miðvikudagur, 28. nóvember 2007
... og enn má undrast
Ekki var ég staddur á bæjarstjórnafundi í Kópavogi í gærkveldi þar sem ráðningarmál yfirmanns æskulýðsmála í bænum voru rædd. Missti af umræðum og undrast jafnframt að ekki sé hægt að nálgast upptökur af fundinum með einföldum hætti, því eins og fólk veita þá eru skriflegar bæjarstjórnar fundargerðir afar rýrar í roðinu, aðeins greint hver tekur til máls og að því lokum hvort mál sé samþykkt. Það ætti auðvitað að vera sjálfsögð þjónusta við íbúa bæjarins og eða þá aðila sem mál varða að viðkomandi geti nálgast upptökur af slíkum fundum t.d. á ágætri heimasíðu bæjarins.
Mér er tjáð að umræður hafi verið líflegar og með þeim hætti að talað hafi verið niður til kjörinna fulltrúa sem hafa aðra skoðun á málinu en ríkjandi meirihluti , þeim sýndur hroki og jafnvel dónaskapur. Sá sem þetta ritar ku hafa verið í pólitískri sendiför á vegum Samfylkingarinnar í Hafnarfirði? Málefnaleg umræða ? Veit það ekki - í besta falli misheppnuð „smjörklípa“ sem þegar að upp er staðið lendir öll í feldi þeirra sem á smjörinu halda.
Málið er frá A– Ö spurning um virðingu fyrir faginu og um fagleg vinnubrögð. Og þegar að starfandi formaður ÍTK er meðmælandi á umsókn hjá umsækjanda, sem er undirmaður viðkomandi , og um starf sem hann tekur sjálfur þátt í að ráða í, þá er hann auðvitað vanhæfur, algerlega óháð eigindum viðkomandi umsækjanda.
Það er eitt, annað er að við faglega ráðningu af þessum toga þarf að hafa sömu viðmið eins og t.d gert er við ráðningu yfirmanna í skólakerfinu. Á því er stórfeldur brestur í þessu tilfelli enda hægt að nefna fjölda umsækjenda sem hafa mun meiri menntun, meiri faglega reynslu og lengri starfsaldur, hið þriðja er auðvita spurning um framgang og frama í starfi hjá þeim ágætu starfsmönnum sem unnið hafa af heilindum og alúð hjá ÍTK um langa hríð.
Hvað sem bæjaryfirvöldum í Kópavogi finnst þá verður ekki dregin fjöður yfir þá staðreynd að allur æskulýðsfagheimurinn íslenski furðar sig á hvernig hefur verið að verki staðið. Málið er í þeim skilning ekki eitthvert einkamál Kópvogs. Og skal hér áréttað að þetta hefur ekki nokkurn skapað hlut með þá persónu að gera sem hlaut starfið.
Að æskulýðsmálum vinnur fjöldi fólk sem gerir miklar kröfur til sjálfs síns, hefur lagt mikið á sig til þessa að afla sér sérmenntunar á þessu sviði og unnið hörðum höndum árum saman að uppbyggingu málaflokksins. Þessi þekking og reynsla er virt að vettugi.
Æskulýðsbransinn gerir einfaldlega kröfu um það að sömu viðmið skuli vera viðhöfð varðandi ráðningar og gert er í önnur og jafn mikilvæg uppeldisstörf sbr. ráðningu yfirmanna í faglegri stjórnsýslu, sem og stjórnenda við leikskóla , skóla og aðrar sambærilegar uppeldisstofnanir. Tilveran er ekkert flóknari en þetta.
fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Vekur furðu
Formaður ÍTK sem jafnframt er starfandi skólastjóri í bænum réð hins vegar undirmann sinn í skólanum í starfið. Ekki þekki ég almenn deili á viðkomandi enda skiptir slíkt ekki máli í þessu samhengi. Valið í starfið var augljóslega erfitt enda um marga verulega hæfa umsækjendur að ræða. Af virðingu við hina vönduð starfsemi ÍTK í félagmiðstöðvum í Kópavogi var því að mínu mati engin spurning um annað en að velja milli hæfstu einstaklingana. Er í raun tiltölulega einfalt ef tekið er mið af menntun, reynslu og starfsferli viðkomandi einstaklinga. Slíkri niðurstöðu hefði fólk unað.
Slíkt var ekki gert og því svo komið að reyndustu forstöðumenn ÍTK hætta störfum og leita á önnur mið auk þess sem margir umsækendur munu æskja frekari rökstuðnings vegna ráðningarinnar .
“Félagsmiðstöðvar eru þekktasta hugtakið sem flestir vita lítið um” segir vinur minn, norski uppeldisfræðingurinn Henning Jakobsen. Þetta eru sennilega orð að sönnu en hins vegar leitt þegar að pólitískir leiðtogar á þessu fagsviði sýna í verki vankunnáttu á þessum mikilvæga vettvangi uppeldisstarfs með ráðningum sem valda því að margra ára fagleg uppbygging í málflokknum er kastað fyrir róða – gengið er fram hjá valinkunnu fagfólki sem af krafti, áræði og ósérhlífni hefur til margra ára unnið að uppbyggingu málaflokksins – Getur virkilega verið að pólitískir framámenn séu ekki betur að sér í faglegri vinnu þeirra stofnanna sem þeim er treyst pólitískt forræði yfir en raun ber vitni?
