fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Vekur furðu

Ráðning í starf æskulýðs- og tómstundafulltrúa í Kópavogi dregur örugglega dilk á eftir sér. All flestir i æskulýðsbransanum eru afar hissa og furða sig á þessari ráðningu. Umsækjendur voru 14 talsins þar af voru margir mjög reyndir, vel menntaðir og starfandi forstöðumenn æskulýðsstarfs, sem og nokkrir starfandi forstöðumenn í félagsmiðstöðvum Kópavogsbæjar. Starfsmenn sem notið hafa notið verðskuldaðrar virðingar innan fagsamfélagsins sem og gengt trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Hrafnhildur Ástþórsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur tilvonandi fyrrverandi forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Ekkó og Kjarna hafði t.d. að baki 17 ára mjög farsælt starf hjá ÍTK. Sama átti við varðandi aðra umsækjendur utan bæjarins, þar voru margir mjög frambærilegir umsækjendur sem hafa góða menntun, farsælan starfsferil og hafa gengt ýmsum trúnaðarstörfum innan fagstéttarinnar.

Formaður ÍTK sem jafnframt er starfandi skólastjóri í bænum réð hins vegar undirmann sinn í skólanum í starfið. Ekki þekki ég almenn deili á viðkomandi enda skiptir slíkt ekki máli í þessu samhengi. Valið í starfið var augljóslega erfitt enda um marga verulega hæfa umsækjendur að ræða. Af virðingu við hina vönduð starfsemi ÍTK í félagmiðstöðvum í Kópavogi var því að mínu mati engin spurning um annað en að velja milli hæfstu einstaklingana. Er í raun tiltölulega einfalt ef tekið er mið af menntun, reynslu og starfsferli viðkomandi einstaklinga. Slíkri niðurstöðu hefði fólk unað.

Slíkt var ekki gert og því svo komið að reyndustu forstöðumenn ÍTK hætta störfum og leita á önnur mið auk þess sem margir umsækendur munu æskja frekari rökstuðnings vegna ráðningarinnar .

“Félagsmiðstöðvar eru þekktasta hugtakið sem flestir vita lítið um” segir vinur minn, norski uppeldisfræðingurinn Henning Jakobsen. Þetta eru sennilega orð að sönnu en hins vegar leitt þegar að pólitískir leiðtogar á þessu fagsviði sýna í verki vankunnáttu á þessum mikilvæga vettvangi uppeldisstarfs með ráðningum sem valda því að margra ára fagleg uppbygging í málflokknum er kastað fyrir róða – gengið er fram hjá valinkunnu fagfólki sem af krafti, áræði og ósérhlífni hefur til margra ára unnið að uppbyggingu málaflokksins – Getur virkilega verið að pólitískir framámenn séu ekki betur að sér í faglegri vinnu þeirra stofnanna sem þeim er treyst pólitískt forræði yfir en raun ber vitni?

Veit það ekki en finnst ágætum starfsmönnum sem og starfsemi ÍTK lítill sómi sýndur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli