fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík

Mestu öfugmæli  sveitarfélaga og annara vinnuveitanda í kjaramálum ( s.l. 30 - 40 ár amk) er frasinn að allt fari til andskotans í efnahagsmálum ef laun hækki. Þangað er allt farið og enn hanga viðsemjendur launafólks á grjótharðri láglaunapólitík eins og hundar á roði, við erum ennþá í þessum láglaunpytti.

Ef litið er til sögunnar þá hefur aldrei verið ráðrúm til launahækkana, hvorki í góðærum eða á samdráttarskeiðum. Rök vinnuveitenda hafa hverju sinni verið gaumgæfilega útfærð og ekkert endilega í samhengi við þau sem áður voru eða eftir á komu.  Í góðærum ógna launahækkanir "stöðugleika" og á samdráttarskeiðum "þarf" að leggja niður og draga saman grunnþjónustu ef laun fara yfir fátækrarmörk. Allt rök sem vega að öryggistilfinningu fólks og ala á ótta þess. Svona mætti lengi telja og þegar að mest á mæðir taka talsmenn vinnuveitenda þetta á "tárakirtlunum"  enda eftir nokkru að slægjast, stöðug láglaunapólitík í húfi .

Það sem verra er að margur trúir því að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík sé orsök alls okkar vanda. Þokkalegt sjónvarpstæki og notaður 7 ára gamal fjölskyldubíll er talin orsök hrunsins mikla. Og það að eiga eða hafa þokkalega umgjörð um sig og sína þykir lúxus hérlendis en meðal flestra þjóða talið til grunnþarfa. Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl og varð m.a. til þess að hrunið kom verr niður á okkur en ella.

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter, sem seint verður talið málsvari félagshyggjunnar, birti,  í kjölfar hrunsins hérlendis, m.a. grein í þessa veru. Í greininni var því haldið fram að vegna lágra launa í hinu íslenska samfélagi "allsnægta" þá hefðu íslendingar fjármagnað neyslu sína með lánum fremur en sparnaði af launum eins og ku vera alsiða í nágrannalöndum okkar þar sem ríkari sátt er um skiptingu auðsins en hérlendis. Í stað sanngjarnar tekjuskiptingar í efnuðu íslensku samfélagi hefði fjármagn safnast á nánast einn stað, í bankakerfið sem síðan lánaði öllu sem hreyfðist (m.a ómálga börnum - innskot ÁG) á okur vöxtum með hræðilegum afleiðingum eins og launafólk margt hvert hefur fengið að reyna í kjölfar hrunsins.

Verkalýðshreyfingin þ.m.t. ég sem f.v. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og  f.v. stjórnarmaður í BSRB m.m. höfum ekki staðið okkur sem skyldi á umliðnum árum eða áratugum. ASÍ hefur að vísu átt góða spretti en betur má ef duga skal. BSRB hefur oft verið meira áberandi en um þessar mundir.

Leikskólakennarafélagið sýnir gríðarlegan styrk um þessar mundir. Frammistaða formannsins í Kastljósi þar sem hann blés á og hrakti hefbundin harmakvein kjarasviðs sveitarfélaganna, var afar góð. Það er einlæg von mín að leikskólakennarar nái markmiðum sínum, enda algerlega nauðsynlegt að brjóta á bak þessa grjóthörðu íslensku láglaunapólitík. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans og ekki síst sem liður í því að byggja upp samfélag sem byggir á öðrum gildum en þeim sem komu okkur til "andskotans". Með því að ganga fram fyrir skjöldu og berjast af einurð og festu fyrir bættum kjörum hafa leikskólakennarar sýnt í verki að þeir eru verðugir fulltrúar samfélagsins til þess að innleiða nýja launastefnu, sem er grundvallarforsenda fyrir sátt í samfélaginu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli