Hef ávallt talið það afar óheppilegt að starfsmannastjóri sé jafnframt formaður launanefndar sveitarfélaga. Græt því ekki nema síður sé þá ákvörðun formanns launanefnar sveitarfélaga að hætta sem starfsmannastjóri Hafnarfjarðarbæjar. Raunin er nefnilega sú að þau bæjarfélög sem “lagt hafa til” formann launanefndar lenda einfaldlega í því að menn verða „katólskari en páfinn”. Eins og menn vitað þá hefur það aldrei reynst vel. Slík hefur haft neikvæð áhrif á launastefnu viðkomandi því allt sem gert er fer undir smásjá og menn ætla ekki að láta hanka sig á því að gera eitthvað umfram ströngust láglaunastefnu launanefndar og bókstafstúlkun samninga (eins og það sé einhver stórglæpur) Að vera til „fyrirmyndar” snýst því miður upp í andhverfu sína.
Reyndar held ég að það sé ekki heldur æskilegt að gegna embættismennsku af neinu tagi hjá sveitarfélögunum á sama tíma og menn gegna formennsku launanefndar. Ef sveitarfélög telja mikilvægt að viðhalda þessari launanefnd þá er að mínu mati nauðsynlegt að formaður hverju sinni sé hreinlega starfandi sem slíkur og taka tímabundið leyfi frá annari embættismennsku. Af öðrum kosti er hætta á því að viðkomandi verði einhverskonar æðstavald í viðkomandi bæjarfélagi og starfsmannastjóri sé með einum eða öðrum hætti undir álit viðkomandi settur. Formaður launanefndar má ekki lenda í þeirri aðstöðu að verða einhvers konar Svarti Pétur, ómissandi spil í heildarleiknum en spil sem engin vill hafa á hendi.
Sama á auðvitað við varðandi forsvarsmenn verkalýðsfélaga. Það er oft verulega erfitt að samræma embættismennsku eða starf hjá sveitafélagi og formennsku starfsmannafélagi. Það útheimtir gríðarlega vinnu sem gerir það að verkum að maður níðist bæði á samstarfsfólk sínu og fjölskyldu. Þó svo að sá sem þetta ritar hafi einungis í einhverjum örfáum tilfellum talið sig hafa goldið þess sem embættismaður að vera formaður í starfsmannafélagi þá má vel vera að einhver annar hefði upplifað sömu reynslu á allt annan og mun neikvæðari máta. Því miður eru hins vegar dæmi um það að bæjarfélög hafi hreinlega rekið starfsmann úr starfi hjá bæjarfélaginu til þess eins að losna við formann stéttarfélags.
Formenn starfsmannfélaga eiga auðvitað að njóta verndar. Fyrir margt löngu voru formaður , varaformaður og gjaldkeri STH formlega ráðinn í ákveðið starfshlutfall hjá félaginu beinlíns til að fyrirbyggja að starfslok þeirra hefði áhrif á kjörgengi viðkomandi. Frágangur á þessum ráðningum voru unnar í samræmi við ráðleggingar lögfræðings félagsins. Formaður þarf ekkert endilega að vera starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar sem virðist útbreiddur misskilningur þessa daganna, okkar félagsmenn eru víða, formaður getur allt eins verið starfsmaður Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sólvangs, Flensborgarskóla, Iðnskólans, bæjarfélagsins Álftaness, Öldrunarsamtakanna Hafnar, Stafsmaður á Hjallabraut 33, starfsmaður ÍBH, starfsmaður STH eða starfsmaður hjá sjálfseignarstofnunum eins og Höfninni ,Vatnsveitu og Hitaveitu Suðurnesja.
Auðvitað á alvöru félag eins og STH að hafa starfandi formann í a.m.k. 50 % starfi. Það er auðvitað góðra gjalda vert að halda úti góðum orlofs- og endurmenntunarmöguleikum félagsmanna. Það er ánægjulegt hve margir félagsmenn hafa lagt hönd á plóginn og með þeim hætti að orlofsmöguleikar félagsmanna eru með því besta sem gerist.
Kjara- og réttindamál taka hins vegar sífellt meiri tíma og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er það einfaldlega grundvallaratriði í starfsemi félagsins. Hlutskipti formanns er að vinna í þeim málum sem eru oftast flókin, erfið og tímafrek. Þetta eru mikilvægustu viðfangsefni félagsins og félög hafa síst efni á að spara í þessum efnum. Félagsgjöld í STH eru með þeim lægstu sem þekkjast, einungis 1 % af dagvinnulaunum. Það hefur ávallt verði metnaðarmál að halda félagsgjöldum lágum og þann tíma sem ég hef gegnt formennsku í félaginu hafa félagsgjöld verið óbreytt. Þau þarf ekki að hækka en með því að samræma gjaldtöku við viðtekar venjur þ.e.a.s. með því að miða félagsgjöld við raunlaun skapast sæmilegt ráðrúm til aukinna umsvifa. Þessar breytingar hafa lítil eða engin áhrif á félagsgjöld meginþorra félagsmanna en hækka félagsgjöld þeirra sem búa við fyrirkomulag fastrar yfirvinnu. Breyting þessi hefur því einungis í för með sér að allir félagsmenn greiða hlutfallslegu sama óbreytta félagsgjaldið 1% óháð því hvernig laun þeirra eru sett saman.
Svona er það nú bara segi ég og skrifa. STH hefur ávallt spilað í úrvalsdeild og á að halda því áfram og til þess að svo verði þarf félagið að skynja kall samtímans og mæta þeim breytingum sem verið hafa í starfi verkalýðsfélaga undanfarin ár og eru í aðsigi. Breytingar sem einfaldlega hafa í för með sér aukin umsvif. Það verður bara gert með að skapa þeim sem til forustu veljast hverju sinni viðundandi starfsforsendur. Annað er bara vatn á myllu kölska.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli