miðvikudagur, 28. maí 2008

Af banka og meintri einsemd vestanhafs


Er sem sagt staddur á námskeiði í Kanada í Nýja Skotalandi eða Nova Scotia eins og þarlendir nefna svæði upp á frönsku þó svo að nokkuð víst sé að Skotar þeir sem hér námu land í eina tíð hafi ekki kunnað frönsku.

Er í hópi góðs fólks af mínu þjóðerni en eins oft þá er ekki úr vegi að rölta um svæðið að lokinni dagskrá dagsins. Oft er það nú svo að blessuð heimþráin gerir vart við sig þó svo maður sé umvafin löndum sínum.

Og viti menn þegar mæða einsog heimþrá sækir á landann þá er bankinn, eins furðulega og það lætur ,sem oftast er ekki vinur manns, aldrei langt undan og sem við lölluðum um miðbæ Halifax þá birtist eins og vin í auðninni Landsbankaútibú að vísu lítið, svona eins og blessaður Pylsuvagninn í Tryggvagötu, stór í sinni þrátt fyrir fáa fermetra. Þægileg tilfinning í þessari kollektívu einsemd og heimþrá að sjá bankann, slökkti nefnilega algerlega á heimþránni, fór nefnilega að hugsa um þjónustugjöldin og vaxtaokrið. Falleg borg Halifax.

mánudagur, 26. maí 2008

Unglingar eru líka fólk

Mikil hiti hefur verið í umræðunni um brettapalla við Víðistaðatún hér í Hafnarfirði . Því miður hafa mál þróast að neikvæða lund og margt sem þar kemur til. Þannig háttar til að hafnfirskir unglingar hafa búið við algert aðstöðuleysi til margra ára. Hafnfirskir brettaunglingar hafa því árum saman þurft að sækja í önnur bæjarfélög til að stunda sitt áhugamál. Þegar að málið kemst loks á dagskrá og unga fólkinu er tilkynnt af hálfu bæjaryfirvalda að nú eigi loksins að gera gangskör í brettamálum og byggja eigi upp veglega aðstöðu þá varð almenn ánægja meðal unglinganna sem sáu loks gamlan draum rætast.

Skömmu eftir þetta birtist umfjöllum í Fjaraðpóstinum (FP) um mótmæli íbúa við Víðistaðtún og frá sjónhorni unglingaanna voru það feikileg vonbrigði og sem túlkuð voru á þann veg að nú ætluð einhverjir íbúar að eyðileggja þetta mál. Margir unglinganna urðu mjög reiðir og einhverjir fóru því miður langt yfir strikið í þeim efnum.

Hitt er svo annað mál sem er ekki gott að í umfjöllum um þetta mál á opinberum vettvangi ber því miður í ýmsum tilfellum á miklum fordómum gangvart ungu fólki. Þegar að umfjöllun er orðin í þessum dúr: “...Flóðlýsing og músík! Stór Reykjavíkursvæðið + erlendir gestir! Það verður nóg að gera við að hringja í lögregluna...” (FP. 15.maí 2008) þá er mál að linni. Brettafólk þarf ekki neina sérstaka gjörgæsluvöktun frekar en aðrir hópar fólks. Brettafólk eru ekki óargardýr fremur en aðrir unglingar. Stundum er eins og við sem eldri erum höfum gleymt okkar eigin æsku. Viðbrögð af þessu toga leysa ekkert en eykur frekar vandann ef eitthvað er. Unglingar eins og annað fólk á rétt á fordómalausri umfjöllun

Ekki þekki ég hina stjórnsýslulegu leið málsins og hvort einhverjir hnökrar voru í því ferli en hvað það varðar þá er ekki við unglingana að sakast ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í þeim efnum. Víðistaðatúnið er góður kostur undir garð af þessum toga spurning er því sú hvort ekki sé hægt að færa garðinn innan þess ramma t.d. í nágrenni við skátaheimilið, ef það mætti vera til þess að leysa málið. Sorglegast af öllu er ef málið fer aftur á byrjunarreit. Það eiga a hafnfirskir unglingar ekki skilið og í raun meinlegt að okkar ágæta bæjarfélaga hafi ekkert að bjóða unglingunum annað en að fara með brettin sín í annað bæjarfélag?

sunnudagur, 18. maí 2008

Palestínar til Hafnarfjarðar

Við Hafnfirðingar eigum að bjóða fram krafta okkar í málefnum innflytjenda. Sorglegt að heyra umræðuna þessa daga “hvítt afl”, hvílík smán og hvílikur málflutningur.

