þriðjudagur, 14. nóvember 2006

Félagslegir timburmenn

Það fylgja því einhverskonar félagslegir „timburmenn” að hætta í verkalýðsmálum. Þegar maður hefur um langa hríð þurft að hafa skoðanir á hinum og þessum málum. Þurft að vasast í mörgu, standa í langvinnum átökum og vera í skotlínu endalaust þá myndast eitthvert tómarúm. Fínt að vera laus við ströglið, en er nokkuð sérkennileg tilfinning að hætta. Skiptir í engu hvort maður er búin að taka ákvörðun fyrir all nokkru þar um.

Það var annars fróðlegt að sitja á hliðarlínunni á aðalfundi STH og fylgjast með öllu bröltinu. Einhver titringur fór um sali þar sem fregn hafði um það borist að framámaður í tómstundageiranum myndi bjóða sig fram til formanns og hafi af fullri alvöru íhugað þau mál enda fengið fjölmargar áskoranir þar um og ekki síst vitneskju um víðtækan stuðning. Lengi dags stefni því í það að það yrðu formannskosningar á fundinum. Ekki varð af því og formaður því sjálfkjörinn en með þeirri yfirlýsingu að viðkomandi gæfi einungis kost á sér til eins árs? Ekki sterkt „statement” að mínu mati því að ár í verkalýðspólitík er eins og eitt lítið augnablik. Kjarasamningar nálgast og það hefur aldrei stýrt góðri lukku að hafa nýjan kapteinn í brúnni þegar siglt er í slíkum ólgusjó sem þeir eru.

Í verkalýðsmálum dugir ekki að tjalda til einnar nætur. Formenn þurfa að stimpla sig inn og gera sig gildandi. Embættið sem slíkt, eitt og sér hefur takmarkað gildi, það eru gerðir þess sem því sinnir, og traust félagsmanna sem skapa embættinu innihald og ekki síst kraftinn sem við bestu aðstæður er gríðarlegt afl. Og til þess er leikurinn gerður. Fagna því að Auður Þorkels og Elli Sigurbjörns komu inn í stjórn STH. Þau hafa bæði reynst dugmiklir trúnaðarmenn og hafa því allar forsendur til þess að standa sig vel í stjórn. Óska nýkjörinni stjórn velfarnaðar í sínum störfum.

En hvað með það ég þarf ekki einu sinni að hafa nokkra skoðun á þessu - hef skilað mínu og vel það og nú er það annarra að véla um slíkt – Einbeiti mér bara að því að ná úr mér hinum félagslegu timburmönnum og tilheyrandi hrolli sem ég vona að gangi bæði fljótt og vel.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli