miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Af malti og misheppnuðu verkalýðsbindindi

Fór inn á heimasíðu míns gamla starfsmannafélags http://www.sthafn.is/ , gegndi sem kunnugt er um langt skeið þeirri virðingarstöðu að vera ritstjóri síðunnar samhliða formennsku í félaginu.

Fór reyndar í nokkurskonar verkalýðsbindindi eftir að ég hætti. Fell þó af og til og skrifa gjarnan greinar á dagskinnuna um launnefnd sveitarfélaga (sem ég skrifa ávallt með litlu l-i), kalla þá gjarnan skussabandalagið, sér í lagi eftir að ég hætti sem virðulegur formaður verkalýðsfélags. Það er helst þegar að maður les um einstæðar tveggja barna mæður sem starfa á leikskóla á lúsarlaunum, sem þess skriflöngun hellist yfir mann. Og þegar einhverja T einingar og hvað þetta dót allt heitir sem virðuleg launanefnd útbýttir af geðþótta til okkar minnstu bræðra þegar að leikskólarnir og skólarnir eru að tæmast af starfsfólki, sem er á mörkum örbirgar sökum hinnar grjóthörðu láglaunastefnu nefndarinnar, þá verður ekki við neitt ráðið. Þá halda engin bönd.

Einfaldlega vegna þess hve ótrúlega illa málum er komið og hve lengi og langt þessi vitleysa hefur gengið. Þessi þráhyggja nefndarinnar að hreyfa ekki hin afar lágu grunnlaun með nokkrum hætti en skammta af snefilmennsku úr hnefa þegar að mál eru komin í óefni, kalla þetta einhverju virðulegum og stórkarlalegum nöfnum, og alltaf með fyrirvörum um að þessar “hækkanir“ séu einungis tímabundnar. Hin grjóthara láglaunastefna er hins vegar viðvarandi og keyrð fram af “myndarskap” eins og um sjálfskipaða láglaunalögreglu sé að ræða – hina lægstu taxta má aldrei hreyfa?.

Hér er svo sannanlega rými til framfara og ekki seinna vænna en að sveitarfélögin taki til sinna ráða og breyti kúrs, hreinlega kúvendi eða gangist hreinlega við þeirri stefnu sem launanefndin keyrir áfram af hörku í þeirra umboði. Laun er hvergi lægri í hinum vestræna heimi en á Íslandi og kjör bæjarstarfsmanna er með því lakasta sem hér gerist? Verður lengra komist í vitleysunni?

Datt þetta svona í hug þegar að ég renndi yfir heimasíðu STH. Finnst vanta “allt malt í þann pakka”. Auðvitað góðra gjalda vert og mjög mikilvægt að viðhafa góða þjónustu fyrir félagsmenn (sem svo sannarlega er séð um af hálfu skrifstofustjórans Sjafnar Sigfúsdóttur) og fína orlofsmöguleika en það má ekki gleyma sér í því – Hlutskipti þeirra sem kosnir eru til forystu í stéttarfélögum er auðvitað að veita aðhald og berjast fyrir bættum hag félagsmanna og standa vörð um réttindi þeirra – Í þeirri barráttu er heimasíðan gríðarlega sterkt vopn, málgagn sem ber að nýta í þeim tilgangi – Helgarferð til Köben eða jólahlaðborð í Munaðarnesi er ekki það sem er efst í huga þeirra félagsmanna sem lægst hafa launin. Þeir eru allflestir á harðahalupum undan jólakettinum og komast því hvorki til Köben eða í Munaðarnes.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli