miðvikudagur, 29. október 2003

Nei takk ómögulega
sagði ég aðspurður við afgreiðslukonu á bensínstöð um daginn og bætti við að ég keypti hvorki súkkulaði á extraprís né aðra smávöru af olíufélögunum. Ef mig myndi langa í súkkulaði þá færi ég í næstu sjoppu.

Ástæðan væri auðvitað sú að ég væri nokkuð þungur til hugans vegna verðsamráðs olíufélaganna og af þeim orsökum ætti ég eins lítil viðskipti við þau og mér væri frekast kostur. Með þessu væri ég að tjá óánægju mína í verki og hún mætti alveg koma þessum samskiptum okkar á framfæri við yfirmenn sína. Stúlkan varð nokkuð vandræðaleg en sagði við mig mér til furðu: "Gangi þér vel í baráttunni" og datt þar með úr rullu smávörusalans yfir hlutverk manneskjunnar sem, eins og okkur öllum hinum, misbýður það viðskiptasiðferði sem viðgengist hefur hjá olíufélögunum.

Veit ekki hvort henni tekst að pranga smávöru inn á fórnarlömb verðsamráðs í einhverju mæli. Vona alla vega að þú ágæti lesandi látir ekki plata þig - sýnum hug okkar í verki.

mánudagur, 27. október 2003

Starfsmenntasjóður
fundaði í kvöld og flestir hinna rúmlega 40 umsækjenda fengu úrlausn sinna mála. Það er ánægjulegt hve áhugasamir STH félagar eru í endurmenntunarmálum. Umsóknir er margvíslegar eins og gefur að skilja.

Hitt er annað mál að stundum þykir sjóðstjórn stofnanir beina fólki til sjóðsins með umsóknir sem ættu að öllu leyti að vera greiddar af viðkomandi stofnunum. Rétturinn er persónubundinn og því ljóst að t.d. námskeið um vinnuferla á tilteknum vinnustað eiga auðvitað að vera á kostnað vinnuveitanda og sama á við um námskeið fyrir skólaliða hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar.

Fólki í lægstu
launaflokkunum veitir ekkert af fullum styrk sem nýta má í námskeið sem bæði kemur vinnuveitenda og einstaklingi til góða. Námskeið sem hluta af símenntunaráætlun og námskeið í þágu vinnuveitenda eiga auðvitað að vera kostuðu af vinnuveitenda. Starfsfólk sundlauga eða starfsmenn ÍTH greiða t.d ekki námskeiðagjald vegna árlegra skyndihjálparnámskeiða.

sunnudagur, 26. október 2003

Loksins einn sem var skotinn

Loksins einn sem var skotinn
Fæ mikið magn af pósti frá fólki sem lent hefur í mikilli ógæfu. Yfirleitt hefjast bréfin á "My former husband general XXXXX sem var keyrður niður, fórst í flugslysi eða var handtekinn og lést í fangelsi, varð fyrir sprengjuárás, hvarf sporlaust og hefur ekki sést síðan.
Agaleg tíðindi sem því miður virðast engan endi ætla að hafa því nú nýverið fékk ég fregnir af einum til viðbótar sem yfirgefið hafði þessa jarðvist með byssukúlu í brjóstið.

Hinar afar sorgmæddu
fjölskyldur hafa þó alflestar náð að bera harm sinn í hljóði (ef frá er talin hin afar sorglega umfjöllun um jarðvistarskipti ástvinanna í upphafi bréfanna) og tekið til við að ná hinum stórfelldu eignum hins framliðna úr hinu virðulega Nígeriska eða Gahaniska bankakerfi sem ku sýna mikla óbilgirni nema ef vera vildi að einhver góðhjartaður vesturlandabúi vildi vera svo vænn að þiggja nokkra milljónir til að hjálpa örlítið við að koma nokkrum milljörðum úr landi .

Erindin
því ekki beint ósk um hluttekningu og aðstoð í sorgarferlinu - lífið verður að halda áfram þó að einn og annar generálinn fari yfir móðuna miklu - hins vegar óþarfi að láta aurana fara líka - ætlum við að bera ábyrgð á því að ekkjan og fjölskylda hins mikla XXXXX þurfi að borða hrísgrjónavelling það sem eftir er, eins og sauðsvartur almúginn?

Nú eru góð ráð dýr.
Var bent á eitt sem virkar þokkalega. Fékk mér sem sagt forritið I hate spam og viti menn sorgarsögum frá Nígeríu og Ghana hefur fækkað verulega - getur verið að þessi fjölmörgu og margþættu áföll séu bundin fáum fjölskyldum? Eða eru bara svona fáar email adressur í Afríku? Eða er einhver að plata mann? Veit það ekki?

föstudagur, 24. október 2003

150.000
króna lágmarkslaun er krafa BSRB þings. Sem sagt með öðrum orðum að miða lágmarkslaunin við það sem gengur og gerist í nágrannlöndunum. Fínt og kraftmikið þing sjá nánar ályktanir þingsins hér
Ræða formanns BSRB Ögmundar Jónassonar, sjá hér

mánudagur, 20. október 2003

ASÍ fólk

ASÍ fólk
hefur staðið sig vel í að benda á stórfelldar brotalamir í starfsmannamálum við Kárahnjúkavirkjun. Fáránlegustu mál koma upp eins og það að aðstaða til að þurrka og geyma útiföt sé ekki fyrir hendi hvorki í mötuneyti eða í svefnskálum. Erlendir verkamenn búa því við vosbúð og kulda dögum saman.

Íslensk stjórnvöld geta ekki setið aðgerðalaus með hausinn á kafi í sandinum eins og strúturinn. Íslenskum stjórnvöldum ber að sjá svo um að verkamenn búi ekki við aðbúnað sem vart þótt boðlegur fyrir 50 -60 árum og hvað þá í dag árið 2003.

Það þýðir ekki að benda á hið ítalska verktakafyrirtæki endalaust, það hefur margsannað "umhyggju" sína gagnvart verkamönnum á staðnum, ábyrgðin er auðvitað orðin íslenskra stjórnvalda úr því sem komið er og þeim ber skylda að koma málum í það horf sem tíðkast hjá siðmenntuðum þjóðum. Annað er ekki sæmandi og í raun hneisa að slíkt skuli gerast í skjóli íslenskra stjórnvalda.

ASÍ fólk hefur verið öflugur málsvari í þessu máli og staðið sig með prýði. Þetta mál sýnir okkur því hve gríðarlega mikilvægt er að eiga öfluga verkalýðshreyfingu, afl sem stendur vörð um réttindi launafólks.

sunnudagur, 19. október 2003

BSRB þing

BSRB þing
Hefst n.k. miðvikudag . Margt sem þar liggur fyrir. Komandi kjarasamningar munu efalaust setja svip sinn á þingið.
Heróp - veit það ekki, en ljóst er að kröftum verður safnað og sveitin öll samstillt sem kostur er. Við eigum inni og okkar verður að sækja það. Það verður gert með samstilltu átaki.

Den enfaldige mördaren
Kvikmyndaklassík í Bæjarbíó. Sá um helgina mynd Hasse Alferdssonar, Den enfaldige mördaren frá 1983. Frábæri mynd sem lætur engan ósnortin. Fín starfsemi hjá Kvikmyndasafninu, flottar myndir fjarri öllu Hollywood- prjáli.

mánudagur, 13. október 2003

Vextir og laun

Vextir og laun
Sveriges Riksbank segir okkur á heimasíðu sinni að meðaltalsvextir í Svíþjóð séu 2,0 % af innlánum en 3,5% á útlánum. ( september 2003) Verðtrygging ekki til. Há laun -lágir vextir ?

Seðlabankinn hinn íslenski segir um sama mánuð á Íslandi. Innlánsvextir, almennar sparisjóðsbækur 0,2% . Lægstu óverðtryggðu lán 8,4% hæstu 13,7%. Lægstu verðtryggðu lán 6,4% hæstu 11.6%. Lág laun- háir vextir ?

Finn ekki í fljótu bragði tölur um hagnað í sænska bankakerfinu. Íslenskir bankar hagnaður stórfeldur. Vaxtamunur milli Svíþjóðar og Íslands frá fjórföldum upp í tífaldan

Markmið íslenskrar launabaráttu augljós, hærri laun og burt með okurvexti og verðtryggingu lána.

laugardagur, 11. október 2003

Ísland og nánasta umhverfi ?

Tölurnar tala sínu máli - þarf ekki að hafa fleirri orð.

þriðjudagur, 7. október 2003

Samningar í nánd

Samningar í nánd
og upp með vasaklútana. Rakst á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins og sá að kjarasamningar nálgast óðum. Barlómurinn ríður ekki við einteyming á þeim bæ um þessar mundir. Samtökin hefja nú í aðdraganda kjarasamninga baráttu sína fyrir áframhaldandi láglaunapólitík í landinu, ef marka má leiðara framkvæmdastjórans. Bendi fólki á slóðina http://www.sa.is/frettir/frett_nanar.asp?id=891 ( gott ef ekkasogin fylgja ekki með).

