laugardagur, 29. apríl 2006

Eins og kerlingin sagði

Voru orð Ólafs Thors er hann hafði viðhaft tilvitnun í biblíuna á einhverjum fundi í eina tíð. Við Hafnfirðingar eigum einnig okkar „ móment “ í tilvitnunum. Einn af okkar fremstu hafnfirsku verkalýðsforingjum hóf eitt sinn ræðu sína á þeim orðum að „ nú væri 1. maí um land allt”
Að sama meiði eru „nýjir málshættir” eins og „að berjast í bönkum “ eða „að vera með lífið í lungunum”

Hvað með það þeir sem eru kátir með launin sín sitja heima á 1. maí en við hin hittumst við ráðhúsið kl 13:30 og röltum saman upp í Hraunsel við Flatahraun. Nærum þar bæði sál og líkama.

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Af erlendum viðskiptum og ritfrelsinu

Segi farir mínar ekki sléttar. Við mig hafa haft samband nokkrir lesendur síðunnar og tjáð mér að þeir komist ekki inn á hana? Upp komi á skjá þeirra tilkynning að vefaðgangi hafi verið lokað þar sem að síðan innihaldi óæskilegt efni. Vel kann að vera að ég hafi tekið hraustlega og jafnvel stórkarlalega til orða en hins vegar tel ég mig ekki eiga efnislega samleið með klámsíðum og öðrum óhróðri.
Hvað um það við nánari eftirgrennslan kom í ljós hér voru í öllum tilfellum um starfsmenn Hafnarfjaðrabæjar að ræða og við það fóru mál að skýrast. Ekki þó í samræmi við villtustu hugmyndir mínar , sem voru þær að sökum orðkyngis og kröftugs málflutnings hefðu yfirvöld ekki séð sér annað fært en að loka síðunni með öllum tiltækum ráðum.

Skýringin var hins vegar sáraeinföld. Tölvukerfi skólanna í Hafnarfirði er hluti af stóru tölvukerfi bæjarins. Tölvukennarar höfðu orðið varir við það að einhverjir nemendur voru að blogga í tímum eða í gegnum tölvur skólanna og í einhverjum tilfellum var hægt að rekja eineldismál til þessar iðju. Því varð að ráði að loka fyrir aðgang á bloggsíður ( hvort sem það leysir yfir höfðu einhvern vanda?) . Dagskinna (blogg) formanns STH fórnalamb.

Ekki dugir að sitja með hendur í skauti og sýta orðin hlut Varð það ljóst að ég yrði að koma mér upp eigin léni. Gerði heiðarlega tilraun til þess að eiga viðskipti við ISNIC.IS, hugði gott til glóðarinnar enda lénið arnigudmunds.is laust. Rak hins vegar í rogastans er verðið kom til tals 12.000 kr + ca 2.500 í mánaðargjald? Ekki á færi opinberra starfsmanna að standa í viðskiptum af þessum toga. Tók því til við að vafra um netheima með samskonar viðskipti í huga og viti menn, áður en yfir lauk hafði ég eytt 21 $ og var orðin formlegur rétthafi og eigandi þriggja léna þ.a. arnigudmunds.net /org /info.

Það birti því aldeilis til enda við hæfi í upphafi sumars. Mun á næstu dögum tengja dagskinnuna einhverju þessara léna , veit ekki alveg hverju en mun halda áfram tryggð minni við blogspot.com fyrirtækið þó svo að lénið fá nýtt nafn. Vona því að lesendur siðunar komist óhindraðir inn a síðuna og þá ekki síst félagsmenn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Verð því vonandi á næstu dögum komin úr óverðskulduðum félagsskap alþjóðlegra pornó hunda og baldinna ungmenna sem ekki kunna að meta ritfrelsið að verðleikum.

Gleðilegt sumar.

þriðjudagur, 18. apríl 2006

Veltir lítil þúfa þungu hlassi?

Ef það er ekki hægt að hækka laun í góðæri. Hvenær er þá hægt að hækka launin, spyrja starfsmenn elliheimila? Hefur það einhvern tímann staðið til spyr ég á móti? Held ekki en veit þó sem er að samstaða þessa fólks sem þar starfar og sem nú háir launabaráttu mun skila árangri. Það er ekki vegna framsýnnar stefnu stjórnvalda. Það er vegna samstöðunnar og vegna þeirrar skammar að stjórnvöld tími ekki að búa sínum elstu samborgurum áhyggjulaust ævikvöld vegna grjótharðar láglaunastefnu.

Verkalýðshreyfingin hefur axlað sína ábyrgð á síðustu árum, nú er einfaldlega komið að því að vinnuveitendur axli sína ábyrgð. Það verður ekki gert með grátstafina í kverkum eða með því að „tala upp verðbólguna”. Hóflegar arðsemiskröfur, hófleg álagning á vöru og þjónustu eru leiðarljós varðandi stöðugt efnahagslíf. Virðist hins vegar ekki virka sem skyldi?

Lág laun og hallæri heyra í hóp en ekki lág laun og góðæri, það er staðfesting á því að það er vitlaust gefið og einhverjir taka mun meira til sín en þeim ber.

laugardagur, 8. apríl 2006

Fréttablaðið

Undrast mjög að Fréttablaðið standi í fararbroddi íslenskra fjölmiðla hvað varðar birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga. Fréttablaðið byggir, að eigin sögn, skrif sín um lög og réttarfar á sterkri réttlætis- og siðferðiskennd og af stakri virðingum fyrir lögum landsins. Um það ku vitna skrif blaðsins um þau mál dómskerfisins sem eru efst á „baugi” þessa dagana.

Undrast því að hið sama blað vaði yfir lögvarin réttindi barna og unglinga á skítungum skónum með kerfisbundnum brotum á banni við áfengisauglýsingum. Er umfjöllun blaðsins um Baugsmál af sömu virðingum fyrir lögum og sú lítilsvirðing sem blaðið sýnir sjálfsögðum og lögvörðum réttindum barna og unglinga til að vera laus við áfengisauglýsingar? Veit það ekki en óneitanlega er þessi undarlega ritstjórnarstefna lítt til þess fallin að auka trúverugleika blaðsins nema síður sé?

þriðjudagur, 4. apríl 2006

1. apríl um land allt

Bið lesendur síðunnar afsökunar á síðasta pistli sem skrifaður var hinn 1. apríl. Þetta var allt í plati nema setningin “Laun Hafnarfjarðarbæjar eru auk þess af þeirri stöku hófsemd að ekki er frá miklu að hverfa í þeim efnum” og setningin “Mun auðvitað sakna góðra samstarfsmanna” Hitt var allt saman tómt plat.

Vill þó þakka nokkrum dyggum lesendum síðunnar sem óskuðu mér velfarnaðar og til hamingju með hið ábyrgðarfulla embætti í borginni "Kenneo" i "Nasembíu".

laugardagur, 1. apríl 2006

Er á leið til Nasembíu

Fékk símtal í morgun frá formanni UFN samtaka norrænna félagsmiðstöðva. Ræddum saman vel og ítarlega enda málefnið mikilvægt. Formaðurinn tjáði mér að UFN hafi verið fengið það verkefni af Alþjóðlega norræna þróunarsjóðinum að byggja upp og koma á legg félagsmiðstöðvum og félagslega tengdri þjónustu í Nasembíu. Erindi formannsins var að falast eftir starfskröftum mínum í þetta verkefni og mitt hlutverk yrði að halda utan um starfsemina í borginni Kanneo. Starfið fælist aðallega í því að sinna ýmsum sérfræðistöfum á sviði félagsmála sem og verkstjórn þess hluta verkefnisins sem fram fer í borginni.

Þurfti ekki að hugsa mig lengi um og ekki var fjölskyldan fráhverf þessu nema síður væri . Laun Hafnarfjarðarbæjar eru auk þess af þeirri stöku hófsemd að ekki er frá miklu að hverfa í þeim efnum. Mun auðvitað sakna góðra samstarfsmanna. Nú er því staðan einfaldlega sú að menn fara að pakka niður og drifa sig til Svíþjóðar til skrafs og ráðagerða og til þess að ganga frá ráðningarsamningi sem verður til árs þ.e. til 1. apríl 2007