fimmtudagur, 28. desember 2006

Er Alcan „korter í þrjú gæi" ?

Eitthvað er þessi charming ofensív hjá Alkan þessa dagana illa útfærð og ómstríð þykir mér. Svona eins og eitthvert afbrigði af „ korter í þrjú gæa”. Svoleiðis gæar fara sem kunnugt er aldrei „heim með sætustu stelpuna af ballinu”.

Að senda manni Bó innpakkaðann í álpappír ( hvers á Bó að gjalda) og láta „starfsfólkið” senda landsmönnum jólakveðju í formi rándýrrar og margendurtekinnar sjónvarpsauglýsingar þar sem allir eru syngandi glaðir, hjólandi um brosandi í að virðist háfjallalofti og hreinlætið allt í álverinu slíkt að framkvæma mætti þar skurðaðgerð án nokkurra þrifa. Þetta er auðvitað bara hallærislegt, vekur mann til umhugsunar hvar álversmenn hafa verið í 39 ár og 11 mánuði af þessum 40 árum og ekki síst ef mönnum er svona mikið í mun, allt í einu, að eyða peningum þessa dagana væri þá ekki nær að gefa þessar fúlgur til velferðamála.

Við Hafnfirðingar eru manna greindastir og getum vel gert okkur að góðu málefnalega umræðu um stækkun álversins. Hana er ekki að finna í rándyru en afar ómerkilegu auglýsingaskrumi frá Alcan. Bendi lesendum síðunnar hins vegar á ágæta síðu samtakananna Sól í Straumi um þessi mál.

föstudagur, 22. desember 2006

Evran

Það kemur ekki á óvart að bankarnir vilji gjarnan gera upp í evrum. Tilgangurinn auðvitað sá að forðast eigið vaxtaokur á íslenska markaðinum og síversnandi stöðu krónunnar. Bankarnir vita manna best hvernig á að ávaxta eigið fé og hvernig mál þróast. Nú færa menn ofurgróðann strax yfir í öruggan gjaldmiðil.

Lagði það til fyrir margt löngu þegar ég var í verkalýðsmálum að laun yrðu greidd út í evrum svo þetta íslenska stórkarla Matador, sem íslenskt efnahagslíf er orðið, myndi ekki bitna á launafólki. Á því var engin áhugi, enda ekki gert fyrir að almúginn sé annað en viðskiptafóður íslenskra mógula af ýmsum toga. Viðvarandi okurvextir og ofurtryggð útlán, láglaunapólitík , hátt vöruverð, ofur íbúðaverð og handónýtt tryggingakerfi er það „frelsi” sem almenningur býr við.

Það er eitthvað sem ekki er að gera sig – sennilega á íslenkur almúgi „engar góðar götur” í íslenska Matadorinu. Það þarf að jafna leikinn. Það verður ekki gert menn fákeppni og samráði þeirra sem þegar eiga meira en nóg. Kannski þarf að stækka leikvöllinn og hvar er þetta „frelsi” sem stjórnmálamenn eru að tala um? Af hverju geti ég ekki haft öll mín viðskipti við minn gamla banka í Gautaborg sem ég átti í ágætum viðskiptum við á námsárum mínum þar í borg.

Þurfum við að ganga í EB til að losna undan þessu íslenska „frelsi”. Hefur hvarflað að manni en mál að þessari ósanngirni og vitleysu linni.

Óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla.

laugardagur, 16. desember 2006

Spjöld sögunnar

Kom mér á spjöld sögunnar í gærkveldi ásamt meðspilurum mínum, Trausta Jóns og Markúsi Guðmunds, í rokkhljómsveitinni PLÚS. Lékum nokkur lög fyrir starfsmenn ÍTR sem héldu jólahóf í kjallaranum á Fríkirkjuvegi 11. Okkur telst til að þetta verði síðustu tónleikar í þessum merkilega sal og í þessu glæsilega húsi og því söguleg stund. Eins og kunnugt er mun ÍTR flytja í nýtt húsnæði á næstunni og borgin hefur ákveðið að selja húsið.

Þarna í kjallaranum var Jazzvakning stofnuð um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og þar áður var þarna félagsmiðstöð þar sem að öll helstu bönd þess tíma komu fram. Ekki amalegt að hafa fetað í fótspör allra helstu jazzista landsins og sett punktinn fyrir aftan i-ið hvað sögu þessa menningarseturs varðar.

mánudagur, 11. desember 2006

Seljahverfis - syndrómið

Allan níunda áratuginn var líflegt í Seljahverfinu. Unglingar söfnuðust saman við verslunarkjarna í hverfinu. Oft var róstursamt vegna áfengisneyslu ungmennanna og á þessum árum komu upp mjög erfið mál vegna vímuefnaneyslu , m.a. snifffaraldur. Mörgum fannst þetta merkilegt enda hverfið talið félagslega sterkt, blönduð byggð þar sem allar stéttir samfélagsins áttu sína fulltrúa.
Á sama tíma og skammt frá í hinu „alræmda” Efra Breiðholti var allt með felldu og unglingar hverfisins undu sínum hag hið besta.

Skýringin á þessu ástandi í Seljahverfi var einföld þegar að var gáð. Í hverfinu var engin félagsmiðstöð og unglingar hverfisins áttu sér ekkert athvarf annað en sjoppurnar. Í Efra Breiðholti var á sama tíma rekin ein öflugasta félagsmiðstöð landsins Fellahellir. Þegar að loksins var komið á legg félagsmiðstöð í Seljahverfi í upphafi tíundna áratugarins þá var eins og við manninn mælt allt datt í dúnalogn og æska hverfisins tók til við uppbyggilegri iðju en áður var.

Mikilvægi félagsmiðstöðva í forvarnarstarfi er augljóst. Starfsemin er ekki síður mikilvæg hvað varðar uppeldi og menntun ungdómsins almennt þar sem unga fólkið lærir margt í félagsmiðstöðvunum og þroskast sem einstaklingar.

Stjórnmálamenn gleyma þessu oft. Sérstaklega þegar að vel gengur. Gott ástand í æskulýðsmálum er ekki sjálfgefið og ekki hægt að ganga að því sem vísu. Þess vegna er eitt mikilvægast hlutverk stjórnmálamanna að skapa starfsemi félagmiðstöðva umgjörð við hæfi og ekki síst fjármagn til starfseminnar. Niðurskurður og aðstöðuleysi á þessu sviði leiðir bara til „Seljahverfisástands” og á slíku hefur ekkert samfélag efni á. Kraftmikið samfellt starf er það sem virkar – Tímar „herlúðrablásturs” þegar allt er komið í óefni eru liðnir einfaldlega vegna þess að slíkt virkar ekki. Samfellt og gott starf félagsmiðstöðva sem byggir á fagmennsku og styrkrum stoðum er það sem virkar og að slíku ber að hlúa.

sunnudagur, 3. desember 2006

Margrét K Sverrisdóttir

... hóf sig upp yfir sinn eigin flokk í Kastljósinu í kvöld og fór skipulega yfir þann vitleysisgang sem forystumenn flokksins hafa hafnað í síðustu misserin og talaði eins og forystumaður stjórnmálaflokks á að tala. Sé ekki annað en að ef Frjálslyndi flokkurinn ætlar að verða eitthvað annað en „gamalt "nýtt" afl” þá verði það ekki gert án Margrétar. Margrét hefur ávallt verið málefnaleg og hreinskiptin, sem eru miklir kostir á vettvangi stjórnmála. Margrét á að fara alla leið enda hefur hún í þessum ólgusjó síðustu dægra sýnt afburðar styrk, festu og ekki síst mikla leiðtogahæfileika. Slíkir kostir hljóta að vera akkur fyrir forystumann hvaða stjórnmálaflokks sem er. Frjálslyndi flokkurinn hefur einfaldlega ekki efni á því að vera án krafta hennar.