þriðjudagur, 22. júní 2010

Ferðalag sem engin vill fara í - nema fararstjórinn


Rak augun í  yfirlýsingu (hluta af) frá Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar STH á vef félagsins.

"Stjórnir Starfsmannafélags Hafna(r)fjarðar , Félags Opinberra Starfsmanna á Suðurlandi og Starf(s)mannafélag Dala- og Snæfellssýslu funduðu í gær í Hafnarfirði og ákváðu að fara í formlegar viðræður með það að markmiði að sameina félögin. Var formönnum félaganna veitt fullt umboð til að fara í skipulagða undirbúningsvinnu að sameiningu félaganna.

Í yfirlýsingu stjórna STH, FOSS og SDS sem gerð var á fundinum standa þessi orð: Það er trú okkar að með sameiningu þessara félaga sé stigið mikið heilla spor fyrir félagsmenn félaganna“

... brá nokkuð en rann blóðið til skyldunnar og sem fv. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar mjög hissa á þessum málatilbúnaði. Hef reyndar ekki fengið þessa „yfirlýsingu“ í heild þó ég hafi leitað eftir henni með formlegum hætti? Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum FOSVEST bættist í hópinn nokkrum dögum eftir þessa yfirlýsingu.
Velti fyrir mér hvort stjórn félagsins hafi gefist upp á því að vera fulltrúar félagsmanna með því að ákveða viðræður án þessa að það ráðfæri sig í einu eða neinu við þá í upphafi, en fá fullt umboð hver frá öðrum til þess að tala hver við annan?

Hef ekki nokkra trú á að félagsmenn STH samþykki þess vitleysu, ef á það reynir á annað borð, enda tilgangurinn afar þokukenndur og ekki beinlínis um „Bjarmalandsför“ að ræða svo ekki sé dýpra í árina tekið. Það er alveg sama hvar maður fer inn í þetta mál – hagmunir STH félaga eru ekki í öndvegi enda eru þeir ekki einu sinni spurðir álits.

STH á sér langa og merka sögu og var eitt af stofnfélögum BSRB og allar götur síðan verið virkt afl í kjarabaráttu opinbera starfsmanna. Sem slíkt hefur félagið verið í forystusveit BSRB og ekki síður innan regnhlífarsamtakanna Samflots bæjarstarfsmanna en þar voru flest bæjarstarfsmannafélögin en þó ekki öll.
Það er ekkert launungarmál að fyrir nokkrum árum sprakk Samflotið (Samflot bæjarstarfsmannafélaga) sem var til margra ára eitt sterkasta aflið innan BSRB. Og úr varð annarsvegar, nýtt og minna Samflot, og hins vegar Kjölur með gamla Starfsmannafélag Akureyrar sem forystuafl. Í Kili sameinuðust mörg lítil félög, flest landfræðilega tengd en þó ekki algilt, einhver félög gengu inn í Kjöl af öðrum ástæðu og sennilegast þeim að þar töldu þeir sínu hag betur komið heldur en innan regnhlífarsamtaka félaga eins og Samflotsins nýja ( 6-7 félaga) sem stofnað var í kjölfar klofningsins.

Hjá bæjarstarfsmannafélögum hafa orðið breytingar síðustu ár og flestar til bóta. Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi hefur verið að stækka en Selfoss var eins og eyja í miðju þeirra svæði og með sameiningu sveitarfélaga var Starfsmannafélag Selfoss lagt niður enda sama vinnu- launa- bæjarfélags- og landssvæði. Í STH gengu fyrir nokkrum árum inn félagsmenn af Álftanesi en þeir höfðu áður haft einstaklingsaðild að BSRB sem var ekki gott eða æskilegt og af þeim sökum var þeim boðin aðild að STH.

Sú viljayfirlýsing sem nú liggur fyrir er ekki í þessum anda. Nú eru þetta 3 -4 tiltölulega einangruð landsvæði með mjög mismunandi virkum og eða óvirkum félögum. Félögin eru afar ólík að gerð bæði hvað varðar hefðir, launasetningu, uppbyggingu, í hvernig samfélögum þau starfa og reyndar í flestu því sem gerir félög að félögum. STH hefur enga sérstaka þörf fyrir að sameinast og hvað þá félögum sem almennt búa við lakari kjör en til dæmis þau félög sem STH á að bera sig saman við, eins og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Garðabæjar og Starfsmannafélag Suðurnesja. Öll þessi félög eru utan Samflotsins eða Kjalar, eru á stór- Hafnarfjarðarsvæðinu og státa flest af því að búa við betri kjör en bæjar- og sveitarstjórnir þeirra félaga sem stjórn STH vill sameinast. Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Og nú hefur stjórn félagsins gefist upp sbr yfirlýsingin undarlega ! „...standa þessi orð: Það er trú okkar að með sameiningu þessara félaga sé stigið mikið heilla spor fyrir félagsmenn félaganna“ ...“
Þessu er ég sem fyrrverandi formaður STH 100% ósammála. Hin afar óljósa og tvísýna vegferð er dásömuð áður en lagt er af stað inn í þokuna! Sameining af þessum toga hefur enga þýðingu fyrir STH félaga og er fjarri því að vera nokkurt heillaspor. STH/Hafnarfjörður verður eyland úr tengslum við nágrannafélögin og í kompaní með einhverjum af mestu láglaunasvæðum landsins.

Verkefni STH eru á öðrum vettvangi og felast í samstarfi sjálfstæðra bæjarstarfsmannafélaga á stór- Hafnarfjarðarsvæðinu, hinu sameinilega launa- atvinnusvæði. Samtakamáttur á þeim vettvangi er vænlegur til árangurs. Skipulag, innra starf og sjálfstæði félagsins þarf að taka mið af því – að leggja það niður eða geyma það í skúffu í starfsmannahaldi bæjarins er ekki skynsamlegt. Verkefnin eru því allt önnur en að sameinast og ef það væri á döfinni þá væri Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sennilega fyrsti kosturinn m.a vegna mun hagstæðari launatenginga starfsmats. Hitt er svo annað mál hvort bæjaryfirvöld myndu nokkurn tíma fallast að taka upp launatengingu borgarinnar, í ljósi reynslunnar verður að stórefa að slíkt yrði.

Launastefna Hafnarfjarðarbæjar hefur síðustu ár verið áköf láglaunapólitík og bæjarstjórn hefur fylgt í blindni afar óbilgjarnri láglaunastefnu launanefndar sveitarfélaga og skiptir í engu hvert ástand efnahagsmála hefur verið hverju sinni – í hinum mestu uppsveiflum fyrri ára var aldrei ráðrúm til leiðréttinga. Ég hef oft sagt að Hafnarfjarðarbær sé heilagri en páfinn í þessum efnum. Það helgast m.a. af því að starfsmannastjóri bæjarins um áraraðir var og er formaður launanefndar sveitarfélaga sem stundum er kallað skussabandalagið sökum fyrrgreindrar launastefnu sinnar. Um „launastefnu“ þessa má hafa uppi mörg orð sem ekki verður gert að sinni.

Því miður var horfið frá stefnu sem Guðmundur Árni Stefánsson fv. bæjarstjóri innleiddi með dyggum stuðningi Magnúsar Jóns Árnasonar, stefnu sem markaði ríkan skilning á málefnum starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar enda var það þannig í þeirra tíð að STH félagar voru í efstu viðmiðum hvað varðaði laun bæjarstarfsmanna í landinu og bæði bæjaryfirvöld og STH voru sammála um þá launastefnu enda í anda alvöru starfsmannastefnu. Svipaðri stefnu hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ undir forystu Gunnars Einarssonar bæjarstjóra fylgt til margra ára . Að vera í efstu viðmiðum, í kerfi sem er ekki dýrt í eðli sínu, kostar hlutfallslega ekki mikið en gefur margfalt til baka, ekki síst fyrir viðkomandi bæjaryfirvöld. Skilaboð til starfsmanna eru skýr og þau sýna í verki alvöru starfsmannastefnu og jákvætt viðhorf til starfsmanna og mikilvægra starfa þeirra. Því miður hafa bæjaryfirvöld og eða fulltrúar þess ekki haft gæfu til þess að halda kúrs en oft leitað í farveg harðra átaka og með því sparað aurinn en kastað krónunni. Það er því og verður ærið verkefni fyrir stjórn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar nú sem fyrr og eitt og sér að eiga við Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Það er því alvarleg staða ef stjórn STH nennir ekki að vera stjórn STH eða treystir sér ekki til þess og ef svo er komið málum þá á hún einfaldlega að segja af sér og gefa öðru fólk kost á að taka við. Verkefni eru ærin og ekki síst á tímum eins og þessum og þau felast ekki í því að setja rassinn upp í vindinn, hrekjast undan afar ósanngjarnri launastefnu Hafnarfjarðarbæjar og gefast upp. Að leggja niður Starfsmannafélag Hafnarfjarðar yrði stórslys og því verður að afstýra. Hvet allt það ágæta fólk sem myndar STH til þess að sjá til að svo verði ekki.

miðvikudagur, 2. júní 2010

Af hægrisinnuðum vændiskonum

Nú hefur argumentasjón Hannesar Hólmsteins risið í hæðstu hæðir sbr. þessi nýjust skrif hans:

„Þess vegna voru — og eru — styrkir fyrirtækja, stórra og smárra, til Sjálfstæðisflokksins eðlilegir, því að hann er einn flokka hlynntur frjálsu atvinnulífi, hagstæðu almennu umhverfi fyrir atvinnufyrirtæki. Á sama hátt voru — og eru — styrkir, sem stjórnendur almenningshlutafélaga veita vinstri flokkum og vinstri mönnum, óeðlilegir. Hið eina, sem vakir fyrir stjórnendum almenningshlutafélaga með slíkum styrkjum, er að kaupa einstaka menn eða flokka til einhvers, sem ekki er í samræmi við yfirlýsta vinstri stefnu þeirra
“( Hannes Hólmsteinn , Pressan 2010).

Ef þessi undarlega „hugmyndafræði“
prófessorsins er sett í feminiskt samhengi þá er ljóst að hægri sinnaðar vændiskonur og ömurlegar aðstæður þeirra eru ekki félagslegt vandamál eins og almennt er álitið þar sem þær kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Í því tilfelli fara "eðlilegar" hugmyndir „kaupandans“ vel saman við stjórnmálskoðun vændiskonunnar og því orðið að „eðlilegum“ samskiptum tveggja aðila. Í þessu tilfelli er því fullkomlega óeðlileg að nefna vændiskonuna vændiskonu þar sem hagsmunir hennar og kaupandans fara saman. Hinn hugmyndafræðilegi grunnur vændiskonunnar hefur því „automatiska“ syndaaflausn.

Því er ekki fyrir að fara ef vændiskonan er vinstri sinnuð, það er öllu verra, svo ég tali nú ekki um ef hún kýs Vinstri græna. Þá erum við að tala um fullkomlega ósiðlegt athæfi þar sem skoðun vændiskonunnar á vændinu fer ekki saman við hagsmuni „kaupandans“. Hún er jafnvel í mikilli neyð að vinna gegn eigin prinsippum og haldin "óeðlilegum" skoðunum að mati "kaupandans". Hin vinstri sinnaða vændiskona er því syndum hlaðið félagslegt vandamál og „kaupandinn“ á ekki að eiga „viðskipti“ við fólk að þessu tagi.

Ergo vændi er einungis "réttlætanlegt" svo fremi sem vændiskonan sé hægrisinnuð. Eða spilla bara spilltir spilltum? Ultra frjálshyggjan ríður ekki við einteyming.