miðvikudagur, 22. apríl 2009

Einstaklega "háð" blað

"Margir ætla að skila auðu" segir Morgunblaðið í stríðsfréttaletri á forsíðu í morgun. Þýðir á íslensku - "Ósáttir sjálfstæðismenn í guðana bænum afsalið ykkur kosningaréttinum og kjósið ekki aðra þó þið séuð spæld út í okkur" - Morgunblaðið á tímum kosninga, einstaklega "háð" blað

mánudagur, 20. apríl 2009

Að fortíð skal hyggja þá framtíð á að byggja

Undirritaður skilur vel að sjálfstæðismenn vilji helst gleyma 6.575 daga valdatíð sinni sem fyrst - en að byggja kosningabaráttu sína fyrst og fremst upp á skítkasti um aðra flokka er sorglegt - Fyrir hvað stendur þessi flokkur eiginlega ? - Hvar eru "málefnin"? - "Að fortíð skal hyggja þá framtíð á að byggja"

laugardagur, 11. apríl 2009

Það segir fátt af Sigurði Kára

Þingmaðurinn Sigurður Kári fór mikinn s.l. haust í afar ómaklegri og persónulegri árás á ágætan vin minn og starfstarfsmann til margra ára Ögmund Jónasson. Sigurður sakaði Ögmund m.a. um að notfæra sér BSRB í pólitískum tilgangi. Nú þarf Sigurður Kári endilega að skýra fyrir okkur hvert sé hans álit á því að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (og fyrverandi formaður Vinnuveitaendasambandsins) sé jafnframt formaður fjáröflunarnefndar Sjálfstæðisflokksins?

Spurning er því sú hvort komi fyrst hænan eða eggið - er Sjálfstæðisflokkurinn hluti af "eignasafni" Samtaka atvinnulífsins eða öfugt? Og hvor er að nýta sér hvern eða er þetta sama apparatið allt saman? Veit það ekki en óneitanlega álitið "hagkvæmt" að sami maður gegni þessum mikilvægu hlutverkum? Hvað segir Sigurður Kári?

föstudagur, 10. apríl 2009

Í hinni vinnunni í vinnuni

Sem fyrrum verkalýðsforingi lenti ég einu sínni í því að reyna að grípa til varna fyrir starfsmann sem hafði orðið á í messunni. Viðkomandi hafði ráðið sig til starfa úti í bæ án þess að að segja upp sínu fyrra starfi sem er auðvitað brot á öllum reglum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Viðkomandi sagði sér til málsbóta að eiginkona hans sinnti starfsskyldum hans þar sem störfin sköruðust, sem var í nokkru mæli en að öðru leyti sinnti hann öllum starfskyldum en viðurkenndi að vinnudagurinn væri oft æði langur. Vinnuveitandi og hans fulltrúar gerðu ekkert með þessi rök og viðkomandi var umsvifalaust vikið úr starfi með tilvísun í réttindi og skyldur opinberra starfsmanna .

Þetta leiðir hugann að ýmsu sem varðar starfsskyldur í samfélaginu. Bankamenn margir hverjir hafa í sínum vinnutíma og á kostnað vinnuveitenda sinna, viðkomandi banka, möndlaði í sína þágu – selja sínum fyrirtækjum verðbréf af ýmsum toga . Ekki hefur verið gert mikið með þetta fyrr enn núna síðustu daga. Þjóðþekktur ógæfumaður lék í sjónvarpsauglýsingu fyrir öryggisfyrtæki hér um árið. Vakti mikla gagnrýni en fyrirtækið sá ekkert athugavert við slík en hefði sennilega skipt um skoðun ef viðkomandi hefði stundað iðju sína innan veggja fyrirtækisins. Það má velta fyrir sér hvort þetta sé ekki hinn blákaldi veruleiki varðandi marga háttsetta bankamenn síðustu ára – á kaupi við að brjótast inn hjá vinnuveitenda sínum?

Nú eru bankarnir komnir í ríkiseign þannig að réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ættu að gilda – fínt plagg og varðað ýmsum siðferðilegum viðmiðum sem hæfa í siðuðu samfélagi - Veitir ekki af þar sem siðareglur bankakerfisins (ef einhverjar eru) hafa ekki virkað.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Þora sjálfstæðismenn ekki út úr (þing)húsi

Fólk veltir fyrir sér þessu endalausa málþófi sjálfstæðismanna á þingi. Er þetta uppstand í hnotskurn grímulaus hagsmunagælsa flokksins t.d gagnvart „séreign“ á auðlindum þjóðarinnar (sbr. frumv. um breytingar á stjórnarskrá) eða þora sjálfstæðismenn ekki út í vorið og inn í kosningarbaráttuna. Getur verið að sjálfstæðismenn meti stöðu sína svo veika að betri kostur sé að húka inni á þingi í endalausu málþófi fremur en að freista þess að koma stefnumiðum flokkisins á framfæri við kjósendur í heiðarlegri kosningabaráttu? Í hverra þágu er allt þetta leikverk sjálfstæðismanna? Sorglegt hvað flokkurinn gerir lítið úr sjálfum sér.