mánudagur, 30. október 2006

Gef ekki kost á mér

Nú er það ljóst að ég gef ekki kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður STH. Ástæður þess eru einfaldar og þær að þar sem ég er þessa dagana að taka við krefjandi starfi sem framkvæmdastjóri sí- og endurmenntunarstofnunarinnar Framvegis þá mun því beina öllum mínum kröftum í þann farveg á næstu misserum.

Á aðalfundi STH þann 9. nóvember verður því a.m.k. kosin nýr formaður og í því sambandi vil ég árétta þær skoðanir sem ég hef áður sett fram varðandi starfsaðstæður forsvarsmanns félagsins. Það er alger nauðsyn að búa formanni þær aðstæður að viðkomandi geti rækt starf sitt með þeim hætti að viðunandi sé. Það verður ekki gert nema með starfandi formanni í a.m.k. 50% starfshlutfalli. Umfang og umsýsla vegna samninga og kjarmála vex stöðugt og því verður félagið, ef það ætlar að gera sig gildandi, að setja aukin kraft í þessa hlið starfseminnar.

Margt hefur áunnist á langri vegferð en ég hef einnig marga fjöruna sopið. Geri kannski betur grein fyrir því í góðu tómi en verð þó að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum síðustu misserin og jafnvel árin með launastefnu launanefndar sveitafélaga, stefnu sem leitt hefur til þess að starfsmenn sveitarfélagana búa við lægstu launaviðmið sambærilegra starfa. Starfsmatskerfið hefur reynst illa og verið Þrándur í götu alls þess sem kalla mætti eðlilega launaþróun meðal bæjarstarfsmanna, annarra en í Reykjavík. Það verða því sem endranær ófá handtökin sem vinna þarf. Það þarf að jafna leikinn og koma bæjarstarfsmönnum upp úr þessum láglaunapytti launanefndar sveitarfélaga. Slíkt verður ekki gert í hjáverkum og þess vegna verður að búa vel að forystumönnum félagsins, eins og áður sagði.

miðvikudagur, 25. október 2006

BSRB þing

Er sem sagt á BSRB þingi þessa dagana ásamt stjórn STH. Hef setið þau nokkur í gegnum tíðina. Held að þetta þing verði gott þing og málefnalegt. Ögmundur Jónasson hefur staðið sig vel sem formaður samtakanna , hann hefur ávallt haft hagsmuni BSRB að leiðarljósi auk þess sem hann hefur ávallt beitt sér fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Í BSRB hefur fólk ekki verið flokkað samkvæmt flokkspólitískum merkimiðum og verður sennilega og vonandi seint gert. Sem er gott og gerir það að verkum að BSRB félagar koma víða að og tengjast öllum stjórnmála- og hagsmunasamtökum og í þessu liggur m.a. styrkur bandalagsins.

Ögmundur hefur verið farsæll, dugmikil og verðugur fulltrúi samtakana og nýtur óskoraðs trausts. Þess vegna missir að mínum mati algerlega marks þegar að pólitískir andstæðingar hans gera að því skóna að formaðurinn sé í einhverjum sérstökum erindagjörðum fyrir VG innan verkalýðshreyfingarinnar. “Margur heldur mig sig” dettur manni helst í hug varðandi ummæli viðkomandi – Ég þekki engan í mínu ranni verkalýðsmálana, hvar í flokki sem viðkomandi eru ,sem leggur út frá þessu.

Sjá ræðu formanns hér

miðvikudagur, 18. október 2006

Goodman & Holiday

Brá mér í Bæjarbíó í gærkvöldi eins og ég geri gjarnan á þriðjudagkvöldum. Þar fara fram kvikmyndasýningar á vegum Kvikmyndasafns Íslands. Í gær var á dagskránni myndin „Benny Goodman Story” frá 1955. Fín mynd sem byggð er á ævi og tónlist þessa mikla snillings.