Ef að líkum lætur þá munu svipaðar greinar um verðbólgu, óstöðugleika , gengisfellingar o.fl og aðra óáran fara að birtast með auknum þunga. Og viti menn hin almenna niðurstaða hinna fjölmörgu greina hinna fjölmörgu fulltrúa SA á næstu mánuðum verða samdóma um að ekkert ráðrúm sé til kjarabóta.

Og gott ef hin óháða spádeild Búnaðarbankans og jafnvel Fjármálráðuneytið munu ekki taka undir þessi viðhorf. ( Þjóðhagsstofnun þvælist alla vega ekki lengur fyrir) Aldrei er "góð" vísa of oft kveðin að mati SA.

Hvet fólk til að lesa komandi greinar um þessi efni t.d . í Morgunblaðinu á næstu misserum. Kíkja síðan í launaumslagið sitt og velta fyrir sér hvert góðærið hefur farið - Til almenns launafólks ? ha ha ha ha!

mánudagur, 6. október 2003

Brussel er borg fyrir ökufanta

Brussel
er borg fyrir ökufanta. Skil reyndar ekki reyndar ekki hvernig borg sem ekki hefur nokkra reglu á umferðarmálum getur þjónað tilgangi sínum sem höfuðborg Evrópusambandsins? "Reglugerðariddarar" allra Evrópulanda eru þarna saman komnir og hefðu sennilega ráð undir rifi hverju varðandi umferðarmálin í borginni væri eftir því leitað. Að taka leigubíl í borginni er sennilega svipað og að taka þátt í rallykeppni, fínt fyrir spennufíkla en slæmt fyrir virðulega verklýðforingja sem sitja í fulltrúaráði evrópskra bæjarstarfsmanna innan EPSU. Var sem sagt í á fundi í Brussel um helgina.
Einkavæðing opinnberar þjónustu var meðal dagskráliða. David Hall prófessor við Háskólann í Grenwich hafði framsögu um þau mál og mæltist vel að vanda, en meira um það síðar.

fimmtudagur, 2. október 2003

Heilsugæslan
Fundir vegna aðlögunarsamnings er fyrirhugaður í næstu viku á Heilsugæslunni. Þjónustusvæðið (tæplega 30 þús. manns) er það lang fjölmennasta á landinu. Þannig að álag á starfsfólk gríðarlegt. Það er mat félagsins að þetta mikla álag verið að meta til hærri launa.

Starfsmenntasjóður
kemur bráðlega saman. Margar umsóknir liggja fyrir. Gott mál, enda er endurmenntun bæði skemmtileg og mannbætandi í alla staði. Hægt er að sækja um rafrænt á heimasíðu STH.

Hvað má og hvað má ekki ?
Formaður hittir sjálfan sig fyrir er hann veltir fyrir sér hve langt mega stjórnmálamenn ganga í umfjöllunum um einstaka embættismenn úr ræðustóli bæjarstjórnar? Hvar liggja línur í meiðyrðalöggjöfinni? Þetta verður manni til umhugsunar eftir hlustun á upptökum á afar snörpum umræðum um æskulýðsmál í bæjarstjórn s.l. þriðjudag.

Alkunna er að stjórnmálmenn margir hverjir ata hvorn annan auri hvað af tekur án teljandi eftirmála. Hitt er auðvitað spes ef einstaka stjórnmálamenn grípur slík ólund að þeir spreða aurnum langt út fyrir hinn pólitíska vígvöll á lágt launaða embættismenn sem hafa það eitt til saka unnið að hafa reynt að sinna starfi sínu samkvæmt bestu samvisku. Hvar eru mörkin? Veit það ekki - Finnst þó í þessu tilfelli eins og það sé verið að skjóta á mýflugu með fallbyssu.

miðvikudagur, 1. október 2003

Kosningarloforðin og skattalækkanir !

Kosningarloforðin og skattalækkanir !
Öll er vitleysan eins ef marka má fjárlagafrumvarp ríkistjórnarinnar. Skattalækkun hvergi að sjá þrátt fyrir loforð þar um. Á kjörtímabilinu segja menn, en sannleikurinn sennilega sá að kosningaloforðið á að nýta sem skiptimynt í komandi kjarasamningum.

Ef kosningaloforðin eru sífellt í boði verkalýðshreyfingarinnar þá tel ég þann kost vænstan að ríkisstjórnin fari frá hið fyrsta og eftirláti væntanlegum efnendum kosningaloforðanna stjórnartaumanna.

Stöðugleikinn hefur haldist þrátt fyrir ríkisstjórnina en henni hefur algerlega mistekist í því að koma á réttlátri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Þess í stað hefur verið staðið vel og dyggilega við bakið á efstu lögum samfélagsins á meðan að þeir sem helst þyrftu aðstoðar við eru afskiptir með öllu. Láglaunastefna og afkoma þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu ber þessu glöggt vitni.