þriðjudagur, 25. janúar 2011

Glórulaus sérhagsmunapólitík


Heldur er það sorglegt að fylgjast með kjaraviðræðum þessa daganna. Og lægst rís þetta með ótrúlega ósmekklegum málflutning framkvæmdastjóra SA sem er í einhverju pólitísku handlangi fyrir tiltölulega fámenna sérhagsmunaklíku sem oftast er nefnd LÍÚ. Það er einstaklega óviðeigandi af hálfu SA að stilla málum upp með þeim hætti að ekki verið samið nema gengið verði frá hinu afar umdeilda og ósanngjarna fiskveiðikerfi áður og þá væntanlega í samræmi við ýtrustu sérhagsmuni LÍÚ.

Við svona rugli er aðeins eitt svar
og það er að vísa deilunni umsvifalaust til sáttasemjara. Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl sem er ekki síst tilkomin vegna sérhagmuna í íslensku samfélagi eins og þeirra sem formaður SA talar fyrir og ætlast greinilega til að festir verði í sessi sbr. grímulausar hótannir í garð launafólks. Var lengi í þessum bransa og mann sannast sagna ekki eftir eins ósmekklegum málflutning og SA viðhefur þessi dægrin.

laugardagur, 22. janúar 2011

Wonderful Copenhagen

Hef starfa minna vegna verið mikið á ferðinni í gegnum árin. Sérstaklega þegar að ég gegndi formennsku í Samtökum norrænna félagsmiðstöðva. Og oft lá leiðin í gegnum Kaupmannahöfn hina ókrýndu höfuðborg Norðurlanda og ekki síst fyrrum höfuðborg okkar Íslendinga. Borgin er stórborg í mörgu tilliti s.s. menningarlegu, þó svo að hún teljist ekki stór miðað við mannfjölda.

Þegar að ég er í Kaupmannahöfn þá gisti ég nær undantekningarlaust á Saga Hótel sem er ódýrt 2 stjörnu hótel við Colbjörnsgötu sem er í næsta nágrenni við Hovedbanegården. Hótelið er fjölskyldufyrirtæki. Það var fyrir einskæra tilviljum að ég komst í samband við þetta hótel en Danska Samfés, Ungdomsringen, bjó við sérkjör fyrir sitt fólk, kjör sem ég gekk inn í fyrir margt löngu og hafa staðið mér til boða alla tíð síðan. Hótelið lætur lítið yfir sér, er laust við allan lúxus, er þrifalegt og býður upp á ágætis herbergi með fínum rúmum, góðri hreinlætisaðstöðu og lipurri þjónustu. Ég hef ávallt reynt að halda ferðakostnaði í lágmarki hvort sem ég ferðast á eigin vegum eða annarra en í þeirri viðleitni minni er hótelkostnaður oft Þrándur í götu og fátt finnst mér verra en að eyða umtalsverðum upphæðum í slíkt.

Í Kaupamannahöfn skiptir engu máli hvaða dagur er því öll kvöld ársins er hægt að finna góða tónleika nánast fyrirvaralaust í miðborginni og víðar ef því er að skipta. Fyrir okkur sem höfum gaman af blues og jazz þá er Blúsklúbburinn Mojo (www.mojo.dk) i Løngangsstræde (rétt við Strikið) alltaf með eitthvað skemmtilegt í gangi og sama má segja um Jazzhouse ( www.jazzhouse.dk ) á Niels Hemmingsens Gade sem einnig liggur við Strikið. Þar að auki er fjöldi annarra staða í miðborginni sem bjóða upp á lifandi tónlist. Það þarf ekki að gera annað en taka góðan göngutúr um miðbæinn og nánast tryggt að fólk finnur eitthvað við sitt hæfi.