fimmtudagur, 28. desember 2006

Er Alcan „korter í þrjú gæi" ?

Eitthvað er þessi charming ofensív hjá Alkan þessa dagana illa útfærð og ómstríð þykir mér. Svona eins og eitthvert afbrigði af „ korter í þrjú gæa”. Svoleiðis gæar fara sem kunnugt er aldrei „heim með sætustu stelpuna af ballinu”.

Að senda manni Bó innpakkaðann í álpappír ( hvers á Bó að gjalda) og láta „starfsfólkið” senda landsmönnum jólakveðju í formi rándýrrar og margendurtekinnar sjónvarpsauglýsingar þar sem allir eru syngandi glaðir, hjólandi um brosandi í að virðist háfjallalofti og hreinlætið allt í álverinu slíkt að framkvæma mætti þar skurðaðgerð án nokkurra þrifa. Þetta er auðvitað bara hallærislegt, vekur mann til umhugsunar hvar álversmenn hafa verið í 39 ár og 11 mánuði af þessum 40 árum og ekki síst ef mönnum er svona mikið í mun, allt í einu, að eyða peningum þessa dagana væri þá ekki nær að gefa þessar fúlgur til velferðamála.

Við Hafnfirðingar eru manna greindastir og getum vel gert okkur að góðu málefnalega umræðu um stækkun álversins. Hana er ekki að finna í rándyru en afar ómerkilegu auglýsingaskrumi frá Alcan. Bendi lesendum síðunnar hins vegar á ágæta síðu samtakananna Sól í Straumi um þessi mál.

föstudagur, 22. desember 2006

Evran

Það kemur ekki á óvart að bankarnir vilji gjarnan gera upp í evrum. Tilgangurinn auðvitað sá að forðast eigið vaxtaokur á íslenska markaðinum og síversnandi stöðu krónunnar. Bankarnir vita manna best hvernig á að ávaxta eigið fé og hvernig mál þróast. Nú færa menn ofurgróðann strax yfir í öruggan gjaldmiðil.

Lagði það til fyrir margt löngu þegar ég var í verkalýðsmálum að laun yrðu greidd út í evrum svo þetta íslenska stórkarla Matador, sem íslenskt efnahagslíf er orðið, myndi ekki bitna á launafólki. Á því var engin áhugi, enda ekki gert fyrir að almúginn sé annað en viðskiptafóður íslenskra mógula af ýmsum toga. Viðvarandi okurvextir og ofurtryggð útlán, láglaunapólitík , hátt vöruverð, ofur íbúðaverð og handónýtt tryggingakerfi er það „frelsi” sem almenningur býr við.

Það er eitthvað sem ekki er að gera sig – sennilega á íslenkur almúgi „engar góðar götur” í íslenska Matadorinu. Það þarf að jafna leikinn. Það verður ekki gert menn fákeppni og samráði þeirra sem þegar eiga meira en nóg. Kannski þarf að stækka leikvöllinn og hvar er þetta „frelsi” sem stjórnmálamenn eru að tala um? Af hverju geti ég ekki haft öll mín viðskipti við minn gamla banka í Gautaborg sem ég átti í ágætum viðskiptum við á námsárum mínum þar í borg.

Þurfum við að ganga í EB til að losna undan þessu íslenska „frelsi”. Hefur hvarflað að manni en mál að þessari ósanngirni og vitleysu linni.

Óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla.

laugardagur, 16. desember 2006

Spjöld sögunnar

Kom mér á spjöld sögunnar í gærkveldi ásamt meðspilurum mínum, Trausta Jóns og Markúsi Guðmunds, í rokkhljómsveitinni PLÚS. Lékum nokkur lög fyrir starfsmenn ÍTR sem héldu jólahóf í kjallaranum á Fríkirkjuvegi 11. Okkur telst til að þetta verði síðustu tónleikar í þessum merkilega sal og í þessu glæsilega húsi og því söguleg stund. Eins og kunnugt er mun ÍTR flytja í nýtt húsnæði á næstunni og borgin hefur ákveðið að selja húsið.

Þarna í kjallaranum var Jazzvakning stofnuð um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og þar áður var þarna félagsmiðstöð þar sem að öll helstu bönd þess tíma komu fram. Ekki amalegt að hafa fetað í fótspör allra helstu jazzista landsins og sett punktinn fyrir aftan i-ið hvað sögu þessa menningarseturs varðar.

mánudagur, 11. desember 2006

Seljahverfis - syndrómið

Allan níunda áratuginn var líflegt í Seljahverfinu. Unglingar söfnuðust saman við verslunarkjarna í hverfinu. Oft var róstursamt vegna áfengisneyslu ungmennanna og á þessum árum komu upp mjög erfið mál vegna vímuefnaneyslu , m.a. snifffaraldur. Mörgum fannst þetta merkilegt enda hverfið talið félagslega sterkt, blönduð byggð þar sem allar stéttir samfélagsins áttu sína fulltrúa.
Á sama tíma og skammt frá í hinu „alræmda” Efra Breiðholti var allt með felldu og unglingar hverfisins undu sínum hag hið besta.

Skýringin á þessu ástandi í Seljahverfi var einföld þegar að var gáð. Í hverfinu var engin félagsmiðstöð og unglingar hverfisins áttu sér ekkert athvarf annað en sjoppurnar. Í Efra Breiðholti var á sama tíma rekin ein öflugasta félagsmiðstöð landsins Fellahellir. Þegar að loksins var komið á legg félagsmiðstöð í Seljahverfi í upphafi tíundna áratugarins þá var eins og við manninn mælt allt datt í dúnalogn og æska hverfisins tók til við uppbyggilegri iðju en áður var.

Mikilvægi félagsmiðstöðva í forvarnarstarfi er augljóst. Starfsemin er ekki síður mikilvæg hvað varðar uppeldi og menntun ungdómsins almennt þar sem unga fólkið lærir margt í félagsmiðstöðvunum og þroskast sem einstaklingar.

Stjórnmálamenn gleyma þessu oft. Sérstaklega þegar að vel gengur. Gott ástand í æskulýðsmálum er ekki sjálfgefið og ekki hægt að ganga að því sem vísu. Þess vegna er eitt mikilvægast hlutverk stjórnmálamanna að skapa starfsemi félagmiðstöðva umgjörð við hæfi og ekki síst fjármagn til starfseminnar. Niðurskurður og aðstöðuleysi á þessu sviði leiðir bara til „Seljahverfisástands” og á slíku hefur ekkert samfélag efni á. Kraftmikið samfellt starf er það sem virkar – Tímar „herlúðrablásturs” þegar allt er komið í óefni eru liðnir einfaldlega vegna þess að slíkt virkar ekki. Samfellt og gott starf félagsmiðstöðva sem byggir á fagmennsku og styrkrum stoðum er það sem virkar og að slíku ber að hlúa.

sunnudagur, 3. desember 2006

Margrét K Sverrisdóttir

... hóf sig upp yfir sinn eigin flokk í Kastljósinu í kvöld og fór skipulega yfir þann vitleysisgang sem forystumenn flokksins hafa hafnað í síðustu misserin og talaði eins og forystumaður stjórnmálaflokks á að tala. Sé ekki annað en að ef Frjálslyndi flokkurinn ætlar að verða eitthvað annað en „gamalt "nýtt" afl” þá verði það ekki gert án Margrétar. Margrét hefur ávallt verið málefnaleg og hreinskiptin, sem eru miklir kostir á vettvangi stjórnmála. Margrét á að fara alla leið enda hefur hún í þessum ólgusjó síðustu dægra sýnt afburðar styrk, festu og ekki síst mikla leiðtogahæfileika. Slíkir kostir hljóta að vera akkur fyrir forystumann hvaða stjórnmálaflokks sem er. Frjálslyndi flokkurinn hefur einfaldlega ekki efni á því að vera án krafta hennar.

fimmtudagur, 30. nóvember 2006

Ögmundur Jónasson

Hef sem kunnugt er bardúsað eitt og annað í verkalýðsmálum í gegnum árin. Þar voru ,eru og verða ærin verkefni . Sem betur fer hefur verkalýðshreyfingin og sérstaklega við innan BSRB átt að skipa hæfu forystufólki. Sérstaklega vill ég í því sambandi nefna Ögmund Jónasson vin minn og samstarfsmann til margra ára á vettvangi verkalýðsmála.

Ögmundur hefur í störfum sínum fyrir BSRB sýnt eindæma ósérhlífni og ávallt verið boðinn og búinn til þess að leggja fólki lið. Ögmundur tekur ávallt upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Ögmundur fer ekki í manngreiningarálit og gerir ekki greinarmun á fólki vegna pólitískra skoðana þeirra. Í BSRB er fólk úr öllum kimum samfélagsins og sem formaður þeirra samtaka nýtur Ögmundur verðskuldaðs og gríðarlegs trausts eins og berlega kom fram á þingi BSRB fyrir skömmu.

Ögmundur hefur sem þingmaður reynst verkalýðshreyfingunni mikill akkur. Hann hefur staðið vörð um öll þau mál er varða kaup, kjör, lífeyrisréttindi og aðstæður launafólks í landinu. Velferðarmál í víðasta skilningi eru honum einnig hugleikin og þar hefur hann beitt sér af krafti .

Verkalýðshreyfingin verður að hafa kraftmikinn málsvara á Alþingi og sennilega hafa aldrei verið ríkari ástæður og meiri nauðsyn en einmitt núna. Ögmundur er algerlega réttur maður á réttum stað sem verkalýðsforingi og þingmaður. Ég hvet því alla þá sem taka þátt í forvali VG um helgina að tryggja honum verðugan sess.

miðvikudagur, 29. nóvember 2006

Vågar flugvöllur

Nú veit ég hvað menn meina þegar þeir segja að aðflug að Vågaflugvöll í Færeyjum geti verið mjög erfitt. Kom hingað til Færeyja í gær frá Kaupmannahöfn en í stað þess að ferðast beint heim frá Malmö, til að stoppa þar í einn dag og til þess að fara þann næsta til Færeyja í gegnum Köben, þá heimsótti ég æskuvin minn sem býr í Danmörku og fór síðan beint frá Köben til Færeyja þar sem ég funda nú með félögum mínum í stjórn ungmenningar verkefnisins Ung i Norden.

Flugferðin sem slík var með öllu tíðindalaus eða allt þar til við fórum að nálgast eyjarnar fögru, sem engin leið var að sjá þar sem mjög láskýjað var. Þannig háttar til að vindur blés af miklum móð frá suðvestri. Sem þýðir það að aðflug er úr norðri og vindur er nánast þvert á braut. Aðstæður eru einnig þær að flogið er inn langan fjörð og innst inni í firðinum eru háir þverhníptir bergveggir til beggja hliða sem þrengja verulega aðflugið því þar rétt fyrir innan er sjálfur flugvöllurinn, sem auk þess er í styttra lagi vegna staðhátta.

Hvað með það. Aðflug í blindflugi er ekki endilega það þægilegasta en það er það öruggasta. Hinn ágæti kapteinn tjáði okkur að það yrði nokkur ókyrrð sem voru orð að sönnu. Og ekki leist mér á blikuna þegar einhverjir farþegar héldu ekki lengur niðri veitingunum. Verst þótti mér hins vegar að sjá ekkert út. Ekki veit ég hvað tímanum leið en eftir ca 6 – 8 mínútna óþægilegt skak þá tilkynnir kapteinninn að það verði enn meiri ókyrrð, sem varð og ef einhverjir kostir voru við það, þá voru það þeir að nú mátti sjá til jarðar, Við vorum sem sagt komin innarlega í fjörðinn og vorum stödd rétt fyrir utan þessar þrengingar. Heldur tók nú vélin að hristast og ekki bara upp og niður, því hún hallaði á alla kanta og maður var fjarri því að vita hvert hún stefndi hverju sinni. Í mestu dýfunum lét fólk í sér heyra og sjálfur var ég orðin logandi nervös og leið eins og í versta rússíbana.

Og viti menn skyndilega erum við komin út úr þessu og í gamla skakið og sterkan hliðarvind, sem manni þótti nú bara fínt og ekki síst flugvöllurinn sýnilegur framundan. Lentum með ágætum og allir fegnir að hafa fast land undir fótunum. Færeyingarnir voru á því að þetta aðflug hefði verið með allra versta móti en þeir kalla ekki allt ömmu sína í þessum efnum og eru vanir óblíðum veðuröflum. Ég hef hins vegar oft komið hingað með flugi og aldrei lent í neinu viðlíka og reyndar aldrei á ferðum mínum um víðan völl síðustu árin. Fer í beint reynslubankann þar sen hugtakið ókyrrð fær nýja vídd. Hættulegt flug? – nei held ekki, fyrst og fremst afar óþægilegt - þessar vélar eru smíðar til að þola og standast gríðarlegt álag - mun og miklu meira en hér var gert að umfjöllunarefni ... sem betur fer.

miðvikudagur, 22. nóvember 2006

Messað í Malmö


Er í Malmö þessa dagana. Hlutskipti mitt og tilgangur ferðarinnar er að messa yfir skandinavískum ungdomsforskurum um íslenskar æskulýðsrannsóknir og ekki síst hina gagnmerku ritgerð mína um sögu félagsmiðstöðva, svo ég riti að kunnri hógværð um eigið ágæti. Hér eru því saman komin margir andans menn og konur í æskulýðsbransanum

Malmöborg hefur heldur betur tekið breytingum síðustu árin. Í stað risalyftu Kokums skipasmíðastöðvarinnar sálugu, sem lengi var helsta kennileiti borgarinar, þá hafa arkitektar fengið lausan tauminn. Árangurinn finn og í formi snúinnar byggingar sem gnæfir yfir borgina. Birti hér mynd að þessu mannvirki. Ekki spurning að bregða sér á efstu hæðina og njóta þeirra fegurðar sem Eyrarsundið hefur upp á að bjóða.

þriðjudagur, 14. nóvember 2006

Félagslegir timburmenn

Það fylgja því einhverskonar félagslegir „timburmenn” að hætta í verkalýðsmálum. Þegar maður hefur um langa hríð þurft að hafa skoðanir á hinum og þessum málum. Þurft að vasast í mörgu, standa í langvinnum átökum og vera í skotlínu endalaust þá myndast eitthvert tómarúm. Fínt að vera laus við ströglið, en er nokkuð sérkennileg tilfinning að hætta. Skiptir í engu hvort maður er búin að taka ákvörðun fyrir all nokkru þar um.

Það var annars fróðlegt að sitja á hliðarlínunni á aðalfundi STH og fylgjast með öllu bröltinu. Einhver titringur fór um sali þar sem fregn hafði um það borist að framámaður í tómstundageiranum myndi bjóða sig fram til formanns og hafi af fullri alvöru íhugað þau mál enda fengið fjölmargar áskoranir þar um og ekki síst vitneskju um víðtækan stuðning. Lengi dags stefni því í það að það yrðu formannskosningar á fundinum. Ekki varð af því og formaður því sjálfkjörinn en með þeirri yfirlýsingu að viðkomandi gæfi einungis kost á sér til eins árs? Ekki sterkt „statement” að mínu mati því að ár í verkalýðspólitík er eins og eitt lítið augnablik. Kjarasamningar nálgast og það hefur aldrei stýrt góðri lukku að hafa nýjan kapteinn í brúnni þegar siglt er í slíkum ólgusjó sem þeir eru.

Í verkalýðsmálum dugir ekki að tjalda til einnar nætur. Formenn þurfa að stimpla sig inn og gera sig gildandi. Embættið sem slíkt, eitt og sér hefur takmarkað gildi, það eru gerðir þess sem því sinnir, og traust félagsmanna sem skapa embættinu innihald og ekki síst kraftinn sem við bestu aðstæður er gríðarlegt afl. Og til þess er leikurinn gerður. Fagna því að Auður Þorkels og Elli Sigurbjörns komu inn í stjórn STH. Þau hafa bæði reynst dugmiklir trúnaðarmenn og hafa því allar forsendur til þess að standa sig vel í stjórn. Óska nýkjörinni stjórn velfarnaðar í sínum störfum.

En hvað með það ég þarf ekki einu sinni að hafa nokkra skoðun á þessu - hef skilað mínu og vel það og nú er það annarra að véla um slíkt – Einbeiti mér bara að því að ná úr mér hinum félagslegu timburmönnum og tilheyrandi hrolli sem ég vona að gangi bæði fljótt og vel.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

STH 66 ára í dag

STH hið síunga félag er 66 ára í dag 9.nóvember en svo skemmtilega vill til að afmælið ber upp á sama degi og aðalfundur félagsins er haldin. Hvet STH félaga til þess að láta sjá sig í Skútunni Hólshrauni 3 kl 20:00 í kvöld.

mánudagur, 6. nóvember 2006

Hvað á hún að heita

Hef lítið sinnt síðunni undanfarið. Ekki það að ég hafi almennt eytt miklum tíma í þessi skrif. Þeir sem mig þekkja vitað að bæði ritrænt og munnlegt flæði hjá mér er í góðu meðallagi. Er hins vegar um þessar mundir að skipta um starf og því hafa ný viðfangsefni átt hug minn allan og því lítið sinnt skrifum.

Er sem sagt brátt að verða fyrrverandi formaður sem gerir það að verkum að Dagskinna getur ekki lengur heitið dagskinna formanns Starfsmannafelags Hafnarfjarðar. Þarf því að finna dagskinnunni nýtt nafn og auglýsi hér með eftir ábendingum þar að lútandi.

Síðan hefur reynst vel í baráttunni því á henni koma fram algerlega milliliðalausar upplýsingar og skoðanir og við engan að sakast nema mann sjálfan þegar eftir er haft. Félagsmenn hafa gengið að skoðunum formannsins vísum, sama á við um viðsemjendur okkar og fjölmiðla þegar að því hefur verið að skipta.

Margir hafa sent mér línu vegna pistla á síðunni og allur tilfinningaskalinn nýttur í þeim efnum. Hef oftast þakkað tilskrifin nema þegar að bréfritarar, sem reyndar eru örfáir, hafa ekki haft manndóm í sér til þess að skrifa undir nafni. Geri ekkert með slíkt enda hef ég tamið mér að tjá mig alltaf undir nafni og taka þar með fulla ábyrgð á öllu sem frá mér fer.

Ég þarf ekki lengur að hafa neina skoðun á málefnum starfsmannafélagsins eða Hafnarfjaðarbæjar frekar en mér sýnist, nema auðvitað sem almennur borgari í bæjarfélaginu. Og hver veit nema ein og önnur föðurleg ábending í þá veruna fljóti inn á síðuna í framtíðinni?

mánudagur, 30. október 2006

Gef ekki kost á mér

Nú er það ljóst að ég gef ekki kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður STH. Ástæður þess eru einfaldar og þær að þar sem ég er þessa dagana að taka við krefjandi starfi sem framkvæmdastjóri sí- og endurmenntunarstofnunarinnar Framvegis þá mun því beina öllum mínum kröftum í þann farveg á næstu misserum.

Á aðalfundi STH þann 9. nóvember verður því a.m.k. kosin nýr formaður og í því sambandi vil ég árétta þær skoðanir sem ég hef áður sett fram varðandi starfsaðstæður forsvarsmanns félagsins. Það er alger nauðsyn að búa formanni þær aðstæður að viðkomandi geti rækt starf sitt með þeim hætti að viðunandi sé. Það verður ekki gert nema með starfandi formanni í a.m.k. 50% starfshlutfalli. Umfang og umsýsla vegna samninga og kjarmála vex stöðugt og því verður félagið, ef það ætlar að gera sig gildandi, að setja aukin kraft í þessa hlið starfseminnar.

Margt hefur áunnist á langri vegferð en ég hef einnig marga fjöruna sopið. Geri kannski betur grein fyrir því í góðu tómi en verð þó að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum síðustu misserin og jafnvel árin með launastefnu launanefndar sveitafélaga, stefnu sem leitt hefur til þess að starfsmenn sveitarfélagana búa við lægstu launaviðmið sambærilegra starfa. Starfsmatskerfið hefur reynst illa og verið Þrándur í götu alls þess sem kalla mætti eðlilega launaþróun meðal bæjarstarfsmanna, annarra en í Reykjavík. Það verða því sem endranær ófá handtökin sem vinna þarf. Það þarf að jafna leikinn og koma bæjarstarfsmönnum upp úr þessum láglaunapytti launanefndar sveitarfélaga. Slíkt verður ekki gert í hjáverkum og þess vegna verður að búa vel að forystumönnum félagsins, eins og áður sagði.

miðvikudagur, 25. október 2006

BSRB þing

Er sem sagt á BSRB þingi þessa dagana ásamt stjórn STH. Hef setið þau nokkur í gegnum tíðina. Held að þetta þing verði gott þing og málefnalegt. Ögmundur Jónasson hefur staðið sig vel sem formaður samtakanna , hann hefur ávallt haft hagsmuni BSRB að leiðarljósi auk þess sem hann hefur ávallt beitt sér fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Í BSRB hefur fólk ekki verið flokkað samkvæmt flokkspólitískum merkimiðum og verður sennilega og vonandi seint gert. Sem er gott og gerir það að verkum að BSRB félagar koma víða að og tengjast öllum stjórnmála- og hagsmunasamtökum og í þessu liggur m.a. styrkur bandalagsins.

Ögmundur hefur verið farsæll, dugmikil og verðugur fulltrúi samtakana og nýtur óskoraðs trausts. Þess vegna missir að mínum mati algerlega marks þegar að pólitískir andstæðingar hans gera að því skóna að formaðurinn sé í einhverjum sérstökum erindagjörðum fyrir VG innan verkalýðshreyfingarinnar. “Margur heldur mig sig” dettur manni helst í hug varðandi ummæli viðkomandi – Ég þekki engan í mínu ranni verkalýðsmálana, hvar í flokki sem viðkomandi eru ,sem leggur út frá þessu.

Sjá ræðu formanns hér

miðvikudagur, 18. október 2006

Goodman & Holiday

Brá mér í Bæjarbíó í gærkvöldi eins og ég geri gjarnan á þriðjudagkvöldum. Þar fara fram kvikmyndasýningar á vegum Kvikmyndasafns Íslands. Í gær var á dagskránni myndin „Benny Goodman Story” frá 1955. Fín mynd sem byggð er á ævi og tónlist þessa mikla snillings.

Faðir Bennys var fátækur innflytjandi í Chicago og átti erfitt með að veita börnum sínum nokkuð en þrátt fyrir það komust Benny og tveir bræður hans í tónlistarnám á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar. Hvar kunna menn að spyrja - jú í Hull House og hvað er svona merkilegt við það. Hull House er hverfamiðstöð, sem eru forverar félagsmiðstöðva, sem sinntu æskulýðsstarfi af fullum krafti á þessum árum. Tónlistarkennsla var einn angi unglingastarfsins í hverfamiðstöðvunum og kostaði nánast ekki neitt og var eini möguleiki margra barna og unglinga til að öðlast menntun á þessu sviði. Tónlistarmaðurinn Benny Goodman er því í raun árangur af félagsmiðstöðvarstarfi - og svo eru menn alltaf að spyrja hverju starfið skilar (helst í krónum talið)? Sjá nánar um Hull House

Í næstu viku verður sýnd myndin „Lady sings the bluse” frá 1972. Mynd sem byggir á ævi söngkonunnar Billie Holiday. Hún átti ekki sjö dagana sæla, stundaði vændi, var djúpt sokkin í dópneyslu og átti við mikla erfiðleika að etja. Billie átti ekkert athvarf. Velti fyrir mér hvort henni hefði ekki farnast betur ef hún hefði átt þess kost sem barn og unglingur að sækja hverfa- eða félagsmiðstöð eins og Goodman – Ekki nokkur spurning.

þriðjudagur, 17. október 2006

Af Svarta Pétri og verkalýðsforingjum

Hef ávallt talið það afar óheppilegt að starfsmannastjóri sé jafnframt formaður launanefndar sveitarfélaga. Græt því ekki nema síður sé þá ákvörðun formanns launanefnar sveitarfélaga að hætta sem starfsmannastjóri Hafnarfjarðarbæjar. Raunin er nefnilega sú að þau bæjarfélög sem “lagt hafa til” formann launanefndar lenda einfaldlega í því að menn verða „katólskari en páfinn”. Eins og menn vitað þá hefur það aldrei reynst vel. Slík hefur haft neikvæð áhrif á launastefnu viðkomandi því allt sem gert er fer undir smásjá og menn ætla ekki að láta hanka sig á því að gera eitthvað umfram ströngust láglaunastefnu launanefndar og bókstafstúlkun samninga (eins og það sé einhver stórglæpur) Að vera til „fyrirmyndar” snýst því miður upp í andhverfu sína.

Reyndar held ég að það sé ekki heldur æskilegt að gegna embættismennsku af neinu tagi hjá sveitarfélögunum á sama tíma og menn gegna formennsku launanefndar. Ef sveitarfélög telja mikilvægt að viðhalda þessari launanefnd þá er að mínu mati nauðsynlegt að formaður hverju sinni sé hreinlega starfandi sem slíkur og taka tímabundið leyfi frá annari embættismennsku. Af öðrum kosti er hætta á því að viðkomandi verði einhverskonar æðstavald í viðkomandi bæjarfélagi og starfsmannastjóri sé með einum eða öðrum hætti undir álit viðkomandi settur. Formaður launanefndar má ekki lenda í þeirri aðstöðu að verða einhvers konar Svarti Pétur, ómissandi spil í heildarleiknum en spil sem engin vill hafa á hendi.

Sama á auðvitað við varðandi forsvarsmenn verkalýðsfélaga. Það er oft verulega erfitt að samræma embættismennsku eða starf hjá sveitafélagi og formennsku starfsmannafélagi. Það útheimtir gríðarlega vinnu sem gerir það að verkum að maður níðist bæði á samstarfsfólk sínu og fjölskyldu. Þó svo að sá sem þetta ritar hafi einungis í einhverjum örfáum tilfellum talið sig hafa goldið þess sem embættismaður að vera formaður í starfsmannafélagi þá má vel vera að einhver annar hefði upplifað sömu reynslu á allt annan og mun neikvæðari máta. Því miður eru hins vegar dæmi um það að bæjarfélög hafi hreinlega rekið starfsmann úr starfi hjá bæjarfélaginu til þess eins að losna við formann stéttarfélags.

Formenn starfsmannfélaga eiga auðvitað að njóta verndar. Fyrir margt löngu voru formaður , varaformaður og gjaldkeri STH formlega ráðinn í ákveðið starfshlutfall hjá félaginu beinlíns til að fyrirbyggja að starfslok þeirra hefði áhrif á kjörgengi viðkomandi. Frágangur á þessum ráðningum voru unnar í samræmi við ráðleggingar lögfræðings félagsins. Formaður þarf ekkert endilega að vera starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar sem virðist útbreiddur misskilningur þessa daganna, okkar félagsmenn eru víða, formaður getur allt eins verið starfsmaður Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sólvangs, Flensborgarskóla, Iðnskólans, bæjarfélagsins Álftaness, Öldrunarsamtakanna Hafnar, Stafsmaður á Hjallabraut 33, starfsmaður ÍBH, starfsmaður STH eða starfsmaður hjá sjálfseignarstofnunum eins og Höfninni ,Vatnsveitu og Hitaveitu Suðurnesja.

Auðvitað á alvöru félag eins og STH að hafa starfandi formann í a.m.k. 50 % starfi. Það er auðvitað góðra gjalda vert að halda úti góðum orlofs- og endurmenntunarmöguleikum félagsmanna. Það er ánægjulegt hve margir félagsmenn hafa lagt hönd á plóginn og með þeim hætti að orlofsmöguleikar félagsmanna eru með því besta sem gerist.

