miðvikudagur, 31. desember 2008

Frábært framtak hjá talsmanni neytenda

Birti hér orðrétt tilmæli talsmanns neytenda ( http://talsmadur.is/ ) vegna nafnleysingja í vefheimum.

"Raunhæf æruvernd sé tryggð á bloggsíðum
Þess hefur verið farið á leit við mbl.is að tryggt sé að rétthafi bloggs sé rétt skráður og að unnt sé að fá upp gefið nafn þess sem bloggar undir nafnleynd ef sýnt er fram á lögvarða hagsmuni af því. Með þessu vill talsmaður neytenda tryggja raunhæfa æruvernd og auka neytendavernd.

Morgunblaðið
Ingvar Hjálmarsson
Árvakur hf. Hádegismóum 2 110 Reykjavík
Reykjavík, 30.12.2008
Tilv. 2008/0015 - 2.1 g
GT

Tilmæli frá talsmanni neytenda (TN 08-3)


Efni: Raunhæf æruvernd sé tryggð á bloggsíðum
Að gefnu tilefni, að teknu tilliti til sjónarmiða sem talsmaður neytenda hefur leitað eftir hjá mbl.is, í samræmi við 1. mgr. 71. gr. og 1. málslið 2. mgr. 73. gr.
stjórnarskrárinnar og meginreglur laga nr. 57/1956 um prentrétt varðandi ábyrgðarröð, og í ljósi dómsúrlausna varðandi ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um æruvernd, beinir talsmaður neytenda eftirfarandi tilmælum vinsamlegast til mbl.is sem rekstraraðila bloggþjónustu gagnvart neytendum í því skyni að stuðla að aukinni neytendavernd:
Framvegis verði tryggt að rétthafi bloggs sé rétt skráður hjá mbl.is - t.d. með bréfi í kjölfar skráningar á lögheimili tilkynnts rétthafa bloggs.
Sé boðið upp á nafnleynd rétthafa bloggs verði þeim, sem sýna mbl.is fram á lögvarða hagsmuni af því, veittar upplýsingar um fullt nafn og kennitölu rétthafa bloggs eða - í tilviki lögaðila - ábyrgðarmanns þess. Einnig er farið fram á að í skilmálum um blogg á mbl.is verði eftirleiðis upplýst um að rétthafi eða ábyrgðarmaður bloggs kunni að bera lagalega ábyrgð á ummælum nafnlausra notenda í athugasemdakerfi þess.
Virðingarfyllst,

talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason. "


Frábært framtak hjá talsmanni og ættu allir þeir aðilar sem halda úti vefkerfum að tileinka sér þessar reglur, a.m.k. allir þeir sem vilja láta taka mark á sér.

Óska lesendum síðunar farsældar á komandi ári

mánudagur, 22. desember 2008

Hver á hvað? – eignatengsl þingmanna

Olof Palme hinn sænski náði sér í mörg prik sem þingmaður og leiðtogi jafnaðarmanna í Svíþjóð þegar að hann fól starfsmannafélagi stórverslunarinnar PUB fullt og ótakmarkað umboð á eignarhlut sínum í fyritækinu svo lengi sem hann væri í stjórnmálum. Palme fór þarna skerfi lengra en hann þurfti en það hefði nægt honum að gefa upp eignarhlut sinn.

Þetta leiðir hugann að hinum napurlega íslenskra raunveruleika sem er sá að íslenskir þingmenn virðast ekki þurfa, frekar en þeir vilja, að gefa upp eignartengsl sín m.t.t. hagsmunaárekstra eða vanhæfis í umfjöllun á þingi. Sumt er opinbert eins og formennska og eða stjórnarseta einhverra þingmann í eignarsjóðum sem og í stjórnum einhverra fyrirtækja, aðrir eru í einhverjum rekstri, einhverjir eiga hluti í fyrirtækjum beint eða óbeint, en margt annað er þoku hulið.

Og þó maður gefi sér auðvitað að þingmenn sinni skyldum sínum af fyllstu trúmennsku þá vantar nokkuð upp á að svo sé a.m.k. þar til að þessar sjálfsögðu upplýsingar um þingmenn okkar liggja fyrir með formlegum hætti á opinberum vettvangi – hefur sennilega aldrei verið nauðsynlegri en akkurat núna á þessum miklu ólgutímun þar sem gerðir þingsins í stóru og smáu þurfa að vera hafnar yfir allan vafa um annað en ítrustu hagsmuni almennings.

Skora á þingmenn að birta slíkt af eigin frumkvæði t.d. á heimasíðu Alþingis - ef ekki þá er alger nauðsyn að Alþingi Íslands setji lög um um upplýsingaskyldu af þessum toga.

sunnudagur, 14. desember 2008

Nafnleysingjar í bloggheimum...

... vega lítið í umræðunni. Finnst það sérstakt að virðulegir vefmiðlar eins og Eyjan, Mbl, Visir og fleiri slíkir geri ekki kröfu um að fólk skrifi undir nafni? Mér finnst algerlega óviðeigandi að fólk getir ausið alskyns fúkyrðum og óhróðri um menn og málefni í skjóli nafnleyndar. Meðan að slíkt er látið viðgangast þá hlýtur viðkomandi miðill að vera ábyrgur fyrir nafnlausum ummælum ? Margir einstaklingar og vonandi sífellt fleiri gera kröfu um að fólki kommenti með fullu nafni - Það ættu stærri vefmiðlar undantekningarlaust einnig að gera. Umræða yrði bæði yfirvegaðri og vandaðri svo ekki sé minnst á það að vera laus við fólk sem þorir ekki að gangast við sjálfu sér – Skora á alla vefmiðla sem vilja láta taka mark á sér að breyta fyrirkomulagi hvað þetta varðar – Raunveruleg umræða krefst raunverulegs fólks - ekki satt?

miðvikudagur, 10. desember 2008

Í landi hinna tæknilegu mistaka...

... væri ekki úr vegi að opna heimasíðu í svipuðum dúr og hin ágæta okursíða Dr Gunna . Tæknileg mistök væri fínt nafn. Það mætti tölusetja hin tækilegu mistök sem upp munu koma og með því móti halda utan um það rugl sem er sífellt að koma upp og sem á eftir að koma í ljós á næstu misserum.

Tæknileg Mistök 1 : Bankastjóri Glitnis sleppur við að borga hlutabréfkaup sem tilkynnt höfðu verði til Kauphallarinnar.

Tæknileg Mistök 2: Eigendur Next og Nova Nova skipta um kennitölur á fyritækjum og fá fyritækið á tombóluprís “af því að hið erlenda fyrirtæki vildi ekki að neinn annar starfi fyrir þá?” Eins og öllum sé ekki nákvæmlega sama um það.

... og svona mætti lengi telja. Kasta þessari hugmynd á loft hér í bloggheimum og vona að einhver hafi tíma og nennu til þess að stofna svona síðu. Myndi glaður taka slíkt að mér ef ég hefði aðstöðu til.

laugardagur, 6. desember 2008

Blaðamennska - nei varla

Ásmundur Helgason “blaðamaður “ fer mikinn í síðasta tölublaði Mannlífs sem og hinum ýmsu blöðum útgáfufélagsins Birtings. Heldur eru “fréttirnar“ einhæfar og leiðinlegar eða í sem styðstu máli myndir af brennivínsflöskum frá hinum ýmsu framleiðendum sem og texti sem hann tekur sennilega i fóstur frá hinum sömu framleiðundum. Einkennandi er að allt er þetta hágæða vara sem er borin er “verð”skulduðu lofi sem um munar ef marka má skrif Ásmundar. Í umfjöllun “blaðamannsins” ber ekki á nokkru um vankanta vörunnar eða annarri gagnrýni? Síðan eru þetta sömu fréttirnar í blaði eftir blaði?

Blaðamennska nei  “blaðamaðurinn” Ásmundur Helgason er einnig er titlaður auglýsigarstjóri Mannlífs, og ritstjóri þess sama blaðs Sigurjón M Egilsson dubbar þess í stað auglýsingastjórann upp í “blaðamann” sem birtir grímulausar áfengisauglýsingar. Hlutverkið einfalt, að taka á sig glæpinn - ekki bara í Mannlífi heldur mörgum öðrum blöðum útgáfufélagsins Birtings.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að Ásmundur hafi af þessu efnahagslegan ábata og því mun ég alls ekki halda því fram að blaðamaðurinn eða blaðið fái 1.000.000 – 1.500.000 krónur eða önnur jafnvirð hlunnindi fyrir hverja “frétt”. Því fer fjarri, hér er það einskær áhugi á þessari tegund “blaðamennsku” sem knýr auglýsingastjórann með blaðamannaáhugann áfram.

Ritstjóri Mannlífs var fyrir nokkru dæmdur (11.júní 20008 / sjá umfjöllun Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum http://www.foreldrasamtok.is/ Dómar) til sektar vegna brota á lögum um banni við áfengisauglýsingum og því er það með eindæmum að tímaritið skuli í engu taka mið af nýföllnum dómi sbr. desember tölublað tímaritsins og misvirða Héraðsdóm Reykjavíkur og sniðganga niðurstöður dómsins með öllu? Viðskiptasiðferði og virðing fyrir lögum landsins er minni en engin – sýnir þvert á móti einbeittan og einlægan brotavilja. Er tímaritið Mannlíf og útgáfufélagið Birtingur hafið yfir lög, ber tímaritið Mannlíf og útgáfufélagið Birtingur enga virðingu fyrir lögvörðum rétti barna og unglinga?

þriðjudagur, 2. desember 2008

Heilsuverndarstöðin ehf í gjaldþrot ...

...en var tilraun sem tókst afar vel að mati heilbrigðisráðherra ? m.a vegna þess að s.k. ganga innlögnum fækkaði á meðan hinnar vellukkuðu einkavæðingar naut við? Sennilega ekki á færi annara en ofsatrúaðra einkavæðingarsinna að skilja þessi rök ráðherrans – við hin teldum affarsæalst að auka fjárframlög til sjúkrahúsa svo þau geti sinnt starfi sínu eins og best verður á kosið og boðið sjúklingum upp á sómasamlega vist. Ritaði eftirfarandi hugleiðingar um einkavæðingu á Dagskinnuna fyrr tveimur árum (2006):

Er íslensk einkavæðing eitthvað öðruvísi ?

Einkavæðing í Evrópu. Var sem sagt fyrir tveimur árum staddur í Luxemburg á tveggja daga fundi hjá EPSU. Á okkar ágæta máli myndi það útleggjast sem Fulltrúaráð Evrópskra bæjarstarfsmannafélaga. En í því sat ég (sem þ.v. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar) fyrir hönd BSRB um nokkurra ára skeið. Dr. David Hall frá háskólanum í Greenwich var að fara yfir þróun þessara mála í Evrópu síðustu árin og niðurstöður um margt merkilegar, m.a.:

Að samningum um einkavæðingu fylgir leynd sem gerir að verkum að almenningur hefur ekki sama aðgang að upplýsingum um t.d. hvernig staðið er að viðkomandi þjónustu. Þ.e.a.s. að almenn upplýsingaskylda gildir ekki þegar að búið er að bjóða út þjónustuna? sérkennilegt í meira lagi.

Að kostnaður og gæði fara saman og að gæði eftir einkavæðingu séu betri en verið hefur er fjarri því að vera rétt. Mýmörg dæmi eru um hið gagnstæða, hins vegar eru stjórnmálamenn áfram um að lækka framlög og “spara”. Einkavæðing sé því oftast í raun leið til þessa að minnka raunverulegt þjónustustig og oft á tíðum verulega og spara með því einhverjar örfáar krónur sem þó séu ekki í nokkru samræmi hinn raunverulega niðurskurð þjónustunnar sem auk þess sé mun dýrari fyrir neytendurna en áður var.

Fleiri og fleiri dæmi koma upp þar sem samfélagið þarf að endurfjármagna og koma í gang einkavæddri samfélagsþjónustu sem farið hefur á hausinn. Sparnaður því til lengri tíma ákaflega lítill og oft rándýrt fyrir samfélagið, eins og dæmið um risagjaldþrot hinnar einkavæddu Vatnsveitu í Grenoble sýndi glögglega.

Hall rannsakaði Farum málið í Danmörku, og eftir nokkrar tilraunir til þess að setja einkavæðingar starfsemi þess bæjarfélags í vísindalegt samhengi og án nokkurs árangurs... eða hvað... þá komst hann að þeirri niðurstöðu; sem var samt sem áður hávísindaleg; að allt sem laut að einkavæðingu í Farum byggði að (ofsa)trúarlegum forsendum fremur en útreikningum um gildi þess að einkavæða og þess vegna hafi nú farið eins og fór.

Þannig var það nú - spurningin því, er einkavæðing almennt í þágu almennings eða almannahagsmuna? - Nei held að það sé af og frá - snýst um allt aðra hluti sem ekkert hafa með velferð almennings að gera?

... og svo á að breyta Orkuveitunni - að vísu bara formbreyting, nákvæmlega eins og menn sögðu um Símann hér um árið... og það vita allir hvernig það endaði.

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Góð ráð fyrir þingmenn frá ungri ...

...stúlku af Akranesi sem hafði ákveðnar meiningar gegn áfengisauglýsingum en í fundargerð kom eftirfarandi fram:

“Una Harðardóttir, bæjarfulltrúi unga fólksins úr Brekkubæjarskóla, fjallaði um lög um auglýsingar á vímuefnum. Í máli Unu kom fram að á Íslandi væru lög sem segja að ekki megi auglýsa áfengi… sjá nánar á heimasíðu foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum www.foreldrasamtok.is

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Æskan á erfiðum tímum

Í bókinni Da Danmark fik sin ungdom, saga Ungdomsringen (Danska Samfés) í 50 ár, kemur fram hve gríðarlega mikilvægu hlutverki félagsmiðstöðvar gegndu á stríðstímum í hinni hernumdu Danmörku. Í Dönsku andspyrnuhreyfingunni var margt ungt fólk sem upplifði því miður ýmislegt sem ekki var beinlínis uppbyggilegt. Samfélagið varð því að finna einhver ráð til þess að halda utan um ungviðið. Í þeim efnum voru félagsmiðstöðvar í lykilhlutverki – ekki hvað varðar skipulag og starf andspyrnuhreyfingarinnar – félagsmiðstöðvar voru lykilaðilar í því að halda hinum mannlegu gildum að ungmennum, gildum sem því miður fer lítið fyrir í stríðsátökum og gildum sem því miður verða ríkjandi ef ekkert er aðhafst í þeim samfélögum þar sem allt fer á skjön. Hættan er því sú að kynslóðir ungs fólks sem ekki hafa hin sammannlegu gildi í hávegum vaxi upp og lifi og starfi í samfélaginu út frá reynslu sem ekki virkar með tilheyrandi árekstrum og vandamálum.

Ekki ætla ég að jafna ástandi hérlendis þessi misserin við reynslu þeirra sem búa yfir hinni sáru og óbærilegu reynslu stríðsátaka. Ég ætla hins vegar að halda því fram að kreppan sem læðist að okkur eins og skugginn muni hafa margvíslegar félagslegar afleiðingar sem hugsanlega munu leiði til einhverskonar afskiptaleysis gagnvart æskunni. Við slíkar aðstæður er hætta á að unglingurinn/ barnið telji að hið erfið ástand sé því að kenna. Sá sem þetta ritar upplifði kreppuna 68 með augum barnsins, skynjaði að eitthvað var að en skyldi ekki hvað það var og eða hvers vegna var svona dauft yfir fullorðna fólkinu. Í þessu ljósi er því gríðarlega mikilvægt að gleyma ekki ungviðinu eins og því miður gæti orðið raunin. Æskulýðsstarf í sinni víðustu mynd hefur því afar miklu hlutverki að gegna og góðu fréttirnar eru þær að við eigum góða að í þeim efnum; starfsemi félagsmiðstöðva er með miklum blóma , Ungmennafélagshreyfingin, Skátarnir, KFUM & K, íþróttahreyfingin og fleiri státa af mjög fjölbreyttu og vönduðu starfi. Hlutverk stafsmanna í æskulýðsstarfi er alltaf mikilvægt og á tímum eins og þessum sérlega mikilvægt. Hin faglega kunnátta að geta unnið með börnum og unglingum út frá hinum félaglegu afleiðingum kreppunnar eru sönn verðmæti sem ekki verða metin til fjár á hinum síðustu og verstu...

laugardagur, 8. nóvember 2008

Frábært framtak hjá Hinu Húsinu

Klár í kreppu? er ókeypis og óháð fjármálanámskeið á mannamáli fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem Hitt Húsið heldur í samstarfi við Neytendasamtökin og Reykjavíkurborg . Frábært framtak.

Sjá nánar á vefsíðu Hins Hússins

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Í landi hinna “tæknilegu mistaka” ...

... segir ekki nokkur maður af sér ... skiptir í engu hvort maður er verkalýðsforingi í siðlausri bankastjórn, stjórnmálamaður sem er giftur “besta vini aðal”, þaulsetinn dvalargestur á pólitísku elliheimili sem sumir nefna Seðlabankann ... og svona mætti lengi telja.

Ekki segir nokkur maður af sér – Hvað ætli þessi “tæknilegu mistök” í efnahagslífinu hafi kostað þjóðina mörg þúsund trilljón billjón milljónir Tobleron pakka. Einn Tobleron pakki var einum Tobleron pakka of mikið hjá vinum mínum Svíum sem þekkja ekki hið séríslenska hugtak “tæknileg mistök”.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Fólk er fífl sagði ...

Fólk er fífl sagði Tómas Möller einn af yfirmönnum Olís í frægum tölvupósti í tengslum við verðsamráð olíufélaganna hér um árið. Sýndi auðvita með því fyrst og fremst eigin hroka og dómgreindarleysi. Ætti frekara í hans tilfelli að vera reynum að hafa fólk að fíflum.

Sjálftökulið bankakerfisins hefur greinilega sambærileg viðhorf til almennings þegar í ljós kemur að menn þar á bæ reyna aðallega og eftir fremsta megni að bjarga eigin skinni. Eru eins og skipstjóri sökkvandi skips sem fer fyrstur í bátinn, tekur með sér þá áhafnarmeðlimi sem klúðruðu ferðinni, brunar í burtu og skilur alla farþegana eftir á sökkvandi skipi. Um slíka kapteina og hans fylgilið má með réttu hafa uppi ummæli sambærileg þeim og forseti vor viðhafði eitt sinn í þingsölum Alþingis um mann einn sem honum fannst lítið til koma.

Eitt er það að klúðra, annað að standa andspænis klúðrinu og vera manneskja til gangast við því og gera sitt besta til þess að leysa mál í þágu þeirra sem klúðrið bitnar á. Fíflin í huga Tómasar Möller kallast á íslensku fórnarlömb, hinn sk. almenningur. Hin raunverulegu ((fífl (ef maður kýs yfirhöfðuð að hafa uppi slík ummæli um fólk)) vita allir hver eru og það sem verra er að þau skarta auk þess ýmsum öðrum löstum tegundarinnar homo sapiens sem ég læt lesendum dagskinnunnar eftir að viðhafa.

föstudagur, 31. október 2008

Rio Tinto er ekki jólasveinninn

Í gær var heilsíðuauglýsing í Fjarðarpóstinum frá Rio Tinto (með einum eða öðrum hætti) um undirskriftarherferð til stuðnings nýjum íbúakosningum um stækkun álvers Rio Tinto. Einnig grein frá starfsmanni álversins um að nú sé lag að redda atvinnumálum í Hafnarfirði og ef ekki bara gjaldeyrismálum þjóðarinnar .

Það eru nú aldeilis tíðindi að Río Tinto bregði sér í líki jólasveinsins og ætli sér að bjarga í einu vettvangi því klúðri sem nokkrir fjármálamenn hafa komið þjóðinni í. Eins og kunnug er þá eru hvergi þekkt dæmi um slíkt hjá Rio Tinto fyrirtækinu sem er því miður þekkt af öðru sbr umsvif fyrirtækisins í Indónesíu og víðar sem varð til þess að Norski Olíufjárfestingarsjóðurinn vill ekki bendla sig við fyrirtækið.

Veit ekki hvort það var meiningin með íbúalýðræði í Hafnarfirði að afar umdeilt alþjóðlegt stórfyrirtæki ráðist í hundruð milljóna „kosningabaráttu“ ár eftir ár? Haldi úti persónunjósnum um fólk sbr úrskurð Persónuverndar , haldi úti her launaðra starfsmanna, ráði til sín færustu ímyndar sérfræðinga, birti glansauglýsingar í dýrustu miðlum landsins, svona mætti telja og ekki má gleyma disknum hans Bo sem við Hafnfirðingar fengum sendan heim í álpakkningum. Er þetta íbúalýðræði ? Nei því fer fjarri þetta er grímulaus hagsmunabarátta stórfyrirtækis .

Þrátt fyrir erfiða tíma þá er margt í pípunum í Hafnarfirði. Allt stefnir í að frá Hafnarfirði hefjist umsvifamikill vatnsútflutningur . Umsókn um netþjónabú er til umræðu og svona mætti lengi telja. Rio Tinto álbræðsla sprettur ekki upp morgun og hefur enga þýðingu í þeirri krísu sem nú geisar. Álver og mengandi stóriðja nánast í miðbæ Hafnarfjarðar eru ekki lausnir morgundagsins – Samfélag morgundagsins byggir á umhverfisverndarsjónarmiðum og umhverfisvænni atvinnustarfsemi.

fimmtudagur, 30. október 2008

Hvað varð um gamla góða Moggann eða var ...

Mundi eftir alvöru leiðara í Mogganum um áfengismál. Minnti að það hafa verið fyrir margt löngu? Reyndar var Mogginn í mörg ár sá fjölmiðil sem virti í hvívetna lög um bann við áfengisauglýsingum. En viti menn það var fyrir rétt rúmi ári síðan að meðfylgjandi ritstjórnaragrein birtist. Grein sem ég get heilshugar tekið undir enda skrifuð af skynsemi og skilning á málefninu. Tilefnið hið marg framlagða frumvarp um sölu brennivíns í matvörubúðum , frumvarp sem aftur leit dagsins ljós í ár, ásamt frumvarpi um heimild til að auglýsa áfengi. Bæði þessi frumvörp illa unnin og byggja á 10- 12 ára gömlum heimildum.

Sala áfengis – Ritstjórnargrein MBL 16. Okt 2007
"Enn á ný er frumvarp til breytingar laga um verslun með áfengi komið til kasta Alþingis. 17 þingmenn úr þremur flokkum eru skrifaðir fyrir frumvarpinu. Markmið frumvarpsins er að leyfa sölu á léttvíni og bjór í stórmörkuðum og matvöru- og nýlenduvöruverslunum. Í greinargerð með frumvarpinu segir: "Erfitt er að finna rök fyrir tilvist áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins en aftur á móti eru fjölmörg rök gegn henni." Er það virkilega svo erfitt?

Flutningsmenn frumvarpsins telja að núverandi fyrirkomulag sé tímaskekkja og eigi rætur að rekja til þess tíma sem "menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og fyrir einungis um 15 árum var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur". Þetta er ef til vill fyndið.

Ekkert er hins vegar skoplegt við málið sjálft. Áfengi er vara af allt öðrum toga en bílar, útvörp, sjónvörp, símar og eldspýtur. Engri vöru, sem seld er með löglegum hætti hér á landi, fylgir jafn mikil ógæfa og áfengi. Fjöldi Íslendinga á daglega í lífs- og sálarstríði við áfengisvanda, sem aldrei hverfur þótt hægt sé að halda honum niðri. Freistingarnar eru nægar og það er síður en svo eins og erfitt sé að ná í áfengi eða fólk láti það standa í vegi fyrir drykkju að geta ekki keypt áfengi í matvörubúðum.

En er ekki óþarfi að ekki sé hægt að kaupa í matinn án þess að freistingarnar blasi við fólki, sem á fullt í fangi með að halda sig á réttu spori? Er til of mikils mælst að fólk leggi það á sig að fara í sérstakar verslanir til að kaupa áfengi? Vissulega er göfugt markmið að ætla að einfalda fólki lífið, en ekki má gleyma að þessi ráðstöfun myndi einnig gera lífið að martröð fyrir fjölda manns.
Í greinargerðinni með frumvarpinu er lítið gert úr því að lögleiðing sölu áfengis í matvörubúðum muni hafa áhrif á aðgengi þeirra, sem ekki eru orðnir tvítugir, en er hægt að fullyrða það? Eftir því sem sala á áfengi verður dreifðari verður eftirlitið erfiðara.

Það er athyglisvert að í greinargerðinni er hvergi talað um áfengisvandann. Hún gæti rétt eins snúist um sölu á eplum eða súrmjólk. Hér er hins vegar á ferðinni frumvarp, sem engin ástæða er til að samþykkja. Í umræðum á þingi í gær var bent á að forvarnir hefðu ekki virkað. Munu þær virka betur verði frumvarpið samþykkt? Það er eins og flutningsmenn frumvarpsins séu tilfinningalausir og geri sér enga grein fyrir því um hvað áfengisvandamálið snýst." (MBL 16.okt 2007)

miðvikudagur, 29. október 2008

Morgunblaðið má mun sinn fífil fegurri

Leiðari Morgunblaðsins í dag um áfengi og auglýsingar er afar furðulegur.

“Á Íslandi er bannað að auglýsa áfengi. Engu að síður er áfengi mikið auglýst á Íslandi. Lögin hafa í raun verið til málamynda og það hefur verið látið refsilaust að auglýsa áfengi. Þar til fyrir helgi að Karl Garðarsson, fyrrverandi ritstjóri Blaðsins, var dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar.
Í sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara, sem vildi láta málið niður falla, kom fram að í samantekt á ætluðum áfengisauglýsingum í íslenskum blöðum og tímaritum á tímabilinu 1. maí 2005 til 2. júní 2006 hefðu greinst 999 tilvik. Með öðrum orðum hefðu lögin að því er virðist ítrekað verið þverbrotin án þess að lögregla eða ákæruvald lyftu litla fingri. Nema til þess að bregðast við auglýsingunum í Blaðinu.
Hér er eitthvað að. Áfengisauglýsingar eru daglegt brauð. Meira að segja áfengisverslun ríkisins kynnir þjónustu sína reglulega. Auglýsingar þar sem varað er við því að drekka eins og svín eru sýndar í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Það á sem sagt að drekka í hófi. Og auglýsandinn getur útvegað veigarnar til hófdrykkjunnar. Auglýsingarnar eru rækilega merktar honum. Við réttarhöldin var einnig vísað í Vínblaðið, kynningarblað ÁTVR, þar sem finna mætti áfengisauglýsingar. En líklegast er engin ástæða til að fara í mál við ríkið. Ríkið predikar hvernig umgangast eigi vín og auglýsir sjálft sig í leiðinni.
Tvískinnungurinn á bak við framkvæmd laganna, sem banna birtingu áfengisauglýsinga, er alger. Dómurinn yfir Karli Garðarssyni er vitaskuld í samræmi við lög. Lögin eru bara notuð það sjaldan að þegar þeim er beitt jaðrar það við réttarbrot.” (Ritstjórnargrein MBL 26/10 08)

Undarlegur leiðari og ljóst að hinn ónefndi höfundur hefur ekki kynnt sér mál sem skyldi. Dæmi um slík er eftirfarandi:

"... það hefur verið látið refsilaust að auglýsa áfengi. Þar til fyrir helgi að Karl Garðarsson, fyrrverandi ritstjóri Blaðsins, var dæmdur til að greiða eina milljón króna í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar." segir í ritstjórnargrein. Þetta er einfaldlega rangt það hafa all nokkrir dómar fallið en alltof fáir miðað við fjölda afbrota. Karl Garðarson er ekkert sérstak "fórnarlamb" framkvæmdastjórar ýmissa fyrirtækja í áfengisbransanum njóta þessa vafasama "heiðurs" sem og Reynir Traustason þv Mannlífs ritstjóri svo nokkur dæmi séu nefnd.

"Það keyra allir á 200 km hraða og af hverju er ég bara sektaður" eru rök sem ekki eru samboðin hvorki Morgunblaðinu né öðrum. Auðvitað á að gefa út kærur í þessum málum eins og gangvart öðrum augljósum lögbrotum. 0.001% eru kærðar - hvar er jafnræðisreglan gagnvart öðrum brotamönnum á ekki að gefa út 999 kærur þar sem sannarlega liggur fyrir mat a.m.k. eins Hæstaréttardómara að um brot sé að ræða. Ef það er bara nóg að glæpum á þá að hætta að kæra?

Bann á tóbaks- og áfengisauglýsingum lúta heilbrigðis og velferðarsjónarmiðum en ekki grjóthörðum viðskiptasjónamiðum. Tóbak (þ.m.t. "ávaxtatóbak" sbr "léttöl"? og Mogginn sá ástæðu til að “kynna” um daginn sem nýjan trend unga fólksins) hefur ekki verið auglýst en ætti samkvæmt nákvæmlega sömu röksemdum og menn í áfengisbransanum nota um áfengisauglýsingar að vera leyfilegt. Það vill engin sbr hörð og afar neikvæð viðbrögð gagnvart umfjöllum Moggans um "ávaxtatóbak" og sama á við um áfengisauglýsingar, foreldrasamfélagið er á móti þessu og börn og unglingar eiga lögvarin rétt til þess að vera laus við þennan gengdarlausa áróður - Fjölmiðlar , auglýsingastofur, áfengisframleiðendur og áfengisinnflytjendur fara sínu fram , virða lögin að vettugi og taka ýtrustu viðskiptahagsmuni fram fyrir rétt barna og unglinga og lög landsins - Er Morgunblaðið blað hinna ýtrustu viðskiptahagsmuna jafnvel þó að það sé á skjön við íslensk lög ? Auglýsingasiðferði er það óþekkt hugtak þegar þetta sjálfsagða velferðarmál æskunnar er til umfjöllunar?

fimmtudagur, 23. október 2008

Eiga börn að afgreiða auglýst áfengi til annara barna

Á Alþingi voru nýverið lögð fram tvö gömul frumvörp. Annars vegar um leyfi til áfengisauglýsinga. Flutningsmenn eru Sigurður Kári Kristjánsson, Bjarni Benediktsson,Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal.

Og hins vegar um leyfi til sölu áfengis í matvörubúðum. Flutningsmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, og aðrir meðflytjendur Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Einar Már Sigurðarson, Ásta Möller, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir.

Bæði þessi frumvörp eru úrelt því ef litið er í greinargerðir þeirra þá rekur maður fyrst augun í það að frumvörpin byggja á upplýsingum og heimildum sem eru 10 til 12 ára gamlar . Þær “nýjustu ” sýnist mér vera frá árinu 2001. Flutningsmaður – menn þess hafa heldur betur kastað til höndunum í þessari vinnu. Það sem vekur einnig furðu mína er það að formaður heilbrigðisnefndar Ásta Möller er meðflutningsmaður á frumvarpinu um sölu áfengis í matvörubúðum. Finnst það með ólíkindum?

Ef litið er til hagsmuna barna og unglinga þá eru þessi frumvörp fjarri því að geta talist í þeirra þágu. “Fyrimyndarlandið” Danmörk sem býr við svona löggjöf státar að þeim vafasama heiðri að eiga við mestu unglingadrykkju í heimi að etja . Er það eitthvað fyrir okkur – nei takk ómögulega - Hef í gegnum störf mín á vettvangi norðurlandastamstarfs átt viðræður við danska félagsmálafrömuði um þessi mál sem all flestir eru komnir á þá skoðun að bæði verði að takmarka aðgengi unglinga að áfengi sem og að hefta auglýsingar.

Þingið er margsinnis búið að sýna hug sinn til þessara mála í raun og hefur ekki einu sinni áhuga að taka þess mál til meðferðar eða alla vega ekki sett þessi mál í neinn forgang. Á þessum síðustu og verstu tímum er tíma þingsins betur varið í önnur mál en þessi gjörendurnýttu frumvörp með fortíðartilvísunum. Eiga börn í stórmörkuðum að afgreiða auglýst áfengi til annara barna? Veit sem er að það eru ekki margir sem óska þess.

föstudagur, 17. október 2008

Er virk fyllibytta í stjórn SÁÁ ?

Nei sem betur fer ekki enda þau ágætu samtök meðvituð um það að til þess að hafa fullkomið kontrol á stöðunni þarf fólk að vera alsgáð og einbeitt. SÁÁ fólk gerir sér grein fyrir því vitandi af biturri reynslu að best er að sjá hlutina eins og þeir eru en ekki eins og maður heldur að þeir séu. Meðvirkni og afneitun eru því ekki í boði. En hins vegar er slíkt ávallt kvilli þeirra sem þjást í virkum alkahólisma og aðstandenda þeirra

Datt þetta í hug í morgun þegar ég vara að lesa meðfylgjandi grein í Fréttablaðinu eftir Dr. Hannes Hólmstein Gissurarson “Hvað gerðist” (í partý-inu). Þar sem einn fremstu skipuleggjendum veislunnar miklu fer að fimbulfamba út og suður um það að allt sem gekk úrskeiðis í partýinu væri öllum öðrum að kenna en þeim sem skipulögðu það, vitlausir gestir, og ómögulegir nágrannar. Hannes bendir einnig á önnur partý öllu verri þannig að hans partý hafi þrátt fyrir allt verið mjög vel heppnað og svona mætti lengi telja. Svona partý lifi áfram það þurfi bara nýja gesti í þessa tegund af partýum . Jafnvel þurfi að setja einhverjar umgengisreglur en auðvitað bara tímabundið

Bullandi meðvirkni og afneitun um ástand efnahagsmála myndi einhver kalla skrif doktorsins og spurningin því sú hvort heppilegt sé að maður með slíkt veganesti sé í stjórn Seðlabankans – Partý-ið er búið og annað slíkt verður ekki haldið í bráð. Afneitun, meðvirkni og blind bókstafstrú er ekki það sem þarf í dag við “stjórn“ Seðlabankans – alveg á sama hátt og að í stjórn SÁÁ er ekki pláss fyrir virka fyllibyttu.

miðvikudagur, 15. október 2008

Af álverum, olíuhreinsunarstöðvum og ...

... öðru því sem menn telja að "leysi" kreppuna? Sjálfstæðismenn hugmyndafræðingar og aðalábyrgðarmenn hins aðframkoma íslenska hagkerfis telja (a.m.k. í Hafnarfirði) að lausn efnahagsmála felist m.a. í stækkun álversins í Straumsvík sem er í eigu fyrirtækisins Rio Tinto (Sjá nánar umfjöllun MBL hér að neðan).

Boðar fyrirtækið undirskriftasöfnun meðal íbúa bæjarins á vegum (launaðra) starfsmanna þess, í þeim tilgangi að fá samþykkta nýja íbúakosningu um stækkun álversins? sem eins og kunnugt er var felld í fyrra þrátt fyrir gríðarlegan fjáraustur fyritækisins í áróður um eigið ágæti. Rio Tinto er ekki beinlínis þekkt fyrir ríka samfélagsábyrgð eins og dæmin sanna. Spurning er því þessi, ætlum við að "leysa" þetta efnahagsklúður með þriðja heims lausnum a la Rio Tinto. Nei takk ómögulega - ekki risaálver nánast í miðbæ Hafnarfjarðar - skilum komandi kynslóðum allavega þokkalega hreinu og heilbrigðu umhverfi.

Norski olíusjóðurinn hættir að fjárfesta í Rio Tinto
Norski olíusjóðurinn, eftirlaunasjóðurinn sem stór hluti olíuvinnslutekna Norðmanna rennur í, mun ekki lengur fjárfesta í bresk-ástralska námufyrirtækinu Rio Tinto, móðurfélagi Alcan á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík. Ástæðan er námuverkefni, sem Rio Tinto er með í Indónesíu en því fylgir gríðarleg mengun.
Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur eftir Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra, að engar upplýsingar liggi fyrir um að Rio Tinto muni breyta um stefnu í Indónesíu og olíusjóðurinn geti ekki fjárfest í slíkum félögum.
Olíusjóðurinn seldi fyrir tveimur árum hlutabréf í námufélaginu Freeport McMoRan vegna þátttöku félagsins í umdeildum framkvæmdum í á Papua í Indónesíu við svonefnda Grasbergnámu, sem er stærsta gullnáma heims og þriðja stærsta koparnáma í heimi.
Í kjölfarið var bent á að Rio Tinto ætti 40% í Freeport McMoRan. Í apríl í ár bað norska fjármálaráðuneytið seðlabanka landsins að selja bréf olíusjóðsins í Rio Tinto Plc. og Rio Tinto Ltd. Þeirri sölu er lokið en alls voru seld hlutabréf fyrir 4419 milljónir norskra króna í Rio Tinto Plc. og fyrir 430 milljónir norskra króna í Rio Tinto Ltd. Samtals nemur þetta nærri 77 milljörðum íslenskra króna.
NRK segir að við framkvæmdirnar í Indónesíu sé um 230 þúsund tonnum af jarðefni út í vatnakerfi svæðisins og þessi losun muni aukast eftir því sem námugreftrinum vindur fram
.
Heimild mbl.is 10.9.2008

föstudagur, 10. október 2008

Ekki gleyma börnum og unglingum

Á þessum síðustu og allra verstu tímum þá hvílir gríðarleg ábyrgð á okkur sem eldri erum hvað varðar það að upplýsa börn og unglinga um það ástand sem ríkir í samfélaginu. Börn og unglingar skynja ástandið í gegnum foreldra sína og þá sem eldri eru. Þegar að tímar eru víðsjáverðir eins og nú þá er ljóst að margt fólk hefur miklar áhyggjur, er óöruggt og jafnvel mjög reitt. Barn eða unglingur sem upplifir slíkt, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir hvers vegna foreldrarnir eru svona leiðir, verður óöruggt ekki ósvipað því sem á sér stað í brotnum fjölskyldum. Í slíku ástandi á barn eða unglingur t.d. oft mjög erfitt með að einbeita sér í skóla, heldur að leiðin í foreldrunum sé sér að kenna o.sv. frv.

Því er ákaflega mikilvægt fyrir foreldra og aðra uppalendur að setjast niður með ungviðinu og ræða það þjóðfélagsástand sem uppi er. Koma börnum og unglingum í skilning um ástandið og gera þeim kleyft að skilja og vera hluti af því sem á sér stað á þeirra forsendum. Með því sýnum við ekki einungis ábyrgð sem foreldrar og uppalendur - við erum ekki síst að gefa börnum og unglingum gríðarlega gott veganesti inn í breytt þjóðfélag.

laugardagur, 27. september 2008

Dagskinnunni hefur borist bréf ...

... frá einum virtasta knattspyrnudómara landsins og stuðningsmanni Leifturs í Ólafsfirði

Sæll
Velkominn í klúbb áhanganda neðrideilda enskrar knattspyrnu.
Eins og alþjóð veit hef ég haldið með Schunthorp United í 20 ár eða u.þ.b. og aldrei látið deigan síga í þeim efnum. Þetta eru efnilegir klúbbar sem verða kannski aldrei "stórir" en hvað um það, ekkert verri en þessir stóru enda kemur stór hluti leikmanna stóru klúbbana frá þessum uppeldisstöðvum fótboltans.
Læt hér fylgja með slóðina á heimasíðu Schunthorp http://www.scunthorpe-united.premiumtv.co.uk/page/Home
Bestu kveður, go

Guðbjörn Arngrímsson
Sorry að við skildum vinna svona stórt þann 6. sept.

Ágæti vinur
Mínir menn Brighton & Hove Albion oftast kallaðir Mávarnir tóku Man City í nefið í bikarnum unnu 5- 2 eftir vítaspyrnukeppni. Þess vegna fyrirgefur maður mönnum tapið á móti Schunthorp og ekki síst 1- 0 tapið á móti Walshall um daginn þar sem mínir menn voru tveimur mönnum fleiri nánast allan leikinn!

Mávarnir spila að mínu mati sannfærandi kick and run bolta eins og hann gerist bestur og þegar að best lætur í tæklingunum þá má setja niður jarðepli í förin án mikillar fyrirhafnar. Sem sagt afar áferðarfalleg knattspyrna þar sem ekki er sjálfgefið að betra liðið vinni eins og dæmin sanna. Megi Schunthorp ganga vel en þó með þeim fyrirvara að þeir skyggi ekki á Mávana. Bestu kveðjur norður yfir heiðar.

mánudagur, 22. september 2008

Brighton & Hove Albion

Nú hafa veður skipast með þeim hætti að ég hef gerst áhangandi hins léttleikandi enska knattspyrnuliðs Brighton & Hove Albion. Er reyndar Everton maður en viðurkenni fúslega að ég er nokkuð súr út í þá þar sem vinur minn, einn efnilegast leikmaður landsins um þessar mundir, Bjarni Þór Viðarsson fékk takmarkaða möguleika á því að spila með klúbbnum þann tíma sem var þar á mála?. Hitt er svo annað mál að Mávarnir eins og BHA er gjarnan nefnt á tungu þarlendra er í fyrstu deildinni og nokkuð vandfarin vegferð í úrvalsdeildina – ég mun því ekki lenda í neinni teljandi krísu vegan innbyrðis leikja þessara tveggja turna í enskri knattspyrnu –a.m.k. ekki fyrst um sinn –segi því bara den tid den sorg - Sett tilvísun á heimasíðu Mávanna hér til vinstri.

föstudagur, 5. september 2008

Hluti af leiknum auglýsir ...

... brennivínsbransinn og árangurinn lætur ekki á sér standa. Við fáum fótboltaleiki sem ekki eru við hæfi, hvorki barna né fullorðinna, leikmanna eða íþróttahreyfingarinnar. Sjá: Til vandræða horfði vegna ölvunar á knattspyrnuleik.

„Bestur með boltanum“ hvílíkur hroki og öfugmæli – Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir.

miðvikudagur, 3. september 2008

"Pólitísk eftirlaun"

Skrifaði eftirfarandi pistill 12. október 2007 þegar að fyrsti meirihlutinn í Reykjavík féll. Hafði ekki ímyndunarafl til þessa að sjá fyrir allt það sem á eftir kom. Sé þó að hugsanlega var ég sannspár varðandi fv borgarstjóra þó svo að hann fari ekki alla leið til Brussel. Hann þarf sennilega ekki að leita lengra en á Háaleitisbrautina til þess að komast á "pólitísk eftirlaun" – er sennilega betra en að kúldrast fjarri sínu fólki í Evrópska kansellíinu suður í Belgíu.

"Og síðan fer...

...fyrrverandi borgarstjóri á „pólitísk eftirlaun” sem munu felast í þægilegu starfi í Brussel eða á sambærilegum vettvangi. Munu sennilega ekki líða nema 8 - 12 mánuður þar til „eftirlaunin” verða frágengin og okkar maður mun auðvitað þykja happafengur í hverju því samhengi sem um verður að ræða – Er ekki tilveran einföld eftir allt saman."

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Einstaklega óviðeigandi

Það var með eindæmum að eftir skemmtilega Kastljósútsendingu frá Bessastöðum í gærkvöldi þar sem okkar bestu synir og fyrirmyndir æsku þessa lands voru heiðraðir, þá hafi RÚV fundist það viðeigandi að birta langa og ákaflega asnalega áfengisauglýsingu í kjölfarið?

Er reyndar ekki í fyrsta sinn sem RUV fer langt yfir strikið og verður sér til skammar í þessum efnum. Marga rekur minni til þess þegar að forseti Íslands veitti í Íslensku forvarnarverðlaunin fyrir nokkrum árum þá var birt enn ein áfengisauglýsingin og viðhöfninni ,forsetanum og fólkinu í landinu með því sýndur fádæma dónaskapur.

Ég er þeirra skoðunar að RÚV eigi alfarið að fara út af auglýsingamarkaðnum. Ekki vegna viðskipta- og samkeppnissjónarmiða eins og flestir samsinnungar mínir í þessum efnum nefna sem helstu rök. Málið er það að þessu flaggskipi íslenskrar menningar RÚV er ekki treystandi til þess að höndla með þessi mál samkvæmt lögum, almennu siðferði og eða með þeim hætti sem þessari stofnun er samboðið. Meðan að svo er og ef ekki verður alger stefnubreyting þá á RÚV ekkert erindi á auglýsingamarkaðinn.

Hvet alla þá sem þetta lesa til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Starfsmaður í þjálfun ...

... er sennilega sá texti sem þarf að grafa í borgarstjórakeðjuna sem ótt og títt skiptir um axlir og svo ekki sé minnst á merkingu á skrifstofu en þar gætið staðið: Borgarstjóri + nafn viðkomandi og þar undir starfsmaður í þjálfun.

Starfsmannavelta í æðsta embætti ráðhússins er að verða eins og hjá MacDonalds. Uppgrip fyrir hinn ágæta myndhöggvara Helga Gíslason sem mun hafa verkefni mörg ár fram í tímann við gerð brjóstmynda af fyrverandi borgarstjórum og svo eru auðvitað ærin verkefni fyrir skiltagerðarfólk og alla þá er framleiða kynningarefni fyrir Reykjavíkurborg því auðvitað breytist allt nefndarkerfið. Vertíð í nafnspjöldum? - er ekki hægt að líma yfir þau gömlu? ... eða bara setja sama titil á þau öll "Borgarfulltrúi í þjálfun"

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Ó borg mín borg ...

Hið frábæra lag Hauks Morteins verður að sjálfsögðu á efnisskránni hjá Rokkbandinu Plús sem kemur fram á Dönskum dögum í Stykkishólmi um helgina. Lagið útsett í hörku blús sem endurspeglar ástandið um þessar mundir í fjölmennasta úthverfi Hafnarfjarðar sem oftast er nefnt Reykjavíkurborg , en tveir þriðju hljómsveitarmeðlima eru búsettir í þessari ólgusömu byggð.

Það kemur „Dagur“ eftir þetta kjörtímabil en sá ágæti drengur sýnir þá miklu pólitísku kænsku að ónáða ekki andstæðingana þegar þeir eru á fullu í klúðrinu. Kjörþokki margra borgarfulltrúanna er rokin út í veður og vind í þessum atgangi öllum. Harmleikur sem minnir mann mest á annað gott lag „Þrjú hjól undir bílnum og ennþá skröltir hann þó“ Sennilega ekki vitlaust að setja það í prógrammið hjá hinu annars alls ópólitíska gleðibands, rokkhljómsveitarinnar Plús – hver veit?

laugardagur, 2. ágúst 2008

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

Fréttatilkynning

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum opnuðu heimasíðu þann 1. ágúst, slóðin er www.foreldrasamtok.is . Síðan er unnin í hugbúnaðarkerfinu Vefni 1.0 sem Fannar Freyr Gunnarson vefhönnuður á heiðurinn af. Síðan mun á næstum vikum og mánuðum aukast að efni og umfangi. Á síðunni gefur að lít margskonar fróðleik s.s greinar, fréttir, dóma og fleira tengt þessu brýna málefni.

Á heimasíðunni er einnig aðgengilegt kæruform þar sem hægt er að senda inn rafrænt, á mjög einfaldan hátt, kærur vegna brota á banni viðáfengisauglýsingum . Foreldrasamtökin hvetja fólk eindregið til þess að notfæra sér þennan möguleika og tilkynna með þessum einfalda hætti um öll brot sem viðkomandi verður vitni að. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sem þau eiga lögum samkvæmt rétt á að vera laus við. Á meðan að lögin eru ekki virt þá hvetja foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum alla þá fjölmörgu sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti sér að liggja ekki á liði sínu.

mánudagur, 14. júlí 2008

Það segir fátt af einum - Hvar er Hannes ?

Það segir fátt af einum, þessa dagana, þegar að ríkustu fátæklingar í heimi fara að ókyrrast út af bágbornu efnahagsástandi. Hvar er Hannes? spyrja menn í síversnandi kreppunni og velta fyrir sér hver sé hin fræðilega útskýring Hólmsteins Gissurarsonar á þessum vandræðagangi í spilverki nýfrjálshyggjunnar bæði hérlendis og erlendis.

Ekki er nú beint hægt að heimafæra vandræðaganginn upp á gamla Sovétið eða kommunistaliðið. Sumir segja að hugmyndakerfið sé fullkomin “stéttaskilvinda” en aðrir að nú sé þar komið í Matadorinu að allar bestu göturnar séu komnar á fárra manna hendur og nú sjái fyrir lok leiksins. Rót vandans liggi mest megnis í þessu?

Hvað veit maður – Hannes þegir og við hinir ríku fátæklingar vitum ekki af þeim sökum í hvorn fótinn við eigum að stíga í. Erum við eins og tilraunastofa frjálshyggjunnar í Chile eða erum við eins nýfrjálshyggjan í Nýja Sjálandi? Hvað segir Thatcher? Hannes þögnin er æpandi - hefur frjálshyggjan engin svör?

fimmtudagur, 10. júlí 2008

HK gerir mistök

Gunnar Guðmundsson fv þjálfari HK er drengur góður sem og afbragðs þjálfari. Held að það hafi verið mikil mistök hjá stjórn HK á láta hann taka pokann sinn. Félagið hefur búið við þröngan kost og fjárhagsströgl um langt skeið. Þjálfaraskipti kosta sitt og ef til eru aurar í það þá veltir maður fyrir sér hvort ekki hefði verið nær að nýta þá fjármuni í að styrkja liðið. Félaginu mun reynast erfitt að ráða þjálfara upp á þau býtti sem Gunnar bjó við og vann vel úr sbr. gengi liðsins síðustu ár.

Held því að stjórn HK hafi gert grundvallarmistök með uppsögn Gunnars. Var að mín mati óþarfi , verkefnið sem fyrir lá og liggur er fólgið í því að styrkja leikmannahópinn. En svo er nú fótboltinn - í hita leiksins er oft mikið um feil sendingar (og þessi sending stjórnar HK lenti langt upp í stúku!).

laugardagur, 5. júlí 2008

Öll brot kærð! - af krókódílatárum

Vissi ekki að Hagkaup hefði vínveitingaleyfi? Vínkynning og smökkun í Hagkaupum?Verslunarstjóri Hagkaupa fer á kostum í viðtali í Fréttablaðinu í dag, kvartandi yfir því að í hvert sinn sem talað er um að selja brennivín í búðum þá fari "lobbýistavélarnar" í gang. Verslunarstjórinn á þá sennilega við fólkið í landinu, sem nota bene er á móti áfengisauglýsingum og að áfengi sé selt í matvörubúðum.

Sorgleg og hrokafull ummæli í ljósi þess að sá bransi sem hann tilheyrir og þjónar hefur ausið hundruðum milljóna í ólöglegar áfengisauglýsingar, keyptar umfjallanir og kjánaskap eins vínsmökkun í Hagkaupum o.fl í þeim dúr. Allt athæfi sem ganga þvert á vilja almennings en allt í þeim tilgangi að þjóna ítrustu viðskiptahagsmunum.

Hagkaup hefur hvorki vínveitinga - eða áfengissöluleyfi og því er óskhyggja verslunarstjórans um að fólk kaupi rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum fyrst og fremst draumsýn. Legg til að Hagkaup höndli réttu megin við lög í landinu, þrátt fyrir "lobbýistaliðið". Ég á ekki von á öðru en að Hagkaup fái á sig kæru vegna "kynningarinnar" - öll brot kærð stendur í mörgum verslunum - á það ekki líka við um áfengislagabrot?

laugardagur, 28. júní 2008

Stjórn RÚV - opið bréf

Stjórn RÚV ohf
Hr. formaður Ómar Benediktsson

Að kveldi hins 18. Júní s.l strax eftir 22 fréttirnar í ríkissjónvarpinu birtust, nánast venju samkvæmt áfengisauglýsingar. Hin fyrri var um Víking bjór. Orðfæri , orðabeygingar , málfræði og allt í auglýsingunni með þeim hætt að augljóst var að þar var um áfengisauglýsingu að ræða. Orðið léttöl sem birtist í lok auglýsingarinnar er hvorki í samræmi við texta eða myndmál auglýsingarinnar. Einnig vaknar óhjákvæmilega upp sú spurning hvort miðstöð málverndar í landinu, Ríkisútvarpið, telji við hæfi að birta auglýsingar sem innhalda eins illa unnin texta og hér um ræðir - "Hann léttöl /ið ... sem er bruggaður" ?

Hin auglýsingin var um Thule bjór og í þeirri auglýsingu var ekki gerð nein tilraun til þess að draga dul á hvað verið var að auglýsa.

Útvarpsþátturinn Poppland á Rás 2 hefur undanfarnar vikur verið undirlagður í áfengisauglýsingum eins og svo oft áður. Slík hefur síbyljan verið að það hefur á stundum vart mátt greina hvort dagskráin sé í boði og kostuð af áfengisframleiðandanum Tuborg (Ölgerðar Egils Skallgrímsonar) eða hvort um starfsemi að vegum RÚV sé að ræða.

Það eru foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum mikil vonbrigði að RÚV skuli með kerfisbundnum birtingum áfengisauglýsinga virða réttindi barna og unglinga í landinu að vettugi og brjóta á lögvörðum rétti þeirra til þess að vera laus við áfengisáróður sbr lög þar um. Samtökin skora hér með á stjórn RÚV ohf að stöðva allar þessar beinu og óbeinu áfengisauglýsingar sem allar eiga það sannmerkt að vera ólöglegar og langt fyrir neðan virðingu fyrirtækisins. Telji fyrirtækið minsta vafa hvað varðar "lögmæti" þessara áfengisauglýsinga þá ber því hlutverki sínu samkvæmt að láta börn og unglinga í landinu njóta þess vafa.

f.h Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum
Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson, formaður

Afrit:
Menntamálaráðherra
Lögreglustjórinn í Reykjavík
Stjórn RÚV ohf

föstudagur, 20. júní 2008

Björgvin G Sigurðsson ...

...viðskiptaráherra hefur að mínu mati staðið sig einna best ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Það voru margir undrandi yfir því að skipta upp Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í tvö ráðuneyti. Reyndist hins vegar hið besta mál og hefðbundnum málefnum viðskiptaráðuneytisins vel sinnt auk þess sem í fyrsta sinn höfum við ráðherra neytendamála en á þeim vettvangi finnst mér Björgvin hafa komið afar sterkur inn og markað ráðuneytinu nýja vídd. Störf ráðherrans gegn okurgjöldum bankakerfisins, og önnur skyld mál, sýna í verki hvert stefnir og því ber að fagna.

laugardagur, 14. júní 2008

Af sértækri greindarskerðingu?

Åbrå dómurinn sænski gekk út að það að skyni bornir menn auglýstu ekki nokkrar léttöls flöskur mánuðum saman, sem síðan var ekki lögð nokkur áhersla á að koma á markað að öðru leiti og voru nánast ófáanlegar. Merkingar á léttölinu voru í öllum megin atriðum algerlega eins og á bjórframleiðslu fyrirtækisins. Gjörðir fyrirtækisins og forstjórans sem ábyrgðarmanns voru því túlkaðar sem útúrsnúningar á lögum þar í landi um bann við áfengisauglýsingum og viðkomandi dæmdur samkvæmt því.

Hinn kosturinn í málinu var utan seilingar dómskerfisins sem hefði verið að meta forstjórann sænska nautheimskan og illa kunnandi enda kostnaður við auglýsingar á léttölinu illfánalega stjarnfræðilega langt yfir ágóða af sölu þess. Ekki man ég nákvæmar tölur en ljóst var að auglýsingakostnaður þessara örfáu flaska nam marghundraðföldu útsöluverði.

Hér á landi falla forstjórar umvörpum í sömu gryfju. Forstjórarnir "merkja" vörur sínar eins og gert var í Ráðstjórnarríkjunum hér í eina tíð og sennilega mun verr. Fyrirtæki sem að öllu jöfnu gera í vörumerkingum skýran greinarmun á sykrlausum gosdrykkjum og sykruðum setja áfengið í nákvæmlega eins umbúðir og léttölið. Með þeirri einu undantekningu að í efnisinnihaldi stendur 5,0% í stað 2,25% en með svo litlu letri að helst er að nýta stækkunargler til þess eins að sjá hvers eðlis varan er.

Hvað þetta varðar þá vona ég að dómskerfið taki á þessu og ekki síst í þágu þeirra sem þetta stunda. Þangað til verða viðkomandi taldir verulega vankunnandi, neytendafjandsamlegir eða jafnvel tregir til hugans . Dómskerfið er sem betur fer byrjað að taka á þessu eins og meðfylgjandi dómur fjallar um að hluta. Útúrsnúningar sem byggja á þeirri grunnforsendu að menn geri sér upp sértæka greindarskerðingu í þeim eina tilgangi að snúa út úr löggjöf um bann við áfengisauglýsingum er eitthvað sem ekki er boðlegt en dæmi um hve lágt menn eru til í leggjast í þágu ítrustu viðskiptahagsmuna.

Íslenskur "léttölsauglýsandi" fór svona út samskiptum sínum við dómskerfið íslenska:

“Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. janúar 2007. Kvaðst ákærði hafa verið ritstjóri tímaritsins Fótboltasumarið 2006 er það hafi verið gefið út. Væri ákærði þeirrar skoðunar að ekki væru um ólöglegar áfengisauglýsingar að ræða í tímaritinu. Um væri að ræða auglýsingar á léttöli sem selt væri í verslunum á Íslandi. Í auglýsingunum kæmi skýrt fram að um áfengislausan bjór væri að ræða. Að því er auglýsingar á XXXXXX varðaði bar ákærði að auglýsingarnar hefðu komið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Markaðsstjóri Ölgerðarinnar, Valgarð Sörensen, hafi verið í sambandi við ákærða með auglýsingarnar. Ekki kvaðst ákærði vita hvaðan texti á auglýsingarnar væri kominn. Þá kvaðst ákærði ekki vita hver hefði séð um uppsetningu og hönnun á auglýsingunum. Greitt hafi verið fyrir auglýsingarnar af hálfu Ölgerðarinnar. Ekki kvaðst ákærði reiðubúinn að gefa upp hve mikið hafi verið greitt. Ekki kvaðst ákærði viss um hvort XXXXXX væri seldur sem óáfengur bjór í verslunum á Íslandi, þó svo hann héldi að svo væri. Að því er varðaði auglýsingar á YYYYY bjór bar ákærði að einstaklingur á vegum Vínkaupa ehf. hafi sent ákærða auglýsingu fyrir bjórinn. Auglýsingin hafi verið tilbúin eins og hún hafi birst í blaðinu. Fulltrúar blaðsins hafi verið í sambandi við Gunnlaug Pál Pálsson sölustjóra hjá Vínkaupum ehf. Sá texti er birst hafi, hafi komið frá Vínkaupum ehf. en verið bætt inn á auglýsinguna. Greitt hafi verið fyrir auglýsinguna, en ekki kvaðst ákærði reiðubúinn að upplýsa hve mikið greitt hafi verið fyrir hana. Ákærði kvaðst telja að unnt væri að fá óáfengan YYYYY bjór í verslunum á Íslandi, án þess þó að hann þyrði að fullyrða það. Tilgangur með þessum auglýsingum hafi verið að kynna viðkomandi vörur og knattspyrnuleiki. Sem ritstjóri og ábyrgðarmaður tímaritsins bæri ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna. Hafi þær átt að skapa jákvæða kynningu á léttöli greindra vörumerkja. Þær hafi verið bornar undir ákærða til samþykkis fyrir birtingu.” Sjá nánar http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200800463&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

Minnir mann óneitanlega á senu úr Kardimommubænum þegar að Jesper reynir að telja Bastían bæjarfógta trú um að brauðið sem hann rændi hafi sjálft farið í vasa hans!


sunnudagur, 8. júní 2008

Hið Íslenska vændi

Lýtur greinilega öðrum lögmálum en alls staðar annars staðar í heiminum ef marka má dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nýverið yfir forsvarsmönnum tímaritsins Mannlífs.
Samkvæmt honum þá verður ekki annað talið en að starfsemi þessarar búllu sem oftast er nefnd Goldfinger sé i sann kristnum anda, eiginlega sunnudagsskólastarfsemi. Er því einni staður sinnar tegundar í heiminum.
Sennilegt er að blaðamanni hafi ekki tekist að leggja fram “þinglýstum þrælasamning” og dómurinn því ekki talið orð dansmeyjanna í skjóli blaðamanns sannfærandi.
Sorglegt því auðvitað er þessi íslenski bransi í engu öðruvísi en annars staðar. Fjallaði um þessi mál á dagskinnuni fyrir nokkrum misserum undir tiltlinum “Listdans og taugaáföll” sem hér fylgir með:

Listdans og taugaáföll
Var svo heppnin/óheppnin að á námsárum mínum (hinum fyrri) í Svíþjóð í upphafi níunda áratugarins, að fá tækifæri til þess að kynna mér ítarlega hið hollenska félagsmálakerfi og aðstæður þeirra sem minna mega sín í því þjóðfélagi. Þar í landi eru "listdansstaðir" víða. "Starfsfólkið" þar eru hvorki "háskólastúdínur" eða stúlkur sem vilja næla sér tímabundið í ríflegar aukatekjur.

Hollenski bransinn sem er ekkert öðruvísi en annars staðar og gengur á dópi. Sá sem er þræll fíkniefna á ekkert val og gerir hvað sem er fyrir næsta skammt. Í Hollandi fá um 95 % "listdönsurunum" taugáfall í "vinnunni" árlega. Ungar stúlkur á niðurleið er samnefndari yfir vegferð þessa fólks sem lendir í þessum ömurlegum aðstæðum. Frá "fylgdarþjónustu" í ræsið er því miður hinn bitri veruleiki.

Hér á landi eru þeir sem fyrir þessari starfsemi standa, að eigin sögn , lagðir einelti og sæta pólitískum ofsóknum? Málið er hins vegar að bransinn á Íslandi sker sig ekkert úr nema síður sé og hin "hörmulega" (í öllum skilningi þess orðs) "listdansstarfsemi" er ekki rekin á neinum öðrum forsendum en annarsstaðar, forsendum mannlegra auðmýkingar og niðurlægingar.

Það er undarlegt að hinir sönnu að gerendur í málinu kaupendur mannlegrar niðurlægingar(vændis)skuli ávallt sleppa. Skil ekki hvers vegna siðað samfélag eins og við viljum gjarnan að Ísland sé, hafi ekki tekist að koma lögum yfir þetta athæfi. Glæpamaðurinn sleppur en fórnalambið dæmt. Undarlegheit í meira lagi.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Góður stuðningur

Hin nýstofnuðu Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa fundið fyrir gríðarlegum meðbyr í samfélaginu en þau fengu á dögunum styrkveitingu frá IOGT að andvirði 400.000 króna. Að baki styrknum standa IOGT og samstarfssamtök en hann var veittur við hátíðlega athöfn 31. maí 2008. Gunnar Þorláksson, formaður greindi við athöfnina að 200.000 krónur væru frá IOGT og þá 200.000 krónur frá hinum bandalögum. María Jónsdóttir og Ösp Árnadóttir stjórnarmenn í Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum veittu styrknum viðtöku. IOGT á Íslandi eru bindindissamtök innan alþjóðasamtaka IOGT en sameiginlegt markmið IOGT-deilda er að stuðla að: hamingjuríkara, frjálsara og innihaldsríkara lífi. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum eru einungis mánaðargömul en styrknum verður varið í að setja upp öfluga heimasíðu. Hægt er að skrá sig í samtökin í netfangið addigum@simnet.is . Stjórn Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, er þakklát fyrir stuðninginn og þá hvatningu sem samtökin fá frá IOGT.

þriðjudagur, 3. júní 2008

Flott 100 ára afmæli

Náði reyndar bara sunnudeginum sem var í alla staði flottur. Veðurguðirnir, sem oft eru flóknir og erfiðir samskiptum sínum við okkur sem staðið höfum í svona stórræðum, voru í sólskinsskapi þó svo að Kári hafi haft sig verulega í frammi seinni part sunnudagsins. Það er mikil vinna og mörg handtökin á bak við stóratburð af þessum toga og því ekki alltaf sjálfgefið að allt gangi upp. Skipuleggjendur og framkvæmdaaðilar stóðu sig með sóma. En hvað með það óska samsveitungum mínum í fegursta bæ landsins til hamingjum með 100 ára afmæli bæjarins.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Af banka og meintri einsemd vestanhafs


Er sem sagt staddur á námskeiði í Kanada í Nýja Skotalandi eða Nova Scotia eins og þarlendir nefna svæði upp á frönsku þó svo að nokkuð víst sé að Skotar þeir sem hér námu land í eina tíð hafi ekki kunnað frönsku.

Er í hópi góðs fólks af mínu þjóðerni en eins oft þá er ekki úr vegi að rölta um svæðið að lokinni dagskrá dagsins. Oft er það nú svo að blessuð heimþráin gerir vart við sig þó svo maður sé umvafin löndum sínum.

Og viti menn þegar mæða einsog heimþrá sækir á landann þá er bankinn, eins furðulega og það lætur ,sem oftast er ekki vinur manns, aldrei langt undan og sem við lölluðum um miðbæ Halifax þá birtist eins og vin í auðninni Landsbankaútibú að vísu lítið, svona eins og blessaður Pylsuvagninn í Tryggvagötu, stór í sinni þrátt fyrir fáa fermetra. Þægileg tilfinning í þessari kollektívu einsemd og heimþrá að sjá bankann, slökkti nefnilega algerlega á heimþránni, fór nefnilega að hugsa um þjónustugjöldin og vaxtaokrið. Falleg borg Halifax.

mánudagur, 26. maí 2008

Unglingar eru líka fólk

Mikil hiti hefur verið í umræðunni um brettapalla við Víðistaðatún hér í Hafnarfirði . Því miður hafa mál þróast að neikvæða lund og margt sem þar kemur til. Þannig háttar til að hafnfirskir unglingar hafa búið við algert aðstöðuleysi til margra ára. Hafnfirskir brettaunglingar hafa því árum saman þurft að sækja í önnur bæjarfélög til að stunda sitt áhugamál. Þegar að málið kemst loks á dagskrá og unga fólkinu er tilkynnt af hálfu bæjaryfirvalda að nú eigi loksins að gera gangskör í brettamálum og byggja eigi upp veglega aðstöðu þá varð almenn ánægja meðal unglinganna sem sáu loks gamlan draum rætast.

Skömmu eftir þetta birtist umfjöllum í Fjaraðpóstinum (FP) um mótmæli íbúa við Víðistaðtún og frá sjónhorni unglingaanna voru það feikileg vonbrigði og sem túlkuð voru á þann veg að nú ætluð einhverjir íbúar að eyðileggja þetta mál. Margir unglinganna urðu mjög reiðir og einhverjir fóru því miður langt yfir strikið í þeim efnum.

Hitt er svo annað mál sem er ekki gott að í umfjöllum um þetta mál á opinberum vettvangi ber því miður í ýmsum tilfellum á miklum fordómum gangvart ungu fólki. Þegar að umfjöllun er orðin í þessum dúr: “...Flóðlýsing og músík! Stór Reykjavíkursvæðið + erlendir gestir! Það verður nóg að gera við að hringja í lögregluna...” (FP. 15.maí 2008) þá er mál að linni. Brettafólk þarf ekki neina sérstaka gjörgæsluvöktun frekar en aðrir hópar fólks. Brettafólk eru ekki óargardýr fremur en aðrir unglingar. Stundum er eins og við sem eldri erum höfum gleymt okkar eigin æsku. Viðbrögð af þessu toga leysa ekkert en eykur frekar vandann ef eitthvað er. Unglingar eins og annað fólk á rétt á fordómalausri umfjöllun

Ekki þekki ég hina stjórnsýslulegu leið málsins og hvort einhverjir hnökrar voru í því ferli en hvað það varðar þá er ekki við unglingana að sakast ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í þeim efnum. Víðistaðatúnið er góður kostur undir garð af þessum toga spurning er því sú hvort ekki sé hægt að færa garðinn innan þess ramma t.d. í nágrenni við skátaheimilið, ef það mætti vera til þess að leysa málið. Sorglegast af öllu er ef málið fer aftur á byrjunarreit. Það eiga a hafnfirskir unglingar ekki skilið og í raun meinlegt að okkar ágæta bæjarfélaga hafi ekkert að bjóða unglingunum annað en að fara með brettin sín í annað bæjarfélag?

sunnudagur, 18. maí 2008

Palestínar til Hafnarfjarðar

Við Hafnfirðingar eigum að bjóða fram krafta okkar í málefnum innflytjenda. Sorglegt að heyra umræðuna þessa daga “hvítt afl”, hvílík smán og hvílikur málflutningur.

Lúðvík bæjarstjóri taktu af skarið, bjóðum þessum flóttamönnum hingað í fjörðinn. Höfum staðið okkur ágætlega í þessum málum og eigum að halda því áfram.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Ef alvöru photoshop ...


...hefði verið til í Sovétinu sáluga þá hefðu hinir öldnu leiðtogar verið eitthvað í stíl við þessar dömur. Handverkið við að taka út úr myndum þá sem voru í ónáð í það og það skiptið væri auk þess mun einfaldara. Ætli Kremlologar allra tíma fagni ekki Photoshopinu innilega? Held að það hljóti að vera.

þriðjudagur, 13. maí 2008

Dísa & Danni - frábærir listamenn

Lagið "Ljáðu mér eyra". Flytjendur Bryndis Jakobsdóttir og Daníel Friðrik. Frábært listafólk sem á framtíðina fyrir sér. Njótið vel, heyrn er sögu ríkar.
http://www.youtube.com/watch?v=02wrtMumzOQ

föstudagur, 9. maí 2008

Það er ...

... auðvitað með eindæmum að stofna þurfi sértök samtök til þess eins að berjast fyrir því að farið sé eftir gildandi lögum í landinu? Í þessu tilfelli lögum um banni við áfengisauglýsingum.

Var orðið fyllilega tímabært. Hittumst því nokkur þann 1. maí sl. og gengum frá stofnun Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum með pomp og prakt. Þeir sem hafa áhuga á að vera með geta skráð sig sem stofnfélaga til 1. september. Hægt er skrá sig HÉR (nafn, kt, heimili, rafpóstur)

Markmið samtakanna er einfalt eða eins og fram kemur í 5.gr stofnsamþykktar: “Markmið samtakana er að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstakri áherslu á vernd barna og unglinga”

Sjá stofnsamþykkt í heild hér

Í vinnslu er heimasíða sem m.a. mun einfalda fólki að benda á brot og tilkynna til yfirvalda en nánar um það síðar. Hvet eindregið alla þá sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti til þess að ganga til liðs við okkur og gerast stofnfélagar.

fimmtudagur, 8. maí 2008

Tvær fjaðrir...

... verða stundum að fimm hænum. Þann 1. apríl sl. voru tvær fréttir á dagskinnunni. Ein um að Geir vinur minn Bjarnason væri á förum frá Hafnarfjarðarbæ til starfa hjá Lýðheilsustöð og önnur um að ég væri komin í flugnám.

Svo fór eins og mig grunaði að þeir fjölmörgu sem lesa dagskinnuna töldu flugnám mitt vera 1. aprílgabb en hins vegar trúðu því flestir að Geir Bjarnason væri á förum til Lýðheilsustöðvar og hlupu þar með apríl. Svo sterkur er trúnaðurinn að Geir fær enn þann dag í dag hamingjuóskir með nýtt starf en það er ekki nokkur maður sem spyr mig út í hvernig gangi í flugnáminu.

Ég tilkynnti einmitt þann 1. apríl 2007 á dagskinnunni að ég hefði “sökum fjölda áskorana og þar sem að margir hefðu komið að máli við mig” ákveðið að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar fyrir þingkosningarnar. Olli þar með eindæma uppnámi í hreyfingunni var mér síðar sagt. Uppnámi sem ekki síst lenti á ágætri vinkonu minn til margra ára Margréti Sverrisdóttir sem talin var, algerlega að ósekju, vera að hygla "sínu fólki" í Kraganum.

Svona er það nú, alþjólegi hrekkjusvínadagurinn 1. apríl er nýttur til hins ítrasta á þessari dagskinnu.

föstudagur, 25. apríl 2008

Síbrotavilji, þráhyggjukenndur, einbeittur og einlægur

Sem ég var að lesa Fréttablaðið í morgun þá rak ég augun í enn eina brennivínsauglýsinguna frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar.

Væri vart í frásögu færandi ef ekki væri fyrir þær sakir að fyrirtækið er nýdæmt fyrir brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum? Fyrirtækið sýnir í kjölfarið landsmönnum og íslenskum lögum fingurinn , virðingarleysið algert. Skil svo ekki í Fréttablaðinu eða öðrum fjölmiðlum að birta auglýsingar af þessum toga - vitandi vits að um lögbrot er að ræða.

Undarleg viðbrögð við hegningarlagabroti og hrokakennd í meira lagi - verð ég að segja. Á maður sem manneskja í siðuðu samfélagi að eiga viðskipti við svona fyrirtæki ?– Nei það liggur í augum uppi að slíkt gengur ekki. Siðferðiskennd fyrirtækisins og virðing gagnvart réttindum barna og unglinga er á svo lágu plani að það myndi að öllum líkindum auglýsa áfengi á fæðingardeildinni ef það mögulega kæmist upp með það.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Legg til að forstjórinn haldi upp á dóminn ...

...með því að fjarlægja áfengisauglýsingar fyrirtækisins úr strætóskýlum á höfuðborgarsvæðinu. Eru fyritækinu til skammar og vanvirða við réttindi barna og unglinga

Forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar var 22. apríl 2008 dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar.

"... Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa birt auglýsingar á áfengi, eins og honum er gefið að sök, og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákærunni. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og er refsing hans nú, með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 22 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ólafs Ara Jónssonar hdl., ákveðast 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal ákærði greiða þau. Áður hafði Jakob R. Möller hrl. verið skipaður verjandi ákærða og skal hann einnig greiða laun hans, 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Dómsorð
Ákærði, Andri Þór Guðmundsson, greiði 300.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 22 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.
Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ólafs Ara Jónssonar hdl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun verjanda síns, Jakobs R. Möller hrl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. "

Sjá dóminn í máli nr. S-1343/2007 í heild sinni HÉR

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Síbrotafyrirtækið Egill Skallagrímsson

En á ný þverbrýtur Ölgerð Egils Skallagrímssonar lög um bann við áfengisauglýsingum. Fyrirtækið hefur þegar a.m.k. einu sinni hlotið dóm vegna brota á þessum lögum.

Sem endranær beinist áfengisherferð fyrirtækisins að börnum og unglingum sérstaklega. Af því tilefni eru strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu þakin auglýsingum. Fullkomin lágkúra og algert virðingarleysi við börn og unglinga, sem eru eins og kunnugt er helstu viðskiptavinar Strætó. Og það er auðvitað með eindæmum að Strætó bs skuli taka þátt í þessu með því að legga biðskýli fyrirtækisins undir ólöglegar áfengisauglýsingar og gefa þar með sínum helstu viðskiptavinum langt nef.

Hvar er ákæruvaldið? og hvers vegna eru flest brot af þessum toga látin óátalin – Hvers vegna er einlægur og einbeittur brotvilji stjórnenda fyrirtækisins (og samsvarandi fyritækja) látin viðgangast misserum og árum saman.

Spyr sá sem ekki veit – en undrast afskiptileysi og fálæti stjórnvalda sem virðast hafa takmarkaðan áhuga á því að verja lögvarinn rétt barna- og ungmenna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Sorglegt og ekki boðlegt í siðuðu samfélagi.

laugardagur, 12. apríl 2008

Þjóhagsstofnun...

... var sem kunnugt lögð niður með einu pennastriki. Faglegt mat þeirrar ágætu stofnunnar í efnahagsmálum voru ekki í anda þeirra pólitísku tilfinninga er þá réðu ríkjum. Þáverandi forsætisráðherra sá sér því þann kost vænstan að leggja stofnunina niður. Var í raun álíka gáfulegt og að henda öllum hitamælum á sjúkrahúsum landsins og segja í kjölfarið að heilbrigði landans sé fínt enda samkvæmt pólitískum stefnumiðum ráðandi stjórnmálaflokks.

Við tóku m.a. greiningadeildir bankanna (og skúffa í fjármálaráðuneytinu) sem hafa reglulega gefið út álit um horfurnar í efnahagsmálum. Þær spár hafa eins og dæmin sanna reynst ófullnægjandi og það eilífðar sólskin sem þar er ávallt spáð hefur látið eftir sér bíða, raunveruleikinn, rok og rigning blasir við. Og jafnvel þá stinga menn hausnum í sandinn eins og strúturinn og fjármálakreppan einhverjum vondum mönnum úti í útlöndum að kenna, mönnum sem eru að "leika sér með krónuna" í eigin ágóðaskyni ? – Utanbæjarmenn, eins og slíkir misyndismenn er gjarnan kallaðir í heldri manna byggðarlögum hérlendis.

Vísindi ? – veit það ekki það er svo margt sem breytist – Spádómar um eigið ágæti, eins og greiningardeildir bankanna spá reglulega, er eitthvað sem ekki virkar – verður því sennilega seint flokkað sem vísindi, verður marklaust eins og hver önnur misheppnuð pólitísk ideólogía. Tímar breytast?

Breytta tíma má meðal annars merkja á því að helstu forkólfar frjálshyggjunnar hér á landi hafa tekið til handargagns eitt af helstu einkennum félagshyggjunnar – samhygðina og samhjálpina, aðstoðina við þá þegna samfélagsins sem minna mega sín – okkar minnstu bræður, í þessu tilfelli Hannes Hólmstein. Og þá skiptir ekki neinu máli þó svo að okkar minnstu bræður hafi af fúsum og frjálsum vilja tekið röð frjálsra en óheppilegra ákvarðana sem leiða til væntanlegrar ómegðar viðkomandi. Bjargráðið er að efna til fjársöfnunar fyrir bágstadda, sem er gott og göfugt markmið. Það er reyndar hægt að ná þessu markmiði með öðrum leiðum eins og jöfnun lífskjara og fleira í þeim dúr en það tekur sennilega of langan tíma og leysir ekki bráðavanda.

Hornsteinn frjálshyggjunnar hið algerlega frjálsa val þ.m.t. rit- og málfrelsi er í útrýmingarhættu að sögn forsvarsmanna hjálparstofnunarinnar . Við því þarf að bregðast því allar raddir samfélagsins þurfa að heyrast (með eða án stuðnings hjálparstofnanna) – ekki síst rödd skynseminnar sem ávallt var einkenni þess sem frá Þjóðhagsstofnun hinni sálugu kom – Er ég kannski komin með samsinnunga úr óvæntri átt varðandi hugmyndir mínar um það að til þess að alvöru umræða um efnahagsmál fari fram í samfélaginu, þurfi m.a. að hafa starfandi stofnun eins og Þjóðarhagstofnun var – í útlöndum telja menn slíkt nauðsynlegt?

föstudagur, 11. apríl 2008

Geir Gunnarsson


Votta vini mínum Lúðvík Geirssyni og fjölskyldu hans allri mína dýpstu samúð vegna fráfalls föður hans Geirs Gunnarssonar. Blessuð sé minning hans.

þriðjudagur, 8. apríl 2008

Sorry ég svaf hjá systur þinni ...

...er nafn á leikriti sem Flensborgarskóli setti upp í vor. Fínt stykki hjá krökkunum (þó mér sé málið allverulega skylt þar sem sonur minn Freyr Árnason er einn af höfundum verksins) þar sem gert er stólpagrín af staðalímyndum. Temað, hinir gjörkunnu vegir ástarinnar í heimi unglinga. Og ekki nóg með ágæta tilburði margra leikarana, hinar ólíklegustu persónur verksins brustu af og til í söng með góðum árangri. Músíkin var verulega flott, flutt af góðu bandi með “brassi og alles”, alvöru fönk slagarar frá sjöunda og áttaunda áratug síðustu aldar með bráðfyndnum textum í anda verksins. Að sjálfsögðu happy ending en eftir þyrnum stráða vegferð eins og vera ber. Fín sýning, sem fékk fína dóma, enda uppselt á allar sýningar sem í boði voru.

Bergþóra Árnadóttir

Brá mér á tónleika s.l. laugardagskvöld í Grafarvogskirkju. Minningartónleika um hinn frábæra listamann Bergþóru Árnadóttur vísnasöngvara. Frábærir tónleikar og ákaflega skemmtilega farið með góða tónlist Bergþóru. Útsetningar fjölbreyttar og frábærar, spilamennskan í algerum sérflokki enda valin maður í hverju rúmi. Birgir Bragason á bassa, Björgvin Gíslason á gítar, Hjörleifur Valsson á fiðlu ásamt fjölda annarra afburðar tónlistarmanna. Sándið fínt og umgjörð öll hin besta. Vona að efnið rati á disk og hvet vin minn Aðalstein Ásberg, ein af skipuleggjendum tónleikanna, sem á og rekur hið framsækna útgáfufyrirtæki Dimmu til þess að gefa þessa tónleika út. Þakka fyrir mig – átti virkilega ánægjulega kvöldstund

laugardagur, 5. apríl 2008

Tími hinna pragmatísku ákvarðana ...

... er runnin upp ef marka má viðbrögð háskólarektors vegna dóms yfir Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Sagnfræðilega sinnaðir uppeldisfræðingar eins og ég eiga vin í fræðunum sem er blessuð tímalínan. Tíminn bæði sá liðni og ekki síst sá ókomni skýrir mörg mannana verk og hugmyndir.

Spurning hvort viðbrögð Háskólarektors hefðu verið með öðrum hætti ef ekki væri önnur mál HH í farvatninu sem snerta Háskólann beint eins og eins og notkun á heimasíðu HÍ í meiðyrðamáli ? Sem gamall verkalýðsleiðtogi veit ég ekki hvaða flóknu lagatæknilegu atriði rektor vitnar til sem koma í veg fyrir að veitt sé áminning? Áminningarferli í kjölfar dómsmáls er afar einfalt ferli. Viðbrögð rektors er því að setja borð fyrir báru þar sem áminning í einu máli leiðir til brottviknar í næsta tilfelli ef upp kemur. Með öðrum orðum hvernig sem mál fara þá mun prófessorinn áfram sinna fræðistörfum við HÍ og í versta falli með áminningu vegna dómsmáls í Bretlandi.

Sennilega eru mál ekkert flóknari en þetta. Prófessorinn mun sem fyrr standa í hugmyndafræðilegum stórræðum, sem er fínt – ekki síst fyrir okkur sem erum vinstra megin við miðjuna því prófessorinn hefur í sinni hugmyndafræðilegu vinnu á sviði frjálshyggjunnar aflað okkar viðhorfum, félagshyggjunnar, fjölmargra talsmanna í gegnum árin.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Hvar eru "ítölumennirnir" núna ?

Rakst á þetta frábæra og bráðfyndna myndband á þeim ágæta vef http://www.eyjan.is/ . Mikið grín eða... sjá: http://www.youtube.com/watch?v=SJ_qK4g6ntM . Sennilega hægt að flokka þetta undir tragí comedíu miðað við ástand efnahagsmála hérlendis.

Umræðurnar á myndbandinu eru sennilega greindarlegri en margt það sem margur spésílaistinn lætur frá sér þessa daganna. Ýmsir velta fyrir sér hvar "ítölumennirnir" frá verðbréfafyrirtækjunum eru núna? Sést ekki einu sinn í iljarnar á þeim - eru dagar þeirrar stéttar taldir ? Eða koma þeir í ljós með hækkandi verðbréfavísitölu?

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Er orðin flugnemi

Lét loksins gamla draum rætast – er orðin flugnemi. Hef þegar tilkynnt vini mínum Þorgeir Haralds að ég komi til starfa hjá Icelandair þegar að öll tilskilin leyfi og próf liggja fyrir. Mun auðvitað fyrst um sinn fljúga Cessnu og, sennilega til að byrja með, sveima í æfingasvæðinu sunnan við Straumsvik. Bið vini og vandamenn hins vegar að venja sig við þá tilhugsun að skammt undan Ingólfshöfða, í rúmlega 30 þúsund feta hæð, heyrist:

Góðan daginn góðir farþegar þetta er flugstjórinn Árni Guðmundsson sem talar. Við erum ...

Geir til Lýðheilsustöðvar

Það kom mér ekki á óvart að frétta að fyrirverandi samstarfsmaður minn til margra ára Geir Bjarnason forvarnarfulltrúi í Hafnarfirði og forstöðumaður þeirra merku (unglinga)menningarmiðstöðvar Gamla bókasafnsins, sé förum og í nýtt starf hjá Lýðheilsustöð.

Þórólfur Þórlindsson forstjóri Lýðheilsustöðvar hefur verið að vinna fínt starf undanfarið og því ekki að undra að hann sækist eftir okkar besta fólki til áframhaldandi uppbyggingar þessarar ágætu stofnunar.

Geir hefur sem forvarnarfulltrúi í Hafnarfirði sýnt í verki hvernig hægt er að nýta rannsóknir til að betrumbæta starf á vettvangi . Hann er sem sagt einn af okkar helstu sérfræðingum á því sviði og sem slíkur afar verðmætur starfskraftur á Lýðheilsustöð. Mér skilst að sveitarfélög komi því til með að geta sótt ráðgjöf til Lýðheilsustöðvar um þessi mál mjög fljótlega. Óska félaga mínum til hamingju með nýtt starf, óska honum velfarnaðar og veit að hann á eftir að standa sig með prýði.

sunnudagur, 30. mars 2008

Af smokkum

Vorum sammála um það ég (þáv. yfirmaður æskulýðsmála í Hafnarfriði) og þáverandi bæjarstjóri Guðmundur Árni Stefánsson að óhæft væri að selja ekki smokka í félagsmiðstöðinni. Árið var 1988 og eins ótrúlegt og það kann að virðast þá var þetta nokkuð feimnismál.

Ungir menn áttu einn þann kost að fara í apótekið, sem var eini sölustaðurinn í þá daga, roðna og blána og versla oft á tíðum, þegar að upp var staðið, alkyns annan varning en blessaðar verjurnar, allt út úr tómum vandræðagangi. Var þetta því mörgum ungum manninum hin mesta sneypuför.

Ekki mátti búa við þetta ástand lengur, vorum við sammála um , þannig að ég geri mér ferð í hið virðulega Hafnarfjarðarapótek, sem þá var og hét. Spurði eldri dömu sem þarna afgreiddi umbúðalaust um verjur. Af hæversku réttir hún mér lítinn pakka eins og hér væri um leyniskjöl að ræða.

Var auðvitað ekki kátur með þessa afgreiðslu enda í opinberum erindagjörðum. Bið hana því að sýna mér fleiri tegundir sem og hún gerði, en skimar jafnframt í kringum sig. Velti fyrir mér í rólegheitum gæðum þessar 10 – 12 tegunda sem á boðstólum voru og spyr hana í framhaldinu um verð, gæði og hvað hún telji hagstæðustu kaupin.

Spurningin kom henni í opna skjöldu enda sennilega aldrei verið spurð að þessu, bendir mér síðan á tiltekna tegund, sem hún kveður mest keypta. „Fæ þá 200 stykki af þessum“ segi ég eftir nokkra umhugsun og sé að konunni bregður við, hugsar sennilega hvað ég haldi að ég sé , Casanova eða eitthvað álíka fyrirbæri.

„Tekur þú beiðni frá bæjarsjóð “ spyr ég og sé þá að afgreiðslukonunni er allri lokið. Félagsmálstofnun að kaupa smokka fyrir einhvern kvennaflagarann, hugsar hún örugglega, lýkur samt afgreiðslunni af fagmennsku en með nokkurn roða í vöngum.

Blessaðir smokkarnir fóru síðan í sölu upp í gamla Æskó. Seldust ágætlega , flestir ef ekki allir sem þá keyptu nýttu þá sem vatnsblöðrur, enda ýmis ungmenni sem ekki voru klár að hinu viðtekna notagildi smokksins, sem auðvitað kom síðar. Hitt er annað mál að ástfangnir starfsmenn sáu sér sennilega leik á borði og versluð frekar hjá okkur en að fara í apótekið.

Hitt er svo allt annað mál að í félagsmiðstöðinni Vitanum var smokkasjálfsali löngu áður en það var almennt. Ágætur starfsmaður í félagsmiðstöðinni hafði sannfært fyrirtækið um að það yrði gríðarlega sala og fyrirtækið myndi græða verulega. Salan var lítil en gestur nokkur í fermingaveislu sem þarna var haldin, en oft var húsið leigt undir slíkt þegar að allir aðrir salir voru uppteknir, sagði þetta í fyrsta skiptið sem hann hafi verið í fermingu þar sem jafnframt voru seldir smokkar.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Sterkur leikur

Fínt framtak, tímabært og með sanni tímamót. Gríðarlegur ferðakostnaður hefur oft á tíðum háð starfsemi félaga á landsbyggðinni.

"Á fundi ríkisstjórnar Íslands í mars 2007 var samþykkt að koma á fót ferðasjóði íþróttafélaga innan vébanda ÍSÍ til að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnastarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðherra fól að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Með stofnun ferðasjóðsins eru mörkuð tímamót í ferðakostnaðarmálum íþróttahreyfingarinnar.

Með samningnum er komið á fót sjóði sem kemur til móts við íþróttafélög vegna kostnaðar þeirra af ferðalögum innanlands, sérstaklega þeirra sem eiga um langan veg að fara til þess taka þátt í viðurkenndum mótum. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að öruggum ferðamáta íþróttafólks." (af heimasíðu Mmr)

miðvikudagur, 26. mars 2008

Á hjólastól í grindarhlaup !

Ríkustu fátæklingar í heimi (sbr. skrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar) búa á Íslandi og þá munar lítið um að taka á sig hækkað vöruverð, sem nú þegar er með því hæsta sem þekkist. Var einungis 63% yfir meðalverði EU landa. Nú eru það sk. ytri aðstæður sem gera það að verkum að verslunin og heildsala, sem reyndar er að mestu leyti á sömu höndum, neyðist til þess að hækka vöruverð um ca 20 %. Undir þetta taka fjölmiðlar með réttu og skiptir þar í engu hverjir eiga viðkomandi miðla enda fjölmiðlar að sjálfsögðu óháðir – ekki satt?

Í síðustu hækkunarhrinu í kring um lækkun matarskattarins þá voru það birgjarnir sem orsökuð hækkað vöruverð að sögn verslunarinnar. Argumentsjónir og útfærsla á röksemdum vegna hækkana eru aðdáunarverðar og sennilega unnar af okkar færustu ímyndarfræðingum.

Ekki verður heyrt á ummælum fulltrúa viðskiptalífsins þessa dagana að nokkurt rými sé til hófsemdar í álagningu þrátt fyrir 63% forskot umfram það sem aðrar þjóðir telja hæfilega álagningu. Þetta spilverk gengur ekki upp með góðu móti nema allar hagstærðir í þjóðfélaginu lúti sama kerfi. Eins og alltaf áður þá er öllu velti yfir á launafólk sem ekki býr við vísitölutryggingar eins og öll önnur fjármál á íslandi.

Íslenskir launþegar eru því eins og maður í hjólastól sem skráður hefur verið til keppni í grindarhlaupi. Dæmdur til að tapa og það áður en hlaupið hefst. Alvöru hagstjórn hlýtur að byggja á einhverskonar jafnræði sem felst í því að allar hagstærðir lúti sömu reglum . Ef menn vilja viðhalda vísitölubindingu sem einhverskonar hagstjórnartæki þá er auðvitað helber vitleysa að skilja laun út undan. Það gerir ekkert annað en að kerfisbundið minnka hlut launa. Varla getur það verið markmiðið – ... eða hvað?

mánudagur, 24. mars 2008

Ketill Larsen

Brá mér í Tjarnarbíó um síðustu helgi . Erindið að sjá heimildarmynd um vin minn Ketill Larsen. “Heimildarmynd” veit það ekki – myndi frekar kalla þetta persónulega sýn kvikmyndargerðarmannana á Larsen, ágæt sem slík en nær engan veginn utan um jafn margbreytilegan persónuleika og Ketill er. Um Ketil nægir ekki að gera rúmlega 20 mínútna mynd, hann verðuskuldar alvöru long film eins og Kaninn segir og sennilega fleiri en eina. Larsen 1, 2 og 3 myndi sennilega ná utan um viðfangsefnið.

Ketill vann árum saman í æskulýðsmálum sem hann gerði af stakri prýði og margur vel virkur unglingurinn á honum mikið að þakka og fullvíst að margt ungmennið komst sæmlega til manns m.a. með þátttöku í góðu starfi Ketills á þeim vettvangi.

Málefni þeirra sem minna mega sín hafa ávallt verið Katli hugleikin. Hann hefur árum saman heimsótt fólk á sjúkrahúsum og stofnunum, einstæðinga og fólk sem hvergi á höfði sínu að halla. Hann var hér á árum áður duglegur við að skemmta án endurgjalds á alskyns stofnunum og svona mætti lengi telja.

Larsen bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Og slíku fólki er erfitt að gera skil í fáum orðum eða stuttri mynd. Ketill og hans mörgu ásjónur þurfa veglegri umgjörð og umfangsmeiri en svo. Sagan um hrekklausan mann sem leitast ávallt við að ganga til góðs og láta gott af sér leiða er þemað. Væri fínt efni í bók – sem þarf að skrifa.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Sími allra landsmanna – im memorium

Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra sagði að breyting Símans í hlutafélag væri bara formbreyting, ríkið héldi um bréfið og ekkert mundi breytast fyrirtækið yrði sem fyrr í eigu ríkisins en auðvitað yrði að “h/f a” fyrirtækið vegna markaðsaðstæðna, eða hvað menn kölluðu þetta. Og svo liðu nokkrir mánuðir og hlutbréfið var fært yfir í fjármálaráðuneytið ... og svo var skipt um ráðherra og svo koll af kolli ... !

Hjá Halldóri hófst einkavinavæðingarferli sem nú sér fyrir endann á með yfirtöku Exista á fyrirtækinu og lýkur þar sennilega gjörgæsluvöktun fámenns hóps yfir Símanum sáluga með afburðarárangri, ekki eitt einasta hlutabréf rataði í vasa almúgans (sem reyndar á lítið aflögu) . Allt orðagljáfur stjórnmálamanna og fulltrúa þeirra í t.d. einkavæðingarnefnd um að koma Símanum í almenningseign (sem hann reyndar var hér í eina tíð) staðlausir stafir. Lok lok og læs Síminn innmúraður og kominn af markaði eftir 5 mínútur – Milljarðaeign samfélagsins færð tilteknum hópi á silfurfati.

Dr. David Hall, sá merki fræðimaður, prófessor við Hálskólann í Greenwich ,sem rannsakað hefur einkavæðingu víða um lönd ætti að fara yfir þetta ferli Símans. Það þarf ekki að gera annað en að stilla upp ummælum stjórnamálamanna í tímaröð til þess að sjá vefnaðinn og sýna fram á nauðsyn þess að fara ítarlega í saumana á þessu ferli. Aðkoma ýmissa einstaklinga í ferlinu orkar auk þess verulega tvímælis sem og margt annað í þessu máli öllu.

Núna, þegar að almenningi í landinu blöskrar þessar aðfarir, segir fjármálaráðherra að svona séu reglurnar. Væntanlega reglurnar sem hann tók þátt í að setja – ekki satt. Svarið er því einfalt, með Símann var ekki pólitískur vilji til að fara með öðruvísi en gert hefur verið þ.e. að færa eigur samfélagsins til örfarra einstaklinga. Það tókst og með miklum ágætum.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Gunnsteinn Sigurðsson vanhæfur

Úrskurður samgönguráðuneytisins varðandi ráðningu í embætti verkefnastjóra æskulýðs- og tómstundamála í Kópavogi kemur fáum á óvart. Úrskurðurinn er skýr, ótvíræður en algerlega öndverður áliti bæjarlögmanns í Kópavogi? Formaður ÍTK Gunnsteinn Sigurðsson var vanhæfur.

Í úrskurði af þessum toga er ekki tekið tillit til hæfi umsækjenda , það gerir hins vegar umboðsmaður Alþingis. Sjá til dæmis og sbr. úrskurð umboðsmanns vegna kæru Helgu Jónsdóttur varðandi umsókn um starf ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu, þar sem fram kom að gengið hafa verið fram hjá hæfari umsækjanda þ.e.a.s. Helgu. Ekki er mér kunnugt um hvort einhverjir umsækjendur í þessu máli láti á það reyna, en eðli málsins vegna væri slíkt ekki óeðlilegt.

Þetta mál er auðvitað ein allsherjar vitleysa, ekki bara það að nánast allir forstöðumenn ÍTK séu hættir eða að hætta störfum, eftir situr þessi dæmalausi bæjarstjórnarfundur um árið sem gefur fullt tilefni til frekari eftirmála. Á Visi.is kemur eftirfarandi fram um vanhæfi formannsins fyrrverandi :

„Samgönguráðuneytið hefur úrskurðað fyrrverandi formann Íþrótta - og tómstundaráðs í Kópavogi, Gunnstein Sigurðsson, vanhæfan til að fjalla um ráðningu í stöðu verkefnisstjóra æskulýðs- og tómstundarmála í Kópavogi. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar kærðu ákvörðun ÍTK til ráðuneytisins á sínum tíma því þau töldu óeðlilegt að Gunnsteinn tæki þátt í ráðningaferlinu vegna tengsla sinna við einn umsækjandann.
Viðkomandi umsækjandi hafði verið undirmaður Gunnsteins, sem er skólastjóri í Lindaskóla, til margra ára auk þess sem hann var meðmælandi hennar á umsókn um starfið og mælti hann með henni í starfið þegar ákvörðun var tekin um ráðningu.“ (visir.is)


Sjá alla fréttina http://www.visir.is/article/200880318043

sunnudagur, 16. mars 2008

Baldur Sveinsson...

... hitti svo sannanlega í mark með bók sinni Flugvélar yfir og á Íslandi, ljósmyndabók í hæsta gæðaflokki, frábærar myndir og vel unnar. Viðfangsefnið fjarri því að vera einfalt. Útkoman frábær bók sem er skyldueign allra ljósmynda- og flugáhugamanna og ekki verra eins í mínu tilfelli þegar að þetta hvoru tveggja fer saman.

Hef ekkert flogið sjálfur nema í Fligth simulator en sú reynsla segir mér að ég vildi ekki vera farþegi hjá mér, sem er önnur saga. Hef samt sem áður ferðast mikið og reynt að sameina þessi áhugamál mín. Birti hér mynd sem ég tók rétt sunnan við Surtsey, sennilega úr 34 -35 þúsund feta hæð.

Flug í góðu skyggni er skemmtilegasta landafræðikennslan - Borgir, ár og fjöll sýna manni samhengi sem erfitt er að miðla í bók eða frásögn.