hóf ræðu sína með orðunum : "Félagar í dag er 1. maí um land allt". Þessi merki baráttudagur sem sagt ekki einungis bundin við Hafnarfjörð einan eins og ræðumaður benti réttilega á .

Tímamótadagurinn 1. september 2003 verður sennilega hins vegar einungis bundin við fjörðinn og sennilega eingöngu táknrænn í þeirri merkingu að ný stjórnsýsla bæjarfélagsins gildir frá þeim degi. Opnum þjónustuvers á Strandgötu 6 er hin táknræna athöfn breytinganna en eins og í hinum íslenska (bygginga)stíl þá eru mörg handtökin óunnin og alllangt í að byggingin verði fullbúin.

En allt verður að eiga sinn dag eins Jónas frá Hriflu lagði áherslu á í sögubókunum . Gott ef Ingólfur Arnason mætti ekki á svæðið þann 1. júni kl. 13:00 árið 874.
1. september 2003 kl: 09:00 er því ágætur dagur fyrir hafnfirskar sögubækur og annála hvað varðar frásögu af stjórnsýslubreytingum, ekki satt.