miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Hvar er fagmennskan ?

Að sameina starfsemi félagsmiðstöðva og heilsdagsskóla (HS) í Hafnarfirði er skynsamleg ráðagerð. Það hefði reyndar mátt ganga enn lengra með því að færa félagsmál aldraðra undir ÍTH en það er önnur umræða. Eins vel og þessi sameining hljómar þá er framkvæmdin og innleiðingin út úr öllu korti. Það er sorglegt að forsvarsmenn fjölskyldusviðs virðast ekki vita mikið um málaflokkinn og eða skilja mikilvægi hans. Þetta lýsir sér í því að viðkomandi nýta fagleg sóknarfæri fyrst og fremst til þess að skera niður og gjaldfella starfsemina sérstaklega hvort sem horft er til fjármuna eða fagmennsku sbr Excel skjöl af ýmsum toga um útfærslu á þessum skipulagsbreytingum. Hvernig staðið var að (fjölda) uppsögnum í sambandi við þessar breytingar, tímasetningar, lögfræðilegar tilvísanir, starfslok o.fl er kapítuli út af fyrir sig og sætir furðu að Starfsmannafélag Hafnafjarðar hafi ekki látið sig málið varða? Allt virðist þetta gert í þeim tilgangi að lækka lág laun enn frekar með starfsheitabreytingum.

Samkvæmt atvinnuauglýsingum ( Sjá vef Hafnarfjarðarbæjar) um störf í nýju skipulagi eru gerðar afar takmarkaðar kröfur til starfsmanna (sem reyndar hefur vakið athygli víða og er umtalað í fagumhverfinu). Sjá auglýsingu um Frístundaleiðbeinendur . Starfsfyrirkomulagið byggir að virðist á einhverjum tveimur „farandfagmönnum“ , sem þó þurfa ekki , samkvæmt annarri auglýsingu á sama vef ( Verkefnastjóri frístundastarfs), að hafa viðeigandi háskólamenntun né reynslu af starfsemi af þessum toga. Viðkomandi „fagmenn“ eiga síðan að koma inn á hinum ýmsu starfstöðum sem „sérfræðingar“ þegar að á mæðir og þörf gerist (sbr Excel útfærslu/ bls 13, Greinagerð starfshóps) ? Það er einnig stórkostlegt álitamál hvernig einhver deildastjóri á að starfa sem næsti yfirmaður rúmlega 50 starfsmanna sem vinna á fjölda starfsstaða (bls 13, Greinargerð starfshóps). Þetta er algert metnaðarleysi þar sem markmiðið virðist fyrst og fremst vera að skera ennþá meira niður í þessum mikilvæga málaflokk en gert hefur verið á umliðnum árum og þykir þó flestum nóg um, ekki síst unga fólkinu sem sýndi hug sinn í verki með eftirminnilegum hætt með mótmælum við bæjarskrifstofurnar haustið 2009.

Innleiðing á þessari löngu tímabæru sameiningu hefði mátt útfæra með einföldum og tiltölulega átakalitlum hætti. Grundvallaratriði er að byggja breytingarnar á uppeldisfræðilegum forsendum fremur en einhverjum Excelskjölum. Það sparast strax við sameiningu umtalsverðar fjárhæðir vegna minni kostnaðar við yfirstjórn HS í hverjum skóla . Með aðhaldi, reyndu og góðu fagfólki má útfæra þetta svo vel verði og samlegðaráhrif verði enn meiri. Hitt er svo öllu verra að fjöldi lykilstarfsmanna ÍTH, vel menntuðu fólki á sviði æskulýðsmála , traustu og virtu fagfólki, er svo misboðið að viðkomandi sækja ekki um „niðurfærð“ störf í nýju skipulagi og hverfa á braut. Það er afspyrnu slæmt en segir það sem segja þarf, eru óþægilega skýr skilaboð sem vert er að taka mark á. Í þeim gögnum sem ég hef séð er lítið fjallað um innhald starfseminnar, uppeldisfræðileg markmið, starfsskrá eða annað í þeim dúr. Ég get ekki heldur séð að ágæt umsögn kollega minna í Háskóla Íslands um aukna fagmennsku og mikilvægi menntunar á þessu fagsviði hafi ratað inn í þessa útfærslu (sem nb er að virðist önnur en óskað var umsagnar um )? Það er leitt að horfa upp á þetta klúður sem seint verður flokkað undir fagmennsku. Ég ráðlegg bæjaryfirvöldum eindregið að endurskoða þessa innleiðingu frá A- Ö og framkvæma þetta af einhverjum þeim metnaði og fagmennsku sem er bæjarfélaginu sæmandi. Í því liggja hin faglegu sóknarfæri og raunverulegur „arður“ - Æskan er okkar fjársjóður.

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.águst

Engin ummæli:

Skrifa ummæli