Kjara- og réttindamál taka hins vegar sífellt meiri tíma og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er það einfaldlega grundvallaratriði í starfsemi félagsins. Hlutskipti formanns er að vinna í þeim málum sem eru oftast flókin, erfið og tímafrek. Þetta eru mikilvægustu viðfangsefni félagsins og félög hafa síst efni á að spara í þessum efnum. Félagsgjöld í STH eru með þeim lægstu sem þekkjast, einungis 1 % af dagvinnulaunum. Það hefur ávallt verði metnaðarmál að halda félagsgjöldum lágum og þann tíma sem ég hef gegnt formennsku í félaginu hafa félagsgjöld verið óbreytt. Þau þarf ekki að hækka en með því að samræma gjaldtöku við viðtekar venjur þ.e.a.s. með því að miða félagsgjöld við raunlaun skapast sæmilegt ráðrúm til aukinna umsvifa. Þessar breytingar hafa lítil eða engin áhrif á félagsgjöld meginþorra félagsmanna en hækka félagsgjöld þeirra sem búa við fyrirkomulag fastrar yfirvinnu. Breyting þessi hefur því einungis í för með sér að allir félagsmenn greiða hlutfallslegu sama óbreytta félagsgjaldið 1% óháð því hvernig laun þeirra eru sett saman.

Svona er það nú bara segi ég og skrifa. STH hefur ávallt spilað í úrvalsdeild og á að halda því áfram og til þess að svo verði þarf félagið að skynja kall samtímans og mæta þeim breytingum sem verið hafa í starfi verkalýðsfélaga undanfarin ár og eru í aðsigi. Breytingar sem einfaldlega hafa í för með sér aukin umsvif. Það verður bara gert með að skapa þeim sem til forustu veljast hverju sinni viðundandi starfsforsendur. Annað er bara vatn á myllu kölska.

sunnudagur, 15. október 2006

Veit ekki hvort ég er í framboði

En hitt veit ég að Gunnar vinur minn Svavarsson er í framboði í prófkjöri Samfylkingarinnar og það í forystusæti. Og því fagna ég enda Gunnar drengur góður, dugmikil stjórnmálamaður, málefnalegur og maður úrræðasamur í meira lagi. Ég hef sem formaður STH og sem (fv) embættismaður átt töluverð samskipti við Gunnar á liðnum árum. Þar hafa komið við sögu bæði „sætu og súru eplin” og málefni ekki alltaf verið einföld né auðleyst, sérstaklega í verkalýðsmálum. Mál hafa samt sem áður nánast undantekningalaust leysts á farsælan hátt.

Ég þekki Gunnar einnig úr foreldrastarfi hjá FH en dætur okkar eru í tilvonandi gullaldraliði félagsins. Á þeim vettvangi er Gunnar í essinu sínu, nema þegar kappleikir fara fram því þá fer Gunnar á hliðarlínuna og heldur sig fjarri öðrum foreldrum, hefur hátt og gefur stúlkunum það sem hann kallar „knattspyrnufræðilegar ráðleggingar”. Held að dömurnar taki svona hæfilegt mark á honum en virði viljan fyrir verkið.

Og það er fleira gott fólk í framboði. Kristín Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðfélags Íslands og samstarfsmaður minn í stjórn BSRB er einnig góður kostur, hún er dugnaðarforkur sem hefur með stórfelldri baráttu tekist að hefja hin stórlega vanmetnu störf sjúkraliða til vegs og virðingar. Tryggvi Harðarson vinur minn býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu. Tryggvi var farsæll bæjarstjóri á Seyðisfirði auk þess sem hann vann vel sem bæjarfulltrúi hér í Hafnarfirði. Hitt er annað mál að þetta er góður hópur fólks sem gefur kost á sér í prófkjörinu þannig að listinn verður aldrei annað en sterkur.

Hvort ég sé í framboði og þá væntanlega til áframhaldandi setu sem formaður STH segi ég fátt um á þessu stigi. Hitt er annað mál að ég hef fengið fjölmargar áskorannir um slíkt víða úr félaginu og frá fólki sem látið hefur sig félagið varða og verið virkt í baráttunni, en því er heldur ekki að leyna að á formanninn hafa líka verið sendir einhverjir litlir úrtölu púkar en þeir eru fáir og segja lítið af viti eins og ku verða háttur púka.

miðvikudagur, 11. október 2006

Loksins loksins

Loksins kom að því að einhver er látin sæta ábyrgð vegna ólöglegra áfengisauglýsinga. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í dag. Sjá nánar hér að neðan.

D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2006 í máli nr. S-681/2006:
Ákæruvaldið
(Stefanía G. Sæmundsdóttir fulltrúi)
gegn
Ásgeiri Johansen
(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. maí 2006 á hendur Ásgeiri Johansen, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem framkvæmdastjóri Rolf Johansen & Co ehf., látið birta eftirfarandi auglýsingar á áfengum bjór á árinu 2005:
1. Á bls. 31 í Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. júlí með fyrirsögninni „Betri helmingurinn“ en í auglýsingunni sé texti þar sem lýst sé eiginleikum Budweiser Budvar bjórs ofan við mynd af flösku af Budweiser Budwar Czech Premium Lager.

2. Á bls. 22 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 27. október með fyrirsögninni „Íslendingar þekkja gott vatn“ en í auglýsingunni sé texti þar sem lýst sé vatninu sem notað sé í Budweiser Budvar bjór við hlið myndar af flösku af Budweiser Budvar Czech Premium Lager.

3. Á baksíðu 4. tbl. Gestgjafans útgefnu í apríl með fyrirsögninni Heineken, en í auglýsingunni sé mynd af flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“.

4. Á bls. 6 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 16. júní með fyrirsögninni „Flott og sexý“ með mynd af upplýstri flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“, en í texta auglýsingarinnar segi jafnframt „Heineken“ og Heineken.is.

5. Á bls. 50 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 16. júní með mynd af upplýstri flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“ en í texta auglýsingarinnar sé vakin athygli á tónleikum á veitingastaðnum Pravda.

Teljist framangreind brot varða við 20. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998 og sbr. 15. gr. laga um prentrétt 57/1956.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Og síðar í dómnum segir:

Ákvörðun refsingar og sakarkostnaður.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað sem áhrif hefur á refsimat í máli þessu. Að því virtu að um fimm brot er að ræða, að brotin eru framin í ávinningsskyni og varða mikilvæga hagsmuni þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð að fjárhæð 600.000 krónur og komi 32 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Stefanía G. Sæmundsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ásgeir Johansen, greiði 600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 32 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sjá dóminn í heild sinni HÉR

laugardagur, 7. október 2006

Ný launanefnd

Sé það á heimasíðu sambands íslenskrar sveitarfélaga að verulegar breytingar hafa orðið á launanefnd sveitarfélaga, en ný nefnd var kosin á landsþingi Sambandsins í lok september. Kannski bara eðlilegt þar sem tilvera nefndarinnar hékk á bláþræði vikum saman s.l. vetur. Ekki að óskekju þar sem að samningar við bæjarstarfsmenn voru komnir í sögulegt lágmark eftir að borgin samdi við sitt fólk s.l. haust. Nefndin var í öndunarvél vikum saman og tíminn nýttur til þess að gera eins lítið og hægt var. Í stað þessa að samræma starfsmat bæjarstarfsmanna við starfsmat Reykjavíkurborgar, sem hefði leyst málið að fullu, þá var gripið til einhverra þeirra flóknustu úrræða sem menn muna eftir og sem náðu einungis til hluta starfsmanna sveitarfélaganna.

Í eina tíð voru það hinir kjörnu bæjarfulltrúar sem mynduðu launanefnd sveitarfélaga en þeir sjást vart í nefndinni í seinni tíð. Sennilega hentar almennur kjörþokki illa í störfum nefndarinar. Það eru aðrir eiginleikar eða önnur tegund kjörþokka sem gilda í sambandi við launanefnd sveitarfélaga en varðandi allar aðrar nefndir á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Og kannski er það þess vegna sem að nefndarmenn koma og fara, stoppa stutt við eins og farþegar á hverri annari járnbrautarstöð.

Hitt svo annað mál að ég hef alla tíð talið tilvist nefndarinnar hvíla á afar veikum lögfræðilegum grunni. Geta sveitafélög/ bæjarfulltrúar afsalað sér með öllu ákvarðanarétti í sambandi við launamál þeirra bæjarstarfsmanna sem þeir eru m.a. kosnir til þess að ákveða? Nefndin hegðar sér eins og hún sé formlegt stjórnvald, sendir tilskipanir út og suður. Starfsmenn nefndarinnar telja sig þar með yfir starfmenn launadeilda sveitarfélaganna hafna og beita þar ákveðnu verkstjórnar- eða boðvaldi.

Ef við gefum okkur og ef svo einkennilega vildi til að þetta gríðarlega fullnaðarumboð til nefndarinnar standist lög, sem mér vitanleg hefur aldrei verið kannað af óháðum aðila, þá vekur sérstaka athygli hvernig með hina sk. jafnræðisreglu er farið og hún mölbrotin sbr. samninga Reykjavíkurborgar og samninga sveitarfélaganna, sem og ýmsa aðra samninga sem launanefndin hefur gert sem nefnd í umboði sveitarfélaganna og á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Öll alvöru fyrirtæki viðhafa alvöru starfsmannastefnu. Í starfsmönnum bæjarfélaga eru fólgin gríðarleg verðmæti. Það er auðvitað algerlega úr takti að einhver að mestum hluta óreynd nefnd og eða starfsmenn hennar úti í bæ fari með alræðisvald í jafn mikilvægum málum og hér um ræðir. Nefnd sem lýtur nánast í öllu og einum viðhorfum þeirra bæjarfélaga sem hafa lítin eða engan metnað gagnvart starfsfólki sínu.

Framsýn sveitarfélög eiga að mynda sér eigin stefnu – Losa sig undan þessu fyrirkomulagi og ægivaldi launanefndar sveitarfélaga sem stendur allri alvöru starfsmannaþróun hjá sveitarfélögunum fyrir þrifum – Gera þetta sjálf með stæl og með því hugarfari að gera gott bæjarfélag ennþá betra.

fimmtudagur, 5. október 2006

Danskur mömmumatur

Hugsað mér gott til glóðarinnar þar sem ég var staddur í Kaupmannahöfn s.l. þriðjudag. Stoppaði þar í nokkra klukkustundir á leið minni heim frá Brussel. Nú skyldi snæða ekta danskan mat, alvöru kótilettur með rauðkáli, grænum baunum m.m. Reyndi fyrst að nálgast herlegheitin á Hovedbanegaarden en viti menn sá ágæti staður sem þar hafði verið, hafði vikið fyrir „sportbar” sem seldi lítið annað en bjór og hamborgara þess á milli sem gestir urðu „hluti af leiknum”

Fór því sem leið lá niður Strikið. Allstaðar gaf að líta hina kræsilegustu veitingastaði; kínverskan; indverskan; grískan; írskan; ástralskan; Macdonalda og Burger kinga; pylsuvagna; Kebab sjoppur og ég veit ekki hvað og hvað. Var orðin bæði mæddur og hungraður staddur við Magasin du Nord þegar að mér datt í hug að bregða mér á veitingastaðinn í versluninni.

Og viti menn við mér blasti allur hinn danski matarkúltur á einu borði. Ég þakkað almættinu vel og lengi fyrir það að hið íslenska Magsín du Nord færði mér danskt góðmeti í stað þess að hafa á boðstólum eitthvert íslenskt súrmeti eins og fyllsta tilefni væri til. Yndislegt hvernig Bónus / Magasín heldur að manni góðum dönskum mat hugsaði ég. Bíð bara eftir því að hið sama Bónus haldi að mér dönsku vöruverði hérlendis.

sunnudagur, 1. október 2006

Nokkur viðbrögð

Hef fengið nokkur viðbrögð vegna pistilsins hér á undan og nokkrar ábendingar. Jón Páll vinur minn, framkvæmdastjóri Regnbogabarna og varabæjarfulltrúi, sem var á bæjarstjórnarfundinum sagði fjarri að fyrirsögn Fjarðarpóstsins væri í samræmi við umræður á fundinum. Hef síðan þá heyrt umræðurnar og er sammála Jóni.

Átti reyndar erfitt með að trúa því að ágætur kunningi minn Guðmundur Rúnar væri með meiningar í þá veru sem þarna var um að ræða. Ég þekki Guðmund bara af góðu einu saman og sem dugmikin stjórnmálamann. Finnst rétt að þetta komi fram á þessum vettvangi og málið dautt af minni hálfu. Lærdómurinn kannski sá að hlaupa ekki alltaf á eftir fyrirsögnum og skrifa ekki í hita leiksins nema maður sé 100% öruggur á málavöxtum.

föstudagur, 22. september 2006

Borað í nefið í 7.300 daga

Það voru margir hissa á mér þegar fór úr ágætu starfi hjá ÍTR og tók við starfi æskulýðs- og tómstundafulltrúa Hafnarfjarðar. Kofi sem gekk undir nafninu Æskó, gömul lítil verbúð uppi á Flatahrauni sem bænum hafði áskotnast við gjaldþrot fiskverkunar Einars Gíslasonar h/f var allur sá “metnaður” sem bæjarfélagið lagði í málaflokkinn æskulýðsmál. Staðan var sú að samkvæmt könnun Dr. Þórólfs Þórlindssonar kom í ljós að hafnfirsk ungmenni sóttu skipulagðar tómstundir í mun meira mæli utan bæjarfélagsins en innan. Málaflokkurinn var rústir einar og skýrslan alger áfellisdómur um “starfsemina”.

Ekki ætla ég að þakka mér þann árangur sem við höfum náð í æskulýðsmálum en hann kom ekki af sjálfum sér og ég hef svo sannarlega notið þess að hafa starfað með góðu fólki. ÍTH hefur innleitt ýmsa nýbreytni hér á landi, nýja starfsþætti, samþætt málefni ungmenna og staðið fyrir víðtæku samstafi allrar þeirra aðila sem hafa með börn og unglinga að gera. Þetta hefur verið gríðarleg vinna, oft í miklum mótvindi og stundum við takmarkaðan skilning ráðamanna. Það hafa margir lagst á eitt í góðum hópi starfsmanna ÍTH og árangur er ótvíræður. Samkvæmt könnunum Rannsóknar og greiningar e.h.f. þá telja um 60 % af hafnfirskum ungmennum sig vera fastagesti í félagsmiðstöðvum bæjarins (mæta einu sinni í viku eða oftar).

Ekki verður annað skilið af umfjöllun Fjarðarpóstsins 21/9 á bls 3 “Var æskulýðsfulltrúinn óþarfur?” en að undirritaður hafi verið í langvarandi iðjuleysi árum saman enda starfið óþarft. Þessu megi m.a. finna stoð í, segir tiltekinn bæjarfulltrúi, að óþarft hafi verið að ráða afleysingu meðan undirritaður var vetrarlangt í námsleyfi fyrir nokkrum árum?

Ekki virðist viðkomandi bæjarfulltrúi sem þessu heldur fram vera alveg með á nótunum því í umræddu námsleyfi undirritaðs leysti sá ágæti drengur, þ.v. forstöðumaður Vitans, Geir Bjarnason æskulýðsfulltrúa af og í starf forstöðumanns Vitans fór Jóhanna Flekenstein annar afburðar góður starfsmaður ÍTH

Veit það ekki - kannski finnst einhverjum stjórnmálamönnum það óþarft að hafa einhverja verkstjórn í jafn mikilvægum málaflokki og æskulýðsmál eru. Menn verða þá að byggja þá skoðun á einhverjum rökum og ekki síst á hvernig málum er raunverulega fyrir komið.
Annars er bara verið að gera lítið úr störfum fólks sem a.m.k. í eigin hugskoti telur sig hafa verið að gera ágæta hluti og hefur lagt á sig ómælt erfiði og vinnu til þess að svo mætti verða.

Hlutverk og mikilvægi stjórnmálamanna felst m.a. í því að skapa forsendur. Ef ekkert er að gert í þeim efnum þá hendir ekkert. Án forsendna verða allar gerðir og ræður stjórnmálamanna eins og sagan af nýju fötum keisarans, innihaldslausar. Ef forsendur eru m.a. þær að verkstjórnendur séu óþarfir þá er auðvitað á litlu að byggja. Ergo, sú mikla þekking og reynsla sem starfsmenn búa yfir leitar einfaldlega annað, í aðrar forsendur.

þriðjudagur, 19. september 2006

Smá vesen

Ég lifi áhættusömu tölvulífi. Á hins vegar góða að þegar að villimennskan verður algjör. Bræður mínir eru allir tölvunarfræðingar auk þess sem ég hef oft leitað ásjár bestu tölvudeildar landsins þ.e. tölvudeildar Hafnarfjarðarbæjar.

Er sem sagt búin að vera að uppfæra tölvuna mína með nokkuð mislukkuðum árangri. Er hættur með adressuna arni@hafnarfjörður.is og jafn gagnlegt að senda erindi í hana eins og að ræða við næsta ljósastaur. Er hins vegar búin að koma minni prívat adressu arni.gudmunds@simnet.is og adressu formanns STH addigum@simnet.is í nýtt forrit.

Ekki tókst betur til við þá aðgerð mína að ég finn ekki pósta úr gamla forritinu, veit þó að þeir eru þarna einhver staðar. Fæ að öllu jöfnu mikinn fjölda skeyta og geri mér því grein fyrir að einhver bið verður á svörum. Bræðralag og vinnátta við snillinga á tölvusviðinu er því mikils virði eins og reyndar öll vinátta. Vona að mál komist í samt horf fyrr en seinna.

mánudagur, 11. september 2006

Kani móðgaður

Var einu sinni sem oftar á ferð yfir hafið. Sessunautar mínir í fluginu Hollendingur, myndlistamaður á leið í brúðkaup til Íslands og Kani, viðskiptafræðingur ,deildarstjóri hjá stórfyrirtæki, á leið heim eftir sína fyrstu ferð til Evrópu en þar hafði hann verið á vegum fyrirtækisins. Við tókum tal saman og ræddum heima og geyma. Skemmtilegt, en með öllu tíðindalaust spjall þar til við nálgumst Vestmannaeyjar. Skyggni var afar gott og útsýni hið besta.

Ég hóf því að ræða málefni Keikós heitins enda blasti heimili hans við okkur. Ég tjáði sessunautum mínum hvert viðhorf íslendinga til málsins væri og að helst vildi ég borða fiskinn enda væri „sænautasteik” hinn besti matur, svona syndandi Galloway naut. Það sem meira var ég tjáði þeim félögum að ágætur maður teldi að hægt væri að útbúa 60.0000 úrvals máltíðir úr Keikó einum saman.

Hollendingnum fannst þetta merkilegt en Kanninn þagði og varð fáskiptinn í meira lagi. Fékk ekkert upp úr honum næstu mínúturnar. Heldur var hann þungur þegar hann sagði mér að hann væri styrktaraðili í Free Willy Keiko Foundation, greiddi 10 dollara á mánuði til samtakanna og hefði gert í mörg ár. – Úps hugsaði ég með mér og var ekkert ósáttur við að stutt var í lendingu. - Fékk aldrei nafnspjaldið sem hann ætlaði að fá mér

föstudagur, 1. september 2006

Mikið rosalega er ég ríkur

Vann minn síðasta starfsdag hjá Hafnarfjarðarbæ í gær. Áformaði að ljúka störfum með því að fara á starfsmannafund í félagsmiðstöðinni Vitanum í Lækjarskóla klukkan 16:00. Bjóst við tveggja til þriggja tíma fundi. Þarna hafa verið tóm leiðindi í gangi allt frá því að skólastjórinn óskaði eftir og fékk samþykkt í fræðsluráði að yfirtaka starfsemina? Til grundvallar lagði hann fram „Stefnumótunarplagg” fyrir félagsmiðstöðina ásamt tveimur kennurum, plagg sem vægast sagt hefur mælst ákaflega illa fyrir meðal fagfólks innan frítímaþjónustunnar og víðar í fagheimum.

Var því vel undirbúin í það að peppa okkar mannskap upp og brýna til góðra verka sem endranær. Ekki veitir af því forstöðumaðurinn er kominn í veikindaleyfi og langt í brosið hjá staffinu yfir ástandinu. Geir vinur minn Bjarnason kvaðst ekki komast á fundinn sem gerði það að verkum að mér fannst algjör nauðsyn að mæta(sem mér var auðvitað bæði ljúft og skylt).

Allt í einu kemst Geiri á fundinn, þannig að við förum saman. Þegar að við erum komnir út Hverfisgötuna þá þarf Geiri allt í eina að koma við heima hjá sér. Og viti menn í götunni er allt troðfullt af bílum og það sem undarlegra var að nokkrir vinir mínir voru á sveimi í götunni. Grunaði félaga minn um græsku sem reyndist og rökum reynst.

Viti menn húsið og garðurinn troðfullur af vinum mínum sem síðan áttu eftir að verða fleiri og héldu áfram að streyma í teitið fram eftir kvöldi. Ekki var það verra að upphaldshljómsveitin mín (sem reynda heitir ýmsum nöfnum eftir verkefnum t.d. Gleðisveitin Runólfur/Pétur og Úlfurinn m.m. Helgi Egils bassaleikari. Snorri Páll Úlfhildarson Jónsson trommari, Ingmar Andersen klarínettuleikari, Eiríkur Stefáns trompetleikari), léku fyrir gesti af sinni alkunnu snilld. Frábærir hljómlistarmenn.

Allt var þetta skipulagt með 2 -3 tíma fyrirvara hjá fyrverandi samstarfsfólki mínu hjá ÍTH enda var ekki fullljóst um hvenær ég myndi hætta fyrr en um hádegið í gær. Sýnir í hnotskurn hve gríðarlega fín stofnum ITH er og hve snerpan og vinnulagið er gott. Svona fínt teiti með þessum örstutta fyrirvara gæti engin skipulagt nema ÍTH

Fann hve rosalega ríkur ég er af góðum vinum. Teitið varð fyrir vikið ein af mestu gleðistundum lífs míns þrátt fyrir þau megnu leiðindi að vera að hætta. Tær snilld hjá samstarfsfólkinu að efna til gleði af þessu tagi í stað þess að leggjast í depurð yfir afleiðingum af ráðslagi stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn ráða en við (fv)embættismenn ráðum hvort við viljum verða samferða.

Fyrir teitið verð ég vinum mínum æfilega þákklátur. Nota hér einnig tækifærið til þess að þakka öllum þeim fjölmörgu sem sent hafa mér hlýjar og góðar kveðjur í tölvupósti. Yndislegt að vera svona moldríkur og eiga allt þetta góða fólk að vinum.

laugardagur, 26. ágúst 2006

Unglingar eru líka fólk

Fagna niðurstöðum persónuverdar þar sem skóla í Sandgerði er gert óheimilt að neita unglingi í félagsmiðstöðinni um að kaupa miða á SAMFÉS hátíð á grundvelli mætingaskrá skólans. Að straffa nemendur í gegnum þriðja aðila er út úr korti og brot á öllum grundvallar mannréttindum og ekki síst rétti ungs fólks til einkalífs.

Í Morgunblaðinu, í dag 26. ágúst, segir:
„PERSÓNUVERND hefur kveðið upp úrskurð um meðferð upplýsinga um mætingar í grunnskóla en kvartað var yfir notkun á upplýsingum um mætingar í Grunnskóla Grindavíkur. Tilefni kvörtunarinnar var að nemanda Grunnskóla Grindavíkur var meinað um aðgöngumiða á hátíð fyrir unglinga sem haldin var á vegum samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, Samfés, þar sem hann hafði ekki sýnt viðunandi skólamætingu.”


Og áfram heldur Mogginn:
„Kennari við skólann, sem jafnframt vann að félagsmálum á vegum Grindavíkurbæjar, fékk listann þannig í hendur. Þegar kom að því að útdeila miðum á umrædda hátíð setti hún það skilyrði fyrir úthlutun að skólasókn yrði að vera í lagi og notaði listann síðan sem viðmið fyrir það. Úthlutun miða á Samfés-hátíðina var ekki liður í starfi hennar fyrir grunnskólann, heldur fyrir félagsmiðstöðina.”


Unglingar eru líka fólk – ekki bara skólafólk. Unglingar eiga sitt einkalíf fyrir utan skólann. Ekki er ódælum kennara gert óheimilt af skólastjórnendum að mæta í leikhús? Unglingum sem einhverra hluta vegna eiga í erfiðleikum í skólakerfinu eru og eiga að vera velkomnir í félagsmiðstöðvar enda margir einstaklingar sem hafa náð sér á strik gegnum það ágæta starf sem félagsmiðstöðvar um allt land halda úti. Tilgangslaust og engin lausn að loka öllum dyrum á ungviðið, þó baldið sé, og hefur ekkert pedagogiskt gildi nema síður sé.

föstudagur, 18. ágúst 2006

Ansans fordómar eru þetta

Um daginn var umfjöllun um veggjalist (grafiti) í Fréttablaðinu á afar neikvæðum nótum; þetta væri mikil plága og borgin öll orðin útkrössuð. Umfjölluninni fylgdi hins vegar mynd af glæsilegu vegglistaverki?

Skemmdaverk geta verið af ýmsum toga og eitt af þeim er krass á veggi og á ekkert skylt við veggjalist þó svo allt og oft sé fjallað um það í sömu andrá. Afar slæmt þegar að fólk gerir ekki greinarmun á þessu tvennu og setur þetta undir sama hatt. Staðreyndin er sú að víða gefur að líta verulega vönduð verk hjá ungu og efnilegu listafólki. Hvet allt listelskandi fólk til þess að gefa þessari listgrein gaum.

Leiðilegt hve umræða um ungt fólk verður oft fordómafull sbr. veggjalistina – Veit ekki hvort fólk vill frekar steingráa og ískalda veggi í undirgöngum fremur en veggjalist. Gleymum því ekki að okkar þekktasti “veggjakrotari” hét Jóhannes Kjarval

fimmtudagur, 10. ágúst 2006

Nokkrir góðir dagar án fistölvu

Hef lítið skrifað inn á dagskinnuna undanfarið. Hef verið á ferðalagi um landið og verið í afar takmörkuðu tölvusambandi. Bið þá sem hafa verið að senda mér póst velvirðingar á skeytingarleysinu. Verð komin til byggða um miðjan mánuðinn og vind mér þá í að svara þeim erindum sem borist hafa.

Annars hinn kátasti eftir að hafa skondrast um fjöll og firnindi síðustu 10 daga. Ákaflega fallegt landið okkar og skiljanlegt að afar þéttbúandi Evrópubúar vilji gjarnan sækja okkur heim.

miðvikudagur, 26. júlí 2006

Fullur Lundi á þjóðhátíð

Aumingja fuglinn, dettur mér helst í hug. Mörður Árnason gerir þessu máli vel skil á heimasíðu sinni sjá: http://www.althingi.is/mordur/mal_og_menning/safn/002925.php

Með bjórdollu í annarri hendi og forvarnarstefnu í hinni hendinni er hreint pönk. Velti fyrir mér hvort bæjarfélög eigi ekki að skilyrða styrkveitingar sínar til íþróttafélaga þannig að gleðikonustand eins og ÍBV stundar geti ekki átt sér stað.

Vinir mínir í Haukum í Hafnarfirði tóku fyrir mörgum árum þá ákvörðun að auglýsa ekkert sem hefur skírskotun til áfengis þ.m.t. þessa heimskulegu útúrsnúninga á áfengislöggjöfinni sem menn kalla „léttöls" auglýsingar. Þetta ættu önnur íþróttafélög að taka sér til fyrirmyndar. Hvet allt hugsandi fólki til þess að sniðganga auglýstar áfengistegundir

mánudagur, 24. júlí 2006

Sýnum hug okkar í verki - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir

„Held áfram á meðan að dómarinn flautar ekki“ sagði ungur verðbréfasali eitt sinn aðspurður um hvort tiltekin afar vafasamur viðskiptamáti stæðist lög. Ekki man ég hvort dómarinn „flautaði“ að lokum en veit það eitt að dómarinn flautar lítið ef nokkuð í sumum málum
Eitt af þeim málum er einlæg og sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum á lögum, sem með skýrum hætti banna auglýsingar af þessum toga, eru lögin brotin margsinnis dag hvern. Áfengisauglýsingar eru boðflenna í tilveru unglinga sem þau eiga fullan rétt á að vera laus við.

Hin siðferðilegi boðskapur laganna sem og innhald er afar skýrt. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um.

Það er eins og engin sé ábyrgur? Áfengisinnflytjendur eða framleiðendur auglýsa hvað af tekur og eyða til þess gríðarlegum fjárhæðum; flestir fjölmiðlar birta þessar auglýsingar átölulaust; auglýsingastofur framleiða þær? Þrátt fyrir einlægan síbrotavilja þessara aðila þá „flautar dómarinn ekki“ Ríkissaksóknari ákærir ekki þrátt fyrir sífellt og augljós brot. Ungt fólk virðist ekki búa við sama rétt og aðrir þegnar þessa lands. Þrengstu viðskiptahagsmunir eru teknir fram fyrir velferð barna og ungmenna..

Núna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar í flestum fjölmiðlum dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram.

Við foreldrar, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það þykir mér alls ekki við hæfi.

sunnudagur, 9. júlí 2006

Brá undir mig "betri" fætinum

Sem reyndar er sá vinstri þessa daganna. Er sem sagt enn að súpa seiðið af útskriftarveislunni góðu. Fór nánast beint frá Færeyjum á Vestfirði. Dvaldi þar með fjölskyldunni í góðu yfirlæti í sumarbústað í Mjóafirði. Ótrúlega líkt landslag á þessum tveimur stöðum nema hvað það er öllu minna undirlendi í Færeyjum og fjöll brattari. Annars glettilega líkt og sama góða fólkið á báðum stöðum.

Var fjarri “menningunni” sem kom fram í því að farsími og Internet virkuðu ekki á svæðinu. Afar þægilegt í alla staði og spurning hvort þessi fjarskiptatækni sé ekki komin út í vitleysu. Fólk á helst að vera aðgengilegt 24 tíma á sólahring. 100 e- mail , 20 sms , 15 skilaboð í talhólfi, 30- 40 símtöl á sólarhring og sívirkt msg eins og raunin virðist vera orðin hjá mörgum er auðvitað orðin tóm vitleysa.

Það hefur blásið hressilega í kringum mig síðustu vikur. Sagði sem kunnugt er upp starfi mínu sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi 13. júní s.l. og það sem ég taldi að yrði fyrst og fremst persónuleg ákvörðun mín virðist skipta margt fólk verulegu máli. Áttaði mig auðvitað á því að sem embættismaður er maður opinber persóna, fagmaður og ekki síst fyrirmynd eins og aðrir framámenn í æskulýðs- og íþróttageiranum. Starfsmenn ÍTH undirgangast og starfa samkvæmt siðareglum Félags fagfólks í frítímaþjónustu FFF sjá hér. Sá því sem var að uppsögn mín er kannski ekki einkamál mitt, þó svo að ég hafi talið það í fyrstu. Hef hins vegar valið þann kost að fjalla um málið á almennum nótum.

Kjarni þessa máls er einfaldlega sá að stjórnmálamenn ráða, þeir taka ákvarðanir í umboði kjósenda. Ef og þegar embættismanni þykir pólitískur ráðahagur eða samþykkt algerlega óviðunandi, þá hefur hann einungis um tvennt að velja, þ.e. að vinna áfram og láta eins ekkert sé eða hætta. Ég sagði upp, ástæður fyrst og fremst faglegar forsendur.

föstudagur, 30. júní 2006

Leiksigur á Ung i Norden

Er í Færeyjum en þar fer fram þessa daganna ungmennamenningarmótið Ung í Norden. Þannig háttar til að ég er í verkefnisstjórn fyrir Íslands hönd en ÍTH er framkvæmdaraðili f.h. Menntamálaráðuneytisins hvað varðar þátttöku íslenskra ungmenna á mótinu. Þetta er í þriðja skiptið sem við sjáum um þetta verkefni sem fram fer annað hvert ár. Hópurinn er skipaður 18 ungmennum á aldrinum 14 – 18 ára. Auk Hafnfirðinga eru krakkarnir víða af landinu enda ekki síst markmið með þessu verkefni að mynda tengslanet íslenskra unglistamanna.

Er hér í góðum félagskap og þar fara fremst samverkamenn mínir og vinir þau Andri Ómars farastjóri og aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöðinni Öldunni og Sara Marti Guðmundsdóttir söng-, leik- og listakona sem alfarið hefur séð um listræna stjórnum og undirbúning þess hluta verkefnisins. Frábær listamaður sem á ákaflega einfalt með að fá það besta út úr unga fólkinu.

Enda fór svo að sýning íslenska hópsins sló algerlega í gegn. Unga fólkið sér og sínum til mikils sóma. Smelli hér til gamans mynd úr sýningunni. Áhugafólki um unglingamenningu bendi ég á íslenska heimasíðu verkefnisins http://unginorden.blogspot.com/ sem og á hinni opinberu síðu mótsins http://www.unginorden.fo/

þriðjudagur, 27. júní 2006

Mr. Bean og Mr. Guðmundsson

Sló út vin minn Mr. Bean í hrakförum. Tókst það ótrúlega sem var að slasa mig við móttöku gjafar? Var við þá skemmtilegu iðju að taka á móti gestum í útskriftarteiti er ég hélt af tilefni meistaraprófi mínu frá KHÍ. Ekki vildi betur til en að ofan á mjúkum pakka leyndist einn harður – grjótharður. Ekki vildi betur til en að sá harði féll við móttöku beint ofan á tánna á mér. Varð af því mikil sársauki en sem gestgjafi var ekki um annað að ræða en að halda áfram gleðinni og harka af sér. Daginn eftir var hins vegar ljóst að hin verulega bláa tá var verkefni fyrir læknavísindin og hin nýfengna forfrömun mín á svið uppeldisvísinda mátti sín lítils gagnvart þessu vandamáli.

Fór því á þar til gerða stofnun Slysó. Hjúkrunarfræðingurinn í móttökunni átti erfitt með að skrifa slysaskýrsluna vegna hláturs en fyrir utan það fékk ég afbragðs þjónustu. Sem var gott mál enda á leið til Færeyja daginn eftir. Dvel þar þessa stundina í góðu yfirlæti og vonast til þess að leggja hækjunni fljótlega.

Af gjöfinni "góðu" er það að segja að koníakið og flaskan harðgerða sluppu algerlega ósködduð úr fallinu – veit ekki hvort ég kýs frekari samskipti við hana að sinni – þó aldrei að vita – verður þó af stakri aðgæslu sem auðvitað gildir alltaf þegar að áfengi er annars vegar.

miðvikudagur, 21. júní 2006

Fjarðarpósturinn og PAN

Ritstjóri Fjaraðpóstsins gerir að umtalsefni í tölublaði þessarar viku hljómsveitina PAN sem honum þótti lítið til koma sem síðasta dagskráliðar á kvöldskemmtun 17. júní hátíðarhaldanna í ár. Vitnar í m.a. umfjöllun mína hér á dagskinnunni um bandið. Af því má ráða að það hafi verið sérstakt áhugamál mitt að fá bandið til að spila. Dagskrá 17. júní er aldrei miðuð við smekk þeirra sem standa að framkvæmd og skipulagningu hátíðarhaldanna. Á 17. júní er markmiðið að koma til móts við og reynt að höfða til sem allra flestra íbúa bæjarins frá 0 – 100 ára.

17. júní nefnd hefur auk þess nánast ávalt gefið ungum og efnilegum hafnfirskum listamönnum sem eru að stíga sín fyrstu spor kost á að koma fram á hátíðarhöldunum og í ár var það hljómsveitin PAN. Á næsta á má gerða ráð fyrir einhverjum öðrum ungum og efnilegum hafnfirskum listamönnum enda af nægu að taka í þeim efnum. Við sem eldri erum eigum auðvitað að gefa okkar unga og óreynda listfólki tækifæri og veita því stuðning þó svo að list þeirra falli ekki endilega að okkar eigin smekk. Trúi því ekki að menn séu eitthvað á móti því?

föstudagur, 16. júní 2006

Og ennþá meira af tónlist

16. júní tónleikar færðir af Víðistaðatúni í Gamla bókasafnið vegna veðurs. Fínir tónleikar og af mörgum góðum böndum þá bið ég fólk að leggja á minnið hljómsveitina “Form áttanna” þrælgott band sem er rétt að byrja ferilinn en eru strax orðnir verulega góðir spilarar. Blúsað rokk í sérflokki. Í hörðu deildinni er hljómsveitin PAN góð, minna á köflum á vini mína í Mínus þó ögn rólegri og melodískari, glittir í gamla þungarokkið. Flottir tónleikar bland af minni spámönnum og lengra komnum. Spilagleði í fyrirrúmi og margt listavel gert. Þakka fyrir mig.

fimmtudagur, 15. júní 2006

Meira um músík

Brá mér á opnunarkvöld sumarfélagsmiðstöðvarinnar Öldunnar + í kvöld. Þar var margt um manninn og upphafið lofar góðu. Hljómsveitin Fóbía lék fyrir gesti. Flott band og engin tilviljun að sveitinni gekk afar vel á músíktilraununum. Það er með eindæmum hvað við eigum mikið af efnilegu ungu tónlistarfólki hér í firðinum.

Fyrir tónlistaráhugafólk á öllum aldri þá verður sannkölluð tónlistarveisla á Víðistaðatúni þann 16. júní þar sem saman koma fjölmargar hafnfirskar unglingahljómsveitir. Vona bara að veðrið verði þokkalegt. Hvet fólk til þess að missa ekki af þessum tónleikum sem hefjast klukkan 20:00.

þriðjudagur, 6. júní 2006

Pétur og úlfurinn

Brá mér í Hafnarfjarðarleikhúsið í gærkvöldi. Erindið að hlusta á hljómsveitina Alræði öreiganna spila hið klassíka verk Pétur og Úlfinn í funk/rokk útsetningu. Fín spilamennska hjá bandinu og gaman að heyra þessa frábæru tónlistarmenn túlka verkið með þeim metnaðarfulla hætti sem þeir gerðu. Snorri trommari er sennilegast einn sá efnilegasti í bransanum í dag og sama má segja um þá félaga Helga Egils bassaleikara og Huma (Ragnar Ragnarsson) hljómborðleikara. Ekki má gleyma Halldóri gítarista sem sýndi flotta takta og góða spilamennsku Frábært framtak og skemmtilegt, bíð bara eftir því að menn vindi sér ú útgáfu sem er orðið fyllilega tímabært. Þakka fyrir mig

fimmtudagur, 25. maí 2006

Á ekki Silvía Nótt bróðir?

Er búin að vera erlendis síðustu daga. Sem sænskmenntaður vandamálafræðingur set ég mig aldrei úr færi við að lesa sænsku pressuna. Fékk vænan skammt af henni á Kastrup flugvelli.

Tók andköf af hlátri þar sem ég var að lesa hið “virta” sænska Aftonbladet sem er af sama kaliberi og DV heitið var þegar að það var verst. Málefnið hin albrjálað Silvía Night sem hafði lamið elskuhuga sinn til óbóta, formælt öllu milli himins og jarðar og eftir það horfið upp í rjáfur og hótað að henda sér niður. Allt þetta út af verðskulduð slöku gengi stjörnunnar. Daganna áður hafði blaðið einnig fjallað um íslensku stjörnuna sem m.a. hafði skellt hurð hjá sænsku dívunni Carolu og það sem verra að deginum áður hafði Silvía áreitt hina ofurtrúuðu sænsku söngkonu kynferðislega. Af þessu öllu hafði talsmaður íslenska hópsins verulegar áhyggjur að sögn blaðsins.

Niðurstaðan einföld engin veit lengur hver er að gera grín að hverjum. Silvía að pressunni og pressan að fólkinu eða bara allir að öllum. Sennilega hefur engin önnur eins “stjarna” mætt á svæðið og Silvia. Við verðum einhvern veginn að halda áfram með málið. Spurning hvort Silvía á bróður sem gæti mætt með eitthvert “austantjalds moll” í næstu keppni eða það sem væri hugsanlega betra – er ekki komin tími til að senda Árna Johnsen í Evróvision?

þriðjudagur, 23. maí 2006

Af bæjarstjórum

Ég hef yfirleitt sem formaður STH átt í ágætu samstarfi við þá bæjarstjóra sem í Hafnarfirði hafa starfað. Vissulega hefur oft á tíðum hvesst nokkuð hressilega en einungis í örfáum tilfellum hafa viðkomandi bæjarstjóri / ar ekki gert greinarmun á því hvaða hlutverki ég gegni hverju sinni. Sem embættismaður lýt ég hinu pólitíska valdi og framkvæmi af trúmennsku það sem fyrir mig er lagt. Sem formaður stéttarfélags hef ég þá undanbragðalausu skyldu að verja hagsmuni félagsmanna í hvívetna sem talsmaður þeirra. Í þeim efnum hafa yfirmenn embættismannsins ekkert forræði eða húsbóndavald. Þetta er lykilatriði sem einhvern tímann hafa því miður verið misskilin.

Ég hef ávallt átt gott samstarf við Lúðvík Geirsson. Gott samstarf byggir á trausti, hreinskiptni í samskiptum og ekki síst gagnkvæmum skilningi á þeim margvíslegum og flóknu málum er upp koma í starfsmannamálum. Tel að ágæt samskipti mín við bæjarstjóra byggi m.a. á þessum þáttum. Sama get ég ekki sagt um samskipti mín við þessa svokölluðu launanefnd sveitarfélaga og eða fulltrúa hennar. Enda hef ég talið það Hafnarfjarðarbæ helst til vansa að leggja lag sitt við það apparat. Hef ekki trú á öðru en að bæjarfélag eins og Hafnarfjörður komi sér út úr því “bandalagi” strax og kostur verður og afturkalli fullnaðarumboð sitt til nefndarinnar. Væri vel við hæfi og staðfesting á því að Hafnarfjarðarbær ætli sér í fremstu röð í starfsmannamálum.

fimmtudagur, 11. maí 2006

Akranesbær gefst upp á launanefnd sveitarfélaga

Akranesfélagið mun hugsanlega ganga inn í Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar – Akranesbær óskar í kjölfarið eftir því við Reykjavíkurborg að hún taki yfir samningsumboð sitt vegna starfsmanna á Akranesi?

Til hvers allt þetta brölt . Málið einfalt Akranesbær losnar undan þeirri skussastefnu sem launanefnd sveitarfélaga hefur haft uppi í launamálum, starfsmenn fá Reykjavíkursamninginn að öllu leyti og ekki síst þá gildir starfsmat og starfsmatstenging Reykjavíkurborgar. Sem sagt allur þessi leikur til þess eins gerður að rétta kjör starfsmanna Akranesbæjar án aðkomu launanefndar sveitarfélaga!

Krýsuvíkurleið, ekki spurning. Sennilega eina leið bæjarfélagsins til þess að losna undan launanefnd án verulegra óþæginda? Þurfa sveitarflögin í landinu að afsala samningumboði sínu til höfuðborgarinnar til þess að fólk fái starfsmat sem virkar? Kjánaskapur að öllu leyti og óþarfi en eitt af fjölmörgum merkjum þess um að verulega sé farið að vatna undan launanefnd sveitarfélaga.

Annað merki er það að Mosfellsbær er að taka upp Reykjavíkurtengingar starfsmatsins gagnvart sínu starfsfólki. Það er gert án þess að velta bæjarfélaginu og starfsmannafélaginu á annan endann enda verulegur efi um að endurskipuleggja þurfi heilu og hálfu bæjarfélögin til þess að komast undan samþykktum launanefndar.

Fyrir áhugfólk um stjórnsýslu birti ég hér úrdrátt úr fundargerð bæjarráð Akraness:

„3. Viðræður við stjórn Starfsmannafélags Akraness. Til viðræðna mættu Valdimar Þorvaldsson formaður, Hafdís Sigurþórsdóttir, Anna Pála Magnúsdóttir og Emilía Árnadóttir.Stjórn St.Ak. afhenti bæjarráði svohljóðandi yfirlýsingu:

“Stjórn Starfsmannafélags Akraness hefur ákveðið að óska eftir formlegum viðræðum við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um sameiningu félaganna þannig að samþykktir Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar gildi um hið sameinaða félag eftir samrunann. Verður boðað til almenns félagsfundar í Starfsmannafélagi Akraness á næstunni þar sem leitað verður heimildar félagsmanna til samninga um þetta efni.”

Eftirfarandi bókun var lögð fram af meirihluta bæjarráðs:
“Á undanförnum árum hefur samvinna og samstarf milli Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar stöðugt aukist. Nægir þar til að nefna samstarf í Orkuveitu Reykjavíkur, sameiningu hafna við Faxaflóa og almenningssamgöngur. Svæðið er því orðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Akraneskaupstaður samþykkir því að leitað verði eftir samvinnu við Reykjavíkurborg um launa- og kjaramál, enda verði tillaga stjórnar Starfsmannafélags Akraness um sameiningu þess félags við Starfsmannafélag Reykjavíkur samþykkt á almennum félagsfundi og Reykjavíkurborg samþykki fyrir sitt leyti að gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað verði á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Ákvörðun þessi er tekin að fenginni yfirlýsingu Starfsmannafélags Akraness um viðræður um sameiningu félagsins við Starfsmannfélag Reykjavíkurborgar. Bæjarstjóra og bæjarráði er falið að óska eftir viðræðum við borgaryfirvöld um málið.”Bæjarráð samþykkir bókunina

þriðjudagur, 9. maí 2006

Gott mál

Er ánægður með þá nýbreytni Hafnarfjarðarbæjar að setja upptökur af fundum bæjarstjórnar inn á ágætan vef bæjarins. Ekki það að maður liggi yfir umræðunum, heldur hitt að það er afar praktískt að geta hlustað á það sem maður vill eða þarf þegar að það hentar manni í stað þess að "heyra út í bæ af umræðu" eða þurfa að hlusta á allan fundinn. Sjón (og heyrn) er sögu ríkari
http://www.hafnarfjordur.is/bhfundur/

laugardagur, 29. apríl 2006

Eins og kerlingin sagði

Voru orð Ólafs Thors er hann hafði viðhaft tilvitnun í biblíuna á einhverjum fundi í eina tíð. Við Hafnfirðingar eigum einnig okkar „ móment “ í tilvitnunum. Einn af okkar fremstu hafnfirsku verkalýðsforingjum hóf eitt sinn ræðu sína á þeim orðum að „ nú væri 1. maí um land allt”
Að sama meiði eru „nýjir málshættir” eins og „að berjast í bönkum “ eða „að vera með lífið í lungunum”

Hvað með það þeir sem eru kátir með launin sín sitja heima á 1. maí en við hin hittumst við ráðhúsið kl 13:30 og röltum saman upp í Hraunsel við Flatahraun. Nærum þar bæði sál og líkama.

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Af erlendum viðskiptum og ritfrelsinu

Segi farir mínar ekki sléttar. Við mig hafa haft samband nokkrir lesendur síðunnar og tjáð mér að þeir komist ekki inn á hana? Upp komi á skjá þeirra tilkynning að vefaðgangi hafi verið lokað þar sem að síðan innihaldi óæskilegt efni. Vel kann að vera að ég hafi tekið hraustlega og jafnvel stórkarlalega til orða en hins vegar tel ég mig ekki eiga efnislega samleið með klámsíðum og öðrum óhróðri.
Hvað um það við nánari eftirgrennslan kom í ljós hér voru í öllum tilfellum um starfsmenn Hafnarfjaðrabæjar að ræða og við það fóru mál að skýrast. Ekki þó í samræmi við villtustu hugmyndir mínar , sem voru þær að sökum orðkyngis og kröftugs málflutnings hefðu yfirvöld ekki séð sér annað fært en að loka síðunni með öllum tiltækum ráðum.

Skýringin var hins vegar sáraeinföld. Tölvukerfi skólanna í Hafnarfirði er hluti af stóru tölvukerfi bæjarins. Tölvukennarar höfðu orðið varir við það að einhverjir nemendur voru að blogga í tímum eða í gegnum tölvur skólanna og í einhverjum tilfellum var hægt að rekja eineldismál til þessar iðju. Því varð að ráði að loka fyrir aðgang á bloggsíður ( hvort sem það leysir yfir höfðu einhvern vanda?) . Dagskinna (blogg) formanns STH fórnalamb.

Ekki dugir að sitja með hendur í skauti og sýta orðin hlut Varð það ljóst að ég yrði að koma mér upp eigin léni. Gerði heiðarlega tilraun til þess að eiga viðskipti við ISNIC.IS, hugði gott til glóðarinnar enda lénið arnigudmunds.is laust. Rak hins vegar í rogastans er verðið kom til tals 12.000 kr + ca 2.500 í mánaðargjald? Ekki á færi opinberra starfsmanna að standa í viðskiptum af þessum toga. Tók því til við að vafra um netheima með samskonar viðskipti í huga og viti menn, áður en yfir lauk hafði ég eytt 21 $ og var orðin formlegur rétthafi og eigandi þriggja léna þ.a. arnigudmunds.net /org /info.

Það birti því aldeilis til enda við hæfi í upphafi sumars. Mun á næstu dögum tengja dagskinnuna einhverju þessara léna , veit ekki alveg hverju en mun halda áfram tryggð minni við blogspot.com fyrirtækið þó svo að lénið fá nýtt nafn. Vona því að lesendur siðunar komist óhindraðir inn a síðuna og þá ekki síst félagsmenn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Verð því vonandi á næstu dögum komin úr óverðskulduðum félagsskap alþjóðlegra pornó hunda og baldinna ungmenna sem ekki kunna að meta ritfrelsið að verðleikum.

Gleðilegt sumar.

þriðjudagur, 18. apríl 2006

Veltir lítil þúfa þungu hlassi?

Ef það er ekki hægt að hækka laun í góðæri. Hvenær er þá hægt að hækka launin, spyrja starfsmenn elliheimila? Hefur það einhvern tímann staðið til spyr ég á móti? Held ekki en veit þó sem er að samstaða þessa fólks sem þar starfar og sem nú háir launabaráttu mun skila árangri. Það er ekki vegna framsýnnar stefnu stjórnvalda. Það er vegna samstöðunnar og vegna þeirrar skammar að stjórnvöld tími ekki að búa sínum elstu samborgurum áhyggjulaust ævikvöld vegna grjótharðar láglaunastefnu.

Verkalýðshreyfingin hefur axlað sína ábyrgð á síðustu árum, nú er einfaldlega komið að því að vinnuveitendur axli sína ábyrgð. Það verður ekki gert með grátstafina í kverkum eða með því að „tala upp verðbólguna”. Hóflegar arðsemiskröfur, hófleg álagning á vöru og þjónustu eru leiðarljós varðandi stöðugt efnahagslíf. Virðist hins vegar ekki virka sem skyldi?

Lág laun og hallæri heyra í hóp en ekki lág laun og góðæri, það er staðfesting á því að það er vitlaust gefið og einhverjir taka mun meira til sín en þeim ber.

laugardagur, 8. apríl 2006

Fréttablaðið

Undrast mjög að Fréttablaðið standi í fararbroddi íslenskra fjölmiðla hvað varðar birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga. Fréttablaðið byggir, að eigin sögn, skrif sín um lög og réttarfar á sterkri réttlætis- og siðferðiskennd og af stakri virðingum fyrir lögum landsins. Um það ku vitna skrif blaðsins um þau mál dómskerfisins sem eru efst á „baugi” þessa dagana.

Undrast því að hið sama blað vaði yfir lögvarin réttindi barna og unglinga á skítungum skónum með kerfisbundnum brotum á banni við áfengisauglýsingum. Er umfjöllun blaðsins um Baugsmál af sömu virðingum fyrir lögum og sú lítilsvirðing sem blaðið sýnir sjálfsögðum og lögvörðum réttindum barna og unglinga til að vera laus við áfengisauglýsingar? Veit það ekki en óneitanlega er þessi undarlega ritstjórnarstefna lítt til þess fallin að auka trúverugleika blaðsins nema síður sé?

þriðjudagur, 4. apríl 2006

1. apríl um land allt

Bið lesendur síðunnar afsökunar á síðasta pistli sem skrifaður var hinn 1. apríl. Þetta var allt í plati nema setningin “Laun Hafnarfjarðarbæjar eru auk þess af þeirri stöku hófsemd að ekki er frá miklu að hverfa í þeim efnum” og setningin “Mun auðvitað sakna góðra samstarfsmanna” Hitt var allt saman tómt plat.

Vill þó þakka nokkrum dyggum lesendum síðunnar sem óskuðu mér velfarnaðar og til hamingju með hið ábyrgðarfulla embætti í borginni "Kenneo" i "Nasembíu".

laugardagur, 1. apríl 2006

Er á leið til Nasembíu

Fékk símtal í morgun frá formanni UFN samtaka norrænna félagsmiðstöðva. Ræddum saman vel og ítarlega enda málefnið mikilvægt. Formaðurinn tjáði mér að UFN hafi verið fengið það verkefni af Alþjóðlega norræna þróunarsjóðinum að byggja upp og koma á legg félagsmiðstöðvum og félagslega tengdri þjónustu í Nasembíu. Erindi formannsins var að falast eftir starfskröftum mínum í þetta verkefni og mitt hlutverk yrði að halda utan um starfsemina í borginni Kanneo. Starfið fælist aðallega í því að sinna ýmsum sérfræðistöfum á sviði félagsmála sem og verkstjórn þess hluta verkefnisins sem fram fer í borginni.

Þurfti ekki að hugsa mig lengi um og ekki var fjölskyldan fráhverf þessu nema síður væri . Laun Hafnarfjarðarbæjar eru auk þess af þeirri stöku hófsemd að ekki er frá miklu að hverfa í þeim efnum. Mun auðvitað sakna góðra samstarfsmanna. Nú er því staðan einfaldlega sú að menn fara að pakka niður og drifa sig til Svíþjóðar til skrafs og ráðagerða og til þess að ganga frá ráðningarsamningi sem verður til árs þ.e. til 1. apríl 2007

þriðjudagur, 28. mars 2006

Kæri pennavinur

„Ágæti ríkissaksóknari
Tel það borgaralega skyldu mína að vekja athygli yðar á meðfylgjandi heilsíðu áfengisauglýsingu frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar sem birtist í tímaritinu Birtu 25. mars á síðu 57. Vek einnig athygli embættisins á að í Fréttablaðinu ( m.a. á forsíðu og baksíðu blaðsins 25.mars) auglýsir fyrirtækið HÓB Faxe bjór eins og skilmerkilega kemur fram á mynd í auglýsingunni Faxe -Danish lager beer. Samkvæmt íslenskum lögum og út frá velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna eiga þau rétt til þess að vera laus við áreiti af þessum toga. Í þeim tilfellum sem hér eru tíunduð er um einlægan brotavilja og ásetning að ræða. Sem foreldri og almennur borgari í þessu landi geri ég kröfu um að sú vernd sem lög um bann við áfengisauglýsingum á að veita börnum og unglingum sé virt. Svo er ekki og því er nauðsynlegt fyrir yður að grípa til þeirra úrræða sem embættið hefur gangvart lögbrotum.

Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson"

laugardagur, 25. mars 2006

Tótalráðgjöfin

Er flottur ráðgjafavefur sem Hitt húsið í Reykjavík heldur úti. Alvöru ráðgjöf til ungs fólks gefin af okkar hæfasta fagfólki. Sjón er sögu ríkari. Tótalráðgjöf

laugardagur, 18. mars 2006

Heldur margur mig sig?

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður er þessa daganna í deilum við okkar helstu heilbrigðisvísindamenn um tengsl óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Sigurður er einnig mikil baráttumaður fyrir því að selja áfengi í matvöruverslunum sem og að leyfa auglýsingar á áfengi. Sigurður er því með mörg járni í eldinum og hefur í mörg horn að líta.

Ekki dettur mér í hug eina sekúndu, sem áhugamanni um viðskiptasiðferði og velferðarmál barna og ungmenna, að halda því fram að þingmaðurinn sé í þessari baráttu sinni í umboð sígrettu- og áfengisbransans. Ég held einfaldlega að þetta séu staðfastar skoðanir þingmannsins og spekulasjónir um annað séu út í hött.

Í þessu ljósi er auðvitað nokkuð sérkennilegt hvernig þingmaðurinn vinklar umræður um vatnalög og heldur því staðfastlega fram að Ögmundur Jónasson samstarfsmaður minn í stjórn BSRB nýti samtökin eins og deild í VG. Verð því að velta því fyrir mér hvort þingmaðurinn Sigurður sé ekki sammála mér um mitt mat á störfum hans sjálfs (þ.e. Sigurðar). Eru stjórnmálamenn rígbundnir á klafa hjá hagsmunaaðilum. Er frumvarp um afnám áfengisauglýsingabanns í boði bjórframleiðenda?

Í stjórn BSRB er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Margir af nánustu samstarfsmönnum Ögmundar Jónassonar eru flokksfélagar Sigurðar. Ögmundur Jónasson þiggur ekki laun hjá BSRB ólikt því sem t.d. fyrverandi þingmaður sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands gerði. Sem formaður BSRB hefur Ögmundur ávallt haft eitt markmið og það er að þjóna hagmunum allra sinna umbjóðenda. Í þeim efnum hefur hann verði kröftugur talsmaður auk þess sem hann hefur ávallt staðið vörð um velferð þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu.

Aðgangur að vatni eru mannréttindi en ekki söluvara . Öll hin alþjóðlega umræða lýtur að því og þeim skoðunum má finna stað í ýmsum alþjóðasamningum. Umræðan hér á landi þarf því að vera á hærra plani en því að gera lítið úr þverpólitískum samtökum eins og BSRB sem og formanni samtakanna með brigslyrðum af þeim toga er Sigurður Kári gerir.

þriðjudagur, 14. mars 2006

Af veruleikanum

Launanefnd sveitarfélaga lætur ávallt eins og bæjarstarfsmannastarfsmannafélög séu öðru vísi en þau í raun eru og kemur fram við þau sem slík. Skapalón launanefndar er félag X sem samanstendur að lang mestu leyti af störfum sem ekki gera miklar kröfur um menntun. Reyndin er hins vegar sú að félög eru mismunandi uppbyggð og sennilega hefur STH mestu sérstöðuna meðal þeirra.

Samningar um sk. starfsmat virka alls ekki þegar komið er upp fyrir allra lægstu störfin m.a. vegna vonlausrar launatengingar við kerfið. Ekki var við það komandi, af hálfu launanefndar sveitarfélaga, í síðustu kjarasamningum að fara sömu leið í tengingum og Reykjavíkurborg gerði síðan nokkrum mánuðum síðar.

Og ekki fór launanefnd þá augljósu leið leiðréttingar að samræma tengingar starfsmatsins við Reykjavík þegar að laun voru leiðrétt fyrir skemmstu. Afleiðingar þær að all nokkur hópur STH félaga hefur verið settur hjá garði, situr eftir og stenst ekki samanburð við sömu störf eða önnur störf í sama fagi eins og t.d. varðandi kennslu- og uppeldisstörf. Það sem gerir málið enn sérkennilegra er að það var þessi sama launanefnd sem gerði einnig þá samninga sem vísað er til?

Hafnarfjarðarbær á að sýna fordæmi og koma sér út úr launanefnd sveitarfélaga. Viðhorf og afstaða launanefndar til starfsmannafélags eins og STH er með þeim hætti að slíkt getur ekki þjónað öðru en ágætum markmiðum bæjarins í starfsmannamálum sem m.a. koma fram í mannauðsstefnu bæjarins.

sunnudagur, 12. mars 2006

www.astradur.is

Er fínn fræðsluvefur um kynferðismál fyrir ungt fólk og foreldra. Að honum standa læknanemar sem eru mjög virkir á þessu sviði fræðslumála. Framtak þeirra , bæði vefurinn sem og bein fræðsla, er afar vönduð og góð. Því miður er það svo að á netinu eru sjálfskipaðir „sérfræðingar” á þessu sviði sem þó koma ekki einu sinni fram undir nafni eða í besta falli fölsku nafni. Regla númer 1 er því að vita hver er að ráðleggja og að ráðleggingar séu þær bestu sem völ er á hverju sinni.
Þessi skilyrði uppfyllir vefur læknanema að öllu leyti. Hvet því fólk bæði til að kíkja á vefinn og ekki síst láta aðra vita af honum. Sjón er sögu ríkari sjá astradur.is

þriðjudagur, 7. mars 2006

Formannafundur í Kríunesi

Formenn Samflotsfélaganna munu funda í Kríunesi 8 og 9 mars. Fundarefnið verður starfsmatið. Verður örugglega fjörugur fundur en að mörgu leiti er einsýnt hvert stefnir, starfsmatið hefur einfaldlega reynst illa og spila þar inn margir þættir. Menn vita ekki almennilega hvort kerfið er samræmt milli félaga eða hvort kerfið er keyrt út á einstaklinga , störf eða á einstök sveitarfélög? Starfslýsingum er einhliða breytt út og suður án tillits til þess hvort eða hvernig störfum var háttað áður en starfsmatið kom til. Öðruvísi tenging er á sama kerfi hjá borginni þar sem punktar eru mun verðmætari. Þýðir einfaldlega að sambærileg störf eru mun „verðminni “ hjá sveitarfélögunum. Innleiðing kerfisins tekist illa, seint og með endalausum þrætum. Í dag eru 1.193 dagar síðan kerfið átti að taka gildi fyrir alla starfsmenn bæjarfélaganna, ennþá skortir nokkuð á að svo sé! Kerfið hvað sem um það má segja hefur einfaldlega ekki staðið undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar af hálfu starfsmanna sveitarfélaganna.

Það má vel vera að einhverja kosti sjái launanefnd sveitarfélaga í þessu, helst er það að mínu mati að flækjustig kerfisins er gríðarlega hátt og innleiðing þess með þeim hætti að eðlileg launþróun meðal bæjarstarfsmanna innan Samflots hefur ekki átt sér stað. Enda var málum svo komið að neðar varð ekki komist í þeim efnum. Grípa þurfti til sértækra aðgerða til þess að bjarga hluta af vitleysunni með sérstakri samþykkt á launaráðstefnu sveitarfélaganna.

Í stað þess að blása lífi í starfsmatskerfið t.d. með því að samræma tengingu þess og launasetningu við það sem gerist hjá borginni þá var það gert með uppbótargreiðslum sem fela í sér að yfirvinna tekur áfram mið af gamla taxtanum sem og margt annað s.s. lífeyrisgreiðslur í mörgum tilfellum, framlag í endurmenntunarsjóð, veikindaréttur o.s.frv. Bútasaumur í stað þess að leysa málið heildrænt.

Útkoman er handónýtt launakerfi og marklaust starfsmat. Niðurstöður sem fjarri því gagnast starfsfólki sveitarfélaganna. Hlýtur einnig að vera öllum alvöru sveitarfélögum verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni. Sá sem þetta ritar mun ekki í leggja nokkra áherslu á viðgang þessa starfsmatskerfis. Tel reyndar að takmörkuð trú (ef nokkur) hins almenna félagsmanns á starfsmatskerfinu leiði einfaldlega til þess að í næstu kjarasamningum þá komi það einfaldlega ekki til greina sem launamyndunarkerfi og því verði einfaldlega sjálfhætt af þeim sökum

sunnudagur, 26. febrúar 2006

Vetrarhátíð í Reykjavík

Virkilega fínt upplegg vetrarhátíð þeirra Reykvíkinga. Brá mér af því tilefni í höfðuborgina sl. föstudagskvöld. Fór fyrst á sýningu og tónleika í Listasafni ASÍ. Ingibjörg Jónsdóttir og Guðrún Marínósdóttir sýndu textil. Fínar sýningar hjá þeim báðum. Dúóið Stemma léku íslensk þjóðlög. Flutningur þeirra Heiðrúnar Önnu Jónsdóttur og Steef van Oosterhout var í einu orði sagt frábær en óhefðbundin. Rödd, víóla, steinar og marimbu (Sýlafón) Fínn hljómur í Listasafni ASÍ. Sem sagt stórkostlegir tónleikar innan um falleg og vönduð textílverk Ingibjargar Jónsdóttur.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur var næsti viðkomustaður minn. Erindið - Friðrik Örn og sýning hans „10.000 dagar með myndavél”. Varð ekki fyrir vonbrigðum enda Friðrik meðal okkar allra bestu ljósmyndara. Tækni hans og færni í stafrænni ljósmyndun er með eindæmum og í hæðsta gæðaflokki . Ákaflega góð sýning sem ég hvet alla áhugamenn um ljósmyndalist til að sjá.

Þakka fyrir mig og hefði vilja sjá margt fleira enda dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt og góð. Tek mér örugglega lengri tíma næst. En eins og fólk veit þá er fátt eins gott fyrir sálina og góður skammtur af hágæða kúltur - ekki satt.

laugardagur, 18. febrúar 2006

Tap en þó sigur

Brá mér í Menntaskólann við Hamrahlíð í gærkvöldi. Erindið að fylgjast með ræðukeppni framhaldsskólanna en þar atti Flensborg kappi gegn MH.
Fín keppni í alla staði og góð frammistaða. Þó svo að mínir menn hafi lotið lægra haldi þá er það fínn árangur að ná inn í fjögurra liða úrslitkepnninnar. Flensborgarar eru reynslunni ríkari og leiðin bara upp á við.
Morfískeppnin er gott upplegg og fínn vettvangur menntaskólanema til þess að þjálfa sig í því sem kalla má hornstein lýðræðisins – rökræðunni . Þakka fyrir mig, ánægjulegt kvöld.

mánudagur, 13. febrúar 2006

Glöggt er gests augað

Hitti um daginn Svía sem hér hefur búið s.l. tvö ár. Erindi hans var að ræða við mig um íslensk æskulýðsmál en viðkomandi er að vinna verkefni um þau í framhaldsnámi er hann stundar í Svíþjóð um þessar mundir.

Ekki var hjá því komist að ræða þjóðfélagsþróun almennt hér á landi og viti menn Svíanum fannst ástandið þrungið spennu í meira lagi og í mun meira lagi en góðu hófi gegndi. Ísland væri ákaflega vel stöndugt land efnahagslega en samt væri hagur almennings óviðunandi. Það væri greinilegur ójöfnuður í landinu, verkalýðshreyfingin væri slöpp, matvöruverðið afar hátt , vaxtaokur í bönkunum? Margt fleira í þessum dúr nefndi Svíinn sérstaklega máli sínu til stuðnings.

Hann spurði síðan “ Hvernig getur ungt fólk í þessu landi eiginlega komið undir sig fótunum, stofnað fjölskyldu, skaffað sér þak yfir höfuðið og átt börn? Hvers vegna býr almenningur á Íslandi ekki við sömu kjör og t.d. mitt fólk í Svíþjóð? Endaði hann síðan pistillinn með þeirri fullyrðingu að þessi spenna og ólga í samfélaginu hlyti fyrr en seinna að finna sér útrás og þá yrði sprenging og mikil læti.

Ég var ekki viss, Íslendingar væru sárþjáðir af “Pollýönnu heilkenninu”, yrðu bara spældir í þrjá daga og síðan yrði allt gott og blessað. “Verra gat það verið” hugsa menn og láta þetta yfir sig ganga, allt það sem Svíinn nefndi og fjölmargt annað.

Minnist þess að á námsárum mínum í Svíþjóð, á níunda áratug síðustu aldar, þá hækkaði mjólkurverð um 1% sem var umfram verðlagsforsendur kjarasamninga þess tíma og viti menn allt varð vitlaust, samningar voru samningar. Ekki tóku menn ró sína fyrr en búið var að koma málum til fyrra horfs.

Fór að segja Svíanum að Ísland væri sérstakt og erfitt að bera það saman við önnur lönd, landið væri lítið og allir þekktu alla. Flestir Íslendingar ættu því einhvern ættingja sem væri kvótaeigandi eða framámaður í bankakerfinu eða framkvæmdastjóri í stórmarkað eða yfirmaður hjá olíufélagi. Vegna nálægðar væri því erfitt að taka á þessu, manni væri ekki illa við fjarskyldan frænda sinn sem af dugnaði og eljusemi hefði komið sér upp 900 m2 einbýlishúsi!

Sá sem var að Svíinn gaf ekkert fyrir þessa málsbætur mínar. Varð það þá skyndilega ljóst að ég er sjálfur með “Pollýönnu heilkennið” á háu stigi og það sem verra er, ég er praktíserandi “kóari” ( meðvirkur ) eins meðferðarbransinn kallar oft aðstandendur alkahólista - læt eins og ekkert sé. Lærdómurinn af þessari heimsókn Svíans var því ekki síður minn en hans – glöggt er gests augað

fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Starfsmat

Það eru margir sem velta fyrir sér þessu blessaða starfsmati . Birti hér fólki til glöggvunar mismun á tengingu í Reykjavík og hjá sveitarfélögunum. Stig eru einfaldlega mun verðmeiri í Reykjavík en hjá sveitarfélögunum, sem þýðir á mannamáli að samkvæmt starfsmati þá verða störf sem fá jafnmörg stig í þessu samræmda kerfi lægra launuð hjá sveitarfélögunum en hjá borginni. Ástæður einfaldar launanefnd sveitarfélaga neitaði alfarið í síðustu kjarasamningum að fækka stigum milli launaflokka sem hefði getað bjargað því sem bjargað varð. Neðangreint dæmi sýnir í hnotskurn hvílík mismunun á sér stað:

Reykjavík / Sveitarfélögin þ.m.t. Hafnarfjörður

315 stig = launafl 127 / 119 = 153.765 / 146.763 kr = mism. 7.002 kr
361 stig = launafl 134 / 124 = 170.656 / 158.106 kr = mism. 12.550 kr
400 stig = launafl 141 / 128 = 189.401 / 167.808 kr = mism. 21.593 kr
470 stig = launafl 151 / 138 = 219.808 / 194.748 kr = mism. 25.060kr


Þær tillögur sem launanefnd sveitarfélaga kom fram með til lausnar í yfirstandandi kjaradeilu taka ekkert á þessu máli. Starfsmatið mun því ekkert nýtast sem launamyndunarkerfi nema síður sé ( og til hvers er það þá eiginlega ?). Launanefnd nýtti aðallega krónutöluhækkun sem deyr fljótlega út og mjög fljótlega eftir að allra lægstu láglaununum sleppir.
Til hvers er þá verið að halda úti kerfi ef það er ekki nýtt til lausnar í þeirri krísu verið hefur uppi. Er það vegna þess að launanefnd sveitarfélags vill einungis leiðrétta eins lítið og hugsanlega var hægt að komast upp með?

Það verður að taka bíl úr handbremsu ef akstur á að verða viðunandi . Það verður að tengja starfsmatskerfið við raunveruleikann ef það á að virka. Ný tenging sveitarfélaganna til samræmis við Reykjavík hefði leyst allt það sem leysa þurfti. Það var ekki gert og flokkast auðvitað undir eitt af þeim fjölmörgu “undarlegheitum” sem fylgja þessu blessaða starfsmati. Vegir launanefndar sveitarfélaga eru rannsakanlegir og augljósir. Stefnan kristallast i hinni ... þið vitið hvað ég meina.

mánudagur, 6. febrúar 2006

Dr. Spock og önnur góð bönd

Hljómsveitin Dr. Spock eru engir aukvisar þegar músík er annars vegar. Heyrði í köppunum á föstudagskvöldið í félagsmiðstöðinni Hrauninu. Tilefnið Rokkhljómsveitakeppni Hafnarfjarðar. Þar komu fram fimm efnileg bönd. Úrslit urðu eftirfarandi . Fóbía úr Setrinu vann, í öðru sæti var Própanól úr Hrauninu og í þriðja sæti stelpubandið Fnykur úr Verinu Allt efnileg og góð bönd sem á vonandi eftir að heyrast mikið frá í framtíðinni. Viðtökur hinna fjölmörgu gesta voru mjög góðar og stemmingin fín.

miðvikudagur, 1. febrúar 2006

Fullt hús

Það hafa sennilega verið vel á fimmta hundrað unglingar í félagsmiðstöðinni Öldunni í kvöld. Húsið var algerlega stappað og rífandi stemming. Tilefnið var úrslitakvöld söngkeppni Hafnarfjarðar. Fín keppni fjölbreytt lagaval fínn flutningur en því miður aðeins þrjú efstu í keppninni sem fara í söngkeppni SAMFÉS, hefðu mátt vera mun fleiri miðað við standardinn.

Veit að okkar fólk á eftir að ná langt. Sigurvegarinn Berglind Björk, fremst meðal jafningja, úr félagsmiðstöðinni Verinu, söng lagið Líf snilldarlega og fer sennilega langt í SAMFÉS keppninni. Virkilega ánægjulegt kvöld og öllum til sóma

þriðjudagur, 31. janúar 2006

Húrra fyrir Nemendafélagi ME

Frábært framtak hjá nemendafélagi Menntaskólans á Egilsstöðum. Þau blása til orustu gegn einelti á Netinu m.a. með útgáfu á veggspjaldi og með því að taka upp umræðu um þetta böl.
Eins skemmtilegir Netheimar eru þá eru þar vissulega skuggahliðar. Mesta lagkúran er auðvitað sú að vega að saklausu fólki, nafnlaust af heimasíðum eða með rafpóst sem engin veit hver sendir. Þetta er auðvitað leið gungunnar sem þorir ekki að tjá sig undir nafni. Verður auðvitað marklaust en getur auðvitað verið afar særandi og meiðandi fyrir þann sem fyrir verður.

Löngu tímabært mál að taka til hendinni í þessum málum og frábært framtak hjá krökkunum fyrir austan. Nýtum tæknina og þær mörgu jákvæðu hliðar sem hún hefur upp á að bjóða. Látum taka mark á okkur, skrifum undir nafni og tökum fulla ábyrgð á því sem frá okkur fer.

laugardagur, 28. janúar 2006

Frankó var hress, sögðu menn

Frankó einræðisherra á Spáni var bráðhress( í öndunarvélinni, niðurkældur, vafinn leiðslum og meðvitundarlaus) , eiginlega þó nokkuð fram yfir andlátið. Ástand hans skipti í raun engu. Öllu skipti hins vegar að almenningur hefði trú á því að karlinn væri hérna megin móðunnar miklu þess vegna var þrástaglast á því að hann væri við góða heilsu. Á meðan að svo væri þá breyttist ekkert.

Datt þetta svona í hug þegar maður fylgist með fréttum um launamál þessa daganna. Það er nefnilega svo að í öllum viðtölum í fjölmiðlum við nefndarmenn í launanefnd sveitarfélaga kemur fram a.m.k tvisvar til þrisvar að nefndin njóti óskorðað trausts o.sv.fr. Við sem í þessum heimum hrærumst vitum hins vegar að baklandið þ.e.a.s. sveitafélögin eru ekki par sammála um störf nefndarinnar. Opinberar deilur og hnútukast forsvarsmanna sveitarfélaganna undanfarið er bara toppurinn á ísjakanum. Það er greinilegur pólitískur ágreiningur um launastefnu almennt meðal sveitarfélaganna og það er nokkuð ljóst að það stefnir í að Reykjavík segi sig alfarið úr launanefnd sveitarfélaga.

Tel því einsýnt að “heilslufar” launanefndar se að einhverju leiti”Frankóískt” þessa daganna hvað sem síðar verður. För Frankós yfir móðuna miklu hafði síður en svo neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir spænsku þjóðina.
Launanefnd sveitafélaga hefur ekki reynst okkur launþegum vel. Með grjótharðri láglaunapóli ( í umboði sveitarfélaganna? ) hefur þeim tekist að koma kjörum bæjarstarfsmanna í sögulegt lágmark.

Hefði Frankó verið rétti maðurinn til þess að leiða Spánn áfram – er launnefnd sveitarfélaga rétti aðilinn til þess að koma launamálum sveitafélaganna í lag – Svari nú hver fyrir sig?
Sá sem þetta ritar myndi ekki gráta það að nefndin yrði aflögð með öllu og hefur sagt og segir enn að sveitarstjórnir eiga hver og ein að axla þá ábyrgð að stjórna sínu bæjarfélagi þ.m.t. launamálum.

föstudagur, 20. janúar 2006

Ræðukeppni & söngkeppni Vitans

Brá mér á ræðukeppni framhaldsskólanna Morfís í gærkvöldi. Er málið nokkuð skylt þar sem að sonur minn er liðsstjóri Flensborgarliðsins. Sá mína menn í Flensborgarskóla sigra Fjölbrautarskólann við Ármúla nokkuð örugglega. Fín keppni og gaman að fylgjast með því hve góðum tökum allt þetta unga fólk hefur náð á rökræðunni.
Bjartsýni var umræðuefnið - með og á móti, ekki skorti rökin, andstæðingar unnu og því ljóst að ekki er gott að byggja á bjartsýninni einni saman.

Var dómari í kvöld í söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Vitans. Hef alltaf jafn gaman af því hlutverki og í raun forréttindi að fá að fylgjast með þessu upprennandi listafólki. Varð ekki fyrir vonbrigðum í kvöld. Allt frá hráu pönki þar sem menn létu hina almennt viðurkenndu tónfræði ekki trufla sig yfir í hugljúfar ballöður, og allt þar á milli . Fór að lokum svo að söngkonan og gítarleikarinn Hekla ásamt hljómsveit sigraði keppnina með minnsta mun sem ég man eftir í svona keppni.

Æskan að fara í hundanna? segir eldra fólk stundum – Tóm vitleysa segi ég og hvet alla til þess að kíkja inn í þessa veröld.

laugardagur, 14. janúar 2006

Með „bæjarstjórann" í maganum

Segir sjálfstæðiskonan Jóhanna Thorsteinsson á heimasíðu sinni um félaga minn og vin Jón Júlíusson. Tilefnið er það að Jón sækist eftir fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi. Að vera með „bæjarstjórann” í maganum er full absúrd og ekki á nokkurn mann leggjandi því eins og menn vita er Gunnar Birgisson núverandi bæjarstjóri mikil maður á velli og ekki möguleiki að koma honum fyrir með góðu móti í maga hvorki Jóns né annarra.

Ef Jóhanna á við að Jón eigi sér það markmið að verða næsti bæjarstjóri Kópavogs, þá er ekkert annað um það að segja að slíkt væri ákaflega skynsamlegt. Jón hefur mjög víðtæka reynslu á hinum ýmsu sviðum samfélagsins sem myndi án alls efa koma honum til góða í starfi sem bæjarstjóri. Jón hefur einfaldlega flesta þá kosti er prýða þarf góðan bæjarstjóra.

Myndi fagna því að félagshyggjuöflin í Kópavogi stæðu að meirihluta eftir næstu kosningar. Meirihluta sem hefði meiri skilning en nú er á kjörum hinna lægst launuðu. Í verkstjórn og sem forystumaður slíks afls er einn maður umfram aðra tilvalin, hann heitir Jón Júlíusson.

þriðjudagur, 10. janúar 2006

Er ?

Loðmundur Norðfjörð stórskáld sendir vini sínum, útgerðarmanni þessarar dagskinnu, af og til menningartengt efni sem ég birti gjarnan á síðunni. Ljóðið „Er” barst mér nýverið og það hljóðar svona:

Er nefnd sem nefnd
er launanefnd
launanefnd?

laugardagur, 7. janúar 2006

Það er stund milli stríða

Þess vegna er undarlegt að bæjaryfirvöld í Kópavogi skuli standa í þessum látum sem eru fullkomlega tilefnislaus af þeirri einföldu ástæðu að sjá það allir sem það vilja sjá að það verður að gera eitthvað í launamálum. Til þess var kallað til launaráðstefnu sveitarfélaga. Þessi vonlausa barátta bæjaryfirvalda er sorglegri en tárum taki. Undarlegt að þurfi öll þessi átök vikum saman til þess eins að fá eitt viðtalsbil við stjórnendur bæjarins.

Eitthvað rámar mig í að bæjarstjóri þeirra Kópavogsmanna hafi stært sig af bestu samningum bæjarstarfsmanna og lítið var á þeim tímapunkti rætt um að bærinn væri að sprengja einhvern launaramma sveitarfélaga í landinu. Það kom seinna og þá var Reykjavík allt í einu sökudólgurinn eftir að borgarstjóri Reykjavíkur hafði sýnt þann pólitíska dugnað og þor að semja um laun á mannsæmandi nótum.

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar gaf yfirlýsingu (sjá www.sthafn.is) í kjölfarið sem var þess eðlis að STH fólk hinkrar eftir niðurstöðum þessarar launaráðstefnu sem framundan er. Fram að þeim tíma er algerlega óþarft að eyða nokkru púðri hvað sem síðar verður. Púðrið er auðvitað allt á sinum stað og fer ekki langt og hægt að grípa til þess snarlega ef með þarf.

Tölvert hefur gengið á púðurbirgðir bæjaryfirvalda í Kópavogi og það sem verra er að öllu eytt á hröðu undanhaldi, vígstaða öllu verri en í upphafi. Ergo - Átök verða hafa tilgang og innhald, ef ekki þá fer illa.

þriðjudagur, 3. janúar 2006

Brauðmolahagfræði

Alveg makalaust að heyra málflutning ofurlaunaliðsins. Annars vegar þegar að það er að bera saman ástæður fyrir ofurlaunum sínum og svo hins vegar að reyna að réttlæta hina grjóthörðu íslensku láglaunapólitík sem er sú svæsnasta í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hækkun launa ræstingafólks ku orsaka hrun hins íslenska efnahagslífs. Dettur helst í hug að Ragnar Reykás skrifi textann í þessum farsa.

Er ekki komin tími til „sakaruppgjafar” enda meintur glæpamaður alsaklaus. Það eru ekki laun ræstingarfólks og annara láglaunahópa sem eru að setja allt á annan endann í íslensku efnahagslífi, þó svo að fulltrúar vinnuveitenda haldi fram þeim ásökunum með kerfisbundnum hætti.
Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl og auðvitað hinn eini sanni sökudólgur. Það er með eindæmum að blessuðu gamla fólkinu, örykjum og láglaunafólki sé haldið í kjörum við og undir framfærslumörkum í þessu altalaða góðæri.

Ef það hefur einhvern tímann verið pólitískt stefnumið núverandi ríkisstjórnar að jafna kjörin í landinu þá hefur það algerlega mistekist. Kannski hefur það aldrei verið ætlunin, stjórnvöld fremur dregið taum þeirra samfélagshópa sem þegar hafa verulega ríflega til hnífs og skeiðar. Held það bara, svei mér þá, að svo sé og í þeim efnum hefur mönnum tekist vel til, það dettur varla brauðmoli af borðum alsnægtanna