D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2006 í máli nr. S-681/2006:
Ákæruvaldið
(Stefanía G. Sæmundsdóttir fulltrúi)
gegn
Ásgeiri Johansen
(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. maí 2006 á hendur Ásgeiri Johansen, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem framkvæmdastjóri Rolf Johansen & Co ehf., látið birta eftirfarandi auglýsingar á áfengum bjór á árinu 2005:
1. Á bls. 31 í Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. júlí með fyrirsögninni „Betri helmingurinn“ en í auglýsingunni sé texti þar sem lýst sé eiginleikum Budweiser Budvar bjórs ofan við mynd af flösku af Budweiser Budwar Czech Premium Lager.
2. Á bls. 22 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 27. október með fyrirsögninni „Íslendingar þekkja gott vatn“ en í auglýsingunni sé texti þar sem lýst sé vatninu sem notað sé í Budweiser Budvar bjór við hlið myndar af flösku af Budweiser Budvar Czech Premium Lager.
3. Á baksíðu 4. tbl. Gestgjafans útgefnu í apríl með fyrirsögninni Heineken, en í auglýsingunni sé mynd af flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“.
4. Á bls. 6 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 16. júní með fyrirsögninni „Flott og sexý“ með mynd af upplýstri flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“, en í texta auglýsingarinnar segi jafnframt „Heineken“ og Heineken.is.
5. Á bls. 50 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 16. júní með mynd af upplýstri flösku af Heineken bjór merktri „HEINEKEN LAGER BEER PREMIUM QUALITY“ en í texta auglýsingarinnar sé vakin athygli á tónleikum á veitingastaðnum Pravda.
Teljist framangreind brot varða við 20. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998 og sbr. 15. gr. laga um prentrétt 57/1956.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Og síðar í dómnum segir:
Ákvörðun refsingar og sakarkostnaður.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað sem áhrif hefur á refsimat í máli þessu. Að því virtu að um fimm brot er að ræða, að brotin eru framin í ávinningsskyni og varða mikilvæga hagsmuni þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð að fjárhæð 600.000 krónur og komi 32 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Stefanía G. Sæmundsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ásgeir Johansen, greiði 600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 32 daga.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 199.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sjá dóminn í heild sinni HÉR
Engin ummæli:
Skrifa ummæli