Veit það ekki en finnst ágætum starfsmönnum sem og starfsemi ÍTK lítill sómi sýndur.
miðvikudagur, 21. nóvember 2007
Keppt verður í karla og kvenna "fokki"
Gat ekki annað en hlegið yfir þessari prentvillu og að sjálfsögðu beðist afsökunnar , mamman öllu rólegri og kvaddi með vinsemd og í trausti þess að starfsemi félagsmiðstöðva væru yfir “starfsemi “ af þessum toga hafin – gat sannfært hana um slíkt og starfsemin ölllu kristilegri en fyrirsögnin hér að ofan gefur til kynna.
miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Af malti og misheppnuðu verkalýðsbindindi
Fór reyndar í nokkurskonar verkalýðsbindindi eftir að ég hætti. Fell þó af og til og skrifa gjarnan greinar á dagskinnuna um launnefnd sveitarfélaga (sem ég skrifa ávallt með litlu l-i), kalla þá gjarnan skussabandalagið, sér í lagi eftir að ég hætti sem virðulegur formaður verkalýðsfélags. Það er helst þegar að maður les um einstæðar tveggja barna mæður sem starfa á leikskóla á lúsarlaunum, sem þess skriflöngun hellist yfir mann. Og þegar einhverja T einingar og hvað þetta dót allt heitir sem virðuleg launanefnd útbýttir af geðþótta til okkar minnstu bræðra þegar að leikskólarnir og skólarnir eru að tæmast af starfsfólki, sem er á mörkum örbirgar sökum hinnar grjóthörðu láglaunastefnu nefndarinnar, þá verður ekki við neitt ráðið. Þá halda engin bönd.
Einfaldlega vegna þess hve ótrúlega illa málum er komið og hve lengi og langt þessi vitleysa hefur gengið. Þessi þráhyggja nefndarinnar að hreyfa ekki hin afar lágu grunnlaun með nokkrum hætti en skammta af snefilmennsku úr hnefa þegar að mál eru komin í óefni, kalla þetta einhverju virðulegum og stórkarlalegum nöfnum, og alltaf með fyrirvörum um að þessar “hækkanir“ séu einungis tímabundnar. Hin grjóthara láglaunastefna er hins vegar viðvarandi og keyrð fram af “myndarskap” eins og um sjálfskipaða láglaunalögreglu sé að ræða – hina lægstu taxta má aldrei hreyfa?.
Hér er svo sannanlega rými til framfara og ekki seinna vænna en að sveitarfélögin taki til sinna ráða og breyti kúrs, hreinlega kúvendi eða gangist hreinlega við þeirri stefnu sem launanefndin keyrir áfram af hörku í þeirra umboði. Laun er hvergi lægri í hinum vestræna heimi en á Íslandi og kjör bæjarstarfsmanna er með því lakasta sem hér gerist? Verður lengra komist í vitleysunni?
Datt þetta svona í hug þegar að ég renndi yfir heimasíðu STH. Finnst vanta “allt malt í þann pakka”. Auðvitað góðra gjalda vert og mjög mikilvægt að viðhafa góða þjónustu fyrir félagsmenn (sem svo sannarlega er séð um af hálfu skrifstofustjórans Sjafnar Sigfúsdóttur) og fína orlofsmöguleika en það má ekki gleyma sér í því – Hlutskipti þeirra sem kosnir eru til forystu í stéttarfélögum er auðvitað að veita aðhald og berjast fyrir bættum hag félagsmanna og standa vörð um réttindi þeirra – Í þeirri barráttu er heimasíðan gríðarlega sterkt vopn, málgagn sem ber að nýta í þeim tilgangi – Helgarferð til Köben eða jólahlaðborð í Munaðarnesi er ekki það sem er efst í huga þeirra félagsmanna sem lægst hafa launin. Þeir eru allflestir á harðahalupum undan jólakettinum og komast því hvorki til Köben eða í Munaðarnes.
fimmtudagur, 8. nóvember 2007
Bankinn er ekki vinur þinn II ...
...þannig fór um sjóferð þá!
"Kaupþing banki hefur tilkynnt að frá og með næstu mánaðamótum geti fasteignakaupendur ekki yfirtekið eldri íbúðalán frá bankanum nema að vextir breytist í sömu vexti og gilda á hverjum tíma. Elstu lán íbúðakaupalán bankans eru með 4,15% vöxtum en vextirnir í dag eru 6,4%."
Nú og svo kemur örugglega til sögunnar sérstakt yfirtökulánsgjald ca 1 - 2%. Ekki nema sanngjarnt því það fylgir því gríðarlegur kostnaður fyrir bankann að hækka vexti svona óforvarindis - ekki satt.