fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Einstaklega óviðeigandi

Það var með eindæmum að eftir skemmtilega Kastljósútsendingu frá Bessastöðum í gærkvöldi þar sem okkar bestu synir og fyrirmyndir æsku þessa lands voru heiðraðir, þá hafi RÚV fundist það viðeigandi að birta langa og ákaflega asnalega áfengisauglýsingu í kjölfarið?

Er reyndar ekki í fyrsta sinn sem RUV fer langt yfir strikið og verður sér til skammar í þessum efnum. Marga rekur minni til þess þegar að forseti Íslands veitti í Íslensku forvarnarverðlaunin fyrir nokkrum árum þá var birt enn ein áfengisauglýsingin og viðhöfninni ,forsetanum og fólkinu í landinu með því sýndur fádæma dónaskapur.

Ég er þeirra skoðunar að RÚV eigi alfarið að fara út af auglýsingamarkaðnum. Ekki vegna viðskipta- og samkeppnissjónarmiða eins og flestir samsinnungar mínir í þessum efnum nefna sem helstu rök. Málið er það að þessu flaggskipi íslenskrar menningar RÚV er ekki treystandi til þess að höndla með þessi mál samkvæmt lögum, almennu siðferði og eða með þeim hætti sem þessari stofnun er samboðið. Meðan að svo er og ef ekki verður alger stefnubreyting þá á RÚV ekkert erindi á auglýsingamarkaðinn.

Hvet alla þá sem þetta lesa til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Starfsmaður í þjálfun ...

... er sennilega sá texti sem þarf að grafa í borgarstjórakeðjuna sem ótt og títt skiptir um axlir og svo ekki sé minnst á merkingu á skrifstofu en þar gætið staðið: Borgarstjóri + nafn viðkomandi og þar undir starfsmaður í þjálfun.

Starfsmannavelta í æðsta embætti ráðhússins er að verða eins og hjá MacDonalds. Uppgrip fyrir hinn ágæta myndhöggvara Helga Gíslason sem mun hafa verkefni mörg ár fram í tímann við gerð brjóstmynda af fyrverandi borgarstjórum og svo eru auðvitað ærin verkefni fyrir skiltagerðarfólk og alla þá er framleiða kynningarefni fyrir Reykjavíkurborg því auðvitað breytist allt nefndarkerfið. Vertíð í nafnspjöldum? - er ekki hægt að líma yfir þau gömlu? ... eða bara setja sama titil á þau öll "Borgarfulltrúi í þjálfun"

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Ó borg mín borg ...

Hið frábæra lag Hauks Morteins verður að sjálfsögðu á efnisskránni hjá Rokkbandinu Plús sem kemur fram á Dönskum dögum í Stykkishólmi um helgina. Lagið útsett í hörku blús sem endurspeglar ástandið um þessar mundir í fjölmennasta úthverfi Hafnarfjarðar sem oftast er nefnt Reykjavíkurborg , en tveir þriðju hljómsveitarmeðlima eru búsettir í þessari ólgusömu byggð.

Það kemur „Dagur“ eftir þetta kjörtímabil en sá ágæti drengur sýnir þá miklu pólitísku kænsku að ónáða ekki andstæðingana þegar þeir eru á fullu í klúðrinu. Kjörþokki margra borgarfulltrúanna er rokin út í veður og vind í þessum atgangi öllum. Harmleikur sem minnir mann mest á annað gott lag „Þrjú hjól undir bílnum og ennþá skröltir hann þó“ Sennilega ekki vitlaust að setja það í prógrammið hjá hinu annars alls ópólitíska gleðibands, rokkhljómsveitarinnar Plús – hver veit?

laugardagur, 2. ágúst 2008

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

Fréttatilkynning

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum opnuðu heimasíðu þann 1. ágúst, slóðin er www.foreldrasamtok.is . Síðan er unnin í hugbúnaðarkerfinu Vefni 1.0 sem Fannar Freyr Gunnarson vefhönnuður á heiðurinn af. Síðan mun á næstum vikum og mánuðum aukast að efni og umfangi. Á síðunni gefur að lít margskonar fróðleik s.s greinar, fréttir, dóma og fleira tengt þessu brýna málefni.

Á heimasíðunni er einnig aðgengilegt kæruform þar sem hægt er að senda inn rafrænt, á mjög einfaldan hátt, kærur vegna brota á banni viðáfengisauglýsingum . Foreldrasamtökin hvetja fólk eindregið til þess að notfæra sér þennan möguleika og tilkynna með þessum einfalda hætti um öll brot sem viðkomandi verður vitni að. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sem þau eiga lögum samkvæmt rétt á að vera laus við. Á meðan að lögin eru ekki virt þá hvetja foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum alla þá fjölmörgu sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti sér að liggja ekki á liði sínu.