Lúðvík bæjarstjóri taktu af skarið, bjóðum þessum flóttamönnum hingað í fjörðinn. Höfum staðið okkur ágætlega í þessum málum og eigum að halda því áfram.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Ef alvöru photoshop ...


...hefði verið til í Sovétinu sáluga þá hefðu hinir öldnu leiðtogar verið eitthvað í stíl við þessar dömur. Handverkið við að taka út úr myndum þá sem voru í ónáð í það og það skiptið væri auk þess mun einfaldara. Ætli Kremlologar allra tíma fagni ekki Photoshopinu innilega? Held að það hljóti að vera.

þriðjudagur, 13. maí 2008

Dísa & Danni - frábærir listamenn

Lagið "Ljáðu mér eyra". Flytjendur Bryndis Jakobsdóttir og Daníel Friðrik. Frábært listafólk sem á framtíðina fyrir sér. Njótið vel, heyrn er sögu ríkar.
http://www.youtube.com/watch?v=02wrtMumzOQ

föstudagur, 9. maí 2008

Það er ...

... auðvitað með eindæmum að stofna þurfi sértök samtök til þess eins að berjast fyrir því að farið sé eftir gildandi lögum í landinu? Í þessu tilfelli lögum um banni við áfengisauglýsingum.

Var orðið fyllilega tímabært. Hittumst því nokkur þann 1. maí sl. og gengum frá stofnun Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum með pomp og prakt. Þeir sem hafa áhuga á að vera með geta skráð sig sem stofnfélaga til 1. september. Hægt er skrá sig HÉR (nafn, kt, heimili, rafpóstur)

Markmið samtakanna er einfalt eða eins og fram kemur í 5.gr stofnsamþykktar: “Markmið samtakana er að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstakri áherslu á vernd barna og unglinga”

Sjá stofnsamþykkt í heild hér

Í vinnslu er heimasíða sem m.a. mun einfalda fólki að benda á brot og tilkynna til yfirvalda en nánar um það síðar. Hvet eindregið alla þá sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti til þess að ganga til liðs við okkur og gerast stofnfélagar.

fimmtudagur, 8. maí 2008

Tvær fjaðrir...

... verða stundum að fimm hænum. Þann 1. apríl sl. voru tvær fréttir á dagskinnunni. Ein um að Geir vinur minn Bjarnason væri á förum frá Hafnarfjarðarbæ til starfa hjá Lýðheilsustöð og önnur um að ég væri komin í flugnám.

Svo fór eins og mig grunaði að þeir fjölmörgu sem lesa dagskinnuna töldu flugnám mitt vera 1. aprílgabb en hins vegar trúðu því flestir að Geir Bjarnason væri á förum til Lýðheilsustöðvar og hlupu þar með apríl. Svo sterkur er trúnaðurinn að Geir fær enn þann dag í dag hamingjuóskir með nýtt starf en það er ekki nokkur maður sem spyr mig út í hvernig gangi í flugnáminu.

Ég tilkynnti einmitt þann 1. apríl 2007 á dagskinnunni að ég hefði “sökum fjölda áskorana og þar sem að margir hefðu komið að máli við mig” ákveðið að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar fyrir þingkosningarnar. Olli þar með eindæma uppnámi í hreyfingunni var mér síðar sagt. Uppnámi sem ekki síst lenti á ágætri vinkonu minn til margra ára Margréti Sverrisdóttir sem talin var, algerlega að ósekju, vera að hygla "sínu fólki" í Kraganum.

Svona er það nú, alþjólegi hrekkjusvínadagurinn 1. apríl er nýttur til hins ítrasta á þessari dagskinnu.