Faðir Bennys var fátækur innflytjandi í Chicago og átti erfitt með að veita börnum sínum nokkuð en þrátt fyrir það komust Benny og tveir bræður hans í tónlistarnám á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar. Hvar kunna menn að spyrja - jú í Hull House og hvað er svona merkilegt við það. Hull House er hverfamiðstöð, sem eru forverar félagsmiðstöðva, sem sinntu æskulýðsstarfi af fullum krafti á þessum árum. Tónlistarkennsla var einn angi unglingastarfsins í hverfamiðstöðvunum og kostaði nánast ekki neitt og var eini möguleiki margra barna og unglinga til að öðlast menntun á þessu sviði. Tónlistarmaðurinn Benny Goodman er því í raun árangur af félagsmiðstöðvarstarfi - og svo eru menn alltaf að spyrja hverju starfið skilar (helst í krónum talið)? Sjá nánar um Hull House

Í næstu viku verður sýnd myndin „Lady sings the bluse” frá 1972. Mynd sem byggir á ævi söngkonunnar Billie Holiday. Hún átti ekki sjö dagana sæla, stundaði vændi, var djúpt sokkin í dópneyslu og átti við mikla erfiðleika að etja. Billie átti ekkert athvarf. Velti fyrir mér hvort henni hefði ekki farnast betur ef hún hefði átt þess kost sem barn og unglingur að sækja hverfa- eða félagsmiðstöð eins og Goodman – Ekki nokkur spurning.

þriðjudagur, 17. október 2006

Af Svarta Pétri og verkalýðsforingjum

Hef ávallt talið það afar óheppilegt að starfsmannastjóri sé jafnframt formaður launanefndar sveitarfélaga. Græt því ekki nema síður sé þá ákvörðun formanns launanefnar sveitarfélaga að hætta sem starfsmannastjóri Hafnarfjarðarbæjar. Raunin er nefnilega sú að þau bæjarfélög sem “lagt hafa til” formann launanefndar lenda einfaldlega í því að menn verða „katólskari en páfinn”. Eins og menn vitað þá hefur það aldrei reynst vel. Slík hefur haft neikvæð áhrif á launastefnu viðkomandi því allt sem gert er fer undir smásjá og menn ætla ekki að láta hanka sig á því að gera eitthvað umfram ströngust láglaunastefnu launanefndar og bókstafstúlkun samninga (eins og það sé einhver stórglæpur) Að vera til „fyrirmyndar” snýst því miður upp í andhverfu sína.

Reyndar held ég að það sé ekki heldur æskilegt að gegna embættismennsku af neinu tagi hjá sveitarfélögunum á sama tíma og menn gegna formennsku launanefndar. Ef sveitarfélög telja mikilvægt að viðhalda þessari launanefnd þá er að mínu mati nauðsynlegt að formaður hverju sinni sé hreinlega starfandi sem slíkur og taka tímabundið leyfi frá annari embættismennsku. Af öðrum kosti er hætta á því að viðkomandi verði einhverskonar æðstavald í viðkomandi bæjarfélagi og starfsmannastjóri sé með einum eða öðrum hætti undir álit viðkomandi settur. Formaður launanefndar má ekki lenda í þeirri aðstöðu að verða einhvers konar Svarti Pétur, ómissandi spil í heildarleiknum en spil sem engin vill hafa á hendi.

Sama á auðvitað við varðandi forsvarsmenn verkalýðsfélaga. Það er oft verulega erfitt að samræma embættismennsku eða starf hjá sveitafélagi og formennsku starfsmannafélagi. Það útheimtir gríðarlega vinnu sem gerir það að verkum að maður níðist bæði á samstarfsfólk sínu og fjölskyldu. Þó svo að sá sem þetta ritar hafi einungis í einhverjum örfáum tilfellum talið sig hafa goldið þess sem embættismaður að vera formaður í starfsmannafélagi þá má vel vera að einhver annar hefði upplifað sömu reynslu á allt annan og mun neikvæðari máta. Því miður eru hins vegar dæmi um það að bæjarfélög hafi hreinlega rekið starfsmann úr starfi hjá bæjarfélaginu til þess eins að losna við formann stéttarfélags.

Formenn starfsmannfélaga eiga auðvitað að njóta verndar. Fyrir margt löngu voru formaður , varaformaður og gjaldkeri STH formlega ráðinn í ákveðið starfshlutfall hjá félaginu beinlíns til að fyrirbyggja að starfslok þeirra hefði áhrif á kjörgengi viðkomandi. Frágangur á þessum ráðningum voru unnar í samræmi við ráðleggingar lögfræðings félagsins. Formaður þarf ekkert endilega að vera starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar sem virðist útbreiddur misskilningur þessa daganna, okkar félagsmenn eru víða, formaður getur allt eins verið starfsmaður Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sólvangs, Flensborgarskóla, Iðnskólans, bæjarfélagsins Álftaness, Öldrunarsamtakanna Hafnar, Stafsmaður á Hjallabraut 33, starfsmaður ÍBH, starfsmaður STH eða starfsmaður hjá sjálfseignarstofnunum eins og Höfninni ,Vatnsveitu og Hitaveitu Suðurnesja.

Auðvitað á alvöru félag eins og STH að hafa starfandi formann í a.m.k. 50 % starfi. Það er auðvitað góðra gjalda vert að halda úti góðum orlofs- og endurmenntunarmöguleikum félagsmanna. Það er ánægjulegt hve margir félagsmenn hafa lagt hönd á plóginn og með þeim hætti að orlofsmöguleikar félagsmanna eru með því besta sem gerist.

Kjara- og réttindamál taka hins vegar sífellt meiri tíma og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er það einfaldlega grundvallaratriði í starfsemi félagsins. Hlutskipti formanns er að vinna í þeim málum sem eru oftast flókin, erfið og tímafrek. Þetta eru mikilvægustu viðfangsefni félagsins og félög hafa síst efni á að spara í þessum efnum. Félagsgjöld í STH eru með þeim lægstu sem þekkjast, einungis 1 % af dagvinnulaunum. Það hefur ávallt verði metnaðarmál að halda félagsgjöldum lágum og þann tíma sem ég hef gegnt formennsku í félaginu hafa félagsgjöld verið óbreytt. Þau þarf ekki að hækka en með því að samræma gjaldtöku við viðtekar venjur þ.e.a.s. með því að miða félagsgjöld við raunlaun skapast sæmilegt ráðrúm til aukinna umsvifa. Þessar breytingar hafa lítil eða engin áhrif á félagsgjöld meginþorra félagsmanna en hækka félagsgjöld þeirra sem búa við fyrirkomulag fastrar yfirvinnu. Breyting þessi hefur því einungis í för með sér að allir félagsmenn greiða hlutfallslegu sama óbreytta félagsgjaldið 1% óháð því hvernig laun þeirra eru sett saman.

Svona er það nú bara segi ég og skrifa. STH hefur ávallt spilað í úrvalsdeild og á að halda því áfram og til þess að svo verði þarf félagið að skynja kall samtímans og mæta þeim breytingum sem verið hafa í starfi verkalýðsfélaga undanfarin ár og eru í aðsigi. Breytingar sem einfaldlega hafa í för með sér aukin umsvif. Það verður bara gert með að skapa þeim sem til forustu veljast hverju sinni viðundandi starfsforsendur. Annað er bara vatn á myllu kölska.

sunnudagur, 15. október 2006

Veit ekki hvort ég er í framboði

En hitt veit ég að Gunnar vinur minn Svavarsson er í framboði í prófkjöri Samfylkingarinnar og það í forystusæti. Og því fagna ég enda Gunnar drengur góður, dugmikil stjórnmálamaður, málefnalegur og maður úrræðasamur í meira lagi. Ég hef sem formaður STH og sem (fv) embættismaður átt töluverð samskipti við Gunnar á liðnum árum. Þar hafa komið við sögu bæði „sætu og súru eplin” og málefni ekki alltaf verið einföld né auðleyst, sérstaklega í verkalýðsmálum. Mál hafa samt sem áður nánast undantekningalaust leysts á farsælan hátt.

Ég þekki Gunnar einnig úr foreldrastarfi hjá FH en dætur okkar eru í tilvonandi gullaldraliði félagsins. Á þeim vettvangi er Gunnar í essinu sínu, nema þegar kappleikir fara fram því þá fer Gunnar á hliðarlínuna og heldur sig fjarri öðrum foreldrum, hefur hátt og gefur stúlkunum það sem hann kallar „knattspyrnufræðilegar ráðleggingar”. Held að dömurnar taki svona hæfilegt mark á honum en virði viljan fyrir verkið.

Og það er fleira gott fólk í framboði. Kristín Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðfélags Íslands og samstarfsmaður minn í stjórn BSRB er einnig góður kostur, hún er dugnaðarforkur sem hefur með stórfelldri baráttu tekist að hefja hin stórlega vanmetnu störf sjúkraliða til vegs og virðingar. Tryggvi Harðarson vinur minn býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu. Tryggvi var farsæll bæjarstjóri á Seyðisfirði auk þess sem hann vann vel sem bæjarfulltrúi hér í Hafnarfirði. Hitt er annað mál að þetta er góður hópur fólks sem gefur kost á sér í prófkjörinu þannig að listinn verður aldrei annað en sterkur.

Hvort ég sé í framboði og þá væntanlega til áframhaldandi setu sem formaður STH segi ég fátt um á þessu stigi. Hitt er annað mál að ég hef fengið fjölmargar áskorannir um slíkt víða úr félaginu og frá fólki sem látið hefur sig félagið varða og verið virkt í baráttunni, en því er heldur ekki að leyna að á formanninn hafa líka verið sendir einhverjir litlir úrtölu púkar en þeir eru fáir og segja lítið af viti eins og ku verða háttur púka.

miðvikudagur, 11. október 2006

Loksins loksins

Loksins kom að því að einhver er látin sæta ábyrgð vegna ólöglegra áfengisauglýsinga. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í dag. Sjá nánar hér að neðan.

D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2006 í máli nr. S-681/2006:
Ákæruvaldið
(Stefanía G. Sæmundsdóttir fulltrúi)
gegn
Ásgeiri Johansen
(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. maí 2006 á hendur Ásgeiri Johansen, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem framkvæmdastjóri Rolf Johansen & Co ehf., látið birta eftirfarandi auglýsingar á áfengum bjór á árinu 2005:
1. Á bls. 31 í Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. júlí með fyrirsögninni „Betri helmingurinn“ en í auglýsingunni sé texti þar sem lýst sé eiginleikum Budweiser Budvar bjórs ofan við mynd af flösku af Budweiser Budwar Czech Premium Lager.

2. Á bls. 22 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 27. október með fyrirsögninni „Íslendingar þekkja gott vatn“ en í auglýsingunni sé texti þar sem lýst sé vatninu sem notað sé í Budweiser Budvar bjór við hlið myndar af flösku af Budweiser Budvar Czech Premium Lager.

3. Á baksíðu 4. tbl. Gestgjafans útgefnu í apríl með fyrirsögninni Heineken, en í auglýsingunni sé mynd af flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“.

4. Á bls. 6 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 16. júní með fyrirsögninni „Flott og sexý“ með mynd af upplýstri flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“, en í texta auglýsingarinnar segi jafnframt „Heineken“ og Heineken.is.

5. Á bls. 50 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 16. júní með mynd af upplýstri flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“ en í texta auglýsingarinnar sé vakin athygli á tónleikum á veitingastaðnum Pravda.

Teljist framangreind brot varða við 20. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998 og sbr. 15. gr. laga um prentrétt 57/1956.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Og síðar í dómnum segir:

Ákvörðun refsingar og sakarkostnaður.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað sem áhrif hefur á refsimat í máli þessu. Að því virtu að um fimm brot er að ræða, að brotin eru framin í ávinningsskyni og varða mikilvæga hagsmuni þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð að fjárhæð 600.000 krónur og komi 32 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Stefanía G. Sæmundsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ásgeir Johansen, greiði 600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 32 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sjá dóminn í heild sinni HÉR

laugardagur, 7. október 2006

Ný launanefnd

Sé það á heimasíðu sambands íslenskrar sveitarfélaga að verulegar breytingar hafa orðið á launanefnd sveitarfélaga, en ný nefnd var kosin á landsþingi Sambandsins í lok september. Kannski bara eðlilegt þar sem tilvera nefndarinnar hékk á bláþræði vikum saman s.l. vetur. Ekki að óskekju þar sem að samningar við bæjarstarfsmenn voru komnir í sögulegt lágmark eftir að borgin samdi við sitt fólk s.l. haust. Nefndin var í öndunarvél vikum saman og tíminn nýttur til þess að gera eins lítið og hægt var. Í stað þessa að samræma starfsmat bæjarstarfsmanna við starfsmat Reykjavíkurborgar, sem hefði leyst málið að fullu, þá var gripið til einhverra þeirra flóknustu úrræða sem menn muna eftir og sem náðu einungis til hluta starfsmanna sveitarfélaganna.

Í eina tíð voru það hinir kjörnu bæjarfulltrúar sem mynduðu launanefnd sveitarfélaga en þeir sjást vart í nefndinni í seinni tíð. Sennilega hentar almennur kjörþokki illa í störfum nefndarinar. Það eru aðrir eiginleikar eða önnur tegund kjörþokka sem gilda í sambandi við launanefnd sveitarfélaga en varðandi allar aðrar nefndir á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Og kannski er það þess vegna sem að nefndarmenn koma og fara, stoppa stutt við eins og farþegar á hverri annari járnbrautarstöð.

Hitt svo annað mál að ég hef alla tíð talið tilvist nefndarinnar hvíla á afar veikum lögfræðilegum grunni. Geta sveitafélög/ bæjarfulltrúar afsalað sér með öllu ákvarðanarétti í sambandi við launamál þeirra bæjarstarfsmanna sem þeir eru m.a. kosnir til þess að ákveða? Nefndin hegðar sér eins og hún sé formlegt stjórnvald, sendir tilskipanir út og suður. Starfsmenn nefndarinnar telja sig þar með yfir starfmenn launadeilda sveitarfélaganna hafna og beita þar ákveðnu verkstjórnar- eða boðvaldi.

Ef við gefum okkur og ef svo einkennilega vildi til að þetta gríðarlega fullnaðarumboð til nefndarinnar standist lög, sem mér vitanleg hefur aldrei verið kannað af óháðum aðila, þá vekur sérstaka athygli hvernig með hina sk. jafnræðisreglu er farið og hún mölbrotin sbr. samninga Reykjavíkurborgar og samninga sveitarfélaganna, sem og ýmsa aðra samninga sem launanefndin hefur gert sem nefnd í umboði sveitarfélaganna og á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Öll alvöru fyrirtæki viðhafa alvöru starfsmannastefnu. Í starfsmönnum bæjarfélaga eru fólgin gríðarleg verðmæti. Það er auðvitað algerlega úr takti að einhver að mestum hluta óreynd nefnd og eða starfsmenn hennar úti í bæ fari með alræðisvald í jafn mikilvægum málum og hér um ræðir. Nefnd sem lýtur nánast í öllu og einum viðhorfum þeirra bæjarfélaga sem hafa lítin eða engan metnað gagnvart starfsfólki sínu.

Framsýn sveitarfélög eiga að mynda sér eigin stefnu – Losa sig undan þessu fyrirkomulagi og ægivaldi launanefndar sveitarfélaga sem stendur allri alvöru starfsmannaþróun hjá sveitarfélögunum fyrir þrifum – Gera þetta sjálf með stæl og með því hugarfari að gera gott bæjarfélag ennþá betra.

fimmtudagur, 5. október 2006

Danskur mömmumatur

Hugsað mér gott til glóðarinnar þar sem ég var staddur í Kaupmannahöfn s.l. þriðjudag. Stoppaði þar í nokkra klukkustundir á leið minni heim frá Brussel. Nú skyldi snæða ekta danskan mat, alvöru kótilettur með rauðkáli, grænum baunum m.m. Reyndi fyrst að nálgast herlegheitin á Hovedbanegaarden en viti menn sá ágæti staður sem þar hafði verið, hafði vikið fyrir „sportbar” sem seldi lítið annað en bjór og hamborgara þess á milli sem gestir urðu „hluti af leiknum”

Fór því sem leið lá niður Strikið. Allstaðar gaf að líta hina kræsilegustu veitingastaði; kínverskan; indverskan; grískan; írskan; ástralskan; Macdonalda og Burger kinga; pylsuvagna; Kebab sjoppur og ég veit ekki hvað og hvað. Var orðin bæði mæddur og hungraður staddur við Magasin du Nord þegar að mér datt í hug að bregða mér á veitingastaðinn í versluninni.

Og viti menn við mér blasti allur hinn danski matarkúltur á einu borði. Ég þakkað almættinu vel og lengi fyrir það að hið íslenska Magsín du Nord færði mér danskt góðmeti í stað þess að hafa á boðstólum eitthvert íslenskt súrmeti eins og fyllsta tilefni væri til. Yndislegt hvernig Bónus / Magasín heldur að manni góðum dönskum mat hugsaði ég. Bíð bara eftir því að hið sama Bónus haldi að mér dönsku vöruverði hérlendis.

sunnudagur, 1. október 2006

Nokkur viðbrögð

Hef fengið nokkur viðbrögð vegna pistilsins hér á undan og nokkrar ábendingar. Jón Páll vinur minn, framkvæmdastjóri Regnbogabarna og varabæjarfulltrúi, sem var á bæjarstjórnarfundinum sagði fjarri að fyrirsögn Fjarðarpóstsins væri í samræmi við umræður á fundinum. Hef síðan þá heyrt umræðurnar og er sammála Jóni.

Átti reyndar erfitt með að trúa því að ágætur kunningi minn Guðmundur Rúnar væri með meiningar í þá veru sem þarna var um að ræða. Ég þekki Guðmund bara af góðu einu saman og sem dugmikin stjórnmálamann. Finnst rétt að þetta komi fram á þessum vettvangi og málið dautt af minni hálfu. Lærdómurinn kannski sá að hlaupa ekki alltaf á eftir fyrirsögnum og skrifa ekki í hita leiksins nema maður sé 100% öruggur á málavöxtum.