Nú er það ljóst að ég gef ekki kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður STH. Ástæður þess eru einfaldar og þær að þar sem ég er þessa dagana að taka við krefjandi starfi sem framkvæmdastjóri sí- og endurmenntunarstofnunarinnar Framvegis þá mun því beina öllum mínum kröftum í þann farveg á næstu misserum.
Á aðalfundi STH þann 9. nóvember verður því a.m.k. kosin nýr formaður og í því sambandi vil ég árétta þær skoðanir sem ég hef áður sett fram varðandi starfsaðstæður forsvarsmanns félagsins. Það er alger nauðsyn að búa formanni þær aðstæður að viðkomandi geti rækt starf sitt með þeim hætti að viðunandi sé. Það verður ekki gert nema með starfandi formanni í a.m.k. 50% starfshlutfalli. Umfang og umsýsla vegna samninga og kjarmála vex stöðugt og því verður félagið, ef það ætlar að gera sig gildandi, að setja aukin kraft í þessa hlið starfseminnar.
Margt hefur áunnist á langri vegferð en ég hef einnig marga fjöruna sopið. Geri kannski betur grein fyrir því í góðu tómi en verð þó að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum síðustu misserin og jafnvel árin með launastefnu launanefndar sveitafélaga, stefnu sem leitt hefur til þess að starfsmenn sveitarfélagana búa við lægstu launaviðmið sambærilegra starfa. Starfsmatskerfið hefur reynst illa og verið Þrándur í götu alls þess sem kalla mætti eðlilega launaþróun meðal bæjarstarfsmanna, annarra en í Reykjavík. Það verða því sem endranær ófá handtökin sem vinna þarf. Það þarf að jafna leikinn og koma bæjarstarfsmönnum upp úr þessum láglaunapytti launanefndar sveitarfélaga. Slíkt verður ekki gert í hjáverkum og þess vegna verður að búa vel að forystumönnum félagsins, eins og áður sagði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli