mánudagur, 29. mars 2004

Aðalfundur Samflots

Aðalfundur Samflots
bæjarstarfsmanna verður haldin þann 1. apríl n.k. að Geysi. Þátttaka félaga er framar öllum vonum en á þessum fundi mæta þau félög sem ætlað aða standa saman að næstu kjarasamningum. Þegar að þessar línur eru settar í rafrænt form þá hefur einungis eitt félag, STAK á Akureyri afþakkað gott boð um þátttöku.

Ekki er vitað á hvern veg Akureyringar hugsa sér næstu samningalotu en samkvæmt fréttum fjölmiðla í gær þá virðist svo sem að þátttaka í hinu nýja félagi Kili, sem Akureyringar hafa haft veg og vanda að, verði ekki eins almenn og gert var ráð fyrir. Tvö stór félög , Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum og Starfsmannafélag Dala-og Snæfellsness höfnuðu nánast samhljóða aðild að Kili á aðalfundum sínum um helgina.

fimmtudagur, 25. mars 2004

Á þriðja tug samtala

Á þriðja tug samtala
mun eiga sér stað varðandi starfsmatið. En í gær var fundur í Gamla bókasafninu með því fólki sem lenti í úrtaki og mun fara í víðtöl á næstu dögum. Valdimar Þorvaldsson formaður Starfsmannafélags Akraness og nefndarnmaður í "Samstarf" sem er framkvæmdanefnd starfsmatsins, kynnti starfsmatskerfið og hvernig staðið er að framkvæmd þess hér í bæ. Allar upplýsingar um starfsmat er hægt að nálgast á heimsíðu STH og hvet ég félagsmenn og annað áhugafólk um starfsmat að kynna sér málið.

þriðjudagur, 23. mars 2004

Hér allt sundurgrafið

Hér allt sundurgrafið
Sem er gott mál, enda verið að koma fyrir heitum pottum og taka inn hitaveitu í öll hús. Staðurinn er Munaðarnes á sólríkum “vordegi”. Framkvæmdum miðar vel og heitir pottar verða komnir í flest hús í sumar. Þetta mun breyta aðstöðunni verulega og ásókn í bústaði mun aukast að sama skapi. Sem sagt mikla breytingar og allar til batnaðar.

Auk þessa þá verður starfsrækt sérstök félagsmiðstöð fyrir börn og unglinga í þjónustumiðstöðunni í sumar. Tilraun varð gerð með starfsemi af þessu tagi í fyrrasumar og tókst hún með ágætum og því afráðið að halda starfinu áfram í sumar.

Munaðarnes, fínn kostur í orlofsmálum STH félaga

föstudagur, 19. mars 2004

Starfsmatið komið í bæinn.

Starfsmatið komið í bæinn.
Í næstu viku fer starfsmatsvinna í gang. Búið er að taka út þau störf sem eiga að fara í viðtöl hjá okkur í Hafnarfirði og gert er ráð fyrir að viðtöl fari fram strax í næstu viku. Með þessu er verið að reka endapunkt á vinnuna sem hefur því miður dregist allt of lengi.

Tenging starfsmats við laun er næsta skref og það þarf ekki að taka langan tíma. Aðaltriðið er að starfsmatsgrunnurinn er komin og er gott gagnasafn yfir störf bæjarstarfsmanna innan SSB.
Lýsingar verða birtar á netinu í fyllingu tímans. Þar getur fólk borið saman lýsingu og sitt starf. Ef það passar illa þá er kæruréttur nýttur þannig að viðkomandi einstaklingur getur komið ábendingum sínum formlega á framfæri.

miðvikudagur, 17. mars 2004

Já lífið er lotterí

Já lífið er lotterí
Hafnarfjarðarbær stendur fyrir launamiðalotterí um þessa mundir, veglegir vinningar segja menn og dregið verður úr "seldum miðum" 1. apríl.

Best væri auðvitað að laun væru í þeim gæðaflokki að hver mánaðarmót væru starfsfólki sú sanna gleði og sú sama og þess sem happdrættisvinning hlýtur. Þar sem því er ekki að skipta þá er það úrvalsleið að breyta rafrænum launaseðli í happdrættismiða. Og hitt væri ekki verra að happdrættið gilti fyrir alla, jafnt rafræna sem og pappírssinnaða launamenn.

Því er ekki að skipta og því ekki hægt að segja húrra fyrir jafnræðisreglunni í þetta skiptið hvað sem síðar kann að verða. Gullrætur allra landa sameinast í þessu snilldarúrræði og ég trúi ekki öðru en að allir sem vettlingi geta valdið nái sér í "miða".

Viðeigandi? - Mjög svo, segja sumir - afar sérstakt, segja aðrir. Eitt er þó víst, lífið er "lotterí" og Hafnarfjarðarbær tekur þátt í því.

föstudagur, 12. mars 2004

Einar Emilsson - minningarorð

Einar Emilsson - minningarorð
Í dag er borin til grafar ágætur félagi minn og vinur, Einar Emilsson á Dalvík.
Einar var lengi formaður Starfsmannafélags Dalvíkur og sat einnig í stjórn BSRB.
Kjarasamningagerð er ekki það léttasta verk er fólk tekur að sér. Það er hins vegar eitt af meginverkefnum formanna verkalýðsfélaga. Sú mikla pressa og álag sem sú vinna hefur í för með sér leiðir óhjákvæmilega til þess að þeir sem við þetta vinna kynnast vel og betur en ella, því að á slíkum stundum koma mannkostir fólks í ljós. Einar bjó við ríkidæmi í þeim efnum og því ánægjulegt að vinna með honum á þessum vettvangi. Einar vann gott verk á sviði verkalýðsmála enda ötull baráttumaður sem kom mörgum góðum málum í höfn á þeim vettvangi. Með Einari er gengin drengur góður og votta ég Ingu og börnum þeirra sem og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð

miðvikudagur, 10. mars 2004

Er STH á móti

Er STH á móti
hinni rafrænu byltingu - Nei . Er STH með athugasemdir vegna rafrænna launaseðla sem slíkra ? - Nei - Hvað er þá málið? - Framkvæmdin er klúður því ekki var leitað formlegs samþykkis viðkomandi starfsmanna - Þögn er ekki sama og samþykki - gríðarleg óánægja allnokkurra þeirra sem þetta vilja ekki og fengu enga launaseðla um mánaðarmótin eðlileg enda viðkomandi ekki óskað eftir neinum breytingum.

Hvað er til ráða ? - Senda fólki eyðublað þar sem óskað er eftir formlegu samþykki þess og málið dautt. Allir kátir - þeir sem vilja pappírinn fá hann, þeir sem vilja rafrænt fá það. Af hverju er verið að gera einföld mál flókin spyr sá sem ekki veit?

þriðjudagur, 9. mars 2004

Ekki er blekið þornað á undirskrift kjarasamninga

Ekki er blekið þornað á undirskrift kjarasamninga
Þegar að spádeildir bankanna senda fulltrúa sína í fjölmiðlana og hefja gráturinn um að þessi verulega hóflegi samningur sé allt of hár? Kauphækkanir hjá okkur séu mun meiri nú en í nágranna- og samkeppnislöndunum, menn geta hins vegar í engu þeirrar laklegu launaþróunar hérlendis sem verið hefur um áratuga skeið og hvernig íslendingar sitja í engu við sama borð og nágrannaþjóðir okkar þegar að miða er við lífskjör eða kaupmátt.

Veit satt að segja ekki hvernig á bregðast við þessu eða hvort taka beri mark á þessu yfir höfðu. Sennilega skynsamlegast að flokka þetta undir hreinræktaðan hroka bankakerfisins sem á sem kunnugt er sennilega heimsmet í vaxtaokri og þjónustugjöldum.

Eitt er víst að samningar þessir eru greinilega mjög umdeildir og ekki útséð hvort þeir verða samþykktir hjá félögunum enda að margra mati ekki í neinu samræmi við þann gríðarlega gróða sem íslenskt atvinnulíf skilar eigendum sínum um þessar mundir.

Sakna Þjóðhagsstofnunar á tímum sem þessum og tel það mikil mistök að hún var lögð niður . Var vönduð stofnun og óháð og algerlega laus við hagsmunatengdar spár eins og spádeildir bankanna framkvæma. Að leggja niður þessa ágætu stofnun var svipaðs eðlis eins að henda öllum hitamælum á sjúkrastofnunum.

Hagsmunatengsl bankanna eru alger og augljós, sem sagt vanhæfi. Tekur einhver mark á rannsóknum tóbaksframleiðenda um áhrif tóbaksreykinga á heilsu fólks?
Tugir milljarða gróði bankakerfisins versus einverjir 5.000 kallar til fólks sem þegar hefur það skítt?

Að það valdi kollsteyptu nei , raskar sennilega eitthvað hlutabréfagróðanum og arðgreiðslum. En fjallar fyrst og fremst um á hvern veg á að skipta auðæfum þjóðarinnar. Sem sagt grjóthörð hagsmunagæsla og "spár" hagmunaaðila í því ljósi og út frá þeim hagsmunum. Flóknara en þetta er það nú ekki?

sunnudagur, 7. mars 2004

Tæplega 1100

Tæplega 1100
Hafnfirskir bæjarstarfsmenn gerðu sér dagmun í gærkveldi á Ásvöllum en þar fór árshátíð bæjarins fram. Hljómsveit Jóns Ólafssonar og gleðisveitin Randver voru meðal skemmtikrafta. Allt fór þetta ljómandi vel fram og ekki annað séð en að fólk hafi skemmt sér hið besta. Hef lengi haldið því fram að hafnfirskir bæjarstarfsmenn séu ávallt í fremstu röð bæði í starfi og leik.

þriðjudagur, 2. mars 2004

Okkur berast kvartannir, mjög háværar og með réttu

Okkur berast kvartannir, mjög háværar og með réttu
Tilefnið rafrænir launaseðlar Hafnarfjarðarbæjar. Einhliða ákvörðun án formlegs og upplýsts samþykkis viðkomandi einstaklinga. "Ef þú lætur ekki vita þá ert þú samþykkur" segja menn en þetta stenst engan vegin og svona er einfaldlega ekki hægt að vinna. STH benti bæjaryfirvöldum á þessa annmarka fyrir nokkru án árangurs, eins og klúðrið um þessi mánaðarmót ber því miður vitni um

Hvert er auk þess öryggið varðandi rafræna launaseðla og eru persónuupplýsingar eins og samsetning launa á glámbekk í heimabönkum viðkomandi? Öruggt kerfi segja sumir en aðrir umdeilanlegt og margir í tölvubransanum eru fullir efasemda.
Réttur bæjaryfirvalda til að fara með upplýsingar af þessu tagi með þessu hætti er engin.

Lausn málsins er einföld snúa málinu við, biðja fólk afsökunar á því raski sem þetta hefur valdið þeim og senda út eyðublöð þar sem að þeir sem þetta vilja, geta sent launadeild undirskrifað formlegt plagg þar sem sérstaklega er farið fram á að launaseðlar séu sendir í heimabanka viðkomandi, sem sagt formleg samþykkt og ósk . Þögn er ekki sama og samþykki, hvorki í þessum málum né öðrum og bæjaryfirvöld geta einfaldlega ekki stillt málinu upp með þeim hætti.