mánudagur, 6. nóvember 2006

Hvað á hún að heita

Hef lítið sinnt síðunni undanfarið. Ekki það að ég hafi almennt eytt miklum tíma í þessi skrif. Þeir sem mig þekkja vitað að bæði ritrænt og munnlegt flæði hjá mér er í góðu meðallagi. Er hins vegar um þessar mundir að skipta um starf og því hafa ný viðfangsefni átt hug minn allan og því lítið sinnt skrifum.

Er sem sagt brátt að verða fyrrverandi formaður sem gerir það að verkum að Dagskinna getur ekki lengur heitið dagskinna formanns Starfsmannafelags Hafnarfjarðar. Þarf því að finna dagskinnunni nýtt nafn og auglýsi hér með eftir ábendingum þar að lútandi.

Síðan hefur reynst vel í baráttunni því á henni koma fram algerlega milliliðalausar upplýsingar og skoðanir og við engan að sakast nema mann sjálfan þegar eftir er haft. Félagsmenn hafa gengið að skoðunum formannsins vísum, sama á við um viðsemjendur okkar og fjölmiðla þegar að því hefur verið að skipta.

Margir hafa sent mér línu vegna pistla á síðunni og allur tilfinningaskalinn nýttur í þeim efnum. Hef oftast þakkað tilskrifin nema þegar að bréfritarar, sem reyndar eru örfáir, hafa ekki haft manndóm í sér til þess að skrifa undir nafni. Geri ekkert með slíkt enda hef ég tamið mér að tjá mig alltaf undir nafni og taka þar með fulla ábyrgð á öllu sem frá mér fer.

Ég þarf ekki lengur að hafa neina skoðun á málefnum starfsmannafélagsins eða Hafnarfjaðarbæjar frekar en mér sýnist, nema auðvitað sem almennur borgari í bæjarfélaginu. Og hver veit nema ein og önnur föðurleg ábending í þá veruna fljóti inn á síðuna í framtíðinni?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli